Friðbjörn - hetja Vesturbæjarins

Í morgunútvarpi RÚV var haft viðtal við Friðbjörn Sigurðsson, lækni og hlaupara af Nesi, þar sem hann lýsti fyrirhugaðri för sinni til Haítí, eyjarinnar í Karíbahafi, þar sem jarðskjálfti reið yfir í síðustu viku og olli ólýsanlegu tjóni og mannlegri þjáningu. Þangað kominn hyggst Friðbjörn leyfa hinni hrjáðu þjóð að njóta krafta sinna og þess sem hann best kann: að lina þjáningar og lækna sjúka. Framtak Friðbjörns vekur aðdáun og er til eftirbreytni og mættu fleiri taka hann sér til fyrirmyndar. Í viðtalinu í morgun var hann  spurður hvernig hann byggði sig upp fyrir erfiða lífsreynslu eins og þá sem hann ætti fyrir höndum. Kvaðst hann hlaupa og nyti stuðnings félaga sinna í Trimmklúbbi Seltjarnarness, þar sem hann hlypi reglulega. Hér er breytt með eftirminnilegum hætti, sagt er frá af lítillæti en þó sanngirni og þeirra getið sem hrærast í nærumhverfinu og veita viðmælanda stuðning og hvatningu í amstrinu og erfiðinu sem framundan er. Hér mættu einnig fleiri taka Friðbjörn til fyrirmyndar, en ósjaldan hefur það gerst að félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins hafa átt þess kost að koma fram í fjölmiðlum, en hafa í algerri sjálflægni og einstaklingshyggju gleymt Samtökunum sem hafa fóstrað þá, þroskað, byggt upp og gert að þeim mönnum sem þeir eru, og talið að öll þeirra afrek mætti rekja til eigin ágætis.

Nema hvað, það var miðvikudagur og ætlunin að hlaupa langt. Mættur töluverður fjöldi hlaupara, meðal þeirra mátti þekkja sjálfan Jörund, dr. Friðrik, Magga, Þorvald, Flosa, Ágúst, S. Ingvarsson, Einar blómasala, Kára, Bjössa, Ólaf ritara, Möggu þjálfara, Benzinn, Ósk, Benna, Eirík, Albert, og einhverja fleiri. Þjálfari var með ýmsar opsjónir, hlaupa langt, hlaupa stutt, þið veljið. Flosi og Ágúst lýstu strax yfir áhuga á að fara langt, aðrir styttra, að vísu ætlaði þjálfari að fara 30 km, en ekki var alveg ljóst hvernig það mætti verða.

Varla vorum við lögð af stað þegar heyrðist í fyrstu skruggunum, Kári varð lífhræddur og lýsti yfir að hann vildi ekki mæta ótímabærum dauðdaga af völdum skruggu. Fórum niður á myrkri vafiða Ægisíðu og bjuggum okkur undir hið versta. Ekki þurfti lengi að bíða þegar veðrið skall á, haglél af suðaustri, svo hvasst, svo beitt, svo óvægið að maður vissi ekki fyllilega hvernig bregðast skyldi við. Ég frétti af því að einhverjir hefðu snúið við, en ég setti höfuðið undir mig og hélt áfram. Minnstu munaði að ég hlypi á mann á ljóslausu reiðhjóli sem kom á fullri ferð í Skerjafirðinum og leit hvorki til hægri né vinstri. Það verður að stoppa þennan praxís, siga löggunni á þetta lið! Stuttu síðar reið næsta hryðja yfir, hálfu verri en hin fyrri, og jafnframt sást blossi í lofti og fleiri skruggur gerðu vart við sig, einhvers staðar í námunda við flugvöll. Skórnir fylltust af vatni, ég gegnblotnaði og hugsaði með mér: Nei, takk, ekki meira af svo góðu. Hér verða engin langhlaup stunduð í dag.

Í Nauthólsvík sá ég blómasalann og Benzinn, þeir görguðu eitthvað óskiljanlegt í áttina til mín, en ég beygði af og fór Hlíðarfót, enda ósofinn, vaknaður kl. 4:00 í morgun til þess að ígrunda með hverjum hætti mætti bæta hag Lýðveldisins og þegna þess. Nú er traffík við HR og fjöldi fólks á ferð. Raunar má kalla þessa leið Þriggjabrúahlaup með afbrigði, því farið er yfir þrjár brýr, eina í Nauthólsvík, eina yfir Miklubraut og þá síðustu í Vassmýri. Nema ég held áfram, aleinn eins og venjulega og er bara lentur í existensíalískum tregasöng.

Ég hitti þá Magnús og Jörund við Laug, þeir höfðu farið svipað og ég. Þegar Magnús heyrði skrugguna á leiðinni var honum svo brugðið að hann fleygði sér í fang Jörundar, og vonaði að með því minnkaði spennan úr 220 V í 110 V með því að fyrst færi hún í Jörund og svo í hann, ef skruggunni slægi niður í þá. Enn var tekið til við að ræða Haítíferð Friðbjörns og velta upp möguleikum á að Hlaupasamtökin sendu einhvern af sínum hæfileikaríku bræðrum eða systrum utan. Vantar kokk? Vantar jóga? Vantar barnaskólakennara? Eða eigum við bara að líta til þess að Friðbjörn hefur ekki einasta hlaupið um Vesturbæinn knúinn af þeirri nauðsyn að Nesið er aðeins lítill blettur og allar leiðir til menningar liggja um Vesturbæinn, heldur hefur hann raunar komið af og til með Hlaupasamtökunum á föstudögum og við gætum einfaldlega gert tilkall til hans og þessa ágæta framtaks og lýst stolt yfir að við krefjumst eignarhalds á Friðbirni, þótt að litlu leyti sé.

Svo tíndust þeir hver af öðrum til Laugar, hlaupararnir, og virtust flestir hafa snúið undan hörðu éli og látið hlaup dagsins vera stutt. Undantekning voru próf. Fróði og barnaskólakennarinn, þeir fóru eina 18 km. Maður skammast sín fyrir að segja frá þessum 8 sem maður fór sjálfur. Fer inn í skáp og dreg eitthvað gamalt yfir mig.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband