On a slowboat to China

Fæst orð hafa minnsta ábyrgð. Þetta eru vísindi sem við félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins klikkum á aftur og afftur.  Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Menn eru misjafnlega viðkvæmir fyrir því sem sagt er - virðast ganga fram af hörku og ryðja úr sér formælingum, en eru í raun viðkvæmar og meyrar sálir. Um þetta ræddum við félagarnir í útiklefa af innlifun og innsæi, að ekki sé talað um mannþekkingu. Í reynd eru Samtökin uppfull af velmeinandi góðmennum, sem stundum eru misskilin.

Venju samkvæmt var vel mætt í miðvikudagshlaup  enda er jafnan hlaupið langt á miðvikudögum, þessir: Flosi, Ágúst, dr. Jóhanna, Benedikt, Eiríkur, Birgir, Björn, Bjarni, báðir þjálfarar, Ósk, Þorvaldur, Magnús Júlíus, Ólöf og kona sem ég þekki ekki en hafði sig töluvert í frammi og hafði skoðanir á mörgum hlutum, hortug eins og Guðjón.

Dagsskipunin: hægt út að Dælu. Veður þolanlegt, 4 stiga hiti, vindur á austan, í fangið á Sólrúnarbraut. Það er nokkurn veginn hægt að afgreiða þá Eirík og Benna strax, þeir hurfu og segir ekki frekar af þeim. Það sætir furðu að þegar menn eiga þess kost að hlaupa með gáfuðu og skemmtilegu fólki sem er uppfullt af fróðleik og skemmtun þá kjósa þeir að æða áfram án þess að það þjóni nokkrum tilgangi og missa af allri skemmtuninni - því að hana vantaði svo sannarlega ekki í kvöld. Hver er tilgangurinn með svona vitleysu? Getur einhver frætt mig um það?

Fólk fór nokkurn veginn eftir fyrirmælum þjálfara, en mælst var til þess að farið yrði hægt. Það gekk nokkurn veginn og héldu menn aftur af sér. Nú er orðið svo dimmt á hlaupatíma að það er beinlínis til trafala og hættir manni við að rekast í næsta mann vegna skammsýni. Einhvers staðar á Ægisíðu sagðist Ósk vilja segja okkur hneykslanlega sögu - en að hún mætti alls ekki fara lengra. "Nei, sagan staðnæmist í þessum hópi - hér ríkir aaaalgjör trúnaður!" hrópaði ritari. "Nú, er Ólafur hér? Þá er vissara að þegja," sagði Ósk. Fólk var náttúrlega algjörlega stúmm yfir svona framkomu, vera að veifa safaríkri sögu framan í söguþyrstan hóp, og draga agnið svo tilbaka. Við þetta var ekki unað og urðu almenn hróp í hópnum, þar til Ósk lét undan og sagði okkur afar djúsí sögu sem ekki verður sögð hér - enda gengi það gegn markmiðum Hlaupasamtakanna - Þeir sem hlaupa, þeir frétta. Reuter sefur aldrei.  

Steðjað áfram í myrkrinu. Einhverjir fóru Hlíðarfót. Birgir fór stutt enda ætlar hann að fara í Poweradehlaupið á morgun. Aðrir ætluðu Þriggjabrúahlaup, en Flosi, Ágúst og ritari voru einbeittir í að fara langt, Goldfinger, jafnvel upp að Stíbblu, og helzt af öllu Heiðmiörk. Leiðir skildi á réttum stöðum. Við félagar mættum Laugahópi í nokkrum skömmtum í Fossvogi, en það var dimmt svo að við þekktum aðeins Ingólf geðlækni. Við ræddum ástand mála í Lýðveldinu og höfðum áhyggjur af geðheilsu og andlegu stabílíteti leiðtoga vorra og veltum fyrir okkur hvort ekki væri tímabært að fara að hvíla mannskapinn og leiða úthvílda leikmenn til hásætis, sem hefðu til að bera andlegt atgervi, auðmýkt, sýn og skilning á markmiðum og leiðum til þess að geta með árangursríkum hætti leitt okkur út úr þeim vanda sem þjóðin er stödd í. Ef við ætlum að halda áfram að tilheyra samfélagi þjóðanna verðum við að axla ábyrgð og sættast við nágranna okkar. Við getum ekki haldið áfram að koma fram af hroka, fyrirlitningu og yfirgangssemi. Bretar eru vinaþjóð sem við verðum að sættast við. Það er jafnvel mikilvægara en að sverma fyrir ESB. Bretar eru líka sanngjarnir heiðursmenn sem við getum treyst að munu ekki setja okkur skilyrði sem ekki er hægt að lifa með.

Jæja, hvað um það. Flosi, sem hafði ákafast heimtað að fá hlaup á dónalegar sveitarfélagaslóðir yfirgaf okkur Ágúst í Fossvoginum við Víkingsvöllinn og ákvað að fara hefðbundinn 69, sumsé sleppa brekkunni góðu. Við Ágúst urðum mjög hneykslaðir á þessu framferði og þusuðum um það upp alla brekkuna. En um það leyti leið okkur svo vel að við gleymdum allri hneykslan og héldum áfram. Ég minnti Gústa á að athuga með húninn og fylgdist með honum þegar hann hljóp upp að húsinu, en ég held hann hafi ekki tekið í húninn. Áfram yfir í Mjóddina undir Breiðholtsbrautina, framhjá Olísstöðinni og út Stekkjarbakkann og niður í Ellilðaárdalinn. Ég var án vökva og varð hugsað til hlaupa sumarsins þegar við stoppuðum við benzínstöðina og bættum á okkur, það var gjarnan eftir Kársnesshring. Maður varð nostalgískur og fór að hlakka til sumars.

Ef sannleikurinn þarf endilega fram að koma var maður þungur á sér og naut þess ekkert sérstaklega að hlaupa, Gústi virtist plumma sig vel og hafði aðeins áhyggjur af því að hlaupið yrði í styttra lagi. 19, sagði hann áhyggjufullur. Það þyrfti að vera nær 24. Viltu ekki fylgja mér upp í Heiðmörk? Nei, það kom ekki til greina, þar var allt í niðamyrkri og mikið af steinnibbum. Við héldum því áfram í Elliðaárdalinn og tilbaka undir Breiðholtsbraut og inn í Laugardalinn. Á leiðinni reyndi Ágúst að rifja upp brandara um fullan mann í mýri, en fórst það heldur óhöndulega úr hendi. Hann lét ekki deigan síga, reyndi að rifja upp annan brandara, og við vorum komnir niður á Sæbraut án þess að hann næði að laða fram eina einustu mynd úr þeirri frásögn. Hann kvartaði yfir minnisleysi, þetta væri mjög slæmt fyrir menn sem vildu vera skemmtilegir og segja brandara.

Við vorum bara flottir, fórum á þægilegu tempói, það var vatn að hafa á Sæbraut og við Ægisgötu skildi leiðir, Ágúst áfram á Nes til þess að ná lengra hlaupi, ég beint til Laugar. Var þungur á mér upp Ægisgötuna, en ekki þreyttur.

Ég var einn á Plani að teygja. Það byrjaði að snjóa. Ég hitti Flosa, Björn og Bjarna í Laug. Þeir voru í góðum gír. Björn fór á flug. Hann vildi meina að bylting væri í vændum, hann réri að því öllum árum að æsa upp til óeirða á Austurvelli næsta laugardag. Við spurðum hvort hann ætlaði að vera þar. Hann horfði hneykslaður á okkur og sagði: "Og missa af enska boltanum? Ertu vitlaus?"

Gott hlaup, en líklega heldur tilgangslaust þegar ekki er stefnt að neinu. Næst: föstudagur. Verður farið hratt? Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband