Langur laugardagur

Hópur alvöruhlaupara mættur til þess að þreyta langt hlaup frá Vesturbæjarlaug í dag, laugardag. Það var dimmt og það hellirigndi, en menn létu það ekki á sig fá. Flosi orðinn afi í sjötta sinn og var harla stoltur af því. Mættir voru þjálfararnir Rúnar og Magga, Bjössi, ritari, blómasali, Flóki, Jóhanna, Frikki, Rúna, Albert. Sumsé harðskeytt og einbeitt sveit úrvalshlaupara. Ætlunin var að fara langt, frá 22 upp í 26 km.

Niðamyrkur á Ægisíðu, framvarðarsveitin setti strax túrbóinn á og var horfin okkur sjónum fljótlega. Þannig að það féll í hlut okkar minni spámanna að taka þennan túr saman, eins og oft áður lenti ég í félagsskap við blómasalann, svo fylgdi okkur Flosi áleiðis og Rúna. Við heyrðum hlaupara hósta í myrkrinu fyrir aftan okkur. Einhver sagði að hann væri astmaveikur og væri læknir. Við ákváðum að fara Goldfinger og upp að Stíbblu. Það var þungt fyrir fæti að hlaupa þetta í rigningunni, því hún var köld og gerði vöðva alla stífa. En við kjöguðum þetta og fórum þetta hefðbundna, gegnum Smiðjuhverfið og yfir í Breiðholtið, framhjá Mömmu og þannig áfram. Þarna vorum við orðnir þrír, ég, blómasalinn og Albert, sem ég vissi aldrei hvort hefði verið sá sem hóstaði.

Flosi fór aðra leið og ætlaði að hitta okkur við Stíbblu, en við sáum hann aldrei þar og héldum bara áfram niður úr. Hlaupið varð æ erfiðara eftir því sem lengra var komið vegna kuldans, vöðvarnir hreiinlega neituðu að vinna fyrir mann. En það var haldið áfram og ekki gefist upp, en mikið hefði verið gott að hafa aðgang að vatni einhvers staðar á leiðinni. Mættum Helgu Jónsdóttur í Fossvogi. Einar lengdi er komið var að Hofsvallagötu, en ég hélt til Laugar. Bjössi og Frikki höfðu farið svipað og við, en lengdu út á Nes, Magga og Rúnar fóru tæpa 26 km, tóku hring um Nesið undir lok hlaups.

Ég ætla ekki að ljúga, þetta var ekki gott og ekki yndislegt, en mikið var gott að komast í pott á eftir til að ylja sér. Ekki var verra að hitta í Móttökusal Ó. Þorsteinsson, Formann til Lífstíðar, sem upplýsti í óspurðum fréttum að hann hefði verið beðinn að annast dómarastörf í Hrepparnir keppa í sjónvarpi allra landsmanna. Verður fjallað nánar um það í hlaupi morgundagsins, stundvíslega kl. 10:10.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband