Hlaupið í vorblíðu - að hausti - Fyrsti Föstudagur

Það var brostin á vorblíða þegar hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins mættu til hefðbundins föstudagshlaups föstudaginn 7. nóvember 2008 - sjálfan Byltingardaginn. Það rifjaðist upp fyrir Ritara að hér áður fyrr voru menn vanir að detta íða á Byltingarafmælinu, en nú eru menn bara heilbrigðir og fara út að hlaupa, allir búnir að gleyma Lenín og Trotskí. Jæja, hvað um það, mættur töluverður fjöldi hlaupara, Flosi, Helmut, Þorvaldur, Birgir meiddur, Karl, Magnús, dr. Jóhanna, Einar blómasali, Bjarni, Bjössi, Frikki og Rúna, Ósk og Hjálmar, S. Ingvarsson, ritari, Benedikt. Menn dáðust að Bigga í útiskýli sem hafði skellt sér í Laugina með Magga til þess að liðka sig upp fyrir hlaup, en var greinilega sárþjáður og hefur líklega þurft ofurmannlegan kraft til þess að manna sig upp í hlaup.

Það er dagamunur á fólki. Þeir sem voru sprækir á miðvikudag eða mánudag og skildu ritara eftir, voru það ekki í dag. Þannig að ritari var í góðu, hröðu kompaníi framan af. Ekki verður orðum eytt að hraðafíklum eins og Benna og Bjössa - sem bara hurfu. Og segir ekki frekar af þeim á þessum blöðum, nema hvað menn furðuðu sig á því hver væri ástæðan fyrir hlaupum þeirra, það er bara gefið í og ekkert sagt! Meðan aðrir hlaupa til þess að geta átt góðan selskap og menningarleg samtöl við félaga sína. Maður skilur ekki svona. Nú er búið að malbika hjólastíginn á Ægisíðu og virðist það ægileg framkvæmd og nær alla leið inn í Nauthólsvík.

Magnús sagði sögu af manninum í London sem var að ræða efnahagsástandið á Íslandi. Þetta væri eins og skilnaður. Þá sagði vinur hans: Nei, þetta er verra, þetta er eins og að missa helminginn af eignum sínum og samt sitja uppi með konuna! Líklega er þetta brezkur húmor fínstilltur sem við eigum erfitt með að skilja. Farið hefðbundið um Hi-Lux, Veðurstofu og Hlíðar. Friðrik var með okkur og Þegar hlaup var gert upp kom í ljós að meðaltempó þeirra fremstu var 5:06 - en líklega hef ég verið á 5:15.

Skammur pottur. Fyrsti Föstudagur. Mætt heima hjá Helmut og dr. Jóhönnu. Þar var fyrir miðill þýzkrar ættar, sjáandi og árulesandi. Birgir sat og gutlaði á gítar, spilaði Bubba og Megas við dræmar undirtektir. Blómasalinn mætti með "bjórkassa" - en þessi skilgreining hans skreppur mjög saman eftir því sem lengra líður, nú er "bjórkassi" kassi með sex flöskum af sunnlenzkum bjór. Þarna vorum við trakteruð á öli og rauðvíni og loks var borinn fram málsverður, lasagna. Um það er Ritari var að búast til brottferðar sagði sjáandinn: "Ég sé að þessi maður er innræktað kvikyndi, drullusokkur og mykjudreifari - ef ekki Framsóknarmaður líka!" Ritara hlýnaði um hjartarætur er hann heyrði þessa nákvæmu greiningu.

Er út var komið í haustmyrkrið og svalann  hugsaði ritari sem svo: Það eru forréttindi að búa á Íslandi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband