Ólafur ketilsmiður gerist umboðsmaður

Hortuga stúlkan var mætt aftur í dag, frú Ólöf spurði mig hvort þetta væri hortuga stúlkan með skoðanir. Já, þetta var hún. Einhver sagði að hún væri fornleifafræðingur. Sama er mér, hún er samt hortug eins og Guðjón og með meiningar. Dr. Friðrik var mættur, sem og Þorvaldur og Magnús Júlíus tannlæknir. Við helztu strákarnir vorum í útiklefa, ég, Flosi, Bjarni Benz, Helmut, og einhverjir fleiri. Svo situr maður í Brottfararsal og bíður þess spenntur að geta byrjað að atyrða innkomandi hlaupara, hver dúkkar ekki upp úr neðra nema Björn Nagli... Ég gapti af undrun. Hvað er í gangi? Björn sagði: "Ég var farinn að sakna stundanna sem ég átti með honum Ágústi, samtalanna..." Kjálkinn á mér nálgaðist hnéð óðfluga. Ég lét Björn vita að svona létu karlmenn ekki út úr sér og að ég óttaðist að hann væri að láta konuna í sér ná yfirhöndinni. Honum virtist standa á sama. "Nagli eins og þú" sagði ég. "Veiztu hverju þú ert að fórna? Orðspori sem hefur tekið þig mörg ár að byggja upp, sögum, ímyndarbyggingu, mataræði..." Þetta hafði engin áhrif. Maðurinn virtist einfaldlega sakna Gústa. Téður Augustus kom seint og missti af þessum merkilegu samtölum í neðra, en hann virtist algjörlega grunlaus og virtist sakna einskis. Þvert á móti var hann uppblásinn, meðvitaður um sjálfan sig og laus við allt sem heitið getur auðmýkt.

Aðrir mættir: Birgir, Margrét, Una, Rúnar, dr. Jóhanna, Friðrik kom, og Eiríkur, en ekki er ég viss um að Benedikt hafi verið mættur, þó gæti það verið misminni, hann hleypur hvort eð er svo lítið með okkur, hann hleypur bara á undan okkur. Eitt er víst, engan blómasala var að sjá í hlaupinu. Hann kvartar stundum yfir því að ekki sé minnst á hann í pistlum. Ef ekki er minnst á hann er það vegna þess að hann mætti ekki í hlaup og verðskuldar ekki að á hann sé minnst. Hann mætti ekki í hlaup dagsins og því er ekkert um hann fjallað hér. Punktum. 

Þjálfararnir eru orðnir mjög frjálsir af sér, sem er hreinn bónus með góðu skapi meðhjálparans í Neskirkju, sem er búinn að að geisla af gleði tvo hlaupadaga í röð. Þeir leyfðu mönnum að hlaupa frjálst, þ.e.a.s. gáfu ekki út leiðbeiningar, það var ekkert sagt, bara hlaupið af stað. Menn æddu af stað út í myrkrið. Það var nú svolítið óþægilegt að æða bara svona af stað án þess að vita hvert ætti að fara, hversu hratt eða hvort manns biðu sprettir á leiðinni. Nú er orðið ljóst að nýi stígurinn er hjólastígur eingöngu, og ekki fyrir fótgangandi eða -hlaupandi. En það vantar lýsingu á Ægisíðu, þetta gengur ekki lengur, maður getur hlaupið niður aðra fótgangandi eða -hlaupandi í myrkrinu. Ef það er flugvöllurinn sem er málið á bara að flytja hann: við getum ekki unað við þessi skilyrði lengur að vera að paufast þetta áfram í myrkri.

Ágúst var með hlutina á hreinu. Ólafur ketilsmiður var búinn að upplýsa á innraneti Samtakanna að blaðakona á Fréttablaðinu hefði haft samband til þess að forvitnast um hlaupara sem ætlaði að þreyta hlaup í Sahara, hvort það gæti verið rétt. Ólafur ketilsmiður svaraði: "Þetta er rétt. Ég er að þjálfa hann." Á eftir kom frekari upplýsingagjöf um þurra sanda, lítið af vatni, vegvillur, bedúínatjöld og leðurblökur. Blaðakonan varð svo impóneruð að hún ákvað að hafa viðtal við þennan hlaupara. "Hvernig næ ég sambandi við hann?" "Já, bara róleg", sagði ketilsmiðurinn. "Öll sambönd við hann fara í gegnum mig." Varð þetta til þess að Ágúst ákvað að gera Ólaf að umboðsmanni. "Þú sérð um að bóka flugferðir, hótel, þú þekkir þetta svo vel. Svo sérðu um almannatengsl, birgja, sponsora, auglýsingar og þess háttar." "Já," sagði ég, "hvað með kommissjón? Greiðslur?" Ágúst varð hugsi um stund, en svo blasti svarið við og virtist augljóst: "Það tekurðu upp við gjaldkerann, hana Ólöfu. Þú gerir það bara eftir á."

Hér var hersingin stödd á Ægisíðu og var farin að slitna ærið mikið sundur, enda óljóst hvað ætti að gera í hlaupi dagsins. Ágúst var að reyna að rekrútera fólk í langt en varð ekki ágengt með það, nema hvað honum tókst að teygja Flosa inn í Fossvogsdal. Aðrir fóru ýmist Blóðbanka, Suðurhlíðar að Þriggjabrúahlaup. Það var farið á fáránlegu tempói inn að Borgó - 4:50 - maður skilur ekki svona. Margrét: Jæja, við hægjum á okkur á eftir. "Á eftir" kom aldrei - það var ekkert hægt á. Ég fór upp brekkuna hjá Borgarspítala með nokkrum góðum, hún er erfið, svolítið áþekk Suðurhliðarbrekku. Maður er alveg búinn þegar upp er komið. Þar tók fólk upp á því að svindla, stytta sér leið, það er ekki gaman að horfa upp á þjálfara svindla, það er svolítið slæmt fyrir móralinn. Fólk þarf að hugsa um svona hluti! Vera fyrirmynd!

Fram-heimilið er náttúrlega alltaf svoldið krítískt, maður heldur niðri í sér andanum eins og verið sé að fara hjá Vogastapa, en þetta fer að lagast, fljótlega verður víst búið að sameina Fram einhverju íþróttafélagi í útkjálkabyggðum höfuðborgarinnar og þá verður jarðýta sett á ósköpin og maður verður laus við þetta. Hér var hópurinn farinn að þéttast nokkuð og þeir sem höfðu verið á eftir okkur en ætlað sömu leið náðu okkur. Hér fór ritari að síga aftur úr. Ég er slæmur í mjöðmum og á erfitt með að beita mér af fullum krafti, hér er á ferðinni eitthvert sambland af grindargliðnun og föðurlífsbólgum. Við þessu er ekkert að gera annað en halda áfram að hlaupa og kveljast.

Farið niður Kringlumýrarbraut og niður á Sæbraut. Þar er hlaupið í myrkri og alltaf hætta á að hlaupa niður fólk, eða reiðhjólafólk sem hjólar á ljóslausum fákum. Varð samferða Rúnari á þessum kafla og til loka hlaups, hann hafði orð á því að þetta væri helvíti rennilegur hópur (ekki 100% viss um að hann notaði h-orðið, en það hljómaði þannig). Á Sæbraut dróst þessi hlaupari aftur úr vegna meiðsla sinna, en það var allt í lagi, rætt um horfur í málefnum launamanna hjá ríkinu og um húsbyggingar við Skúlagötu - sem brátt verða orðin draugahús.

Ekkert óvænt eftir þetta. Teygt vel og lengi í Aðkomusal Laugar Vorrar og rætt um lyftingar og hnefaleikakeppnir. Björn sagði ýkjusögur. Birgir spurði hvað ég ætti í bekkpressu, ég hafði ekki svar við því, enda sá ég ekki hvaða máli það skipti.

Upp er komin hugmynd um jólahlaðborð í Turninum, sem mun vera framlag Kópavogsbúa í typpasamkeppni tveggja sveitarstjórnarmanna íhaldsins á höfuðborgarsvæðinu. Hitt framlagið gefur að sjá í Höfðatúni, ófullgerður turn sem stendur höfundi sínum til ævarandi skammar og háðungar. Hugsa sér að mönnum skuli leyfast að leika sér svona með peninga okkar skattborgara og alltaf skulum við vera nógu vitlaus til þess að kjósa þetta lið aftur og aftur. Ja svei því. En við vorum víst að tala um jólahlaðborð... Dagsetning kemur síðar.

Ágúst fer í viðtalið í fyrramálið. Ólafur ketilsmiður er búinn að preppa hann og undirbúa svör. Svo er bara að sjá hvort hann kemur þessu rétt frá sér. Þar verður sagt í þaula frá Hlaupasamtökunum, frá Aðalritara, blogginu, Einari blómasala, Villa, Ó. Þorsteinssyni, og ef prófessorinn fer bara ekki á taugum þá á þetta allt að skila sér á síðum Baugsmiðla, sem eru eitt framfarasinnað slekti. Ég er mjög spenntur. Eftir þetta liggur veröldin flöt fyrir okkur. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband