Færsluflokkur: Pistill Ritara

Með kjaftinum öllum

Hvar var Benzinn í kvöld? Ritari mættur til hlaups og enginn í Hlaupasamtökunum sjáanlegur. Hvar var fólkið sem úthúðaði honum sem letingja og ómenni í potti gærdagsins? Fremstir í flokki þeir Bjarni Benz og próf.  Fróði sem útmáluðu líðan ritara að kveldi og reyndu að lauma inn samvizkubiti hjá þessum sómapilti, þessu afbragði annarra Vesturbæinga. Og Bjarni með kjaftinum öllum. Mál voru þannig vaxin að ritari vildi undirbúa gott langhlaup á morgun, miðvikudag, með því að taka létt tölt austur grundir. Lét blómasala vita af þessari fyrirætlan og fékk jákvæðar undirtektir - "ég kjem" sagði blómasalinn upp á norsku.

Árný fékk áfall þegar hún sá ritara koma úr Útiklefa hlaupaklæddan. "Er ekki þriðjudagur?" spurði hún. "Er ég orðin brjáluð? Ætlarðu að hlaupa á þriðjudegi?" spurði hún. "Já," svaraði ég. "Er það bannað?" Nei, vitanlega er heimilt að hlaupa á þriðjudegi ef mönnum sýnist svo. Ég settist og hóf að bíða eftir blómasala. Hafði fengið sms stuttu áður þar sem hann tilkynnti væntanlega komu sína til Laugar. Hlaup hefst kl. 17:30 stundvíslega. Ritari beið af meðfæddri linkind gagnvart öllu því litla og auma sem hrærist með okkur í tvær mínútur fram yfir hálfsex - en hugsaði sem svo: ef hann ætlaði að koma væri hann kominn. Hér er ekki beðið.

Lagði í hann í þokkalegu veðri og enn var bjart úti. Einhver vindur, en ekkert til þess að láta trufla sig, líklega yrði hann eitthvað meiri á leið tilbaka. Fáir á ferð og greinilegt að almennt eru þriðjudagar ekki vinsælir hlaupadagar. Einhvers staðar á leiðinni, líklega við flugvöll og í Nauthólsvík, brast á með hagli svo grimmu og hvössu að mér varð hugsað: þetta er ekki fyrir aumingja. En ekki var mér í hug að hverfa frá, hugsaði með mér: þetta er yndislegt! Þetta er lífið! Meira af svo góðu. Svona veðrabrigði gefa hlaupum vissulega gildi. Áfram austurúr og tilhugsunin um frekari kárínur af hendi náttúrunni juku mér karlmennskuþrótt. Mér leið eins og Hannesi Hafstein á Kaldadal.

Hljóp sem leið lá út að Kringlumýrarbraut og svo upp meðfram Kirkjugarði og upp að Kringlu. Þaðan niðurúr og niður stokk, hjá Gvuðsmönnum og vesturúr Hringbraut. Svo krisskrossið gamalkunna yfir braut og önnur þverun yfir vegna framkvæmdanna við veginn að HR sem Kári er búinn að kvarta yfir á bloggi sínu.

Þetta var nú óttalegt gutl á manni og varla hægt að tala um hlaup, eiginlega ætti maður að skammast sín að vera að segja frá þessu. Nema hvað, þetta var prýðileg liðkun fyrir langt á morgun, ekki styttra en 18 km - 69. Það voru vissulega vonbrigði að sjá engan frá Hlaupasamtökunum að hlaupi í kvöld og má heita furðulegt að fólk sem stefnir á París skuli vera svo værukært að sleppa góðu hlaupi þegar því býðst að hlaupa með valinkunnum hlaupaköppum. Að ekki sé minnst á galgopana sem réðust að ritara í potti í gær með flími og háðsglósum og héldu að þeir gætu brotið hann niður, eins og þeir hafa gert svo oft áður gagnvart grandalausum einfeldningum sem hafa rambað í raðir vorar. Nei, ekki svo hér. Í kvöld var sýnt fram á að það er ekki alveg einfalt mál að brjóta menn niður, þótt garvaðir eineltismenn og hrekkjusvín beiti útsmognustu aðferðum til að ná markmiðum sínum.

Er hér með hvatt til þess að fyrrgreindir galgopar mæti af nýju til hlaups á morgun, miðvikudag, og sýni þá hvort meira búi í þeim en kjafthátturinn einn saman.

Friðbjörn - hetja Vesturbæjarins

Í morgunútvarpi RÚV var haft viðtal við Friðbjörn Sigurðsson, lækni og hlaupara af Nesi, þar sem hann lýsti fyrirhugaðri för sinni til Haítí, eyjarinnar í Karíbahafi, þar sem jarðskjálfti reið yfir í síðustu viku og olli ólýsanlegu tjóni og mannlegri þjáningu. Þangað kominn hyggst Friðbjörn leyfa hinni hrjáðu þjóð að njóta krafta sinna og þess sem hann best kann: að lina þjáningar og lækna sjúka. Framtak Friðbjörns vekur aðdáun og er til eftirbreytni og mættu fleiri taka hann sér til fyrirmyndar. Í viðtalinu í morgun var hann  spurður hvernig hann byggði sig upp fyrir erfiða lífsreynslu eins og þá sem hann ætti fyrir höndum. Kvaðst hann hlaupa og nyti stuðnings félaga sinna í Trimmklúbbi Seltjarnarness, þar sem hann hlypi reglulega. Hér er breytt með eftirminnilegum hætti, sagt er frá af lítillæti en þó sanngirni og þeirra getið sem hrærast í nærumhverfinu og veita viðmælanda stuðning og hvatningu í amstrinu og erfiðinu sem framundan er. Hér mættu einnig fleiri taka Friðbjörn til fyrirmyndar, en ósjaldan hefur það gerst að félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins hafa átt þess kost að koma fram í fjölmiðlum, en hafa í algerri sjálflægni og einstaklingshyggju gleymt Samtökunum sem hafa fóstrað þá, þroskað, byggt upp og gert að þeim mönnum sem þeir eru, og talið að öll þeirra afrek mætti rekja til eigin ágætis.

Nema hvað, það var miðvikudagur og ætlunin að hlaupa langt. Mættur töluverður fjöldi hlaupara, meðal þeirra mátti þekkja sjálfan Jörund, dr. Friðrik, Magga, Þorvald, Flosa, Ágúst, S. Ingvarsson, Einar blómasala, Kára, Bjössa, Ólaf ritara, Möggu þjálfara, Benzinn, Ósk, Benna, Eirík, Albert, og einhverja fleiri. Þjálfari var með ýmsar opsjónir, hlaupa langt, hlaupa stutt, þið veljið. Flosi og Ágúst lýstu strax yfir áhuga á að fara langt, aðrir styttra, að vísu ætlaði þjálfari að fara 30 km, en ekki var alveg ljóst hvernig það mætti verða.

Varla vorum við lögð af stað þegar heyrðist í fyrstu skruggunum, Kári varð lífhræddur og lýsti yfir að hann vildi ekki mæta ótímabærum dauðdaga af völdum skruggu. Fórum niður á myrkri vafiða Ægisíðu og bjuggum okkur undir hið versta. Ekki þurfti lengi að bíða þegar veðrið skall á, haglél af suðaustri, svo hvasst, svo beitt, svo óvægið að maður vissi ekki fyllilega hvernig bregðast skyldi við. Ég frétti af því að einhverjir hefðu snúið við, en ég setti höfuðið undir mig og hélt áfram. Minnstu munaði að ég hlypi á mann á ljóslausu reiðhjóli sem kom á fullri ferð í Skerjafirðinum og leit hvorki til hægri né vinstri. Það verður að stoppa þennan praxís, siga löggunni á þetta lið! Stuttu síðar reið næsta hryðja yfir, hálfu verri en hin fyrri, og jafnframt sást blossi í lofti og fleiri skruggur gerðu vart við sig, einhvers staðar í námunda við flugvöll. Skórnir fylltust af vatni, ég gegnblotnaði og hugsaði með mér: Nei, takk, ekki meira af svo góðu. Hér verða engin langhlaup stunduð í dag.

Í Nauthólsvík sá ég blómasalann og Benzinn, þeir görguðu eitthvað óskiljanlegt í áttina til mín, en ég beygði af og fór Hlíðarfót, enda ósofinn, vaknaður kl. 4:00 í morgun til þess að ígrunda með hverjum hætti mætti bæta hag Lýðveldisins og þegna þess. Nú er traffík við HR og fjöldi fólks á ferð. Raunar má kalla þessa leið Þriggjabrúahlaup með afbrigði, því farið er yfir þrjár brýr, eina í Nauthólsvík, eina yfir Miklubraut og þá síðustu í Vassmýri. Nema ég held áfram, aleinn eins og venjulega og er bara lentur í existensíalískum tregasöng.

Ég hitti þá Magnús og Jörund við Laug, þeir höfðu farið svipað og ég. Þegar Magnús heyrði skrugguna á leiðinni var honum svo brugðið að hann fleygði sér í fang Jörundar, og vonaði að með því minnkaði spennan úr 220 V í 110 V með því að fyrst færi hún í Jörund og svo í hann, ef skruggunni slægi niður í þá. Enn var tekið til við að ræða Haítíferð Friðbjörns og velta upp möguleikum á að Hlaupasamtökin sendu einhvern af sínum hæfileikaríku bræðrum eða systrum utan. Vantar kokk? Vantar jóga? Vantar barnaskólakennara? Eða eigum við bara að líta til þess að Friðbjörn hefur ekki einasta hlaupið um Vesturbæinn knúinn af þeirri nauðsyn að Nesið er aðeins lítill blettur og allar leiðir til menningar liggja um Vesturbæinn, heldur hefur hann raunar komið af og til með Hlaupasamtökunum á föstudögum og við gætum einfaldlega gert tilkall til hans og þessa ágæta framtaks og lýst stolt yfir að við krefjumst eignarhalds á Friðbirni, þótt að litlu leyti sé.

Svo tíndust þeir hver af öðrum til Laugar, hlaupararnir, og virtust flestir hafa snúið undan hörðu éli og látið hlaup dagsins vera stutt. Undantekning voru próf. Fróði og barnaskólakennarinn, þeir fóru eina 18 km. Maður skammast sín fyrir að segja frá þessum 8 sem maður fór sjálfur. Fer inn í skáp og dreg eitthvað gamalt yfir mig.



Fram og aftur blindgötuna

Ekki mjög margir mættir í hlaup kvöldsins, enda var glerhálka á gangstéttum og götum og yfirvöld búin að banna fólki að vera á ferð utandyra. Þetta létu félagar í Hlaupasamtökunum ekki á sig fá því nú skyldi tekið á því. Mætt: þjálfarar, dr. Friðrik, Magnús, Flosi, Þorvaldur, Ágúst, Bjössi, Frikki, ritari, Jóhanna, Þorbjargir báðar og Eiríkur. Um leið og þjálfarar höfðu orð á að fara spretti kom kvíðasvipur á prófessor Fróða, en þegar þeir töluðu um að fara í Faxaskjólið og taka hálfhringinn þar breyttist kvíðinn í angist, einhver spurði: "Var það ekki þarna sem þú meiddist um árið, Ágúst?" Hann kinkaði kolli þegjandi. Menn sáu í hendi sér að þetta hlyti að enda illa. Ágúst fór strax að blása til mótspyrnu og leita að samsærismönnum til þess að gera eitthvað allt annað en þjálfarar lögðu upp með, en varð lítt ágengt í því efni. Menn hlupu í einni hersingu niður á Ægisíðu og stefndu á Skjólin. "Hva, ætliði bara að hlýða þjálfurunum í blindni?" spurði prófessorinn, en þorði ekki að víkja frá settri stefnu og elti hina eins og bundinn á klafa.

Það var of hált til þess að taka spretti í Skjólum svo að við breyttum áætlun. Fórum á hjólastíginn á Ægisíðu og sprettum úr spori þar, meðan aðrir fóru annað, Flosi og Ágúst áfram austurúr og þeir Maggi, Þorvaldur og dr. Friðrik eitthvert afbrigði af aumingja. Við hin tókum spretti á stígnum, eigi færri en 12 400 m spretti og tókum vel á því. Eftir það var farið löturhægt út á Suðurgötu og þaðan til baka til Laugar um Hringbraut og Hofsvallagötu. Geysigott hlaup og veður frískandi, þótt víða væri hált. Náðum að teygja það í 10 km.

Í potti gómuðum við Kára og Önnu Birnu og hlýddum á afsakanir fyrir fjarveru, eitthvað um að detta af reiðhjóli. Toppurinn var svo þegar ritari fór upp úr og hitti fyrir blómasalann sem var að koma til Laugar þegar klukkan var langt gengin átta! Hvað á svona að fyrirstilla? Biluð tölva, vírus, svangir munnar heimafyrir, það sem fólki dettur í hug að bjóða upp á sem afsakanir! Nei, nú verður farið langt á miðvikudag og ekkert gefið eftir. Frábær hlaupadagur að baki.

Formaður fær atvinnutilboð

Hvað varð til þess að Baldur Sím., hlaupari án hlaupaskyldu en með rannsóknaskyldu, skellihló í potti? Um þetta verður fjallað síðar í frásögn þessari af athyglisverðu hlaupi í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, sem nálgast nú aldarfjórðungsafmæli sitt á vordögum. Mættir þessir: Ó. Þorsteinsson, Flosi, Jörundur, Þorvaldur, Magnús tannlæknir, Bjarni Benz, ritari, blómasali seinn að vanda og svo einn til sem ég hef ekki nafnið á.

Jörundur að mæta í fyrsta hlaup á nýju ári. Kvaðst vera hættur að hlaupa, nú væru bara niðurhlaup framundan. Menn voru bara nokkuð frískir, þrátt fyrir að hafa farið yfir 20 km í hlaupi gærdagsins, sumir hverjir. En í dag átti nú bara að fara rólega og eiga löng samtöl um það sem hæst er á baugi í samtímanum. Veður hið besta, bjart yfir og logn, þó nokkuð hált hér og hvar á leiðinni.

Í Nauthólsvík kom kirkjuráðsbrandarinn hans Magga um Kínverjann, sem klykkir út með þessari replíku: "Þú eiga fallegt hús!" Við mættum Helgu Jónsdóttur aftur í dag, og fylgdi hún okkur áleiðis. Kirkjugarður og Veðurstofa viðburðalítil. Rifjað upp að Bjössi slapp naumlega sl. föstudag undan bíl sem ók á ofsahraða yfir hraðahindrun í Suðurhlíðinni og mátti ekki muna miklu. Það er óvenjulegt að fólk aki svo óvarlega á þessum slóðum.

Eftir langt hlaup gærdagsins var ansi ljúft að fara þetta rólega í dag, upphitun og mýking. Á Hlemmi urðum við fyrir aðkasti pars sem var að koma af galeiðunni, bæði alldrukkin, og hrópuðu ókvæðisorðum að okkur og kölluðu "einn, tveir, einn, tveir" eins og hlauparar urðu fyrir á upphafsárum Samtaka Vorra.

Í potti voru helztu þátttakendur sunnudagsumræðna og komið var að þætti Ó. Þorsteinssonar. Hann upplýsti að haft hefði verið samband við sig og hann beðinn um að taka að sér að semja spurningar, dæma og telja stig í Útsvari - eftir að aðalhöfundur spurninga veiktist. Þá hló Marbendill. Baldur skellti upp úr þegar hann heyrði þessa frétt, enda hefur hann öðrum fremur haft efasemdir um hæfileika frænda míns á þessu sviði, einkum þegar vísbendingaspurningar eru annars vegar, en hann telur að vísbendingar Ólafs séu oftast misvísandi, ef ekki beinlínis rangar og því hæpið að búast við réttum svörum við þeim.

 Nú er að njóta þess sem eftir er af helginni og búa sig undir átök í hlaupum vikunnar sem framundan er.

Langur laugardagur

Hópur alvöruhlaupara mættur til þess að þreyta langt hlaup frá Vesturbæjarlaug í dag, laugardag. Það var dimmt og það hellirigndi, en menn létu það ekki á sig fá. Flosi orðinn afi í sjötta sinn og var harla stoltur af því. Mættir voru þjálfararnir Rúnar og Magga, Bjössi, ritari, blómasali, Flóki, Jóhanna, Frikki, Rúna, Albert. Sumsé harðskeytt og einbeitt sveit úrvalshlaupara. Ætlunin var að fara langt, frá 22 upp í 26 km.

Niðamyrkur á Ægisíðu, framvarðarsveitin setti strax túrbóinn á og var horfin okkur sjónum fljótlega. Þannig að það féll í hlut okkar minni spámanna að taka þennan túr saman, eins og oft áður lenti ég í félagsskap við blómasalann, svo fylgdi okkur Flosi áleiðis og Rúna. Við heyrðum hlaupara hósta í myrkrinu fyrir aftan okkur. Einhver sagði að hann væri astmaveikur og væri læknir. Við ákváðum að fara Goldfinger og upp að Stíbblu. Það var þungt fyrir fæti að hlaupa þetta í rigningunni, því hún var köld og gerði vöðva alla stífa. En við kjöguðum þetta og fórum þetta hefðbundna, gegnum Smiðjuhverfið og yfir í Breiðholtið, framhjá Mömmu og þannig áfram. Þarna vorum við orðnir þrír, ég, blómasalinn og Albert, sem ég vissi aldrei hvort hefði verið sá sem hóstaði.

Flosi fór aðra leið og ætlaði að hitta okkur við Stíbblu, en við sáum hann aldrei þar og héldum bara áfram niður úr. Hlaupið varð æ erfiðara eftir því sem lengra var komið vegna kuldans, vöðvarnir hreiinlega neituðu að vinna fyrir mann. En það var haldið áfram og ekki gefist upp, en mikið hefði verið gott að hafa aðgang að vatni einhvers staðar á leiðinni. Mættum Helgu Jónsdóttur í Fossvogi. Einar lengdi er komið var að Hofsvallagötu, en ég hélt til Laugar. Bjössi og Frikki höfðu farið svipað og við, en lengdu út á Nes, Magga og Rúnar fóru tæpa 26 km, tóku hring um Nesið undir lok hlaups.

Ég ætla ekki að ljúga, þetta var ekki gott og ekki yndislegt, en mikið var gott að komast í pott á eftir til að ylja sér. Ekki var verra að hitta í Móttökusal Ó. Þorsteinsson, Formann til Lífstíðar, sem upplýsti í óspurðum fréttum að hann hefði verið beðinn að annast dómarastörf í Hrepparnir keppa í sjónvarpi allra landsmanna. Verður fjallað nánar um það í hlaupi morgundagsins, stundvíslega kl. 10:10.

Frambjóðandinn

Í dag heimsóttu Hlaupasamtökin einhvern frambærilegasta frambjóðanda Lýðveldisins fyrir komandi sveitastjórnarkosningar. Meira um það seinna.

Svo var mál með vexti að í dag var hlaupið. Þorvaldur byrjaði að hósta jafnskjótt og hann kom í Útiklefa og hélt uppteknum hætti gegnum allt hlaup. Aðrir mættir voru Ágúst, Björn, Einar blómasali, Kári, Kalli kokkur, Rúna, Federico, Benzinn, Ólafur ritari, Ragnar borgarstarfsmaður og töldu sumir sig jafnvel sjá Eirík í hlaupi, það kann að hafa verið missýn. Mjög var spekúlerað í því hvað yrði í boði í bakhýsi við Óðinsgötu, sem ætlunin var að heimsækja í miðju hlaupi. Höfðu sumir á orði að líklega yrði aðeins heitt kakó og vöfflur í boði, aðrir voru vonbetri og töldu líklegt að þar mætti hafa holla og svalandi drykki hlaupurum.

Á föstudögum ráðum við okkur sjálf. "Verður ekki bara farið hægt?" spurði Ágúst. Jú, það skyldi farið hægt. En hvaða leið átti að hlaupa? Hvernig komumst við á Óðinsgötu.  Þar sem ritari er borinn og barnfæddur Reykvíkingur gat hann leiðbeint utanbæjarmönnum um leiðina, sumsé hefðbundið á Óttarsplatz og þaðan upp á Skólavörðuholt og sem leið liggur í áfangastað. "Já, við förum Laugaveg" sagði Þorvaldur eins og hann hefði ekki verið að hlusta. Ekki var maður að fara út í stæla af þessu tilefni, en var óneitanlega spenntur að sjá hvernig hlaupi yndi fram.

Í þetta skiptið ollu þyngsli ritara ekki vandræðum, hann hljóp með fremstu mönnum og var stolt Samtakanna á þessum degi. Það var heiðskírt veður, en farið að draga í loft í austri. Hiti lágur og vindurinn allstífur í fangið. Menn veltu mjög fyrir sér hvers mætti vænta á Óðinsgötunni. Vindur gerði allar umræður erfiðar, þar sem orðin fuku út í buskann. En þó skal viðurkennt að farið var afar hægt, jafnvel þunglamalega. Átti þetta jafnt við um ofurhlauparann Ágúst sem aðra minni spámenn í þessum fræðum.

Fórum upp Hi-Lux og ég heyrði að Ágúst sagði nýliðanum Hi-Lux-söguna, hún er alltaf jafnskemmtileg, hún tilheyrir sögu og hefðum Samtaka Vorra. Ekki var sprett úr spori upp brekkuna löngu og góðu, en er efst var komið dokuðu menn aðeins við, en þeir sem á eftir fóru voru afar seinir og þungir á sér. Þannig fórum við áfram, ritari, prófessorinn, nýliðinn, Þorvaldur og Bjössi blandaði sér í baráttuna er hér var komið. Aðrir voru hægir og slappir.

Eftir þetta var eiginlega sprett úr spori, hér var tilhugsunin um veitingar á áfangastað farin að heltaka hlaupara, sem sumir hverjir verða drafandi af einni saman vitneskjunni að tungunni megi dýfa í hinn gullna mjöð. Var hætt við að drægi sundur með mönnum, en er komið var á Óttarsplatz stöldruðu þeir við, Ágúst, nýliðinn og Bjössi og biðu þess að ritari leiðbeindi þeim gegnum holtið, Þorvaldur er hins vegar ekki af Óðagotsætt fyrir ekki neitt, hann æddi áfram Rauðarárstíginn og fór Laugaveginn eins og hann hafði ákveðið á Brottfararplani, þegar við reyndum að ná saman um ákveðið ferðaplan.

Þetta var góð ferð, gott hlaup og vorum við samtaka félagar. Hér hófum við að ræða um Frambjóðandann og mærðum hann í bak og fyrir, töldum hann afbragð annarra manna og líklegan til þess að standast þá tilhneigingu stjórnmálaflokka að teyma frambjóðendur sína út í fen hagsmunatogstreitu og hvers kyns annarlegra hagsmuna. Gilti einu hvort viðkomandi var últra hægrimaður eða öfgasinnaður vinstrimaður. Það tók nokkurn tíma að finna Hjálmar og félaga á Óðinsgötunni, en það hafðist. Fyrir voru vinir og stuðningsmenn á fleti, í boði voru drykkir og nasl. Þetta var aldeilis frábært, og ekki minnkaði kæti okkar er sjálfur Vilhjálmur Bjarnason birtist í eigin persónu í húsakynnunum og varpaði ljóma yfir staðinn.

Héldum heim, sæl og mett, og syngjandi, ómaði söngur um alla Óðinsgötuna, þar sem bassarödd Benzins hljómaði hvað hæst. Rifist um hvaða leið ætti að fara tilbaka, einhverjir voru komnir með samvizkubit yfir töfinni og héldu að það þyrfti að lengja. Hér var sérstaklega tekið til manna eins og próf. Fróða, sem er haldinn sálrænni andstöðu við 10 km hlaup eftir að hafa verið tíndur upp af Hjálparsveit Skáta þegar hann átti 1 km eftir í 10 km hlaupi, nær dauða en lífi sökum áreynslu. Eftir það hefur hann ekki hlaupið 10 km hlaup og fer ekki þá vegalengd.

Nei, við fórum stytztu leið tilbaka, við þessir helztu hlauparar. M.a.s. blómasalinn virtist vera að koma til, þrátt fyrir að hafa sætt flensusprautu að ráði Kalla kokks - en endað í veikindum sem minntu einna helzt á afleiðingar tveggja daga fyllerís. Pottur góður og lögð drög að kvöldmat. Næst er hlaupið í fyrramálið kl. 9:30 og farið langt.

Þetta hefur ekki gerst áður

Fyrir hlaup upplýsti blómasalinn að hann hefði farið í svínaflensusprautu og veikst, gæti ekki hlaupið. Við komu í Laug var mætti Sirrý og tilkynnti að hún væri meidd og gæti ekki hlaupið næstu 3 mánuði. Vel var mætt í hlaup dagsins og óvenjumargir sem ritara vantaði nöfn á. Þjálfari á spariskónum og ekki líklegur til stórræða. Í boði stutt, Þriggjabrúa og langt. Það er eiginlega ekki frá neinu að segja. Fólk hvarf mér einfaldlega á Ægisíðu, sjaldan hefur ritari verið jafnaumur, aumari en blómasalinn sl. föstudag. Ég fór svo hægt yfir að ég náði ekki einu sinni Kára, sem hvarf úr hlaupi í Nauthólsvík, eða fór þennan alræmda stytting sem þeir kalla Hlíðarfót, og er svo skammarlegt að ætti eiginlega ekki að kalla hlaup, miklu frekar ævintýri á gönguför. Hann var í för með Þorvaldi og kvenmanni sem ég þekki ekki. Ástand ritara var dapurlegt, en þó ekki svo dapurlegt að hann færi að stytta. Fannst honum Hlíðarfótur eiginlega of mikill aumingjaskapur fyrir hann. The Horny Grocer fór fram úr mér í Skerjafirði og mældi hraða annarra hlaupara 4:45 - sem er náttúrlega bara bilun.

Til greina kom að fara Suðurhlíð, en þegar til kom var stefnan sett á Þrjár brýr. Það var allt í lagi þótt hægt væri farið, ég var einn og yfirgefinn eins og venjulega, en lét það ekki á mig fá. Fór hefðbundna leið upp hjá Bogganum, upp á Útvarpshæð, yfir hjá Kringlu og niður Kringlumýrarbraut. Veður gott, en þó einhver mótvindur á leiðinni austurúr, en kom ekki að sök. Mér varð hugsað til þess á leiðinni hvað Hlaupasamtökin væru góð við íturvaxna hlaupara, það skiptir ekki máli þótt menn séu veikir fyrir mat og drykk og falli í freistni þegar svo býður við að horfa, þeim er ávallt fagnað þegar þeir mæta sakbitnir til hlaups á ný og vilja bæta ráð sitt. Engum er vísað frá þótt hann sé feitur, en menn fá hins vegar að finna það óbeint þegar aðrir hlauparar skilja þá eftir. Það er einmanalegt.

Einhverjum lá á að fara að horfa á landsleik í handknattleik og fóru því bara stutt. Sumir fóru á spretti inn að Víkingsheimili og tilbaka á spretti. Flosi, Ágúst og kaupmaðurinn fóru að ég held nokkuð langt, um eða yfir 20 km. Hefðbundin vizka í potti og afslappelsi, von á góðum svefni eftir svo ágæta frammistöðu.



Fyrsti Föstudagur haldinn hátíðlegur

Þetta var einn af þessum eftirminnilegum hlaupadögum. Svo var mál með vexti að Hlaupasamtök Lýðveldisins stóðu fyrir hefðbundnu föstudagshlaupi í dag og var til þess boðað með eðlilegum fyrirvara. Enda var komið að enn einum Fyrsta Föstudegi. Svo vildi þó til að frekar illa var mætt í hlaupið, eingöngu voru Flosi, Kári, Denni, Biggi, Bjössi, Benzinn, blómasalinn, Rúna, ritari - og líklega ekki fleiri. Þarna vantaði margt mætra sveina og meyja. Vakti það furðu viðstaddra.

Engar umtalsverðar móðganir flugu manna á milli, eindrægni ríkti og var ekki staldrað lengi við á Plani, en þó höfðu menn tíma til þess að gaumgæfa nýjan bækling um detox við Mývatn sem liggur frammi í Laug Vorri þessi misserin. Hlauparar þurfa ekki detox, þeir hlaupa.

Á föstudögum er hlaupið hefðbundið. Þá er farið rólega. Farið rólega af stað. Menn voru ólmir og voru kátir að hafa endurheimt Bigga. Biggi var sprækur framan af, en fljótlega eftir það eins og sprungin blaðra. Benzinn að mæta eftir langa fjarveru og var furðu ern. Það var afar hált á Ægisíðu og mátti fara varlega. Þetta skánaði er komið var í Skerjafjörðinn, þá var aftur hægt að fara að taka á því. Þetta tækifæri létum við helztu drengirnir ekki framhjá okkur fara, keyrðum á 5:18 mín. tempói út í Nauthólsvík. Þetta vorum við Flosi, Bjössi, Benzinn og einhver með okkur, sem ég man ekki alveg hver var.

Nema hvað, í Nauthólsvík gerðust hlutirnir. Við áfram upp Hi-Lux, en það fréttist af Bigga og Kára þar sem þeir tóku strikið út að HR þar sem fram fór skoðun á aðstæðum. Aðrir áfram hefðbundið. Það fór svo að við Bjarni höfðum félagsskap hvor af öðrum það sem eftir lifði hlaups. Til að byrja með ræddum við detox-fræði og sýndist hvorum sitt í þeim efnum. Fljótlega var farið að ræða pólitíkina og þegar komið var niður að Sæbraut var Bjarni farinn að hækka raustina svo hressilega að ég hafði áhyggjur af því að vegfarendur hringdu í lögreglu til þess að afstýra vandræðum. Hér var sleginn sá tónn að það bæri að manna víkingaskip og stilla forseta vorum uppi í stafni með bryntröll í hendi svo að fjandvinum okkar féllust hendur, titrandi af hræðslu andspænis þessum andlega jöfri, og bæðu um að fá að semja um hagstæðar endurgreiðslur skulda Íslendinga á Icesave-skuldum.

Bjarni var sprækur í hlaupi dagsins og ekki ónýtt að hlaupa með svona kappa, hélt manni við efnið og hraðanum uppi. Aldrei slegið af. Komið á Móttökuplan þar sem fyrir voru á fleti Flosi og Bjössi og svo einhver sem ég man ekki nafnið á. Teygt og talað. Þarna mætti Benedikt óhlaupinn að þessu sinni, en kvaðst hafa hlaupið um morguninn og að Magga þjálfari væri til frásagnar um það.

Pottur ljúfur sem ævinlega og fylltist maður auðmýkt og þakklæti fyrir að vera þeirrar gæfu aðnjótandi að þekkja slíkt úrval fólks sem þarna safnaðist saman til samtals eftir hlaup. Þó var enn betra að mæta til Fyrsta Föstudags á Dauða Ljóninu eftir hlaup - þar komu saman höfðingjar og áttu saman góða stund með bernaise-borgara og bjórkollu. Góð stund sem ástæða er til að þakka fyrir, jafnframt því að hvatt er til þess að fólk mæti af nýju til hlaups í fyrramálið frá Laug kl. 9:30. Langt.

PS - nýtt nafn á Skítastöð er Drulludæla. Það bara bessnar! See you - don´t wanna be you!

Hangikjöt og flugeldar teknir framyfir hlaup

Sumir hlaupa af ástríðu og metnaði. Aðrir hlaupa vegna vondrar samvizku. Í síðari hópinn fellur ónefndur blómasali sem þó stefnir á þátttöku í Parísarmaraþoni í apríl. Í kvöld, þegar hlaupið skyldi langt, lét hann undir höfuð leggjast að mæta til hlaups í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, en kaus þess í stað að þiggja boð Kanttsprynufélags Vesturbæjarins um að sitja hangiketsveizlu og njóta að því búnu flugeldasýningar í boði félagsins. Kosturinn við boðið var að það mátti taka alla fjölskylduna með sér - svoleiðis boð standast sumir ekki. Blómasalinn beit þó hausinn af skömminni þegar hann mætti til Laugar á hlaupatíma til þess eins að skola af sér í útisturtu og geifla sig framan í viðstadda. Furðu vakti að hann tilkynnti þjálfurum um áform sín og fékk, að því er virtist, bara jákvæð skilaboð tilbaka. Hér eiga auðvitað þjálfarar að setja hlauparanum stólinn fyrir dyrnar og krefjast þess að hann forgangsraði rétt.

Furðu fáir mættir í hlaupi kvöldsins, mátti þar helzt bera kennzl á Magnús, dr. Friðrik, Ágúst, Flosa, Bjössa, Rúnar, Möggu, Þorbjörgu Karls., Ósk - og svo mætti ritari. Ekki man ég hvort fleiri voru mættir. Ekki man ég heldur hvort einhverjar leiðbeiningar gengu út til hlaupara, og áður en maður áttaði sig á var hersingin komin á hreyfingu. Ég lenti með fremstu mönnum þegar í byrjun og það var farið á 5 mín. tempói inn í Nauthólsvík. Þegar Ágúst var spurður út í hraðann, spurði hann á móti: "Átti ekki að fara bara rólega inn að Skítastöð?" Þennan hraða halda feitlagnir býrókratar ekki lengi út og því slakaði ég á í Nauthólsvík, enda var meiningin að fara 69 og til þess þurfti maður að fara sparlega með kraftana. Þeir hinir drógu ekki af sér og héldu áfram á fullu stími og voru fljótlega horfnir. Magga tætti fram úr þeim og hvarf út í myrkrið á ógurlegum hraða.

Líklega hafa flestir farið Þriggjabrúa, einhverjir eitthvað styttra, en við Ágúst og Bjössi fórum 69. Í Fossvoginum mætti ég líklega tveimur hlaupahópum, Laugaskokki og ÍR-hópnum, virtist þarna vera um 40-50 manns að hlaupa. Þar var líka boðið upp á eina herlega flugeldasýningu sem entist allan dalinn með ógurlegri litadýrð og hávaða svo glumdi í Kópavoginum hinum megin.

Veður var aldeilis dýrðlegt og færið ágætt, en þó fór að frysta á seinni hluta hlaups og þurfti maður að fara varlega af þeim sökum. Farið undir Breiðholtsbraut, út í hólmann og tilbaka aftur og yfir á Miklubraut. Var of mikið klæddur og svitnaði mikið og varð æ þyngri þar sem bleytan sat sem fastast í fötunum. Þannig að þetta var orðið erfitt þegar komið var á Sæbraut og inn að Útvarpshúsi (gömlu gufunni). Ákvað að fara gömlu leiðina hans Villa um Ægisgötu, þessum ágæta félaga til heiðurs. Skal viðurkennt að ég rölti upp á horn hjá Landakoti. Hlaupið rólega tilbaka.

Aðeins voru þeir við Laug sem lengst höfðu farið og teygðu innandyra. Legið í potti um stund þar sem Sif Jónsdóttir langhlaupari var mætt. Rætt um félaga sem ekki hafa sézt lengi, svo sem Bigga, og vöngum velt um ástæður þess að hann lætur ekki sjá sig. Kunni enginn skýringar á því. Svo einkennilega vildi til að enginn hafði orð á því að Fyrsti Föstudagur er n.k. föstudag, enda menn uppteknir af því að ræða hlaup, meiðsli og matargerð. Góður dagur og gott hlaup að baki, ekki orði andað um þið vitið hvaða málefni. Mikið var ég feginn!

Í dag var kalt að hlaupa

Í Brottfararsal var enn rætt um  Gamlárshlaup ÍR og spurt hvers vegna ritari hefði ekki mætt. Sumir gengu þó lengra og létu glósur fjúka sem jafna má til eineltis. Rætt um sólskinshlaupara. Ritari hafði sínar skýringar á fjarvistum. Einari varð tíðrætt um eigin dugnað og nefndi laugardagshlaup þar sem hann hefði farið yfir 20 km. Sirrý lækkaði í honum rostann með því að upplýsa að hann hefði hlaupið svo hægt að hún hefði neyðst til að skilja hann eftir. Meðal hlaupara í dag voru dr. Friðrik, S. Ingvarsson, próf. Fróði, Flosi, Þorvaldur, þjálfarar, Bjössi, Þorbjörg M., Dagný, Melabúðar-Friðrik, Eiríkur, o.fl. Það var fremur kalt í veðri og stefnt á spretti frá Skítastöð, farin lengri leiðin úteftir.

Ekki voru allir spenntir fyrir sprettum og nokkrir snæúlfar tóku sig út úr hjörðinni og héldu ferð áfram upp á eigin spýtur meðan Parísarfarar bjuggu sig undir spretti. Fyrir framan ritara voru þrír hraðfarar og skilst mér að fyrir framan þá hafi farið Flosi einn á hröðu stími. Ætlunin var að fara Þriggjabrúahlaup. Framan af var farið fremur hratt yfir, en svo hægðist á. Það var ansi kalt að hlaupa í kvöld, líklega vegna raka og vinds. Við mættum nokkuð mörgum hlaupurum sem tóku spretti eins og okkar hópur.

Ritari fór yfir hjá Borgarspítala, Útvarpshúsi og hefðbundið yfir Miklubraut og yfir á Kringlumýrarbraut, þaðan niður á Sæbraut. Tilbaka til Laugar. Klukkan var um sjö og flestir sem tóku sprettina voru horfnir eins og jörðin hefði gleypt þá, nema blómasalinn, sem hefur líklega verið eitthvað seinni í förum en hinir. Ekki fer milli mála að sveitastjórnarkosningar eru á næsta leiti, upprennandi stjórnmálamenn eru á þönum út um allt með gleið bros á vörum og hrista alla þá skítaspaða sem í boði eru. Skulu engir nefndir hér. Næst verður farið langt.                     

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband