Færsluflokkur: Pistill Ritara

Dell-tölvan klúðrar málum aftur

Enn einn ganginn var ritari búinn að skrifa frásögn af hlaupi - 21-22 km hjá sumum. Á venju samkvæmt í miklu basli við takkana því að bendillinn æðir út um allt á skjánum án þess að hann hafi verið beðinn um nokkurn skapaðan hlut. Ýtir svo í grallaraleysi á e-n takka á fistölvunni og allur texti hverfur og ég dett út úr módinu. Allt farið og horfið. Ég held ég hætti að skrifa pistla á þennan Trabant tölva. Farvel, þú skaðræðisgripur. Hendi þessu helvíti í ruslið.

Taco Bell tekur toll

Í Útiklefa rifjaði Svanur Kristjánsson upp æskudaga á Ísafirði, sólarlausum firði fyrir vestan. Tilefnið var náttúrlega að nú nálgast vorið óðfluga, án þess að það hafi nokkurn tíma komið vetur á Íslandi. Hann er annars staðar. Óvenjulegir hitar á Grænlandi að sögn. Þeim mun meiri ástæða til þess að þreyta hlaup í vorblíðunni. Mættir fjölmargir hlauparar og skal aðeins þeirra helztu getið: dr. Friðrik, Jörundur, Bjarni Benz, Flosi, Þorvaldur, próf. Fróði, Magga, Rúnar, Frikki Meló, Eiríkur, René, Ólafur ritari, Einar blómasali, Þorbjörg K., Dagný, Ósk, Hjálmar, Kári - og einhverjir fleiri.

Ýmislegt í boði, brekkusprettir í Öskjuhlíð, Stokkur, Hlíðarfótur, allt eftir smekk og prógrammi. Parísarfarar og fylgihnettir stefndu á spretti, aðrir ætluðu bara að leika sér. Farið rólega út, en áður en langt um leið var hersingin komin á fulla ferð. Fljótlega kom í ljós að einhverjir höfðu syndgað í hádeginu, játning lá fyrir: sumir voru teymdir gegn vilja sínum inn á Taco Bell þar sem snædd var sterk máltíð og drukkinn með hálfur lítri af ropvatni. Ætla menn virkilega aldrei að læra að forðast freistingarnar á hlaupadegi?

Farið út í Nauthólsvík, þar var snúið í brekkurnar, meðan einhverjir héldu áfram í Fossvoginn og enn aðrir sneru beinustu til baka. Við vorum nokkur sem tókum eina 8 320 m spretti í löngu brekkunni í Öskjuhlíð, innan um bílaperrana. Það var smokkfullt af bílum þarna og fullkomlega óskiljanlegt hvað fólk er að gera þarna. Samkomulag um að fjarlægja alla vegi þarna eftir sveitarstjórnakosningar í vor, í mesta lagi skilja eftir bílastæði, svo getur fólk bara fengið sér göngutúra um göngustíga og iðkað heilbrigð samskipti við aðra.

Eftir spretti var snúið tilbaka og bætt í hraða og endað á góðu tempói, 13,7 km lagðir að baki. Góð æfing. Pottur stuttur og snarpur, Benzinn með læti við útlendinga. Næst farið á miðvikudag, langt, ekki styttra en Stíbbla.

Á vorfögrum sunnudagsmorgni

Ritari mættur snemma til Laugar og búinn að fara í heitan pott, gufu, gera teygjuæfingar, fara í nuddpott, raka sig og ræða við laugargesti áður en fyrsti hlaupari gerði vart við sig: Þorvaldur. Síðan komu þeir Magnús, Jörundur, blómasalinn og ská-tengdasonur Gústa, sem við fregnuðum að héti René og væri frá Toscana, því fagra héraði á Ítalíu. En enginn Ó. Þorsteinsson. Nú voru sumir okkar búnir að hlaupa mikið á undanliðnum dögum og von að menn spyrji: hvernig geta þeir þetta? Ja, er nema von menn spyrji?

Þetta var í alla staði hefðbundið hlaup, að undanskildu því að heldur færri stopp voru gerð og styttri sögur sagðar. Ég held ég megi fullyrða að ekki ein einasta ættrakning hafi farið fram og verður það að teljast afturför í hópi eins og okkar. Nóg var af hefðbundinni umfjöllun um bankahrun og fjársvik ýmiss konar. Einnig var a.m.k. ein gamansaga í anda Kirkjuráðs sögð. Þrátt fyrir langhlaup gærdagsins vorum við blómasalinn bara sprækir og tókum alveg þokkalega á því, alla vega svitnaði undirritaður á hlaupinu, sem gerist ekki oft í sunnudagshlaupum.

René fór aðra leið en við og hvarf okkur í Skerjafirði. En við áfram í alveg yndislegu vorveðri. Þegar við komum á Hlemm sáum við hann aftur þar sem hann skeiðaði niður Snorrabraut. Við Sæbraut gerðust stórtíðindi, René skaut Þorvaldi ref fyrir rass með svo glæfralegu stökki fram fyrir bifreiðar sem þar voru á ferð að það munaði ekki nema nokkrum sentimetrum að hann yrði keyrður niður. Það hvarflar að mér hvort hann hafi misskilið eitthvað aðdáun okkar á Þorvaldi, að  hann haldi að við lítum á þessi bílastökk sem sérstakt hetjubragð. Þetta endar náttúrlega bara með skelfingu, eins og Biggi sagði. Einhver endar ævina framan á stórri bílrúðu og það koma bara menn í hvítum göllum með kíttispaða að skafa leifarnar niður í svarta plastpoka.

Á Geirsgötu var hraði aukinn og tekinn góður sprettur, sem sýnir að menn eiga heilmikið eftir þrátt fyrir langhlaup gærdagsins. Teygt við Laug. Blómasalinn gerði úttekt á bíl Jörundar sem er farinn að lýsa rauðu ljósi og skýring finnst ekki á. Atli þjálfari KR kvartaði yfir því að ungviðið kynni ekki einföldustu líkamsæfingar, svo sem að sippa. Nú væri ekki hægt að hreyfa sig nema tengjast e-i maskínu sem knýr manninn áfram, hlaupabretti, stigtrappa eða hvað þetta heitir. Það er eitthvað annað með ykkur, sem þurfið ekki annað en guðsgræna náttúruna að hreyfa ykkur í!

Fámennt í potti, Baldur mættur og taldi Ó. Þorsteinsson vera á Túndru. Rætt um helztu verk í leikhúsum borgarinnar. Talað um tíma og spurt: hvað er réttur tími á Íslandi. Stuttu síðar komu frú Helga og Stefán - en fleiri voru ekki mættir þegar ritari þurfti að hverfa á brott í bröns uppi í sveit.

Á morgun hefst ný hlaupavika, mæting stundvíslega kl. 17:30. Sprettir, trúi ég. Nú fer þetta bara versnandi.

Laugardagshlaup hlaupahópa 6. febrúar 2010.

Fyrsta sameiginlega laugardagshlaup hlaupahópa í Reykjavík var þreytt í morgun frá Laugum kl. 9:30. Af okkar fólki voru þessir mættir: Friðrik, Kári, blómasalinn, Eiríkur, Þorbjörg M., Rúnar, Margrét og Ólafur ritari. Svo var Sif Jónsdóttir, sem eiginlega tilheyrir okkur, en hefur villst yfir í aðrar sóknir. Ég giska á að um 200 hlauparar hafi verið samankomnir við Laugar. Veður fínt, það var óðum að birta, heiðskírt, hiti um frostmark og logn. Þó blés af austri er komið var út á Kársnes og hafði maður vindinn í fangið á þeirri leið.

Farið sem leið lá út Laugardalinn, inn í Elliðaárdal, Mjódd, Kópavog og stefnan sett á Dalinn. Ég hljóp upp á hól til þess að gá hvort lífsmark sæist í Lækjarhjalla, átti alveg eins von á að sjá húsbóndann úti á svölum í náttsloppi reiðubúinn að heilsa hlaupurum. En það var aldeilis ekki! Sjaldan hef ég séð jafn kirfilega dregið fyrir alla glugga og öll opnanleg fög stöguð aftur. Ekkert lífsmark á því heimilinu.

Hlaup gærdagsins sat í manni, 11,3 km á 5 mín. tempói. Það vissi maður sosum fyrir hlaup. Margt var ágætra hlaupara á ferð í dag, og virtist manni jafnvel nokkurt kapp hlaupa í menn á Miklubrautinni. Varð mér sem snöggvast hugsað að einhverjir ætluðu að taka þessu sem keppnishlaupi, en einnig má líta svo á að þeir hafi tekið þessu sem kærkomnu tækifæri til þess að láta gamminn geisa.

Í Dalnum fór þreyta að segja til sín, en ég var ákveðinn í að klára mína 19 km í dag. Kjagaði því fyrir Kársnesið og áfram í átt að Kringlumýrarbraut. Er þangað var komið náði blómasalinn mér loksins, en einhverra hluta vegna hafði ég haldið honum fyrir aftan mig allan tímann. Spyrja má hvor okkar sé á leið í Parísarmaraþon! Ég hafði með mér appelsínusafa og fannst hann sízt verri en orkudrykkirnir sem maður hefur verið að kneyfa. Kringlumýrarbrautin var anzi erfið og í kringum mig var fólk sem greinilega var á svipuðum stað í æfingum og ég, margir þurftu hreinlega að ganga.

Það var ljúft að koma tilbaka og hitta félagana við Laugar. Boðið var upp á nýja próteindrykkinn frá MS, Hleðslu. Hann var fínn. Svo var bara skellt sér í heitan pott og slakað á. Sat um stund með Frikka og Kára og við horfðum á Svía, m.a. Línu Langsokk.

Frábært hlaup, frábært framtak! Næst verður það Grafarvogur, Árbær, ÍR - og svo Hlaupasamtökin í byrjun júní.

Ótrúlegt hlaup á Fyrsta Föstudegi - en hvar var fólkið?

Þetta fór allt hægt af stað, ritari mætti í Brottfararsal og fannst harla einmanalegt þar. Fann Þorvald í útiklefa og hugsaði sem svo: nú, það verðum við tveir í dag. Áhugavert. Í Útiklefa gerðist það helzt að blómasalinn (seinn að vanda) dró upp nýkeyptar hlaupabuxur og hóf að draga þær á útlimi sér. Kom þá í ljós að hann hafði keypt tight fit stærð sem hentar fermingarstúlkum og fór því góður tími í að draga garmentið á gildvaxna útlimina. Nema hvað þegar komið var úr útiklefa tíndust þeir hver af öðrum til hlaups: Ágúst, Jörundur, Biggi, Magnús, Eiríkur og svo tveir nýliðar, Ragnar verkfræðingur og Ólafur U. Kristjánsson, grafískur hönnuður eins og Biggi. Það flæktist ekkert fyrir okkur að hafa okkur af stað, leiðin var hefðbundin, föstudagur. Einhver vindur og fremur svalt.

Samkomulag um að fara hægt. En menn voru sprækir og því engin ástæða til þess að halda aftur af sér. Við sáum að blómasalinn fór sér hægt og töldum að það væri vegna buxnanna og hófum að herma eftir honum, hlupum eins og spýtukallar. En ritari, sem er glöggur maður, sá að eitthvað meira bjó að baki. Lét hann þess getið við próf. Fróða að líklega væri hér hádegisverði um að kenna. Á Ægisíðu var tempóið um 5:15 - og það var bara gefið í alla leið út í Nauthólsvík. Þar héldu hópinn prófessorinn, Biggi, Eiríkur, Þorvaldur, Ragnar og ritari. Við fórum upp Hi-Lux, og viti menn, það var jeppi í hi-luxinu, hvað var að gerast? Einn karlmaður reyndist í jeppanum og ekkert að gerast, en styggð komst að manninum og hann ók með hraði í burtu.

Við upp brekkuna á hægu tölti, bílar hér og hvar og greinilegt að menn höfðu ýmislegt á prjónunum á þessu föstudagseftirmiðdegi. Biðum er upp var komið eftir þeim sem á eftir komu, en það var til lítils. Áfram upp með kirkjugarði og inn í hverfi. Ég gladdi viðstadda með þeirrí frétt að Danir legðu áherzlu á það í formennskuprógrammi sínu í norrænni samvinnu þetta árið að bjóða upp á úrræði fyrir fullorðna með athyglisbrest. Gerði ég að tillögu minni að Hlaupasamtökin sæktu um styrk til þess að rannsaka athyglisbrest meðal hlaupandi karlmanna á miðjum aldri sem þreyta ca. 10 km hlaup á hægri ferð og eiga erfitt með að fylgjast með frásögnum og halda þræði.

Við bættum heldur í eftir því sem leið á hlaup, enda prófessor Fróði í forystu og farinn að gerast þorstlátur. Farið um Hlemm og niður á Sæbraut. Þaðan hljóp þessi þvaga vestur úr. Ég ákvað að fylgja Bigga til baka, enda er hann töluvert bakk með sitt líkamlega helsi. Nema hvað við héldum góðum hraða, fórum um Geirsgötu og Ægisgötu, prófessorinn lengdi vestur úr út í Ánanaust og þaðan tilbaka til Laugar.

Er komið var til Laugar var blómasalinn kominn þar á undan okkur. Hann játaði að hafa misst sig í hádeginu, etið 300 gr hamborgara með skinku, beikoni og osti. Þetta var ástæða þess að hann var svona hægur í hlaupi dagsins. Þetta sá ritari þegar í upphafi hlaups. Blómasalinn náði sér aldrei á strik í hlaupinu, en hefur lýst yfir því að hann ætli að taka langhlaup morgundagsins með trompi.

Denni mætti í pott eftir hlaup og urðu mjög fróðlegar og skemmtilegar umræður, m.a. um einelti meðal miðaldra karlmanna í hlaupahópum. Sami hópur mætti síðan til Fyrsta Föstudags á Rauða Ljóninu - auk þess sem Frikki af Melabúðarfrægð skaut inn kollinum. Og Ólöf Þorsteinsdóttir. Í fyrramálið tekur síðan við langhlaup frá Laugum. Vel mætt!

Hlaupasamtökin eru hjálparsamtök

Þegar neyðin er stærst, er hjálpin næst. Þetta reyndu þegnar landsins í dag þegar Hlaupasamtök Lýðveldisins hlupu frá Vesturbæjarlaug austur um byggðir. Svo var mál með vexti að nokkrir hlauparar, ekki mjög margir, söfnuðust saman til hlaups rétt um 17:30. Þrjú prógrömm í gangi: Stíbbla, Þrjár brýr og svo sprettir. Hópurinn fór saman austur Sólrúnarbraut og að Skítastöð. Þar var ekki staðnæmst, heldur haldið áfram á 5 mín. tempói. Nú vildi svo til að ritari hékk í fremsta fólki. Ekki nóg með það, hann kvartaði yfir að það væri að þvælast fyrir sér, skaust svo fram úr við fyrsta tækifæri og hélt í humátt á eftir blómasalanum sem var langfremstur. Það er til lítils að vera að þjálfa einhvern fyrir París ef maður nær ekki að fylgja honum.

Það var fremur svalt í veðri og einhver vindur og eins gott að vera vel klæddur. Haldið áfram austur úr eftir Nauthólsvík á hröðu tempói og hér fór maður fyrst að verða var við aðra hlaupara, próf. Fróða, Flosa, Jóhönnu og Hauk. Þau tvö síðastnefndu fóru ásamt okkur blómasalanum upp hjá Bogganum og skammt undan var Albert. En þau fóru mun hraðar en við og voru horfin áður en við vissum af. Við fórum þetta hefðbundna yfir Bústaðaveg, upp hjá Útvarpshúsi, yfir Miklubraut og tókum stefnuna framhjá Fram-velli. Þar reyndi á hjálpsemi hlaupara. Við sáum bíl sem var í vandræðum undir brúnni undir Miklubrautina, bíllinn ógangfær og ökumaður aleinn að reyna að ýta honum. Hér kom góðmennið upp í Einari og hann heimtaði að við kæmum þessum ökumanni til hjálpar. Bílar óku hjá og enginn gerði sig líklegan til þess að aðstoða. Þetta var ungur maður sem hafði fyllt á bíliinn og lent í vandræðum í beinu framhaldi. Einar reif upp vélarhlífina og byrjaði að juða í geymistengjum, við það fóru öll ljós að blikka og stuttu síðar rauk bíllinn í gang og ökumaðurinn gat haldið leiðar sinnar.

Albert varð mjög impóneraður af þessum þegnskap okkar blómasalans og spurði: "Eruð þið alltaf svona hjálplegir? Gerist þetta oft?" Við sögðum að þetta væri eitt af móttóum Samtakanna: ávallt reiðurbúnir! Við héldum áfram leiðar okkar og vorum léttir á okkur. Hér viðurkenndi Einar að téður ökumaður héti Ólafur og væri sonur sinn, bíllinn væri einnig hans. Eitthvað sló við það á aðdáun Alberts. Einar taldi upp öll bílhræin sem hann á víðs vegar um borg og hafa leikið í hinum ýmsustu kvikmyndum og aldrei fengið borgað fyrir. Þannig héldum við áfram masandi niður Kringlumýrarbraut og sáum við Suðurlandsbraut að hiti var kominn í mínus 3.

Er komið var á Sæbraut var veður aldeilis með ágætum og fundum við ekki nokkurn vind. Tókum allhratt tempó vestur brautina, gerðum stuttan stanz við vatnshana þar sem ég drakk, héldum svo áfram hlaupinu og fórum um Lækjargötu og Hljómskálagarð eins og tíðkast hin siðari misserin. Albert hafði orðið viðskila við okkur einhvers staðar á Sæbraut, en náði okkur aftur á Hofsvallagötu. Stuttu síðar komu Rúnar og Magga, Eiríkur og Frikki - en þau höfðu tekið spretti og farið 16 km. Við hinir enduðum í 14. Flosi og prófessorinn fóru upp að Stíbblu, 22 km. Flosi gerði þetta af góðmennsku sinni því að prófessorinn var svo hræddur í myrkrinu sem var á leiðinni. Góðar teygjur iðkaðar í Móttökusal. Aðrir sem hlupu í dag voru Kári og Anna Birna, Þorvaldur og Magnús, og vakti athygli að Jörundur hljóp hvorki í dag né heldur á mánudag, maður sem þykist hafa efni á að úthúða öðrum fyrir að sleppa einu gönguhlaupi á sunnudagsmorgni. Hann ætti að rífast meira!

Nú brá svo við að Sunddeild KR var búin að hertaka pottinn okkar og urðum við því að sitja í Örlygshöfn. Rætt um heilsufar Bigga og það sem framundan er hjá honum. Það er víst tiltölulega einföld aðgerð og viðráðanleg. Frikki sagðist treysta honum Unnari sínum til þess að gera hana með rúllupylsunálinni sinni og líma svo einhvern lepp á belginn á eftir, eða það sagði Bjössi kokkur að væri praxís. Deilt var um hvort hnémeiðsli væru útvortis eða innvortis. Að höfðu samráði við lækni skal upplýst að meinsemd sem ekki sést berum augum utan á skrokknum skilgreinist sem "innvortis" - og hafið þið það! Hnémeiðsli geta því talist innvortis ef þau eru inni í hnénu.

Nú er það svo að næstkomandi föstudag er Fyrsti Föstudagur - stefnt að því að halda upp á hann á Dauða Ljóninu. Félagar hvattir til að mæta, von er á óvæntum gesti! Daginn eftir er svo hlaupið frá Laugum kl. 9:30 í félagsskap hlaupara í öðrum hlaupahópum á Höfuðborgarsvæðinu.

Óvenjufáir hlaupa á mánudegi - Minnt á laugardagshlaup frá Laugum

Þar sem ritari lá í potti í gærmorgun rétt um það leyti sem hlauparar safnast saman til sunnudagshlaups, harla sæll í sinni slökun eftir vel heppnaða hlaupaviku, sér hann kunnuglegu smetti bregða fyrir í rúðunni á Brottfararsal Laugar Vorrar. Stuttu síðar koma stormandi að honum tveir reiðir hlauparar, Ó. Þorsteinsson Víkingur og Jörundur, báðir á skítugum, óvörðum skónum, og jusu yfir hann óbótaskömmum fyrir að ætla að sleppa hlaupi á þessum degi. 18 km hlaup deginum áður var engin afsökun að þeirra mati.

Nema hvað, í dag var komið að mánudagshlaupi - sem þýðir bara eitt: sprettir. Nú eru ekki lengur tugir hlaupara mættir á mánudegi, eins og var í upphafi árs. Greinilegt er að vel meintur ásetningur um átak og breyttan lífsstíl er fyrir bí, fólk er farið að slaka á. Aðeins helztu hlauparar voru mættir, þar á meðal dr. Friðrik, Flosi, Magnús, Þorvaldur, Einar blómasali, Kári, Ósk, Hjálmar, Frikki, ritari, Þorbjörg K., Snorri, báðir þjálfarar, Ágúst, Sigurður Ingvarsson og Eiríkur. Og ská-tengdasonur Ágústs, sem ég man ekki hvað heitir. Þorvaldur snupraður af forstöðukonu fyrir að fylgja ekki prótókolli við komu til Laugar. Hlýlegar móttökur fengu Frambjóðandi Samtakanna, Hjálmar, fyrir ágætan árangur í kosningum helgarinnar, og Melabúðar-Frikki fyrir að vera meira áberandi í sjónvarpsrúðunni sl. sunnudag heldur en sjálfur Guðjón Valur. Kvaðst hann sæll yfir að hafa ekki aðhafst neitt misjafnt meðan á sýningu stóð.

Fórum í ágætisveðri upp á Víðimel og þaðan vestur úr út í Ánanaust og svo með ströndinni út á Nes. Hluti af hópnum hélt áfram um Gróttu, en aðrir settu stefnuna á Bakkavörina. Þar var gefin út skipun um 6-10 spretti upp brekkuna. Eftir sex slíka spretti vorum við blómasalinn búnir og héldum út á Lindarbraut, þaðan á Norðurströndina og tilbaka í nokkrum mótvindi, en á góðum spretti, út í Ánanaust og sömu leið til baka og komið var, Grandaveg og Víðimel.

Teygt vel og lengi úti á Plani og svo inni í Móttökusal. Upplýst að næstkomandi laugardag verður hlaupið frá Laugum kl. 9:30 í stórhlaupi laugardagshlaupara helztu hlaupahópa í Reykjavík. Var hvatt til þess að Hlaupasamtökin tækju þátt í þessu hlaupi og fjölmenntu. Síðar í vor mun okkur veitast sú ánægja að vera gestgjafar fyrir sambærilegu hlaupi frá Vesturbæjarlaug.

Pottur troðinn af glaðlegum hlaupurum sem ræddu margvísleg málefni, allt frá bíltúrum yfir Hellisheiðina og til Þorramtarins hjá Federico. Næsta föstudag er Fyrsti Föstudagur, ekki ráð nema í tíma sé tekið.

Er það satt? Getur það verið?

Sagði Björn sannleikann? Var Friðrik búinn að fá sér pönkaraklippingu og láta húðflúra íslenzka fánann báðum megin á hausinn á sér? Hann hlýtur þá að vera auðþekkjanlegur í ádíensinum í Vín. Nema hvað: fjöldi hlaupara mættir til hlaups á laugardagsmorgni kl. 9:30 - daginn þegar við mætum Frakklandi í undanúrslitum á Evrópumeistaramótinu í handknattleik. Veður ólýsanlega fagurt, heiðskírt, stilla, napurt - fjallahringurinn í austri baðaði sig í rísandi sól. Plönin voru af ýmsu tagi, sumir ætluðu í tempóhlaup, aðrir vildu fara langt. Með þetta var lagt upp.

Ástæða er til að nefna sérstaklega viðveru þeirra Þorvalds og Magnúsar, sem hafa ekki áður mætt á laugardegi eftir því sem ég bezt veit. Annars var þetta hefðbundna laugardagslið mætt. Hópurinn gisnaði fljótlega og áður en maður vissi af var maður  lentur í kunnuglegu kompaníi, með blómasalanum - og svo fylgdi Albert okkur austur að Víkingsheimili. Albert forvitnaðist um þessi ströngu plön sem menn eru í og þessa miklu keyrslu alla laugardaga. "Já, maður stefnir á Parísarmaraþon í april" sagði blómasalinn. "Maður er í prógrammi." En þegar spurt var hvað ritarinn ætlaðist fyrir kom löng ræða um það að hann væri aðallega að þessu blómasalanum til stuðnings og uppbyggingar, því sjálfur stefndi ritarinn sosum ekki á neitt ákveðið. Hann hlypi með blómasalanum honum til móralsks stuðnings, vegna þess hversu blómasalinn væri laus við sjálfsaga og hætti til að hlífa sjálfum sér á hlaupum. Rifjaður var upp gærdagurinn, þegar Einar fór af tilviljun í heimsókn í fyrirtæki þar sem Þorramatur var á borðum í hádeginu. Á téðum vinnustað unnu nær eingöngu Portúgalar sem litu ekki við matnum. Neyddist því Einar til þess að úða í sig lundaböggum og hrútspungum. Í hlaupi kvöldsins var svo ráðist til inngöngu á Jómfrúna í Lækjargötu og þar snædd rauðspretta, henni skolað niður með hálfum lítra af bjór.  Um kvöldið var svo ís og gúmmelaði af ýmsu tagi.

Þannig fórum við austurúr og skildu leiðir okkar fóstbræðra og Alberts við Víkingsvöll, við Einar stefndum í Kópavoginn, en fórum ekki Goldfinger heldur hina neðri leið sem Flosi hefur stundum farið. Yfir Breiðholtsbraut og stungum okkur beint niður í Elliðaárdal, þaðan undir brautina aftur og upp hjá gamla Fáksheimilinu og stefndum út á Miklubraut. Þar mættum við manni sem heitir Einar og er blómasali (NB Jörundur - var þetta klóninn?) Mættum mörgum hlaupurum og virðast hlaupahópar koma vel undan vetri. Er því  vel til fundið að koma á sameiginlegum hlaupum hópa fyrsta laugardag hvers mánaðar, svo sem nánar er greint frá á Hlaupadagbókinni. Fyrsta slíka hlaup verður þreytt frá Laugardalslaug n.k. laugardag.

Ég var með orkudrykk með mér og saup drjúgum á honum á leiðinni. Hlaup gekk vel og vorum við bara sprækir, en stundum þurfti að rykkja í til þess að tempóið dytti ekki niður, aftur þetta með sjálfsaga og einbeitingu. Fórum Sæbrautina og svo Lækjargötu tilbaka. Það var svolítið napurt og því nauðsynlegt að halda vel áfram og ná það góðum hraða að maður kólnaði ekki. Enduðum í 17,5 km - en Einar hafði farið 4 áður en hlaup byrjaði svo að hann fór yfir 20 km í dag.

Í potti voru Ósk, Bjössi, blómasalinn og ritari - til umræðu kom leikurinn við Frakka og svo forval hjá stjórnmálaflokkunum fyrir sveitarstjórnarkosningar. Sumir ætla að hvíla á morgun, en ekki sakar að láta þess getið að í fyrramálið er hlaupið frá Laug kl. 10:10 skv. hefð - og er af nógu að taka í greiningum og frásögnum: leikurinn, kosningarnar, svindlmál hið nýja þar sem fjórir voru handteknir og sæta rannsókn fyrir ótrúlega framgöngu gegn þjóð sinni sem er að vinna sig út úr djúpri kreppu. Vel mætt!

Hvað gerði blómasalinn á Jómfrúnni?

Nú ríður á að halda öllu því helzta til haga. Fáir mættir til föstudagshlaups, þrátt fyrir að í það hafi verið látið skína að þorsti manna yrði tekinn til sérstakrar athugunar og lagt á það mat hvort mæta mætti þörf mann fyrir vökvun með hefðbundnum hætti. Í dag voru mættir Jörundur, Þorvaldur, Ólafur ritari, blómasalinn, Friðrik kaupmaður og tveir menn til viðbótar sem ritara vantar nöfn á. Á föstudögum er hlaupið hefðbundið, engin breyting var gerð á því í dag. Enda engin ástæða til, veður var hreint frábært, algjört logn, hiti 6 stig, bjart og fagurt veður. Góð stemmning í hópnum. Á Hofsvallagötu staðnæmdist jeppi og flautaði að okkur, við létum sem við sæjum hann ekki. Jeppinn elti okkur og hélt áfram að flauta og á endanum þekktum vð skeggjað smettið á farþega í framsæti: sjálfur Bjarni Benz mættur með óljóst erindi í Vesturbæinn, altént ekki hlaupandi.

Farið rólega af stað enda fundu menn fyrir þörf að hita sig vel upp. Nema Frikki, sem bara æddi af stað og fékk sig öngvan veginn hamið. Hljóp fram og tilbaka og sótti okkur. Hann er á leið til Vínarborgar í fyrramálið og ætlar að ná leiknum við Frakka. Við tókum góða rispu frá Hofsvallagötu og alla leið að flugvelli til þess að kynna hinum nýju félögum helztu einkenni hlaupara í Hlaupasamtökunum: illkvittni, baktal, einelti og fleira í þeim dúr. Þeim leizt vel á. Jörundur og ritari rifjuðu upp bókatitlana sem þeir hefðu gefið blómasalanum, ritari gaf Flugu á vegg eftir Ólaf Hauk, en Jörundur gaf Hvernig á að forðast að verða geðveikur. Engar sögur fara af því hvort karlinn hafi lesið bækurnar.

Áfram í Nauthólsvík, þar var stanzað og spurt hvort áhugi væri fyrir sjóbaði - en einhvern veginn eyddist málið og við héldum áfram upp Hi_Lux. Hér rifjaði Jörundur upp daginn þegar komið var að Hi-Lux jeppanum. Upp löngu brekkuna og blómasalinn farinn að slá slöku við. Frikki sýndi vðleitni til þess að bíða eftir hinum slakari hlaupum, en það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að bíða eftir fólki sem hefur boðið sjálfu sér í þorramat í öðrum fyrirtækjum og misst sig í mat.

Svo var þetta nú bara hefðbundið og farið hratt yfir, ritari náði að hanga í Federico frá Klambratúni og vestur úr. Á Sæbraut var haft á orði að nú mætti Kári mæta með kajakinn sinn, svo lygn var sjórinn við Sundin. Við fórum um Miðbæinn, Lækjargötu og Hljómskálagarð, sem lengir hlaup lítillega. Tekið vel á því í lok hlaups, farið hjá Þjóðminjasafni og Hótel Sögu. Eftir hlaup var okkur sagt að þegar blómasalinn kom í Lækjargötu hefði hann þotið eins og blá elding yfir Lækjargötuna og beint inn á Jómfrúna. Honum þótti ekkert leiðinlegt að upplýsa okkur í Potti að þar hefði hann slokað í sig heilum bjór og rauðsprettubrauðsneið með remolaði. Ef einhverjum dylst hvers vegna þessum hlaupara gengur svo illa að búa sig undir París - þarf frekari vitnanna við?

 Nú brá svo við að tveir óhlaupnir mættu í Pott: Denni og Kári og höfðu báðir vondar afsakanir fyrir fjarveru, Kári í veseni með fólk sem var að hringja í hann, Denni eitthvað meiddur eftir meinleysislegt mánudagshlaup. Kári sagði okkur sögu af ölvuðum manni sem var að veizlu og kona sagði við hann: Þú ert ölvaður! Hann svaraði: Þú ert ljót. Og það sem meira er: á morgun verð ég edrú, en þú verður ennþá ljót. Ég veit ekki hvaða bókmenntagrein þessi saga tilheyrir, en slíkt má ræða á hlaupum næstu daga. Rætt um súrmeti, hval, skötu, og annað í þeim dúr.

Í fyrramálið verður sumsé farið snemma út, kl. 9:30 - og farið langt.





Mannræktarsamtök á ferð

Í Hlaupasamtökunum er jafnt stunduð mannrækt sem málrækt. Það er iðkaður patríótismi og andleg uppbygging. Menn mæta til hlaups niðurbrotnir á sál og líkam, en hverfa frá hlaupi og potti eins og nýslegnir túskildingar. Á þetta vorum við minnt í kvöld, þ.e. við sem höfðum þá skynsemi til að bera að mæta til hlaups og vorum svo bjartsýn að það myndi bæta eitthvað dapurlegt ástand okkar. Þetta voru dr. Friðrik, Margrét þjálfari, Anna Birna, Kári, Ágúst, Flosi, Þorvaldur, Einar blómasali, Jörundur, Bjössi, Friðrik Meló, einhver sem svaraði nafninu Haukur Húsvíkingur, kona til viðbótar sem ég hef ekki nafnið á, Eiríkur bættist í hópinn og svo man ég eftir Ósk í aftureldingunni. Menn kepptust um að bera saman skófatnað sinn, ótrúlega margir í nýjum hlaupaskóm.

Það var farið rösklega austurúr, í boði tvær leiðir: Þriggjabrúahlaup vaxandi og 69. Ritara langaði í 69, en ákvað á endanum að láta sér nægja Þriggjabrúastubb.

Það kom nefnilega á daginn að fyrir utan eymsli í mjöðmum, þá var ég þungur á mér og þreyttur. Það eru ekki góðir ferðafélagar á hlaupum. Félagar mínir jusu mig háðsglósum þegar ég kallaði eftir viðurkenningu og hvatningu, hver ég héldi að ég væri eiginlega að ata þá auri fyrir að mæta ekki til hlaupa á þriðjudegi, og mæta svo ekki sjálfur þegar hlaupið er. Ég var minntur á að fyrstu fimm ár aðildar að Hlaupasamtökunum færu í hunzun, næst tæki við ár af einelti - það væri ekki einu sinni komið að mér í eineltisröðinni. Vinsamlegast halda kúlinu á meðan.

Á Ægisíðunni mættum við einbeittum hlaupara sem var svo einbeittur að hann leit ekki upp og hljóp beint inn í hlaupahópinn okkar, gerði greinilega ráð fyrir að aðrir forðuðu sér frá þessari eimreið. Áfram veginn og í Skerjafirði var ég orðinn einn, þeir fremstu komnir langt á undan, fyrir aftan mig var hópur líka. Það var allt í lagi. Kom í Nauthólsvík, og ég sver að ég sá hlaupara beygja kunnuglega af og fara niður á rampinn, taldi að þar gætu hafa verið Friðrik Meló og einhverjir með honum, en Þorvaldur beið uppi á stígnum og vildi vita hvert menn ætluðu. Ég spurði um sjósund, en fékk engin greinileg svör, nennti ekki niður á ramp. Um það leyti bar Jörund að og saman fórum við fetið austur úr, báðir þungir og þreyttir.

Upp hjá Borgarspítala og við Bústaðaveg rákumst við á vegvilltan Laugaskokkara sem slóst í för með okkur. Upplýstum hann um  Hlaupasamtökin og helztu einkenni þeirra. Varð honum á orði að þetta væri alvöru hlaupahópur. Upp hjá Útvarpshúsi, gegnum Hvassaleitishverfið, yfir Miklubraut og út á Kringlumýrarbraut. Þessi félagi fylgdi okkur niður á Suðurlandsbraut en hélt eftir það í átt til Lauga. Við niður úr og niðrá Sæbraut. Á þeim kafla tók ég ágústínskt flug og flaug á hausinn, rak tána í ósýnilega örðu í nýsteyptri gangstétt, náði þó að pakka mér saman í loftinu og lenda mjúklega, fór stórslysalaust út úr þessu.

Á Sæbraut má svala sér á kaldasta vatni Höfuðborgarsvæðisins sem ófrosið er utandyra. Við fórum um Lækjargötu og Hljómskálagarð, hjá Háskóla og Sögu og þá leið til Laugar, rúma 14 km. Utandyra stóðu nokkrir hlauparar og lögðu mat á hlaup dagsins. Það var teygt á Plani og karpað um hlaupaskó. Stuttu síðar kom Einar blómasali og hafði farið 600 m lengra en við Jörundur, ekki hefur það verið mjög hratt hlaup! Inni voru Bjössi, Frikki og Eiríkur - og stuttu síðar kom Ágúst hafandi farið rúma 18 í 69 hlaupi dagsins. Flosi kom skömmu síðar eftir sömu vegalengd.

Í Potti var borið upp gamalkunnugt tema: Strákar, eigum við ekki inni ónýttan Fyrsta Föstudag? Svo varð mikil umræða um nýjustu afhjúpanir og svindilmál og fundu menn til vanmáttar síns að hafa ekki Vilhjálm Bjarnason til þess að útskýra hlutina fyrir okkur og leiðrétta misskilning, segja okkur hið sanna og rétta af stöðu mála. Lögð drög að næsta hlaupi sem er á föstudag er kemur. Vel mætt.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband