Frambjóðandinn

Í dag heimsóttu Hlaupasamtökin einhvern frambærilegasta frambjóðanda Lýðveldisins fyrir komandi sveitastjórnarkosningar. Meira um það seinna.

Svo var mál með vexti að í dag var hlaupið. Þorvaldur byrjaði að hósta jafnskjótt og hann kom í Útiklefa og hélt uppteknum hætti gegnum allt hlaup. Aðrir mættir voru Ágúst, Björn, Einar blómasali, Kári, Kalli kokkur, Rúna, Federico, Benzinn, Ólafur ritari, Ragnar borgarstarfsmaður og töldu sumir sig jafnvel sjá Eirík í hlaupi, það kann að hafa verið missýn. Mjög var spekúlerað í því hvað yrði í boði í bakhýsi við Óðinsgötu, sem ætlunin var að heimsækja í miðju hlaupi. Höfðu sumir á orði að líklega yrði aðeins heitt kakó og vöfflur í boði, aðrir voru vonbetri og töldu líklegt að þar mætti hafa holla og svalandi drykki hlaupurum.

Á föstudögum ráðum við okkur sjálf. "Verður ekki bara farið hægt?" spurði Ágúst. Jú, það skyldi farið hægt. En hvaða leið átti að hlaupa? Hvernig komumst við á Óðinsgötu.  Þar sem ritari er borinn og barnfæddur Reykvíkingur gat hann leiðbeint utanbæjarmönnum um leiðina, sumsé hefðbundið á Óttarsplatz og þaðan upp á Skólavörðuholt og sem leið liggur í áfangastað. "Já, við förum Laugaveg" sagði Þorvaldur eins og hann hefði ekki verið að hlusta. Ekki var maður að fara út í stæla af þessu tilefni, en var óneitanlega spenntur að sjá hvernig hlaupi yndi fram.

Í þetta skiptið ollu þyngsli ritara ekki vandræðum, hann hljóp með fremstu mönnum og var stolt Samtakanna á þessum degi. Það var heiðskírt veður, en farið að draga í loft í austri. Hiti lágur og vindurinn allstífur í fangið. Menn veltu mjög fyrir sér hvers mætti vænta á Óðinsgötunni. Vindur gerði allar umræður erfiðar, þar sem orðin fuku út í buskann. En þó skal viðurkennt að farið var afar hægt, jafnvel þunglamalega. Átti þetta jafnt við um ofurhlauparann Ágúst sem aðra minni spámenn í þessum fræðum.

Fórum upp Hi-Lux og ég heyrði að Ágúst sagði nýliðanum Hi-Lux-söguna, hún er alltaf jafnskemmtileg, hún tilheyrir sögu og hefðum Samtaka Vorra. Ekki var sprett úr spori upp brekkuna löngu og góðu, en er efst var komið dokuðu menn aðeins við, en þeir sem á eftir fóru voru afar seinir og þungir á sér. Þannig fórum við áfram, ritari, prófessorinn, nýliðinn, Þorvaldur og Bjössi blandaði sér í baráttuna er hér var komið. Aðrir voru hægir og slappir.

Eftir þetta var eiginlega sprett úr spori, hér var tilhugsunin um veitingar á áfangastað farin að heltaka hlaupara, sem sumir hverjir verða drafandi af einni saman vitneskjunni að tungunni megi dýfa í hinn gullna mjöð. Var hætt við að drægi sundur með mönnum, en er komið var á Óttarsplatz stöldruðu þeir við, Ágúst, nýliðinn og Bjössi og biðu þess að ritari leiðbeindi þeim gegnum holtið, Þorvaldur er hins vegar ekki af Óðagotsætt fyrir ekki neitt, hann æddi áfram Rauðarárstíginn og fór Laugaveginn eins og hann hafði ákveðið á Brottfararplani, þegar við reyndum að ná saman um ákveðið ferðaplan.

Þetta var góð ferð, gott hlaup og vorum við samtaka félagar. Hér hófum við að ræða um Frambjóðandann og mærðum hann í bak og fyrir, töldum hann afbragð annarra manna og líklegan til þess að standast þá tilhneigingu stjórnmálaflokka að teyma frambjóðendur sína út í fen hagsmunatogstreitu og hvers kyns annarlegra hagsmuna. Gilti einu hvort viðkomandi var últra hægrimaður eða öfgasinnaður vinstrimaður. Það tók nokkurn tíma að finna Hjálmar og félaga á Óðinsgötunni, en það hafðist. Fyrir voru vinir og stuðningsmenn á fleti, í boði voru drykkir og nasl. Þetta var aldeilis frábært, og ekki minnkaði kæti okkar er sjálfur Vilhjálmur Bjarnason birtist í eigin persónu í húsakynnunum og varpaði ljóma yfir staðinn.

Héldum heim, sæl og mett, og syngjandi, ómaði söngur um alla Óðinsgötuna, þar sem bassarödd Benzins hljómaði hvað hæst. Rifist um hvaða leið ætti að fara tilbaka, einhverjir voru komnir með samvizkubit yfir töfinni og héldu að það þyrfti að lengja. Hér var sérstaklega tekið til manna eins og próf. Fróða, sem er haldinn sálrænni andstöðu við 10 km hlaup eftir að hafa verið tíndur upp af Hjálparsveit Skáta þegar hann átti 1 km eftir í 10 km hlaupi, nær dauða en lífi sökum áreynslu. Eftir það hefur hann ekki hlaupið 10 km hlaup og fer ekki þá vegalengd.

Nei, við fórum stytztu leið tilbaka, við þessir helztu hlauparar. M.a.s. blómasalinn virtist vera að koma til, þrátt fyrir að hafa sætt flensusprautu að ráði Kalla kokks - en endað í veikindum sem minntu einna helzt á afleiðingar tveggja daga fyllerís. Pottur góður og lögð drög að kvöldmat. Næst er hlaupið í fyrramálið kl. 9:30 og farið langt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú eru flestir farnir að míga utaní kratana.

Jörundur (IP-tala skráð) 15.1.2010 kl. 22:30

2 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Margir bestu vinir mínir eru kratar - þeir eru margir hverjir ágætis fólk eins og við hin.

Flosi Kristjánsson, 16.1.2010 kl. 08:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband