Hlaupið í úrinu...

Alla jafna er það svo að þriðjudagur er eini dagurinn í viku hverri sem félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins hlaupa ekki - en nú varð breyting þar á. Í ljósi þess að ekki var hlaupið í gær vegna óhagstæðra veðurskilyrða voru skúar reimaðir á fætur hér við Hreðavatn og tveir léttstígir (mér liggur við að segja lipurtær en sleppi því) hlauparar lögðu í hann. Þegar maður er í fríi skiptir ekki máli hvenær hlaupið er. Ég spurði Kára gær hvenær við ættum að hlaupa á morgun (í dag). Hann sagði: Í fyrramálið. Og hvað er fyrramál hjá þér, spurði ég. Það er svona klukkan eitt. Engu að síður var það svo að þegar ég kom hress í bragði til þeirra Önnu Birnu og Kára var kauði enn á náttbuxunum og að bralla eitthvað í tölvunni. Maður er svo frjáls af sér og ligeglad í sumarfríinu.

Veðurskilyrði hagstæð, rigningarúði og 14 stiga hiti, suðvestanstæður vindur að því er ég tel. Fórum sömu leið og síðast, nema hvað nú ætlaði minn að taka spretti upp brekkurnar samkvæmt boði þjálfara. Það varð einhverra hluta vegna frekar endasleppt, ég lét mér nægja að komast upp brekkurnar. Þrátt fyrir að Kári væri slæmur af mjaðmarmeiðslum eða einhverju í baki var hann bara sprækur og lét sig vaða í brekkurnar. Fórum aðeins styttra en á sunnudaginn, snerum við og tókum strikið gegnum Jafnaskarðsskóg og niður að vatni þar sem ég fékk mér örstutt bað. Grunnt vatn, mikið slý og óhreint vatn, ekki spennandi! Tekið þokkalega á því á lokasprettinum, við orðnir ágætlega heitir. Pottur á eftir. Svo er stefnan að grilla saman í kvöld.

Ritari kveður. Over and out.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband