Menning á föstudegi

Félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins sakna þeirra sælu tíma þegar þeir nutu leiðsagnar bróður þeirra og vinar, Vilhjálms Bjarnasonar, um völundarhús nútímalistar á föstudagshlaupum, þegar staldrað var við í listhúsum og listin drukkin í sig og útskýrð af fágun, næmni og innsæi. Og horft framhjá því þegar okkar minnstu bræður spurðu: "Ætlar málarinn ekki að klára myndina?" eða: "Þetta er eins og ljósmynd..." Nei, nú eru þeir tímar liðnir og við megum hlaupa hnípnir um velli og grundir án þess að eiga minnsta möguleika á því að njóta listar á föstudögum.

Í útiklefa var lýst vonbrigðum með blaðamannafund ríkisstjórnar síðdegis, menn bjuggust við hreinsun í Seðlabanka, brottrekstri ráðherra og umsókn um aðild að ESB. Nei, það var bara rætt um barnabætur og annað þess háttar sem nýtist ekki miðaldra háskólafólki á hlaupum. Það bar til tíðinda að Hjörleifur var mættur eftir langa fjarvist, en það sást ekki á honum að hann hefði sleppt einum degi úr. Aðrir: Ágúst, Bjarni, Flosi, dr. Jóhanna, Einar blómasali, Magnús, Þorvaldur, Benedikt, Eiríkur og ritari.

Á föstudögum er farið hefðbundið. Ekki var brugðið út af þeirri venju í þetta skiptið. Nema hvað Þorvaldur kaus að leiða hópinn um bakgarða í 107 af einhverri einkennilegri ástæðu, því ekki kallaði veðrið á afbrigði. Það var fínt veður, hægur vindur, hiti um 2 stig, og slydda, eða hundslappadrífa, eins og dr. Jóhanna vildi meina.  Henni varð tíðrætt um Flanir, og jafnframt um mann sem brá mjög þegar hann heyrði að það ætti að heyja kappleik á gervigra svelli. Ritari, verandi uppfræðandi og sérhæfir sig í fullorðinsfræðslu, var með smá fullorðinsfræði á leiðinni út að flugvelli og ég veit að félagar mínir voru mér þakklátir fyrir fróðleik og skemmtan, að ekki sé talað um gáfur og lærdóm.

Einhver uppskipting var í hópnum, en ekkert til að hafa áhyggjur af. Dagsformið er mismunandi á mannskapnum, sumir eru þreyttir, illa sofnir, illa fyrirkallaðir - allt hefur þetta áhrif á frammistöðuna dag hvern. Þannig náði ritari að hanga lengi vel í frambærilegum hlaupurum, Þorvaldi, dr. Jóhönnu, Hjörleifi og fleiri, en endaði með Einari blómasala á Sæbraut. Það var allt í lagi. Við ræddum um matargerð og bjórtegundir. Nú er aðeins drukkin innlend framleiðsla.

Ritari gat aðeins gert stuttan stanz í potti, því að menning beið hans. Það var farið á Hart í bak - frábært leikstykki Jökuls Jakobssonar, þar sem öldungurinn Gunnar Eyjólfsson á eftirminnilega innkomu í hlutverki strandkapteinsins Jónatans. Frábær skemmtun og gefandi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband