Formaður fær atvinnutilboð

Hvað varð til þess að Baldur Sím., hlaupari án hlaupaskyldu en með rannsóknaskyldu, skellihló í potti? Um þetta verður fjallað síðar í frásögn þessari af athyglisverðu hlaupi í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, sem nálgast nú aldarfjórðungsafmæli sitt á vordögum. Mættir þessir: Ó. Þorsteinsson, Flosi, Jörundur, Þorvaldur, Magnús tannlæknir, Bjarni Benz, ritari, blómasali seinn að vanda og svo einn til sem ég hef ekki nafnið á.

Jörundur að mæta í fyrsta hlaup á nýju ári. Kvaðst vera hættur að hlaupa, nú væru bara niðurhlaup framundan. Menn voru bara nokkuð frískir, þrátt fyrir að hafa farið yfir 20 km í hlaupi gærdagsins, sumir hverjir. En í dag átti nú bara að fara rólega og eiga löng samtöl um það sem hæst er á baugi í samtímanum. Veður hið besta, bjart yfir og logn, þó nokkuð hált hér og hvar á leiðinni.

Í Nauthólsvík kom kirkjuráðsbrandarinn hans Magga um Kínverjann, sem klykkir út með þessari replíku: "Þú eiga fallegt hús!" Við mættum Helgu Jónsdóttur aftur í dag, og fylgdi hún okkur áleiðis. Kirkjugarður og Veðurstofa viðburðalítil. Rifjað upp að Bjössi slapp naumlega sl. föstudag undan bíl sem ók á ofsahraða yfir hraðahindrun í Suðurhlíðinni og mátti ekki muna miklu. Það er óvenjulegt að fólk aki svo óvarlega á þessum slóðum.

Eftir langt hlaup gærdagsins var ansi ljúft að fara þetta rólega í dag, upphitun og mýking. Á Hlemmi urðum við fyrir aðkasti pars sem var að koma af galeiðunni, bæði alldrukkin, og hrópuðu ókvæðisorðum að okkur og kölluðu "einn, tveir, einn, tveir" eins og hlauparar urðu fyrir á upphafsárum Samtaka Vorra.

Í potti voru helztu þátttakendur sunnudagsumræðna og komið var að þætti Ó. Þorsteinssonar. Hann upplýsti að haft hefði verið samband við sig og hann beðinn um að taka að sér að semja spurningar, dæma og telja stig í Útsvari - eftir að aðalhöfundur spurninga veiktist. Þá hló Marbendill. Baldur skellti upp úr þegar hann heyrði þessa frétt, enda hefur hann öðrum fremur haft efasemdir um hæfileika frænda míns á þessu sviði, einkum þegar vísbendingaspurningar eru annars vegar, en hann telur að vísbendingar Ólafs séu oftast misvísandi, ef ekki beinlínis rangar og því hæpið að búast við réttum svörum við þeim.

 Nú er að njóta þess sem eftir er af helginni og búa sig undir átök í hlaupum vikunnar sem framundan er.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband