Færsluflokkur: Pistill Ritara
9.1.2009 | 21:48
Nýr hlaupari krýndur desemberlöber
Það var Fyrsti Föstudagur og mikil spenna búin að byggjast upp alla vikuna. Hver fengi löberinn? Ritari átti þess ekki kost að hlaupa í dag sökum heilsuleysis, en mætti engu að síður í pott og frétti þar að hlaup hefði verið hefðbundið. Mætti Flosa og Helmut sem voru á leið upp úr. Ég í Barnapott. Hingað til hefur sá skilningur verið til staðar að hann héti Barnapottur vegna þess að hann væri ætlaður börnum, en aðrar skýringar fóru á flot í samsæti kvöldsins. Í potti blómasalinn, Björn, Birgir, lítill herra sem togaði í tána á ritara, Rúna og Friðrik, og síðar kom Bjarni í pottinn, seinhlaupinn.
Birgi varð tíðrætt um Prince Polo pakkann sem hann færði blómasalanum á miðvikudaginn. Rætt um selleríuppskriftir og hvernig hægt er að vefja því inn í annað gagnlegt.
Haldið upp á Fyrsta Föstudag að heimili dánumannsins Þorvaldar Gunnlaugssonar á Brávallaparti. Þar var fjölmennt og góðmennt og upplýst að desemberlöber væri enginn annar en ljúfmennið Bjarni Guðmundsson bílstjóri, seigur, vinfastur og drengur góður. Fékk hann að launum viðurkenningarskjal og konfektkassa, sem blómasalinn heimtaði að væri opnaður á staðnum.
Það var merkileg lífsreynsla að sitja andspænis borðinu sem blómasalinn sat við. Þorvaldur hafði ekki undan að bera inn veitingar, allt hvarf þetta eins og dögg fyrir sólu ofan í blómasalann, brauð. sveppakompott eitthvert, fiskur, og þegar hann var spurður sagði blómasalinn: Ég hef ekkert borðað í dag! Hnetur, rúsinur, konfekt. Þó skal til bókar fært að hann kom með TVO kassa af bjór til veizlunnar og var vel tekið af viðstöddum.
Líta má á Fyrsta Föstudag sem Generalprufu fyrir annað og stærra (vonandi!) samsæti á morgun.
Í gvuðs friði, ritari.
5.1.2009 | 21:34
Dimmur dagur að hlaupum
Hlauparar er mættu til hlaups frá Vesturbæjarlaug í dag voru slegnir yfir þessari sorgarfrétt.
Í virðingarskyni við hinn látna hefur ritari pistil þennan ekki lengri.
4.1.2009 | 14:51
Ó. Þorsteinsson týndur og tröllum sýndur
Er von menn spyrji þegar tveir helztu sagnaþulir, fróðleiksbrunnar og greinendur samtímasögu láta ekki sjá sig að hlaupum svo vikum skiptir: hvar endar þetta? Hvar er hjálpræði vort? Hver á að segja okkur hvað við eigum að hugsa og halda og álíta? Nú í upphafi nýs árs er þörf á skarpskyggni og áræðinni hugsun til þess að greina útlit og horfur, auk þess að segja sögur af fólki og ættum þess. En nú hafa bæði Vilhjálmur Bjarnason og Ólafur Þorsteinsson verið fjarri hlaupum um nokkurra vikna skeið og er það hyggja manna að fjarvera hvors tveggja tengist með einhverjum hætti. Er það mikill skaði fyrir Samtök Vor sem eru fróðleiks- og menningarstofnun umfram annað, þótt eitthvað sé gert af því að hlaupa líka. Mættir til hlaupa í morgun, sunnudag, í yndislegu hlaupaveðri: Þorvaldur, Jörundur, Magnús. Einar blómasali og Ólafur ritari. Bjarni kom seint og hljóp einn. Hiti 5 stig, logn og rigningarúði í lofti, jafnvel þoka. Dimmt þegar lagt var upp.
Nú er jólahaldi senn lokið og meðfylgjandi ofáti og kyrrsetum. Kominn tími til þess að fara að koma skikki á hlutina, beita sjálfan sig aga og taka á því á hlaupum. Rólegt hlaup á sunnudagsmorgni er góður undirbúningur fyrir átakaviku - um það voru allir sammála á þessum degi. Umræður voru stilltar, snerust um fjarvistir fyrrgreindra manna, en jafnframt um þau gleðitíðindi að Kári og Anna Birna eru snúin tilbaka úr útlegð sinni í Frakklandi. Kári er bíllaus og ætlar blómasalinn að lána honum einhvern gripinn úr bílaflota sínum.
Það þarf að leggja línur um langhlaup ársins, innanlandshlaup sem til greina koma eru Mývatnsmaraþon (blómasalinn útvegar tjaldvagna og kost og sér um matreiðslu), Laugavegurinn og Reykjavíkurmaraþon. Miða þarf undirbúning við framangreint. Jörundur mælir sérstaklega með Laugaveginum, segir það ógleymanlega lífsreynslu. Einhverjir hafa skráð sig í hlaup í útlöndum, en ekki liggur fyrir samræmd áætlun þar.
Skeiðað á léttu skokki hefðbundinn sunnudag og hlaup að mestu tíðindalítið. Stoppað á hefðbundnum stöðum, fyrst í Nauthólsvík, næst í kirkjugarði, en eftir það var hlaupið án viðstöðu alla leið tilbaka, farið um Sæbraut. Bærinn nánast mannlaus, þoka yfir. Orðið bjart á miðri leið.
Pottur velmannaður, allir helztu snillingar Samtakanna, með eða án hlaupaskyldu, að frátöldum fyrrnefndum fyrrverandi hlaupurum, sumsé dr. Baldur, dr. Einar Gunnar, Mímir, Helga Jónsdóttir, og loks sonur dr. Einars, júristi Ólafur Jóhannes af Flandri og Vallóníu. Gríðarlega miklar umræður og fróðlegar um menn og málefni, svo miklar raunar að óðs manns æði væri að rekja þær. Sungnir síðustu jólasálmarnir.
Við Bjarni þáðum sjampó hjá blómasalanum, vatnsþynnt sjampó, sem sýnir nýtni þessa ágæta manns. Hafa ekki allir heyrt talað um vatnsþynnt sjampó? Gott hlaup í góðu veðri - meira á morgun.
2.1.2009 | 22:38
Fyrsta hlaup á nýju ári
Helmut og dr. Jóhanna komin frá Spaníá og vel haldin. Menn almennt sáttir við tíma sína í Gamlaárshlaupinu, nema hvað dr. Friðrik óskaði eftir að koma á framfæri leiðréttingu um að hann hefði farið ívið hægar en opinber tími gaf til kynna.
Mikill hugur í fólki og lagt upp í góðu veðri, stefnan sett á hefðbundið, eina spurningin: Fyrsti Föstudagur. Það var Ægisíðan og hlauparar voru greinilega þungir á sér. Fljótlega komu matseðlar jólanna og skýringarnar á því hvers vegna hlaup sóttist svo hægt. Fremstur í flokki upplýsenda um mataræðið var blómasalinn, en Birgir veitti honum harða samkeppni og snörist umræðan þá um súkkulaðihúðaðar rúsínur. Jafnframt um súkkulaðitertu frá Jóa Fel sem boðið var upp á í hádegismat hjá blómasalanum, ásamt með nokkrum kílóum af konfekti. Svo voru menn hissa á hversu hlaup sóttist seint í kvöld!
Ritari var þungur á sér og þreyttur eftir afrek síðustu daga. Sama mátti segja um fleiri hlaupara og fór hlaup hægt af stað. Utan úr myrkrinu birtist Benedikt stórhlaupari með óljóst erindi, en kvaðst hafa þegar farið 10 km. Hlaup erfitt og stefndi í að maður reyndi að þrauka í Hlíðarfót og stytta. En þegar kom í Nauthólsvík var ég á ferð með Helmut sem seiglaðist þetta áfram án þess að líta til hægri eða vinstri og því var haldið áfram. Fljótlega grúppuðu sig saman Magnús Júlíus, Helmut, Birgir, blómasalinn og ritari. Þessi hópur hélt áfram um Veðurstofuhálendi og þá hefðbundnu leið sem heyrir til föstudögum.
Tíðindin gerðust í Hlíðum. Þar hlupum við í myrkri og ritari rak tá í misfellu á gangstéttinni og tók flugið í ágústínskum anda, með þeirri breytingu þó að hann setti hendurnar fyrir sig, snöri líkamanum þannig að hann gæti betur tekið móti árekstrinum við gangstéttina, og allt fór þetta vel. Félagar mínir voru í sjokki, en ég spratt upp eins og fjöður og hélt áfram hlaupi, þeir hlóðu mig lofi og Birgir bað um endursýningu í slow motion, svo tígugleg hefði lendingin verið.
Eftir þetta var hlaup nánast hefðbundið, nema hvað menn voru óvenjuþungir á sér. Sæbrautin valin og við fórum þetta á hörkunni. Ritari stoltur af því að klára hlaup sem virtist ekki fýsilegt í upphafi.
Í potti var tekin ákvörðun um að halda Fyrsta Föstudag 9. jan. n.k. með hátíðlegri athöfn að heimilii verðskuldaðs hlaupara. Ingólfur Margeirsson var að Laugu, sérstakur heiðursmeðlimur Hlaupasamtakanna, forsprakki og forkólfur. Í gvuðs friði - ritari.
31.12.2008 | 15:38
Gamlaárshlaup 2008
Búið var að breyta hlaupaleiðinni - hlaup hófst í brekkunni hjá rússneska sendiráðinu og hefur mönnum þar innandyra sjálfsagt brugðið við að sjá þennan mannsöfnuð fyrir utan hjá sér. Rakettan fór í loftið og þvagan silaðist af stað - Jörundur hafði á orði að þetta væri eins og við upphaf hlaups í Berlín, maður komst ekkert áfram fyrstu metrana. Svo leystist úr þrönginni og menn gátu farið að spretta úr spori.
Það var allt í lagi að hlaupa í Skotapilsi - ekkert of þungt eða íþyngjandi. Það hringlaði í hausnum á Jörundi, hann var með húfu á hausnum sem á var fest eitthvert glingur, auglýsingar fyrir Sjóvá og eitthvað fleira í þeim dúr.
Mér varð hugsað þegar kom út á Nesið að þessu væri í raun lokið áður en það hæfist. Ákvað að hafa hlaupið þægilegt æfingahlaup og bara njóta þess. Á leiðinni var vatn í boði skipuleggjenda hlaups og var ágætt - engin sérstök þörf á einhverju meira í svona stuttu hlaupi. Áður en maður vissi af var komið út á Suðurgötu og þá var bara farið á lensinu tilbaka. Löng biðröð við markið vegna hins mikla fjölda.
Ég vil nota tækifærið og þakka félögum mínum í Hlaupasamtökunum, sem og öðrum hlaupurum, fyrir gott hlaupaár og óska ykkur alls hins bezta á nýju ári. Í gvuðs friði, ritari.
PS - frá ritun pistils hefur komið í ljós að bæði Einar blómasali og Hjálmar þreyttu Gamlaárshlaup ÍR. Er það áréttað hér með, þeir beðnir afsökunar á vanrækslu ritara (líklega hafa þeir verið svona vandlega dulbúnir að ég bar ekki kennzl á þá) - jafnframt því að fært er til bókar hálfmaraþonhlaup Þorvaldar Gunnlaugssonar frá því í sumar sem erifðlega hefur gengið að fá viðurkennt á tímanum 1:45:35. Er þetta afrek hér með límt við nafn hans um ókomna framtíð.
Pistill Ritara | Breytt 1.1.2009 kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.12.2008 | 12:02
Hefur frétzt af hlaupi?
Ritari hljóp síðar sama dag 16,35 km.
Um sunnudag vitum vér það sannast að hlaupið hafi Jörundur og Þorvaldur. Blómasali reyndi að villa um fyrir fólki með því að mæta til Laugar og blanda sér í hópinn, en hann hljóp ekki. Er ritari mætti í útiklefa mætti hann blómasalanum og dr. Einari Gunnari og var umræðuefnið: matur.
Hins vegar eru áform um hlaup í dag kl. 17:30 - stundvíslega. Skráning í gamlaársdagshlaup er hafin á hlaup.is. Muna búningana.
26.12.2008 | 16:29
Íðilfagur Elliðaárdalur - fjölmenni á ferð
Hlaupasamtök Lýðveldisins stóðu fyrir hlaupi á annan dag jóla frá Árbæjarlaug, sem opnaði kl. 12 á hádegi. Mættir til hlaups Ólafur ritari og Þorvaldur. Við tókum góðan túr um dalinn allan, fyrst upp að Breiðholtsbraut austanvert, svo yfir ána og alveg niðurúr og yfir hjá Rafstöð og þaðan aftur upp að Laug.
Ritari eyddi gærdeginum í að svara sms-skeytum frá ónefndum blómasala sem hafði þungar áhyggjur af því hvar hlaupið yrði í dag. Verður það Vesturbæjarlaug eða Árbæjarlaug? Engin niðurstaða. Þar sem ritari ekur síðan sem leið liggur um Miklubraut fyrr í dag í átt í Árbæinn sér hann hóp hlaupara sem er strandaður á umferðareyju við Lönguhlíð. Hann bar kennsl á suma, en sá ekki blómasala og varð mjög hissa. Taldi þar vera kominn hluta Vesturbæjarhópar - en enginn blómasali.
Veður fagurt til hlaupa og því var engin leið að hætta. Ástand gott. Margt í laugu. Aftur hlaupið á morgun, laugardag.
Í gvuðs friði, ritari.
17.12.2008 | 22:09
Fækkar að hlaupum
Þjálfara þótti fámennt að hlaupum í kvöld. Sjálfur var hann glaður og reifur og lét svo lítið að heilsa fólki með formlegum hætti, þ.e. handhristingu (handshake). Svo fámennt var í kvöld, ekki nema fjórtán sálir, að rétt þykir að telja þær upp: báðir þjálfarar, Una, Þorvaldur, Magnús, Bjarni, Ágúst, Sigurður Ingvarsson, Sif Jónsdóttir langhlaupari, Eiríkur, Benedikt, ritari, Denni og Hjálmar. Geysilega samhentur og snaggaralegur hópur. Birgir jógi sást í útiklefa, en taldi sig ekki komast til hlaupa vegna þess að einhver sem hann þekkti væri að spila á fiðlu og...
Veður gott til hlaupa, hiti við frostmark, stillt og hætt að snjóa. Þjálfari gaf út leiðarlýsingu, fara hefðbundið, Þriggjabrúahlaup, fara hægt út og bæta svo í. Sumir lýstu yfir áhuga á að fara styttra. Ritari ákvað að fara fulla vegalengd og var ólmur að hefja hlaupið. Var með fyrstu hlaupurum af stétt. Heyrði að baki sér hæðnisglósur frá ónefndum bankamanni sem fáir vita hvernig lítur út, en þekkja skósólann hans og skónúmer. Hann sagði eitthvað á þessa leið: Nú? Ritari bara fremstur! líkt og hann vildi leggja áherzlu á að það myndi ekki standa lengi. Í framhaldinu fór hann að velta fyrir sér vali á manni ársins og velti upp þeim fleti hvort maður ársins þyrfti ekki að vera hlaupari.
Svo var bara haldið á Sólrúnarbraut, sem búið var að ryðja, öllum til mikillar furðu og gleði. Einhverra hluta vegna lenti þessi hlaupari með Ágústi og S. Ingvarssyni og allt í einu lentur á rífandi blússi, þrátt fyrir að skynsamlegra hefði verið að fara hægt út og auka síðan hraðann þegar hiti væri kominn í kroppinn. Ég gerði semsagt þveröfugt við það sem þjálfari lagði fyrir okkur og galt fyrir það síðar. Rætt var um síðasta Powerade-hlaup sem var ævintýralegt, brjálað rok, björgunarsveitir á fullu um allan bæ að bjarga verðmætum, og 150 brjálæðingar að hlaupa í Elliðaárdalnum. Sigurður lýsti því þannig að hann hefði verið að hlaupa í þvögu fólks og svo hefðu hlauparar bara fokið útúr myndinni, dottið út af brúm og annað eftir því. Menn sem ættu auðveldlega 45 mín. Í 10 km hefðu verið að skila sér á 60. Fyrir utan kuldann. Melabúðar-Friðrik hefði komið skjálfandi af kulda eftir hlaup og eftir klukkutíma í potti hefði hann enn verið skjálfandi af kulda. Þetta eru hetjur! Að vísu hættu margir í miðju hlaupi voru það þeir skynsömu? Hver veit?
Hvað um það, ætt á fullu stími inn í Nauthólsvík á vel ruddri hlaupabraut. Ágúst stefndi á 25 km aðrir á eitthvað styttra. Mig grunar að Magnús og Þorvaldur hafi ætlað Hlíðarfót, eða í mesta lagi Blóðbanka, aðrir voru kappsfullir. Það var fyrst í Nauthólsvík sem ég varð var við hlauparana fyrir aftan mig, Eirík, þjálfara, Hjálmar, Unu Benedikt löngu horfinn náttúrlega. Ég leyfði þeim að ná mér og jafnvel að fara fram úr, farinn að hægja á mér og fann þyngsli og þreytu hellast yfir mig. Á Flönum gerðist hið fyrirsjáanlega: ég var skilinn eftir. En mig brast hvorki þor né þrek, hélt ótrauður áfram, ákveðinn að ljúka Þriggjabrúadæminu.
Bjóst við að hitta Laugahópinn einhvers staðar á þessum kafla, en þau kjósa greinilega að hírast í lauginni í Laugardal og ylja sér í stað þess að fara út og láta gamminn geisa. Út að Spitala, upp brekku sem var óvenjuerfið, ég hafði hlaupara á undan mér í augsýn, leit tilbaka og sá einhverja að brjótast upp brekkuna á eftir mér, gátu verið Denni og Bjarni. Þegar hér var komið var hlaupi nánast lokið, héðan í frá var þetta bara niður í móti. En hundleiðinlegt að vera alltaf einn. Ég velti fyrir mér hvort fólk væri að forðast mig. Og ef svo væri: hvers vegna? Hvað um það, einfalt að láta sig detta niður á Miklubraut, Kringlumýrarbraut og svo Sæbraut. Hér fann ég verulega fyrir þyngslum og þreytu og fannst gott að fá enn vatn í vatnsfonti. Við Seðlabanka náði Bjarni mér, en sneri jafnskjótt tilbaka að ná í Denna.
Nú er komin sú árstíð að menn eru rólegir í potti, það var verið í einn og hálfan tíma, á endanum dúkkaði blómasalinn upp og hafði skoðanir á kvótakerfi og viðskiptakerfi, og rúsínan í pylsuendanum var sjálfur Ágúst, búinn að fara 23 km. Það verður að sýna svona höfðingja þann sóma að staldra við og ræða málin.
Á föstudag verður farið hefðbundið hver þorir?
Í gvuðs friði, ritari.
15.12.2008 | 21:53
Alone again - naturally
Hefðbundið út að Skítastöð - ólíklegir karaktérar fremstir, alla vega hvað þennan hlaupara áhrærir. Við Skítastöð voru gefnar leiðbeiningar, eitthvað sem hét 1, 2, 3 eða eitthvað í þá veruna. Ég veitti því ekki eftirtekt, hljóp bara áfram og elti þar góða drengi eins og Magnús Júlíus, Þorvald og fleiri. Ekki varð ég var við spretti af hálfu annarra hlaupara, nema hvað ég sá Flosa æða fram úr okkur á einhverju sem mætti kalla sprett. Á eftir fylgdu aðrir hlauparar en ég gat ekki gert upp við mig hvort þeir væru að spretta úr spori eða bara að derra sig. Þetta staðfestist á því að ekki varð vart við ónefnda starfsmenn úr bankageiranum fyrr en komið var í Nauthólsvík, þá fyrst siluðust þeir fram úr þessum hlaupara, sem var ekki einu sinni á spretti, lötraði bara áfram innan um tiltölulega metnaðarlitla meðalhlaupara.
Það voru mér vonbrigði að sjá góða drengi koðna niður í Nauthólsvík og fara Hlíðarfót, taldi mig hafa samið um að fara a.m.k. Suðurhlíðar, og ef allt um þryti, Öskjuhlíð. Hér stóðu mál þannig að þeir sem voru í sprettunum voru komnir fram úr mér. Um sama leyti hurfu góðir hlauparar mér og fóru minna farinn veg hjá Gvuðsmönnum. Ég var skilinn einn eftir. mikið var þetta kunnugleg tilfinning! Einhvers staðar mitt á milli metnaðarlítilla og metnaðarmeiri hlaupara. Hvað um það, ég ákvað að gefast ekki upp, Hlíðarfótur var of stutt vegalengd fyrir mig. En ég hafði efasemdir um Suðurhlíðar. Mér leiðast brekkur. En þegar upp var staðið var þetta ekki spurning um hvort ég kæmist þessa leið, þetta var spurning um hvort sálarstyrkurinn væri nægur til þess að bera mig áfram. Það kom mér á óvart hversu auðveldlega ég leysti þessa þraut þótt einn færi: skeiðaði vakurlega niður hjá kirkjugarði, út að Kringlumýrarbraut og svo upp brekkuna löngu og erfiðu. Sló hvergi af og lenti í hagléli við Perlu. Niður í myrkri og svo hefðbundið tilbaka.
Eftirtekt vakti að hvarvetna sem ég fór stöðvuðu menn ökutæki sín og hleyptu mér yfir götur, m.a.s. strætisvagnar staðnæmdust. Mér varð á að hugsa að þeir mistækju mig fyrir Flosa bróður, sem hleypur eins og sá sem Valdið hefur í Vestbyen, veifandi hvítklæddri hendi og nýtur óskoraðrar aðdáunar hvar sem hann fer. Já, maður dylst vel inni í í balaklövunni...
Teygjur í Móttökusal. Hitti fljótlega hina hlauparana, sem höfðu farið út að Sléttuvegi á þessum undarlegu sprettum og svo beinustu leið tilbaka, einkennilegt hlaup. Ekkert spurðist til Ágústs, sem kvaðst ætla 20 km í dag. Aðspurður um svo langa vegalengd á mánudegi sagði hann: Ég hljóp ekkert í gær! Pottur vel mannaður. Mikið rætt um gamlar uppeldishefðir, gamla kennara, sem lögðu í einelti og gáfu nemendum viðurnefni. Einkum íþróttakennara. Aðferðir þeirra þættu ekki góð latína í dag. Einhver hafði á orði: við skulum vona að kennarastéttin hafi eitthvað skánað síðan... Það góða við pott er að allt sem þar er sagt er sagt í aaaaaalgjörum trúnaði og fer ekki lengra. Þess vegna eru menn hreinskilnir í potti.
Næst hlaupið á miðvikudag. Er ástæða til þess að senda út leitarleiðangra eftir blómasölum og jógum? Það verður gert ef þeir fara ekki að sýna sig. Í gvuðs friði, ritari.
10.12.2008 | 21:20
Alvitlaust veður
Sumir taka það sem vott um geðbilun þegar menn fara út að hlaupa í alvitlausri suðaustanátt, einkum þegar hlaupið er með storminn í fangið. Þetta tökum vér félagsmenn í Hlaupasamtökum Lýðveldisins sem merki um andlegt og líkamlegt heilbrigði. Enda mæta aldrei fleiri til hlaupa en þegar veður er brjálað eins og það var í kvöld. Svo skemmtilega vildi til að ritari gleymdi hlaupabuxum og varð að skjótast heim til að sækja þær. Þorvaldur bauð fram buxur sem Vilhjálmur hafði hlaupið í, en aðspurður kvaðst Þorvaldur ekki geta fortekið að hann hefði á einhverjum tímapunkti lánað buxurnar Framsóknarmanni. Af þeirri ástæðu var boðið afþakkað. Þegar ritari kom tilbaka var blómasalinn mættur. Hann spurði hvað hefði gengið á. Ritari sagði það sem hann vissi sannast í málinu. Nú?, sagði blómasalinn, gleymdi konan þín að setja hlaupabuxurnar í töskuna þína? Allir helztu hlauparar Samtakanna voru mættir og því þarflaust að fara með nafnaþuluna. Skal þess þó sérstaklega getið að Nesverjar voru mættir í ljósi þess að lokað er í laug á Nesi. Þjálfarar mættir og lögðu til að farið yrði hefðbundið Þriggjabrúahlaup.
Veður var samkvæmt almannaskilningi óhagstætt til hlaupa, hvöss suðaustanátt og rigning. En slíkar aðstæður örva félaga í Hlaupasamtökunum til dáða. Lagt af stað á hógværu nótunum eins og venjulega. Það sem eykur á erfiðleika er myrkrið, mikil óvissa fylgir hlaupum, því að myrkrið geymir margan leyndardóminn. Og óvissa ríkir um hvar maður stígur niður fæti. En við létum skeika að sköpuðu, fremstir fóru gamalkunnir kappar, Benedikt og Eiríkur, Björn og Flosi, litlu aftar við minni spámenn, ritari, Helmut, blómasali og þannig áfram. Fljótlega fór lífernið að segja til sín og ritari seig aftur úr hraustari mönnum. Einhverra hluta vegna ílentist Helmut með honum, vafalaust af einhverri aumingjagæzku. Blómasalinn skeiðaði áfram eins og herforingi, dr. Jóhanna var þar einnig, og maður sá fólkið bara hverfa (þó ekki í reykjarmekki).
Við Nauthólsvík náði ég blómasalanum, þar var einnig Rúnar mættur. Hann bað okkur fyrir blómasalann og að skilja hann ekki eftir. Nei, nei, hér er enginn skilinn eftir. Hér vorum við Helmut, blómasalinn og ritari samferða allir svolítið þungir á sér. Það skal viðurkennt að þyngstur var hugurinn og tók það mikinn sálarstyrk að þrauka og halda áfram yfir fyrstu brúna. Auk þess einhver vöðvabólga við mjaðmir og mjóbak sem gerði manni erfitt um vik. Það hvarflaði að mér satt að segja að stytta og fara Suðurhlíðar en þá hugsaði ég til brekkunnar og vissi sem var að hún var engu léttari en brekkan hjá Borgarspítala. Þannig að það var bara að halda áfram. Og brekkan við Spítalann olli engum vonbrigðum: hún var þrælerfið! En þegar upp var komið var þetta eiginlega búið. Þá vorum við lausir við vindinn og lausir við landhækkun, nú var bara hlaupið á jafnsléttu eða niður í móti. Hér skildi Helmut okkur líka eftir og hvarf. Það er merkilegt hlutskipti að lenda alltaf með blómasalanum á hlaupum, þetta virðast vera manni ásköpuð örlög.
Það var rætt um eldhúsinnréttingar, uppþvottavélar og önnur heimilistæki, verð á vörum, verðhækkanir, sparnað, fjárfestingar, - en líka svolítið um mat. Það var farið alla leið niður á Sæbraut og þaðan vestur úr opinberlega staðfesta hlaupaleið, 13,6 km. Enn streymir kalt vatn úr drykkjarfonti á Sæbraut sem svalar þyrstum hlaupurum. Á seinni hluta leiðarinnar voru hlauparar orðnir þreyttir og fóru hægt yfir, en það var allt í lagi. Ég var stoltur yfir því að hafa yfirleitt nennt að fara þessa leið og haft úthald til þess. Nú er upp runninn tími jólaboða, mikið borðað, mikið drukkið og mikil óregla í gangi. Ekki einmitt tíminn til að léttast. Svo tekur Þorrinn við og enn meiri matur og meira sukk. Því er mikilvægt að eiga þess kost að fara út og spretta úr spori. Okkur leið vel að hlaupi loknu, hittum fyrir Bjössa, Helmut og dr. Jóhönnu, þau hófu strax að henda gaman að vatnavöxtum í Móttökusal Laugar sem þau sögðu að fylgdu ritara. Hann kvartaði yfir andstyggilegri framkomu í sinn garð. Fleiri í potti. Blómasalinn hitti Sæma rokk í heitasta pottinum og átti langt spjall við hann. Nú er sem sagt um að gera að missa ekki dampinn og halda áfram að hlaupa og reyna að halda í við sig í mat sé þess nokkur kostur.