Sannleikurinn kemur í ljós

Jörundur var saklaus. Jörundur var sárreiður. Ekki nóg með að honum væri að ósekju kennt um að breiða út orðróm um háan aldur Ágústs. Heldur var reynt að hirða af honum titilinn "Aldursforseti". Pistill sem fjallaði um Berlínarmaraþon í Vesturbæjarblaði nefndi hann ekki einu nafni - en snerist að mestu um hlaupara sem var fjarri góðu gamni í Berlín. Jörundur var ósáttur við að bera fulla sök á því að hafa flæmt Vilhjálm Bjarnason frá hlaupum, þegar Ólafur ketilsmiður bæri fulla sök á því, étandi upp alla vitleysu sem sögð væri og margfalda hana í frásögnum sínum. Jörundur geisaði í Brottfararsal og var reiður. Það átti eftir að versna.

Mánudaginn 24. nóvember var fjöldi góðra hlaupara mættur til hlaups hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Þjálfararnir Margrét og Rúnar. Flosi, Bjarni Benz, Bjössi, Helmut, Jóhanna, júngkærinn Tumi, Una, Ósk, Friðrik kaupmaður, Eiríkur, Benedikt, Jörundur, ritari, Magnús tannlæknir, Þorvaldur og ég veit ekki hvað og hvað. Ekki má gleyma próf. Fróða, eða Ólöfu.

Þetta var sannast sagna vandræðalegt. Jörundur geisaði. Rúnar roðnaði. Ágúst beygður. Menn reyndu að bera sig vel og bera klæði á vopnin, fremstur í þeirri viðleitni var ritari Hlaupasamtakanna, þekkt góðmenni í Vesturbæ, líkt og frændi hans, Ó. Þorsteinsson, Formaður Vor til Lífstíðar, sem leggur sig fram um að leggja inn gott orð hvar sem hann kemur. Á endanum varð stillt til friðar og leit út fyrir að hlaup gæti hafist. Fara út að Skítastöð og svo út á Nes. Einhver nefndi Bakkavör.

Ritari hefur verið í hvíld sökum meiðsla og vildi fara varlega. Það fólst aðallega í því að fara hratt með fremstu mönnum og farið á 4:50 út í Skerjafjörð. Ekki var stoppað þar heldur haldið á Nes á sama hraða. Ég með Bjössa, dr. Jóhönnu, Helmut - Björn uppfullur af sögum sem vöktu kátínu og gleði. Hlaupið í myrkri. Mættum Neshópi en þekktum fáa sökum myrkurs. Það var hrópað "Hæ!" í myrkrinu - við vonuðum að þar færu vinir á ferð. Geysilega hratt tempó hér.

Verður farinn aumingi? Verður farið lengra? Nú vildi svo til að enginn blómasali var í hlaupi og því ekki mikið um úrtölufólk, þannig að það var ekki undan því vikist að fara á Nesið um Flosaskjól. Áfram hratt. Nú dró í sundur með ritara og fremstu hlaupurum - þar var alvörufólk á ferð. Sama hraða tempóið út að Eiðistorgi, ritari illa haldinn af innvortis meiðslum, en beitti sjálfan sig aga og hélt áfram, fór bara hraðar, og náði fremsta fólki við Bakkavör. Þar var ákveðið að fara sex spretti, ég gaf lítið fyrir það, lullaði upp einu sinni og svo áfram tilbaka,  hinir munu eitthvað hafa gutlað í brekkunni. En fyrsta lögmál hlauparans er að fara vel með sig. Prófessorinn mun hafa haldið áfram út í myrkrið á Nes þar sem hann hvarf. Þarna mætti Jörundur ásamt með Bjarna Benz seint og um síðir, stöðvaði hlaupara í miðri brekku og hélt mikinn reiðilestur yfir þeim: í fyrsta lagi fyrir að hlaupa alltof hratt og skilja hann alltaf eftir einan; í öðru lagi fyrir andróður og andstyggilegheit gegn Vilhjálmi Bjarnasyni, sem væri sérstakur vinur hans. Kvaðst hann vera þess fullur hugar að hætta að hlaupa með Hlaupasamtökunum.

Um afdrif og vegalengdir var fátt rætt í potti, aðallega sagðar sögur. Þar sagði m.a. Ágúst söguna af hlaupinu fræknlega kringum Sveifluháls. Sagan hermir að Helmut, hirðirinn góði, hafi mætt á svæðið á fjallajeppanum aldna og treysti sér ekki til að stíga út úr bílnum sakir veðurs, en óveður geisaði á þessum útkjálka. Þess í stað ók hann af stað í leit að Ágústi. Fljótlega sá hann spor eftir smávaxna veru sem hann taldi víst að væri prófessorinn. Hann fylgdi slóðinni í hálftíma áður en hann kom að snjóskafli. Þar enduðu sporin. Honum þótti þetta grunsamlegt. Hér var "aðeins meira logn" eins og menn segja á Íslandi, í stað þess að segja "aðeins minna rok". Helmut fór út úr jeppanum og hóf að grafa í skaflinn. Ekki hafði hann grafið lengi er hann fann prófessorinn skjálfandi og titrandi af kulda. "Ég fauk, elskan mín! Ég fauk, elskan mín!" Helmut dustaði snjóinn af prófessornum og hvatti hann til þess að halda áfram hlaupinu og ljúka því. Sem hann og gerði með glæsibrag. Að 42,8 km hlaupi loknu þáði hann góðgerðir, heitt kaffi og kökur hjá hirðinum góða. Síðan hvíldi hann á sunnudeginum með því að hlaupa litla 34 km í Heiðmörk.

Eins og ævinlega var stundin í potti dýrmæt, staldrað við um stund, sagðar sögur og planlagt fyrir jólahátíð Samtakanna, sem allt eins gæti verið haldin hátíðleg í heimahúsi - meira um það seinna. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband