Séra Guðbjörn gengur um Herbertsstrasse - 222. þáttur

Valinkunn gáfu- og góðmenni mætt til hlaups á sunnudagsmorgni: Ó. Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Einar blómasali og ritari. Flutt ræða á tröppu er laut að innihaldsríku símtali siðastliðinn miðvikudag og snertir okkar elskaða bróður, skoðanahafa og álitsgjafa sem enn er saknað. Magnús hafði ekki mikinn tíma til hlaupa í dag vegna kristilegra kærleiksverka í þágu kirkju og kristni í landinu; Kirkjuráðsfundur að morgni. Einar með eldhús í rúst og vantaði nýjar hugmyndir um mat sem hægt er að elda án eldhúss - ritari gaf honum nokkrar uppskriftir frá seinasta ári þegar hann var i sömu stöðu.

Við vígðum nýjan hlaupastíg á Ægisíðu sem liggur meðfram götunni og er beinn og breiður. Þar sagði frændi minn okkur sögur af fundi þeirra skólabræðra úr Reykjavíkur Lærða Skóla þar sem koma saman ljóðskáld og læknar. Sögurnar af fundinum þeim nægðu allt hlaupið. Af meðfæddri smekkvísi mun ritari ekki flytja þær sögur hér.

Rætt um byggingaframkvæmdir í miðborginni, þar sem turnar munu standa tómir, og einn þó sýnu frægastur, sá er skyggir á leiðarljós Sjómannaskólahússins fyrir innsiglingu í Reykjavíkurhöfn og er eitt snilldarbragð skipulagsyfirvalda. Höfðaborgarturn. Draumsýn þess framsýna snillings Villa Þ. Ja, ef við ættum ekki svona afbragð manna - hvar væri íslenzk þjóð  stödd?

Spáð kosningum fyrr en siðar og hreinsun í ríkisstjórn og Seðlabanka. Jafnvel grandvörustu menn og íhaldssamir höfðu gífuryrði um ástand mála í pólitíkinni.

Óvenjumargt var í umfjöllun dagsins og því þurfti að staldra við oftar en vanalega og hlaup gerði því ekki það gagn sem það stundum gerir þegar það er samfellt. Nú var það andlega hliðin sem naut forgangs. Þar sem við erum góðmenni stoppuðum við á Hlemmi og aðstoðuðum brezkan túrista við að finna staðsetningu sína samkvæmt korti. Viðkomandi var þakklátur - við sáum þetta sem innlegg í hina alþjóðlegu baráttu.

Þekktir snillingar í potti. Raunar varð umræðan svo yfirgripsmikil og djúptæk að menn stöldruðu óvenjulengi við. Hér flutti venju samkvæmt Ó. Þorsteinsson aftur sögur úr hlaupi með nánast óbreyttu orðalagi, þó greindu glöggir menn að stöku orði hafði verið hnikað til vegna lögmála munnlegrar geymdar. Baldur Símonarson sagði að fjöldi manna hefði komið að máli við sig og spurt hver þessi Ólafur Þorsteinsson væri og hvernig honum tækist að segja sögur þannig að ekki stæði steinn yfir steini og ekkert væri rétt eftir haft. Hvernig hann gæti verið fulltrúi Reuters... Ouch!

Sunnudagar eru engu líkir og fara langt með að hlaða "batteríin" hjá manni fyrir vikuna. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband