Ekki einleikið...

Þrír mættir í sunnudagshlaup um verzlunarmannahelgi: Ólafur ritari, Þorvaldur og Jörundur. Hlaupið hefðbundið í góðu veðri. Við mættum myndarlegri konu strax komnir á Ægisíðu. Hún heilsaði. Jörundur sagði að þetta væri eiginkona hlaupafélaga. Hvers vegna hleypur hún þá ekki með okkur? spurði ég. Jú, sérðu til, sagði Jörundur, það er eina leiðin fyrir hana til þess að losna við kjaftaganginn í makanum, að fara ein út að hlaupa.

Mættum svo Vilhjálmi á reiðhjóli út við Suðurgötu. Er við höfðum spjallað við hann drykklanga stund kemur Ólafur Þorsteinsson hlaupandi í humátt á eftir okkur ásamt ektakvinnu sinni ágætri. Hér var öllum venjum og gildum snúið á haus svo að maður varð alveg ruglaður: hvað er í gangi? spurði einhver. Við sáum fram á að þeir Fóstbræður hefðu um eitt og annað að ræða og héldum því áfram hlaupi voru, en heyrðum áður "ég var að heyra að þau værir dauður!" - eða "ég var að vona að þú værir dauður", sem er algeng kveðja þeirra í milli. Einkennilegt samband.

Hlaupið inn í Nauthólsvík þar sem beðið var eftir Ólafi Þ. og föruneyti hans. Hann sneri hins vegar við enda búinn að hlaupa dag hvern í fríinu, alltaf jafnlangt,  alltaf sömu leið, alltaf einn.

Við Jörundur og Þorvaldur héldum áfram og einhver sagði að það væri gott að Ó. Þorsteinsson hefði snúið við, nú væri hægt að hlaupa án þess að stoppa á milli. Rætt um íslenzkar jurtir sem urðu á leið okkar og reyndist Þorvaldur skárri en enginn í að greina þær. Upplýst - þvert ofan í fullyrðingar Jörundar - að njóli væri innflutt jurt, kæmi alla leið frá Suður-Ameríku, líklega borist með skipum. Við Miklubraut vorum við orðnir heitir og jukum hraðann - lukum tíðindalitlu hlaupi á góðu stími.

Pottur vel mannaður, m.a. sat þar Benedikt af Ermarsundsfrægð, sundkappi, og var hann spurður spjörunum úr um sundið góða. Aðrir mættir: Dr. Einar Gunnar, dr. Baldur og Mímir.

Ákveðið að hlaupa að nýju í fyrramálið, mánudag 4, ágúst, kl. 10:10. Allir velkomnir. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband