Færsluflokkur: Pistill Ritara

Hlaupið á aðventunni

Það var hefðbundinn sunnudagsmorgunn á aðventunni og mættir til hlaups í Hlaupasamtökum Lýðveldisins voru Flosi, Jörundur, Þorvaldur, Einar blómasali, ritari, Ólafur þýzki, og svo maður úr Flóanum sem nýfluttur er í bæinn, Ingimundur að nafni. Menn stóðu fullklæddir og tilbúnir stundvíslega kl. 10:10 og ekki fleiri í augsýn. Ekki var eftir neinu að bíða með að leggja í hann. Snjóföl á jörðu, en ekki kalt. Ritari var þungur á sér og ekki hlaupalegur eftir langt úthald, og auk þess slæmur í baki. Ekki leit vel út með að hann færi langt. Við svona skilyrði er gott að hafa traustan hlaupara eins og Jörund með sér, hann fer hægt yfir framan af og hitar sig vel upp  áður en hann fer að taka á því.

Mikið rætt um mynd sem birtist í Reykjavíkurbréfi Dödens avis í dag með texta undir þar sem rætt var um litla fjárfesta í hópi stóru strákanna. Við erum náttúrlega ánægð með okkar mann og þarf raunar ekki að hafa frekari orð umfram téða mynd til stuðnings þeirri skoðun ritara að þarna fari maður ársins 2008!

Þegar komið var fyrir flugvöll og hópurinn nálgaðist Nauthólsvík birtist á stígnum fyrir framan okkur kunnugleg vera með kunnuglegan göngustíl og rauðsvartröndótta línu niður undan jakkanum. Jú, mikið rétt! Þar fór Ó. Þorsteinsson, formaður til lífstíðar, og hafði farið á undan okkur út að hlaupa. Fagnaðarfundir urðu þarna á stígnum og fögnuðu allir formanni sínum. Þegar upphófst umræða um Reykjavíkurbréfið og þann lærdóm sem draga mætti af því. Ekki staldrað lengi við til söguflutnings en haldið áfram.

Á Veðurstofuhálendi voru Jörundur og Ó. Þorsteinsson farnir að ganga meira en góðu hófi gegndi að mati undirritaðs og því var ekkert annað að gera en að skilja þá eftir og halda áfram hlaupandi. Það var ekki mikill hraði á hópnum, en þó skárra en að ganga. Á Sæbraut er enn vatn að hafa sem svalar þyrstum hlaupurum. ritara tókst með herkjum að ljúka hlaupi þrátt fyrir dapurlegt ástand.

Það fór svo á endanum að þeir Jörundur og Ólafur skiluðu sér ekki í pott á tilsettum tíma og varð umræða því öll með frábrugðnum hætti. Það breyttist þó ekki að rætt var um mat og þau matarboð sem framundan eru, m.a. jólahlaðborð í Turninum n.k. laugardag. Dr. Baldur með áhyggjur af staðsetningunni, erfitt yrði að rata þangað og enn erfiðara að rata þaðan.

Sannleikurinn kemur í ljós

Jörundur var saklaus. Jörundur var sárreiður. Ekki nóg með að honum væri að ósekju kennt um að breiða út orðróm um háan aldur Ágústs. Heldur var reynt að hirða af honum titilinn "Aldursforseti". Pistill sem fjallaði um Berlínarmaraþon í Vesturbæjarblaði nefndi hann ekki einu nafni - en snerist að mestu um hlaupara sem var fjarri góðu gamni í Berlín. Jörundur var ósáttur við að bera fulla sök á því að hafa flæmt Vilhjálm Bjarnason frá hlaupum, þegar Ólafur ketilsmiður bæri fulla sök á því, étandi upp alla vitleysu sem sögð væri og margfalda hana í frásögnum sínum. Jörundur geisaði í Brottfararsal og var reiður. Það átti eftir að versna.

Mánudaginn 24. nóvember var fjöldi góðra hlaupara mættur til hlaups hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Þjálfararnir Margrét og Rúnar. Flosi, Bjarni Benz, Bjössi, Helmut, Jóhanna, júngkærinn Tumi, Una, Ósk, Friðrik kaupmaður, Eiríkur, Benedikt, Jörundur, ritari, Magnús tannlæknir, Þorvaldur og ég veit ekki hvað og hvað. Ekki má gleyma próf. Fróða, eða Ólöfu.

Þetta var sannast sagna vandræðalegt. Jörundur geisaði. Rúnar roðnaði. Ágúst beygður. Menn reyndu að bera sig vel og bera klæði á vopnin, fremstur í þeirri viðleitni var ritari Hlaupasamtakanna, þekkt góðmenni í Vesturbæ, líkt og frændi hans, Ó. Þorsteinsson, Formaður Vor til Lífstíðar, sem leggur sig fram um að leggja inn gott orð hvar sem hann kemur. Á endanum varð stillt til friðar og leit út fyrir að hlaup gæti hafist. Fara út að Skítastöð og svo út á Nes. Einhver nefndi Bakkavör.

Ritari hefur verið í hvíld sökum meiðsla og vildi fara varlega. Það fólst aðallega í því að fara hratt með fremstu mönnum og farið á 4:50 út í Skerjafjörð. Ekki var stoppað þar heldur haldið á Nes á sama hraða. Ég með Bjössa, dr. Jóhönnu, Helmut - Björn uppfullur af sögum sem vöktu kátínu og gleði. Hlaupið í myrkri. Mættum Neshópi en þekktum fáa sökum myrkurs. Það var hrópað "Hæ!" í myrkrinu - við vonuðum að þar færu vinir á ferð. Geysilega hratt tempó hér.

Verður farinn aumingi? Verður farið lengra? Nú vildi svo til að enginn blómasali var í hlaupi og því ekki mikið um úrtölufólk, þannig að það var ekki undan því vikist að fara á Nesið um Flosaskjól. Áfram hratt. Nú dró í sundur með ritara og fremstu hlaupurum - þar var alvörufólk á ferð. Sama hraða tempóið út að Eiðistorgi, ritari illa haldinn af innvortis meiðslum, en beitti sjálfan sig aga og hélt áfram, fór bara hraðar, og náði fremsta fólki við Bakkavör. Þar var ákveðið að fara sex spretti, ég gaf lítið fyrir það, lullaði upp einu sinni og svo áfram tilbaka,  hinir munu eitthvað hafa gutlað í brekkunni. En fyrsta lögmál hlauparans er að fara vel með sig. Prófessorinn mun hafa haldið áfram út í myrkrið á Nes þar sem hann hvarf. Þarna mætti Jörundur ásamt með Bjarna Benz seint og um síðir, stöðvaði hlaupara í miðri brekku og hélt mikinn reiðilestur yfir þeim: í fyrsta lagi fyrir að hlaupa alltof hratt og skilja hann alltaf eftir einan; í öðru lagi fyrir andróður og andstyggilegheit gegn Vilhjálmi Bjarnasyni, sem væri sérstakur vinur hans. Kvaðst hann vera þess fullur hugar að hætta að hlaupa með Hlaupasamtökunum.

Um afdrif og vegalengdir var fátt rætt í potti, aðallega sagðar sögur. Þar sagði m.a. Ágúst söguna af hlaupinu fræknlega kringum Sveifluháls. Sagan hermir að Helmut, hirðirinn góði, hafi mætt á svæðið á fjallajeppanum aldna og treysti sér ekki til að stíga út úr bílnum sakir veðurs, en óveður geisaði á þessum útkjálka. Þess í stað ók hann af stað í leit að Ágústi. Fljótlega sá hann spor eftir smávaxna veru sem hann taldi víst að væri prófessorinn. Hann fylgdi slóðinni í hálftíma áður en hann kom að snjóskafli. Þar enduðu sporin. Honum þótti þetta grunsamlegt. Hér var "aðeins meira logn" eins og menn segja á Íslandi, í stað þess að segja "aðeins minna rok". Helmut fór út úr jeppanum og hóf að grafa í skaflinn. Ekki hafði hann grafið lengi er hann fann prófessorinn skjálfandi og titrandi af kulda. "Ég fauk, elskan mín! Ég fauk, elskan mín!" Helmut dustaði snjóinn af prófessornum og hvatti hann til þess að halda áfram hlaupinu og ljúka því. Sem hann og gerði með glæsibrag. Að 42,8 km hlaupi loknu þáði hann góðgerðir, heitt kaffi og kökur hjá hirðinum góða. Síðan hvíldi hann á sunnudeginum með því að hlaupa litla 34 km í Heiðmörk.

Eins og ævinlega var stundin í potti dýrmæt, staldrað við um stund, sagðar sögur og planlagt fyrir jólahátíð Samtakanna, sem allt eins gæti verið haldin hátíðleg í heimahúsi - meira um það seinna. Í gvuðs friði, ritari.

Ólafur ketilsmiður gerist umboðsmaður

Hortuga stúlkan var mætt aftur í dag, frú Ólöf spurði mig hvort þetta væri hortuga stúlkan með skoðanir. Já, þetta var hún. Einhver sagði að hún væri fornleifafræðingur. Sama er mér, hún er samt hortug eins og Guðjón og með meiningar. Dr. Friðrik var mættur, sem og Þorvaldur og Magnús Júlíus tannlæknir. Við helztu strákarnir vorum í útiklefa, ég, Flosi, Bjarni Benz, Helmut, og einhverjir fleiri. Svo situr maður í Brottfararsal og bíður þess spenntur að geta byrjað að atyrða innkomandi hlaupara, hver dúkkar ekki upp úr neðra nema Björn Nagli... Ég gapti af undrun. Hvað er í gangi? Björn sagði: "Ég var farinn að sakna stundanna sem ég átti með honum Ágústi, samtalanna..." Kjálkinn á mér nálgaðist hnéð óðfluga. Ég lét Björn vita að svona létu karlmenn ekki út úr sér og að ég óttaðist að hann væri að láta konuna í sér ná yfirhöndinni. Honum virtist standa á sama. "Nagli eins og þú" sagði ég. "Veiztu hverju þú ert að fórna? Orðspori sem hefur tekið þig mörg ár að byggja upp, sögum, ímyndarbyggingu, mataræði..." Þetta hafði engin áhrif. Maðurinn virtist einfaldlega sakna Gústa. Téður Augustus kom seint og missti af þessum merkilegu samtölum í neðra, en hann virtist algjörlega grunlaus og virtist sakna einskis. Þvert á móti var hann uppblásinn, meðvitaður um sjálfan sig og laus við allt sem heitið getur auðmýkt.

Aðrir mættir: Birgir, Margrét, Una, Rúnar, dr. Jóhanna, Friðrik kom, og Eiríkur, en ekki er ég viss um að Benedikt hafi verið mættur, þó gæti það verið misminni, hann hleypur hvort eð er svo lítið með okkur, hann hleypur bara á undan okkur. Eitt er víst, engan blómasala var að sjá í hlaupinu. Hann kvartar stundum yfir því að ekki sé minnst á hann í pistlum. Ef ekki er minnst á hann er það vegna þess að hann mætti ekki í hlaup og verðskuldar ekki að á hann sé minnst. Hann mætti ekki í hlaup dagsins og því er ekkert um hann fjallað hér. Punktum. 

Þjálfararnir eru orðnir mjög frjálsir af sér, sem er hreinn bónus með góðu skapi meðhjálparans í Neskirkju, sem er búinn að að geisla af gleði tvo hlaupadaga í röð. Þeir leyfðu mönnum að hlaupa frjálst, þ.e.a.s. gáfu ekki út leiðbeiningar, það var ekkert sagt, bara hlaupið af stað. Menn æddu af stað út í myrkrið. Það var nú svolítið óþægilegt að æða bara svona af stað án þess að vita hvert ætti að fara, hversu hratt eða hvort manns biðu sprettir á leiðinni. Nú er orðið ljóst að nýi stígurinn er hjólastígur eingöngu, og ekki fyrir fótgangandi eða -hlaupandi. En það vantar lýsingu á Ægisíðu, þetta gengur ekki lengur, maður getur hlaupið niður aðra fótgangandi eða -hlaupandi í myrkrinu. Ef það er flugvöllurinn sem er málið á bara að flytja hann: við getum ekki unað við þessi skilyrði lengur að vera að paufast þetta áfram í myrkri.

Ágúst var með hlutina á hreinu. Ólafur ketilsmiður var búinn að upplýsa á innraneti Samtakanna að blaðakona á Fréttablaðinu hefði haft samband til þess að forvitnast um hlaupara sem ætlaði að þreyta hlaup í Sahara, hvort það gæti verið rétt. Ólafur ketilsmiður svaraði: "Þetta er rétt. Ég er að þjálfa hann." Á eftir kom frekari upplýsingagjöf um þurra sanda, lítið af vatni, vegvillur, bedúínatjöld og leðurblökur. Blaðakonan varð svo impóneruð að hún ákvað að hafa viðtal við þennan hlaupara. "Hvernig næ ég sambandi við hann?" "Já, bara róleg", sagði ketilsmiðurinn. "Öll sambönd við hann fara í gegnum mig." Varð þetta til þess að Ágúst ákvað að gera Ólaf að umboðsmanni. "Þú sérð um að bóka flugferðir, hótel, þú þekkir þetta svo vel. Svo sérðu um almannatengsl, birgja, sponsora, auglýsingar og þess háttar." "Já," sagði ég, "hvað með kommissjón? Greiðslur?" Ágúst varð hugsi um stund, en svo blasti svarið við og virtist augljóst: "Það tekurðu upp við gjaldkerann, hana Ólöfu. Þú gerir það bara eftir á."

Hér var hersingin stödd á Ægisíðu og var farin að slitna ærið mikið sundur, enda óljóst hvað ætti að gera í hlaupi dagsins. Ágúst var að reyna að rekrútera fólk í langt en varð ekki ágengt með það, nema hvað honum tókst að teygja Flosa inn í Fossvogsdal. Aðrir fóru ýmist Blóðbanka, Suðurhlíðar að Þriggjabrúahlaup. Það var farið á fáránlegu tempói inn að Borgó - 4:50 - maður skilur ekki svona. Margrét: Jæja, við hægjum á okkur á eftir. "Á eftir" kom aldrei - það var ekkert hægt á. Ég fór upp brekkuna hjá Borgarspítala með nokkrum góðum, hún er erfið, svolítið áþekk Suðurhliðarbrekku. Maður er alveg búinn þegar upp er komið. Þar tók fólk upp á því að svindla, stytta sér leið, það er ekki gaman að horfa upp á þjálfara svindla, það er svolítið slæmt fyrir móralinn. Fólk þarf að hugsa um svona hluti! Vera fyrirmynd!

Fram-heimilið er náttúrlega alltaf svoldið krítískt, maður heldur niðri í sér andanum eins og verið sé að fara hjá Vogastapa, en þetta fer að lagast, fljótlega verður víst búið að sameina Fram einhverju íþróttafélagi í útkjálkabyggðum höfuðborgarinnar og þá verður jarðýta sett á ósköpin og maður verður laus við þetta. Hér var hópurinn farinn að þéttast nokkuð og þeir sem höfðu verið á eftir okkur en ætlað sömu leið náðu okkur. Hér fór ritari að síga aftur úr. Ég er slæmur í mjöðmum og á erfitt með að beita mér af fullum krafti, hér er á ferðinni eitthvert sambland af grindargliðnun og föðurlífsbólgum. Við þessu er ekkert að gera annað en halda áfram að hlaupa og kveljast.

Farið niður Kringlumýrarbraut og niður á Sæbraut. Þar er hlaupið í myrkri og alltaf hætta á að hlaupa niður fólk, eða reiðhjólafólk sem hjólar á ljóslausum fákum. Varð samferða Rúnari á þessum kafla og til loka hlaups, hann hafði orð á því að þetta væri helvíti rennilegur hópur (ekki 100% viss um að hann notaði h-orðið, en það hljómaði þannig). Á Sæbraut dróst þessi hlaupari aftur úr vegna meiðsla sinna, en það var allt í lagi, rætt um horfur í málefnum launamanna hjá ríkinu og um húsbyggingar við Skúlagötu - sem brátt verða orðin draugahús.

Ekkert óvænt eftir þetta. Teygt vel og lengi í Aðkomusal Laugar Vorrar og rætt um lyftingar og hnefaleikakeppnir. Björn sagði ýkjusögur. Birgir spurði hvað ég ætti í bekkpressu, ég hafði ekki svar við því, enda sá ég ekki hvaða máli það skipti.

Upp er komin hugmynd um jólahlaðborð í Turninum, sem mun vera framlag Kópavogsbúa í typpasamkeppni tveggja sveitarstjórnarmanna íhaldsins á höfuðborgarsvæðinu. Hitt framlagið gefur að sjá í Höfðatúni, ófullgerður turn sem stendur höfundi sínum til ævarandi skammar og háðungar. Hugsa sér að mönnum skuli leyfast að leika sér svona með peninga okkar skattborgara og alltaf skulum við vera nógu vitlaus til þess að kjósa þetta lið aftur og aftur. Ja svei því. En við vorum víst að tala um jólahlaðborð... Dagsetning kemur síðar.

Ágúst fer í viðtalið í fyrramálið. Ólafur ketilsmiður er búinn að preppa hann og undirbúa svör. Svo er bara að sjá hvort hann kemur þessu rétt frá sér. Þar verður sagt í þaula frá Hlaupasamtökunum, frá Aðalritara, blogginu, Einari blómasala, Villa, Ó. Þorsteinssyni, og ef prófessorinn fer bara ekki á taugum þá á þetta allt að skila sér á síðum Baugsmiðla, sem eru eitt framfarasinnað slekti. Ég er mjög spenntur. Eftir þetta liggur veröldin flöt fyrir okkur. Í gvuðs friði, ritari.

Minningaleiftur úr mánudagshlaupi

Mæting góð. Pottþéttur hópur í útiklefa þótt kominn væri vetur. Þorvaldur enn með bundið um putta. Mættur dr. Friðrik og kvartaði yfir heilsuleysi sem líklega væri að kenna því að menn væru hættir að fara í sjóinn, líklega tvisvar á árinu. Er ekki orðið tímabært að fara að endurnýja gamla siði og hefja sjóböð til vegs og virðingar á ný, þegar kvenfólk af Alþingi er farið að fara í sjóinn og synda. Mæting almennt góð - hátt í tuttugu manns.

Þetta var dagurinn þegar Guðni Ágústsson sagði af sér formennsku í Framsóknarflokki og jafnframt þingmennsku. Farinn til útlanda og talar ekki við fjölmiðla. Ríkisstjórn kynnir samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, en lýsir jafnframt yfir fullum stuðningi við ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis. 

Það var hefðbundið út að Skítastöð þjálfari virtist í góðu skapi. Próf. Fróði með hausband sem hann virtist hafa stolið af leikskólabarni. Veður gott og kallaði ekki á sérstakan útbúnað. Það var Víðimelur og Suðurgata. Ritari þungur. Hádegisverður: tvær pylsur með öllu. Ekki góð undirstaða fyrir hlaup. Maður var bara skilinn eftir í myrkrinu. Hafði félagsskap af Magnúsi og saman fórum við aumingja. Aðrir skilst mér hafi farið út að Hagkaupum, en helztu hlaupanördar farið austurúr, Suðurhlíðar, eða jafnvel inn á Grensásveg og Stokk.

Samþykkt var í potti að halda árshátíð Hlaupasamtakanna snemma í janúar og stefna á Skólabæ. Dr. Jóhanna mun senda út póst og auglýsa eftir þátttöku. Dr. Baldur minntur á að fara að leggja í. Kostnaði haldið í lágmarki, hver leggur til einn rétt og drykki með, svo og skemmtiatriði.

Frændur á ferð

Það var ráðstefna á tröppu Vesturbæjarlaugar þegar ég kom. Þar stóðu blómasalinn og Ó. Þorsteinsson, þekkt góðmenni úr 107 og einnarmessumaður, og voru í djúpum samræðum, svo djúpum að þeir misstu ekki niður þráðinn þótt mig bæri að. Seinna bættist Flosi í hópinn og enn héldu þeir áfram. "Á ekki að hlaupa?" spyr ritari. "Nei, það er allt í rusli heima hjá mér," sagði blómasalinn, "eldhúsið á hvolfi, ég finn ekki neitt." Hann ætlaði að sleppa hlaupi í dag til þess að geta helgað sig endurreisnarstarfi á heimilinu. Aðrir ákveðnir í að láta ekki svo ágætan dag úr greipum renna, veður fagurt, stillt og svalt. Hálka á jörðu. Við vorum sumsé þrír, bræður og frændur: Flosi, Ó. Þorsteinsson og Ó. Kristjánsson.

Fyrst var að segja frá hátíðarfundi í tilefni af 70 ára kennslu viðskiptafræði sem Ólafur sótti. Hann kunni að segja frá frábærri frammistöðu vinar okkar V. Bjarnasonar, sem þar flutti ræðu og brilljeraði, afsannaði útbreidda kenningu að viðskiptafræðingar væru nördar og viðundur. Viðskiptafræðingar geta verið bæði skemmtilegir og víðsýnir, flutt erindi af kunnáttu og lærdómi, vísað í aðrar fræðigreinar, tekið dæmi úr bókmenntunum svo eitthvað sé nefnt. Taldi Ólafur að við í Hlaupasamtökunum mættum vera stoltir af þessum félaga okkar.

Dagurinn var frábær - er til eitthvað betra en fara út að hlaupa á kyrrlátum sunnudagsmorgni? Þótt ekki sé farið hratt. Fórum nýju brautina, sem ég veit ekki enn hvort verður eingöngu hjólastígur, eða hvort hann verður einnig ætlaður fótgangandi. Margt var að ræða og margs að minnast, sögur að segja. Í dag er 16. nóvember og ungar stúlkur í Garðabæ eiga afmæli, þeim eru færðar árnaðaróskir. Þá gat ÓÞ upplýst okkur um sextugsafmæli fyrrv. hlaupara - "og hver er hann?" var spurt. Það var á fjórðu vísbendingu sem Flosi gat upplýst hver þetta var og gegnir í dag háu embætti.

Það var rætt um fjölmiðla, m.a. um fróðlegan þátt Egils Helgasonar s.l. miðvikudag, sem fjallaði um Sverri Kristjánsson í tilefni af endurútgáfu Kommúnistaávarpsins, sem ætti að vera orðið skyldulesning í hópi vorum.

Krísan var rædd í þaula og var ekki verra að hitta Gunnar Gunnarsson fréttamann við Svörtuloft og eiga þess kost að skiptast á skoðunum við þann mæta útvarpsmann um stöðu og horfur mála. Fréttamenn eru oft öðrum betur tengdir og hafa innsýn og þekkingu úr ýmsum áttum sem þeir geta tengt saman. Enn og aftur dró frændi minn frásögnina af frammistöðu VB á þingi viðskiptafræðinga
og vakti hún aðdáun viðstaddra - menn voru sammála um að VB væri afbragð annarra manna.

Ekki get ég sagt að "hlaup" dagsins hafi laðað út svita á mér, sem annars er manna sveittastur að loknum góðum átökum. En engu að síður var ég sannfærður um að það var betra að hafa farið út en hanga heima og slæpast. Hefðbundin viðvera í potti og aftur flutt vísbendingaspurning - en nú hafði nýjum vísbendingum verið bætt við. Einhver hafði orð á því að það gæti ekki staðist að ekki væru sagðar nafnlausar sögur í hópi vorum - stundum virtist eins og eingöngu væru sagðar nafnlausar sögur, en þá gleyma menn að það er ekki heiglum hent að eiga í vitsmunalegum samskiptum við frænda minn, það krefst íhygli og gáfna og er ekki öllum gefið. Einkum geta útúrdúrar innan í útúrdúrum inni í löngum og flóknum frásögnum vafist fyrir mönnum. Einna helzt er það bókmenntafræðingum hent að fylgja frænda þegar hann fer á flug.

Menning á föstudegi

Félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins sakna þeirra sælu tíma þegar þeir nutu leiðsagnar bróður þeirra og vinar, Vilhjálms Bjarnasonar, um völundarhús nútímalistar á föstudagshlaupum, þegar staldrað var við í listhúsum og listin drukkin í sig og útskýrð af fágun, næmni og innsæi. Og horft framhjá því þegar okkar minnstu bræður spurðu: "Ætlar málarinn ekki að klára myndina?" eða: "Þetta er eins og ljósmynd..." Nei, nú eru þeir tímar liðnir og við megum hlaupa hnípnir um velli og grundir án þess að eiga minnsta möguleika á því að njóta listar á föstudögum.

Í útiklefa var lýst vonbrigðum með blaðamannafund ríkisstjórnar síðdegis, menn bjuggust við hreinsun í Seðlabanka, brottrekstri ráðherra og umsókn um aðild að ESB. Nei, það var bara rætt um barnabætur og annað þess háttar sem nýtist ekki miðaldra háskólafólki á hlaupum. Það bar til tíðinda að Hjörleifur var mættur eftir langa fjarvist, en það sást ekki á honum að hann hefði sleppt einum degi úr. Aðrir: Ágúst, Bjarni, Flosi, dr. Jóhanna, Einar blómasali, Magnús, Þorvaldur, Benedikt, Eiríkur og ritari.

Á föstudögum er farið hefðbundið. Ekki var brugðið út af þeirri venju í þetta skiptið. Nema hvað Þorvaldur kaus að leiða hópinn um bakgarða í 107 af einhverri einkennilegri ástæðu, því ekki kallaði veðrið á afbrigði. Það var fínt veður, hægur vindur, hiti um 2 stig, og slydda, eða hundslappadrífa, eins og dr. Jóhanna vildi meina.  Henni varð tíðrætt um Flanir, og jafnframt um mann sem brá mjög þegar hann heyrði að það ætti að heyja kappleik á gervigra svelli. Ritari, verandi uppfræðandi og sérhæfir sig í fullorðinsfræðslu, var með smá fullorðinsfræði á leiðinni út að flugvelli og ég veit að félagar mínir voru mér þakklátir fyrir fróðleik og skemmtan, að ekki sé talað um gáfur og lærdóm.

Einhver uppskipting var í hópnum, en ekkert til að hafa áhyggjur af. Dagsformið er mismunandi á mannskapnum, sumir eru þreyttir, illa sofnir, illa fyrirkallaðir - allt hefur þetta áhrif á frammistöðuna dag hvern. Þannig náði ritari að hanga lengi vel í frambærilegum hlaupurum, Þorvaldi, dr. Jóhönnu, Hjörleifi og fleiri, en endaði með Einari blómasala á Sæbraut. Það var allt í lagi. Við ræddum um matargerð og bjórtegundir. Nú er aðeins drukkin innlend framleiðsla.

Ritari gat aðeins gert stuttan stanz í potti, því að menning beið hans. Það var farið á Hart í bak - frábært leikstykki Jökuls Jakobssonar, þar sem öldungurinn Gunnar Eyjólfsson á eftirminnilega innkomu í hlutverki strandkapteinsins Jónatans. Frábær skemmtun og gefandi.

On a slowboat to China

Fæst orð hafa minnsta ábyrgð. Þetta eru vísindi sem við félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins klikkum á aftur og afftur.  Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Menn eru misjafnlega viðkvæmir fyrir því sem sagt er - virðast ganga fram af hörku og ryðja úr sér formælingum, en eru í raun viðkvæmar og meyrar sálir. Um þetta ræddum við félagarnir í útiklefa af innlifun og innsæi, að ekki sé talað um mannþekkingu. Í reynd eru Samtökin uppfull af velmeinandi góðmennum, sem stundum eru misskilin.

Venju samkvæmt var vel mætt í miðvikudagshlaup  enda er jafnan hlaupið langt á miðvikudögum, þessir: Flosi, Ágúst, dr. Jóhanna, Benedikt, Eiríkur, Birgir, Björn, Bjarni, báðir þjálfarar, Ósk, Þorvaldur, Magnús Júlíus, Ólöf og kona sem ég þekki ekki en hafði sig töluvert í frammi og hafði skoðanir á mörgum hlutum, hortug eins og Guðjón.

Dagsskipunin: hægt út að Dælu. Veður þolanlegt, 4 stiga hiti, vindur á austan, í fangið á Sólrúnarbraut. Það er nokkurn veginn hægt að afgreiða þá Eirík og Benna strax, þeir hurfu og segir ekki frekar af þeim. Það sætir furðu að þegar menn eiga þess kost að hlaupa með gáfuðu og skemmtilegu fólki sem er uppfullt af fróðleik og skemmtun þá kjósa þeir að æða áfram án þess að það þjóni nokkrum tilgangi og missa af allri skemmtuninni - því að hana vantaði svo sannarlega ekki í kvöld. Hver er tilgangurinn með svona vitleysu? Getur einhver frætt mig um það?

Fólk fór nokkurn veginn eftir fyrirmælum þjálfara, en mælst var til þess að farið yrði hægt. Það gekk nokkurn veginn og héldu menn aftur af sér. Nú er orðið svo dimmt á hlaupatíma að það er beinlínis til trafala og hættir manni við að rekast í næsta mann vegna skammsýni. Einhvers staðar á Ægisíðu sagðist Ósk vilja segja okkur hneykslanlega sögu - en að hún mætti alls ekki fara lengra. "Nei, sagan staðnæmist í þessum hópi - hér ríkir aaaalgjör trúnaður!" hrópaði ritari. "Nú, er Ólafur hér? Þá er vissara að þegja," sagði Ósk. Fólk var náttúrlega algjörlega stúmm yfir svona framkomu, vera að veifa safaríkri sögu framan í söguþyrstan hóp, og draga agnið svo tilbaka. Við þetta var ekki unað og urðu almenn hróp í hópnum, þar til Ósk lét undan og sagði okkur afar djúsí sögu sem ekki verður sögð hér - enda gengi það gegn markmiðum Hlaupasamtakanna - Þeir sem hlaupa, þeir frétta. Reuter sefur aldrei.  

Steðjað áfram í myrkrinu. Einhverjir fóru Hlíðarfót. Birgir fór stutt enda ætlar hann að fara í Poweradehlaupið á morgun. Aðrir ætluðu Þriggjabrúahlaup, en Flosi, Ágúst og ritari voru einbeittir í að fara langt, Goldfinger, jafnvel upp að Stíbblu, og helzt af öllu Heiðmiörk. Leiðir skildi á réttum stöðum. Við félagar mættum Laugahópi í nokkrum skömmtum í Fossvogi, en það var dimmt svo að við þekktum aðeins Ingólf geðlækni. Við ræddum ástand mála í Lýðveldinu og höfðum áhyggjur af geðheilsu og andlegu stabílíteti leiðtoga vorra og veltum fyrir okkur hvort ekki væri tímabært að fara að hvíla mannskapinn og leiða úthvílda leikmenn til hásætis, sem hefðu til að bera andlegt atgervi, auðmýkt, sýn og skilning á markmiðum og leiðum til þess að geta með árangursríkum hætti leitt okkur út úr þeim vanda sem þjóðin er stödd í. Ef við ætlum að halda áfram að tilheyra samfélagi þjóðanna verðum við að axla ábyrgð og sættast við nágranna okkar. Við getum ekki haldið áfram að koma fram af hroka, fyrirlitningu og yfirgangssemi. Bretar eru vinaþjóð sem við verðum að sættast við. Það er jafnvel mikilvægara en að sverma fyrir ESB. Bretar eru líka sanngjarnir heiðursmenn sem við getum treyst að munu ekki setja okkur skilyrði sem ekki er hægt að lifa með.

Jæja, hvað um það. Flosi, sem hafði ákafast heimtað að fá hlaup á dónalegar sveitarfélagaslóðir yfirgaf okkur Ágúst í Fossvoginum við Víkingsvöllinn og ákvað að fara hefðbundinn 69, sumsé sleppa brekkunni góðu. Við Ágúst urðum mjög hneykslaðir á þessu framferði og þusuðum um það upp alla brekkuna. En um það leyti leið okkur svo vel að við gleymdum allri hneykslan og héldum áfram. Ég minnti Gústa á að athuga með húninn og fylgdist með honum þegar hann hljóp upp að húsinu, en ég held hann hafi ekki tekið í húninn. Áfram yfir í Mjóddina undir Breiðholtsbrautina, framhjá Olísstöðinni og út Stekkjarbakkann og niður í Ellilðaárdalinn. Ég var án vökva og varð hugsað til hlaupa sumarsins þegar við stoppuðum við benzínstöðina og bættum á okkur, það var gjarnan eftir Kársnesshring. Maður varð nostalgískur og fór að hlakka til sumars.

Ef sannleikurinn þarf endilega fram að koma var maður þungur á sér og naut þess ekkert sérstaklega að hlaupa, Gústi virtist plumma sig vel og hafði aðeins áhyggjur af því að hlaupið yrði í styttra lagi. 19, sagði hann áhyggjufullur. Það þyrfti að vera nær 24. Viltu ekki fylgja mér upp í Heiðmörk? Nei, það kom ekki til greina, þar var allt í niðamyrkri og mikið af steinnibbum. Við héldum því áfram í Elliðaárdalinn og tilbaka undir Breiðholtsbraut og inn í Laugardalinn. Á leiðinni reyndi Ágúst að rifja upp brandara um fullan mann í mýri, en fórst það heldur óhöndulega úr hendi. Hann lét ekki deigan síga, reyndi að rifja upp annan brandara, og við vorum komnir niður á Sæbraut án þess að hann næði að laða fram eina einustu mynd úr þeirri frásögn. Hann kvartaði yfir minnisleysi, þetta væri mjög slæmt fyrir menn sem vildu vera skemmtilegir og segja brandara.

Við vorum bara flottir, fórum á þægilegu tempói, það var vatn að hafa á Sæbraut og við Ægisgötu skildi leiðir, Ágúst áfram á Nes til þess að ná lengra hlaupi, ég beint til Laugar. Var þungur á mér upp Ægisgötuna, en ekki þreyttur.

Ég var einn á Plani að teygja. Það byrjaði að snjóa. Ég hitti Flosa, Björn og Bjarna í Laug. Þeir voru í góðum gír. Björn fór á flug. Hann vildi meina að bylting væri í vændum, hann réri að því öllum árum að æsa upp til óeirða á Austurvelli næsta laugardag. Við spurðum hvort hann ætlaði að vera þar. Hann horfði hneykslaður á okkur og sagði: "Og missa af enska boltanum? Ertu vitlaus?"

Gott hlaup, en líklega heldur tilgangslaust þegar ekki er stefnt að neinu. Næst: föstudagur. Verður farið hratt? Í gvuðs friði, ritari.

Séra Guðbjörn gengur um Herbertsstrasse - 222. þáttur

Valinkunn gáfu- og góðmenni mætt til hlaups á sunnudagsmorgni: Ó. Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Einar blómasali og ritari. Flutt ræða á tröppu er laut að innihaldsríku símtali siðastliðinn miðvikudag og snertir okkar elskaða bróður, skoðanahafa og álitsgjafa sem enn er saknað. Magnús hafði ekki mikinn tíma til hlaupa í dag vegna kristilegra kærleiksverka í þágu kirkju og kristni í landinu; Kirkjuráðsfundur að morgni. Einar með eldhús í rúst og vantaði nýjar hugmyndir um mat sem hægt er að elda án eldhúss - ritari gaf honum nokkrar uppskriftir frá seinasta ári þegar hann var i sömu stöðu.

Við vígðum nýjan hlaupastíg á Ægisíðu sem liggur meðfram götunni og er beinn og breiður. Þar sagði frændi minn okkur sögur af fundi þeirra skólabræðra úr Reykjavíkur Lærða Skóla þar sem koma saman ljóðskáld og læknar. Sögurnar af fundinum þeim nægðu allt hlaupið. Af meðfæddri smekkvísi mun ritari ekki flytja þær sögur hér.

Rætt um byggingaframkvæmdir í miðborginni, þar sem turnar munu standa tómir, og einn þó sýnu frægastur, sá er skyggir á leiðarljós Sjómannaskólahússins fyrir innsiglingu í Reykjavíkurhöfn og er eitt snilldarbragð skipulagsyfirvalda. Höfðaborgarturn. Draumsýn þess framsýna snillings Villa Þ. Ja, ef við ættum ekki svona afbragð manna - hvar væri íslenzk þjóð  stödd?

Spáð kosningum fyrr en siðar og hreinsun í ríkisstjórn og Seðlabanka. Jafnvel grandvörustu menn og íhaldssamir höfðu gífuryrði um ástand mála í pólitíkinni.

Óvenjumargt var í umfjöllun dagsins og því þurfti að staldra við oftar en vanalega og hlaup gerði því ekki það gagn sem það stundum gerir þegar það er samfellt. Nú var það andlega hliðin sem naut forgangs. Þar sem við erum góðmenni stoppuðum við á Hlemmi og aðstoðuðum brezkan túrista við að finna staðsetningu sína samkvæmt korti. Viðkomandi var þakklátur - við sáum þetta sem innlegg í hina alþjóðlegu baráttu.

Þekktir snillingar í potti. Raunar varð umræðan svo yfirgripsmikil og djúptæk að menn stöldruðu óvenjulengi við. Hér flutti venju samkvæmt Ó. Þorsteinsson aftur sögur úr hlaupi með nánast óbreyttu orðalagi, þó greindu glöggir menn að stöku orði hafði verið hnikað til vegna lögmála munnlegrar geymdar. Baldur Símonarson sagði að fjöldi manna hefði komið að máli við sig og spurt hver þessi Ólafur Þorsteinsson væri og hvernig honum tækist að segja sögur þannig að ekki stæði steinn yfir steini og ekkert væri rétt eftir haft. Hvernig hann gæti verið fulltrúi Reuters... Ouch!

Sunnudagar eru engu líkir og fara langt með að hlaða "batteríin" hjá manni fyrir vikuna. Í gvuðs friði, ritari.

Hlaupið í vorblíðu - að hausti - Fyrsti Föstudagur

Það var brostin á vorblíða þegar hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins mættu til hefðbundins föstudagshlaups föstudaginn 7. nóvember 2008 - sjálfan Byltingardaginn. Það rifjaðist upp fyrir Ritara að hér áður fyrr voru menn vanir að detta íða á Byltingarafmælinu, en nú eru menn bara heilbrigðir og fara út að hlaupa, allir búnir að gleyma Lenín og Trotskí. Jæja, hvað um það, mættur töluverður fjöldi hlaupara, Flosi, Helmut, Þorvaldur, Birgir meiddur, Karl, Magnús, dr. Jóhanna, Einar blómasali, Bjarni, Bjössi, Frikki og Rúna, Ósk og Hjálmar, S. Ingvarsson, ritari, Benedikt. Menn dáðust að Bigga í útiskýli sem hafði skellt sér í Laugina með Magga til þess að liðka sig upp fyrir hlaup, en var greinilega sárþjáður og hefur líklega þurft ofurmannlegan kraft til þess að manna sig upp í hlaup.

Það er dagamunur á fólki. Þeir sem voru sprækir á miðvikudag eða mánudag og skildu ritara eftir, voru það ekki í dag. Þannig að ritari var í góðu, hröðu kompaníi framan af. Ekki verður orðum eytt að hraðafíklum eins og Benna og Bjössa - sem bara hurfu. Og segir ekki frekar af þeim á þessum blöðum, nema hvað menn furðuðu sig á því hver væri ástæðan fyrir hlaupum þeirra, það er bara gefið í og ekkert sagt! Meðan aðrir hlaupa til þess að geta átt góðan selskap og menningarleg samtöl við félaga sína. Maður skilur ekki svona. Nú er búið að malbika hjólastíginn á Ægisíðu og virðist það ægileg framkvæmd og nær alla leið inn í Nauthólsvík.

Magnús sagði sögu af manninum í London sem var að ræða efnahagsástandið á Íslandi. Þetta væri eins og skilnaður. Þá sagði vinur hans: Nei, þetta er verra, þetta er eins og að missa helminginn af eignum sínum og samt sitja uppi með konuna! Líklega er þetta brezkur húmor fínstilltur sem við eigum erfitt með að skilja. Farið hefðbundið um Hi-Lux, Veðurstofu og Hlíðar. Friðrik var með okkur og Þegar hlaup var gert upp kom í ljós að meðaltempó þeirra fremstu var 5:06 - en líklega hef ég verið á 5:15.

Skammur pottur. Fyrsti Föstudagur. Mætt heima hjá Helmut og dr. Jóhönnu. Þar var fyrir miðill þýzkrar ættar, sjáandi og árulesandi. Birgir sat og gutlaði á gítar, spilaði Bubba og Megas við dræmar undirtektir. Blómasalinn mætti með "bjórkassa" - en þessi skilgreining hans skreppur mjög saman eftir því sem lengra líður, nú er "bjórkassi" kassi með sex flöskum af sunnlenzkum bjór. Þarna vorum við trakteruð á öli og rauðvíni og loks var borinn fram málsverður, lasagna. Um það er Ritari var að búast til brottferðar sagði sjáandinn: "Ég sé að þessi maður er innræktað kvikyndi, drullusokkur og mykjudreifari - ef ekki Framsóknarmaður líka!" Ritara hlýnaði um hjartarætur er hann heyrði þessa nákvæmu greiningu.

Er út var komið í haustmyrkrið og svalann  hugsaði ritari sem svo: Það eru forréttindi að búa á Íslandi.

Kári mömmustrákur - Einar týndur - Biggi á batavegi - Þjálfari enn haltur

Mikið er ég feginn að Kári bloggvinur er ekki enn búinn að gera upp hug sinn um að flytja - þannig að vera kyrr er enn inni í myndinni. Auðvitað á hann að koma aftur heim og vera kyrr, hér er þörf fyrir brilljant hugsuði og vinnufúsar hendur. Tel ég sennilegt að mamma hans hafi hringt í hann í framhaldi af skýrslugerð minni um textagerð hans og talað við hann af umhyggju og umvendni. Ekkert spurðist til Einars blómasala, Biggi trúlega enn meiddur (skilji enginn orð mín sem afsökun honum til handa, hér hlaupa menn svo fremi fætur séu enn fastir við búkinn og hausinn á sínum stað). Margrét enn ein að tjónka við óstjórnlegan skríl, og ferst það furðu vel úr hendi.

Nú ætla ég að reyna að muna hverjir voru mættir (þeir sem ég hef nafnið á): Ágúst, Ólöf, Flosi, Þorvaldur, Friðrik, dr. Jóhanna, Benedikt, Björn, Eiríkur, ritari, Una, Jóhanna (ýmist kölluð "litla" eða "yngri" - ég veit ekki hvort er réttara), Ósk, Margrét, og einhverjir fleiri. Frjálst val um vegalengdir og leiðir. 8- 10 - 12 eða lengra, en meginatriðið að taka 5 km þétting e-s staðar á leiðinni. Áður en lagt var upp kom stutt anekdóta. Litli strákurinn var í skólanum og það var starfskynning. Hann var spurður að því hvað faðir hans starfaði. Stráksi gat ekki með nokkru móti viðurkennt að pabbi hans væri bankamaður, svo að hann svaraði: "Hann er strippari."

Við mættum Magnúsi þegar við lögðum af stað og hann hrópaði: "Haldið bara áfram, ég næ ykkur!" Svo bættist Friðrik í hópinn og það var farið rólega af stað skv. ráði þjálfara. Nú er farið að móta fyrir hjólabrautinni á Ægisíðu og verður gaman að sjá þegar hún verður fullgerð. Það er orðið alldimmt þegar lagt er í hann og hellist þunglyndið að sama skapi yfir hlaupara. Mikil umræða um Evrópusambandið, lýðræðið, nýjan forseta BNA og kassakrakkana á Alþingi.

Ritari þungur á sér eftir lítinn svefn undanfarnar nætur og eiginlega bara slappur, þetta hlýtur að fara að lagast! Datt því fljótlega aftur úr fremstu hlaupurum og hljóp lengi einn. Spurt var: á ég að fara Hlíðarfót, Hi-Lux eða lengra? Sjáum til. Aðrir höfðu gefið út yfirlýsingar um 69 (sem einhverjir eru farnir að kalla "Viktor") eða jafnvel lengra. Um síðir náði Ósk mér við Suðurhlíð og var því ákveðið að fara þá skemmtilegu leið. Við áttum langt spjall um kosningarnar í BNA, aðstæður íslenzkra nemenda í útlöndum, okkar eigin reynslu þar af og fleira. Fórum Hlíðina á góðu tempói, gáfum í á Hringbrautinni á fullu tempói - loks rifjaðist upp fyrir Ósk að hún væri með pott á hlóðum heima fyrir og hvarf hún til þess að huga að honum. Ég einn vestur úr.

Í potti var upplýst að margir hefðu farið Þriggjabrúahlaup, Benedikt og Eiríkur fóru 69 (þar af 6 km á 4:20). Björn fór venju samkvæmt á kostum með frásögum af Dettifossi, þar sem hann kokkaði um árabil. Skrautlegt líf um borð og fjöldi kynlegra kvista. Enn er minnt á Þingstaðahlaup og þó öllu heldur það sem mikilvægara er: Fyrsti Föstudagur n.k. föstudag. Auglýst er eftir venjúi, nánar tiltekið íverustað þar sem safna má nokkrum einmana sálum saman sem vilja reka tungur í mjöð og fagna. Skilyrði er að hann sé í námunda við Vesturbæjarlaug (með þessu er ég ekki að segja að hann ÞURFI að vera á Kaplaskjólsvegi).

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband