Hangikjöt og flugeldar teknir framyfir hlaup

Sumir hlaupa af ástríðu og metnaði. Aðrir hlaupa vegna vondrar samvizku. Í síðari hópinn fellur ónefndur blómasali sem þó stefnir á þátttöku í Parísarmaraþoni í apríl. Í kvöld, þegar hlaupið skyldi langt, lét hann undir höfuð leggjast að mæta til hlaups í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, en kaus þess í stað að þiggja boð Kanttsprynufélags Vesturbæjarins um að sitja hangiketsveizlu og njóta að því búnu flugeldasýningar í boði félagsins. Kosturinn við boðið var að það mátti taka alla fjölskylduna með sér - svoleiðis boð standast sumir ekki. Blómasalinn beit þó hausinn af skömminni þegar hann mætti til Laugar á hlaupatíma til þess eins að skola af sér í útisturtu og geifla sig framan í viðstadda. Furðu vakti að hann tilkynnti þjálfurum um áform sín og fékk, að því er virtist, bara jákvæð skilaboð tilbaka. Hér eiga auðvitað þjálfarar að setja hlauparanum stólinn fyrir dyrnar og krefjast þess að hann forgangsraði rétt.

Furðu fáir mættir í hlaupi kvöldsins, mátti þar helzt bera kennzl á Magnús, dr. Friðrik, Ágúst, Flosa, Bjössa, Rúnar, Möggu, Þorbjörgu Karls., Ósk - og svo mætti ritari. Ekki man ég hvort fleiri voru mættir. Ekki man ég heldur hvort einhverjar leiðbeiningar gengu út til hlaupara, og áður en maður áttaði sig á var hersingin komin á hreyfingu. Ég lenti með fremstu mönnum þegar í byrjun og það var farið á 5 mín. tempói inn í Nauthólsvík. Þegar Ágúst var spurður út í hraðann, spurði hann á móti: "Átti ekki að fara bara rólega inn að Skítastöð?" Þennan hraða halda feitlagnir býrókratar ekki lengi út og því slakaði ég á í Nauthólsvík, enda var meiningin að fara 69 og til þess þurfti maður að fara sparlega með kraftana. Þeir hinir drógu ekki af sér og héldu áfram á fullu stími og voru fljótlega horfnir. Magga tætti fram úr þeim og hvarf út í myrkrið á ógurlegum hraða.

Líklega hafa flestir farið Þriggjabrúa, einhverjir eitthvað styttra, en við Ágúst og Bjössi fórum 69. Í Fossvoginum mætti ég líklega tveimur hlaupahópum, Laugaskokki og ÍR-hópnum, virtist þarna vera um 40-50 manns að hlaupa. Þar var líka boðið upp á eina herlega flugeldasýningu sem entist allan dalinn með ógurlegri litadýrð og hávaða svo glumdi í Kópavoginum hinum megin.

Veður var aldeilis dýrðlegt og færið ágætt, en þó fór að frysta á seinni hluta hlaups og þurfti maður að fara varlega af þeim sökum. Farið undir Breiðholtsbraut, út í hólmann og tilbaka aftur og yfir á Miklubraut. Var of mikið klæddur og svitnaði mikið og varð æ þyngri þar sem bleytan sat sem fastast í fötunum. Þannig að þetta var orðið erfitt þegar komið var á Sæbraut og inn að Útvarpshúsi (gömlu gufunni). Ákvað að fara gömlu leiðina hans Villa um Ægisgötu, þessum ágæta félaga til heiðurs. Skal viðurkennt að ég rölti upp á horn hjá Landakoti. Hlaupið rólega tilbaka.

Aðeins voru þeir við Laug sem lengst höfðu farið og teygðu innandyra. Legið í potti um stund þar sem Sif Jónsdóttir langhlaupari var mætt. Rætt um félaga sem ekki hafa sézt lengi, svo sem Bigga, og vöngum velt um ástæður þess að hann lætur ekki sjá sig. Kunni enginn skýringar á því. Svo einkennilega vildi til að enginn hafði orð á því að Fyrsti Föstudagur er n.k. föstudag, enda menn uppteknir af því að ræða hlaup, meiðsli og matargerð. Góður dagur og gott hlaup að baki, ekki orði andað um þið vitið hvaða málefni. Mikið var ég feginn!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband