Færsluflokkur: Pistill Ritara

Kúplingsfótur stirðnar og veldur deilum

Föstudagur rann upp bjartur og fagur með fögrum fyrirheitum. Flosi stóð úti á Stétt og horfði á sólaruppkomuna og munaði minnstu að hann brysti á með söng og færi með "Sjá roðann í austri" - en hann hafði taumhald á tilfinningum sínum og barg mannorði sínu. Það var rigning er menn mættu til Laugar síðdegis og búið að opna Útiklefa. Verið að gera klárt fyrir hana Lovísu sem ætlaði að skemmta með söngvi á Iceland Airwaves. Við þessir helztu drifum okkur í Útiklefa og klæddumst. Mættir: Formaður til Lífstíðar Ó. Þorsteinsson Víkingur, Gísli rektor Armulensis, Þorvaldur, Jörundur, Flosi, Kári, Benz,Guðrún B. Bjarnadóttir, Ólafur ritari, Einar blómasali - og fleiri vorum við að líkindum ekki.

Ljósmyndari frá Fréttablaðinu mætti í Brottfararsal og tilkynnti tilhögun ljósmyndunar í tilefni af 25 ára afmæli Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Bað hann menn um að raða sér upp í snyrtilega röð á Ægisíðu þannig að hann næði bæði hæðarmynd og breiðmynd. Ekki veit ég hvað hann átti við, hvort sérstakrar tækni væri þörf til þess að ná svo feitlögnum einstaklingum á mynd. Og hægja á sér, svo að hann næði örugglega óhreyfðri mynd. Ritari fullvissaði hann um að lítil hætta væri á að hann næði ekki hópnum nánast óhreyfðum, svo hægt væri farið yfir.

Jæja, það stendur eins og stafur á bók. Ljósmyndarinn bíður eftir okkur á tilsettum stað og smellir af, gefur svo þumalfingursmerki um að myndatakan hafi verið harla vel heppnuð. Við ánægðir og höldum áfram. Blómasalinn fer eitthvað að orða það hvort ekki megi snúa við úr því að myndatöku sé lokið, en ritari tekur slíkt ekki í mál. Menn eru pískaðir áfram. Frændi minn er upptekinn maður og gegnir veigamiklu hlutverki við að halda uppi viðunandi atvinnustigi í landinu og neyðist því til að fórna sér og hverfa frá hlaupi í Skerjafirði og er afsakaður.

Ritari fer með Gísla rektor og Jörundi, sem eru einhverjir ágætastir og uppbyggilegastir hlauparar sem hann þekkir. Góður félagsskapur það. Jörundur er að velta fyrir sér haustmaraþoni, ef veður verður skaplegt mun hann þreyta hlaup, en ef verður stormur á norðan eða suðaustanhvassviðri þá mun hann mæta á bíl og hvetja hlaupara. Gísli hins vegar hleypur langt á laugardagsmorgnum í vaskra sveina hópi og fer því rólega og bara stutt á föstudögum. Hann fór Hlíðarfót í dag og snöri til Laugar að því búnu.

Við Jörundur áfram upp Hi-Lux og löngu brekkuna, sáum hlaupara á undan okkur sem fóru hægt yfir. Náðum þeim í tröppunni hjá Veðurstofu og tókum fram úr þeim. Römbuðum þar á Benzinn og blómasalann, hvað var í gangi? Benzinn meiddur og blómasalinn bara latur, reyndi að vekja samúð viðstaddra með því að rifja upp löngu gleymd veikindi. Við Jörundur hlustuðum ekki á slíkt, rifum þá með okkur og héldum uppi tempói.

Hér fór hraði að aukast og má segja mér að farið hafi verið að nálgast 5 mín. tempóið á Klömbrum. Bjarni spurði Jörund hvað hægt væri að gera við meiðslum sem hæfust neðan við hné. "Hlaupa meira!" sagði Jörundur. Líkt og þegar maður kom hóstandi til Dags skálds segjandi "ég verð að hætta að reykja". "Vitleysa!" sagði skáldið. "Þú reykir ekki NÓGU mikið." Jörundur sagði honum að hætta þessu væli og herða hlaupið. Við áfram.

Á þessum kafla voru þau horfin okkur, Guðrún, Flosi og Þorvaldur, fóru á ægilegu tempói sem fæst ekki uppgefið enn á ritandi stundu. Að vísu var upplýst eftir hlaup að Þorvaldur hafði venju samkvæmt svindlað og stytt, farið Laugaveg með Guðrúnu, en Flosi farið Sæbraut. Við drengirnir fórum Sæbraut, og þarna fór blómasalinn að braggast. Margt skrafað og skeggrætt á þessum kafla sem ekki verður upplýst og aðeins vísað til þess trúnaðar sem ríkir með föstudagshlaupurum: við látum ekkert uppi, en ef fólk vill vita hvað sagt er getur það bara mætt í hlaup!

Farið um Hljómskálagarð tilbaka og voru menn bara sprækir. Teygt á Plani. Tónlist í Móttökusal, Lay Low að kveða að. Hlauparar fóru í Útiklefa. Pottur margvíslegur, fólk á fleygiferð milli potts og út í laug að hlusta á tónlistarkonuna, fóru sagnir af því að Björk væri í Laug og útlendingar hefðu misst sig fyrir því. Hér mættu Anna Birna, dr. Jóhanna og Biggi Jógi. Ekki fór svo að menn brystu út i söng þótt föstudagur væri, ritari reyndi að tóna fyrir Roðann í austri, en ekki var tekið undir þann tón. Bjarni mættur með bilaðan fót, fékk greiningu hjá dr. Karli, sprungnar æðar eða eitthvað í þá veru, má vera að þetta lagist á næstu 4-6 vikum. Gott að það var ekki nárinn. (Spurning hvort það megi vera með sjúkdómsgreiningar á bloggi? Er það ekki persónuverndarmálefni?)

Hlaup ku enn vera iðkuð frá Laug á laugardagsmorgnum kl. 9:30. Hvað veit ég?


Sprettir á mánudegi

Útiklefi lokaður þegar komið var til Laugar. Maður er ekki vanur því að þurfa að klæða sig í innan um illa þefjandi hlaupara, en varð að taka því. Sveifluhálsfarinn heimtur úr helju og lét vel af hlaupi, sagði að það hefði verið "yndislegt", enginn barlómur, ekkert fjas um kreppu og hrun, bara náttúra, útivera og hlaup. Fór hann 43 km á laugardaginn og leið bara vel á eftir, hvað annað? Aðrir mættir: Kári, Maggi, Rúnar, Friðrik í Melabúð, dr. Friðrik, Björn, Rakel, Benzinn, Flosi, Ósk, dr. Jóhanna, Ólafur ritari, Jóhanna, Georg og Helmut.

Lagt upp með rólegt út að Dælu. Þar máttu þeir sem vildu taka 1 km sprett austur úr. Flosi dokaði ekki við, heldur hélt áfram. Við hin tókum sprettinn. Hvílt á eftir, og svo annar sprettur inn að HR. Þar fórum við nokkrir í brekkuna, meðan þau duglegustu luku við kílómetrann. Þrír hringir í Öskjuhlíðinni og svo annar kílómetrasprettur tilbaka út í Nauthólsvík, endað við "rafmagnsskápinn". Margir áttu erfitt með að skilja hvað þjálfarinn var að meina, könnuðust ekki við neinn rafmagnsskáp, ég er næstum viss um að þetta hafi ekki verið rafmagnsskápur heldur símaskápur. Eftir þetta rólegt fyrir flugvöll, en svo mátti taka einn lokasprett út að Dælu. Svo dólað rólega tilbaka, en tempóið náttúrlega keyrt upp á Ægisíðu.

Teygt bæði utandyra og innan við komu tilbaka. Dr. Jóhanna hafði sig mjög í frammi á stétt og veittist að fólki sem kom út. M.a. var þar heimilisfaðir sem var svo séður að vera búinn að klæða dætur sínar í náttfötin eftir laugarferð. Það var hrópað: "Heyrðu manni, ertu nokkuð að gleyma konunni þinn? Það kemur kona á náttslopp hlaupandi...!" Og annað eftir því. Þetta þótti okkur hinum dólgsleg framkoma.

Þegar komið var niður mætti ég Kára. Við urðum mjög hissa, könnuðumst ekki hvor við annan í þessu samhengi. Horfðum skilningsvana hvor á annan: "Þú hér?" Þetta var skrýtin tilfinning. Í potti voru lögð drög að afmælishátíð Hlaupasamtakanna og verður upplýst meira um hana fljótlega. Sumum lá á að komast heim að horfa á U21 leikinn við Skota.

Jörundur búinn að hlaupa 30 km - ja, hérna, er maðurinn brjálaður?


Þetta fer bara batnandi...

Getur gott orðið betra? Já, ekki ber á öðru. Endalaus veðurblíða þessa haustdaga, sól skín í heiði, hiti eins og á góðum sumardegi og það hreyfir ekki vind. Vel auglýst hlaup lokkar til sín vaska drengi: Jörundur, Gísli, Flosi, Þorvaldur, Bjössi, Benzinn, Kári, Ólafur ritari, Ingi - og loks, Einar blómasali, seinn að vanda. Það var lagt í hann stundvíslega 10 mínútur og 10 sekúndur yfir 10.

Farið afar hægt af stað að beiðni viðstaddra. Ekki var beðið eftir blómasalanum, enda löngu búið að ákveða brottfararstund. Það er bara hans mál ef hann hunsar fyrirfram ákveðna brottfarartíma, hann sér þá að það er ekki beðið eftir honum. Ægisíðan skartaði sínu fegursta, hafflöturinn spegilsléttur, sjóbað hvarflaði að einhverjum, og Gísli sagði að það hefði verið gott að fara í sjó, "en það er bara aldrei gert á sunnudögum". Þar með var ekki talað meira um það. Spurt eftir Sveifluhálsfaranum, engar fréttir. "Ætli hann sé ekki enn að hlaupa" sagði einhver.

Er komið var í Skerjafjörð mætti okkur einkennileg sjón: Ó. Þorsteinsson á reiðhjóli og kona hans Helga hlaupandi með. Vissulega hópuðust hlauparar um Foringja sinn og spurðu almæltra tíðinda. Hann varðist frétta, en lofaði tveimur góðum sögum í potti. Við áfram með það. Gerður hefðbundinn stanz í Nauthólsvík þrátt fyrir að menn vildu helzt halda áfram, en hefðirnar eru sterkar.

Gísli var skilgreindur "nýr" í hópnum og þurfti því að fá að heyra söguna um hjónin í Garðinum. Jafnframt fylgdu einhverjar glósur um umgengni frænda míns um staðreyndir, sem ku vera alla vega. Við hlupum áfram upp úr Garði og hefðbundna leið hjá Veðurstofu niður á Klambratún. Enn var rifist um nafnið á túninu. En það stöðvaði okkur ekki frá því að taka sprettinn og fórum við nokkrir á undir fjögurra mínútna tempói þar.

Farið niður á Sæbraut og horft á Hörpu. Einar blómasali farinn að blanda sér í hlaupið. Mýrargata, þar rákumst við á dr. Friðrik á reiðhjóli, Ægisgata, Hofsvallagata. Teygt lengi vel á Plani og spjallað við aðvífandi gesti. Biggi mættur á reiðhjóli, ásamt konu og dóttur, óhlaupinn. Í potti var dr. Baldur spurður að því hversu mörg prófastsdæmi væru í landinu. "Það veit ég ekki og hef engan áhuga á að vita heldur." "Ja, þá veiztu ekki mikið!" var svarað að bragði. Rifjuð upp saga þessara ummæla, og talið að þau eigi rót að rekja til jarðarfarar þar sem meðal gesta voru Ólafur landlæknir og HHG. Frábær dagur í frábærum hópi að baki. Það gerist varla betra.


Fagurt mannlíf á föstudegi sem endar með saung í potti

Í Hlaupasamtökum Lýðveldisins sameinast ólíkir hópar úr öllum stigum samfélagsins, allt frá framkvæmdastjórum í minniháttar fyrirtækjum og allt upp eða niður í fulltrúa í æðstu stjórnsýslu, og getur þó engu að síður lynt saman í sameiginlegu áhugamáli: hlaupi. Þarna koma ekki saman hlaupaeðjót sem hugsa einvörðungu um vegalengdir, hraða, tempó, úthald, snerpu og annað í þeim dúr. Nei, til eru þeir sem njóta samveru við skemmtilegt fólk, njóta þess að hreyfa sig þótt á hægri ferð sé. Slíkur hópur var saman kominn í hlaupi dagsins í Hlaupasamtökunum, nánar til tekið voru það við helztu drengirnir: Jörundur, Þorvaldur, Flosi, Karl Gústaf, Helmut, Kári, Ólafur ritari, Benzinn og Gísli rektor. Ákveðið að fara hægt í dag. Talið að prófessorinn væri að hvíla fyrir Sveifluhálsinn á morgun.

Veður fagurt í Vesturbænum í dag, hiti 10 stig, logn, bjart. Margt spjallað á Ægisíðu. Einhver spurði hversu langur texti hefði safnast saman í Króniku Samtakanna. Ritari taldi að árið 2006, sem þó væri aðeins skráð til hálfs, teldi 112 blaðsíður. Ályktuðu menn að frásagnir af hlaupum til þessa hlytu þá að nema 1000 blaðsíðum hið minnsta. Mætti jafna þessu við ævisögu Jóns Sigurðssonar eftir Pál Eggert Ólason, sem aðeins er vitað til að einn maður hafi lesið til enda og sá lenti inni á Kleppi.

Auðvitað fór það svo að sumir drógust aftur úr, en þá voru bara teknar lykkjur til þess að lengja hlaup og gefa þeim kost á að ná okkur. Farið nokkuð samtímis upp Hi-Lux og þá sáum við bíl sem var á leiðinni inn á slóðann, en snöri við er hann sá okkur. Greinilega Snusk-Pelle á ferð sem hafði grátt í hyggju. Gott er til þess að vita að hlauparar Samtakanna geta látið gott af sér leiða og fælt menn frá óviðurkvæmilegu athæfi. Stefnan sett á brekkuna. Gísli virtist vilja kanna afbrigði, við hinir töldum að það væri í sama tilgangi og Magnús tekur sér hlé í sunnudagshlaupum, en það sanna kom síðar í ljós.

Ekki var staldrað lengi við efra, heldur hlaupið hjá Kirkjugarði og þá leið, upp hjá Veðurstofu, niður Hlíðar, Klambratún, þar tóku Flosi og Benzinn þvílíkan sprett - og telja dómbærir menn að þar hafi jafnvel verið farið undir fjögurra mínútna tempó! Við hinir rólegir. Er hér var komið héldu hópinn ritari, Jörundur, Karl og einhver fjórði sem ég er búinn að gleyma. Nálguðumst Hörpu og veltum fyrir okkur hvenær hægt yrði að hlaupa kringum hana og endurvekja þannig Hafnargönguhópinn. Nema, hvað, við Sjávarútvegshús rekumst við á fígúru með kunnuglegan baksvip og hlaupastíl. Var þar kominn sjálfur Denni skransali af Nesi. Ekki kunni hann trúverðugar skýringar á veru sinni þarna, en féllst á að hlaupa með okkur. Fórum um Miðbæ og Fríkirkju, þar sem hann fór með katólska bæn fyrir okkur.

Stefnan sett á Hljómskálagarð. En hvað gerist? Við ljósin rekumst við á kampavínslita jeppabifreið af Landcruiser gerð með einkennisnúmerinu R-158, innan við glerið sat Formaður Vor til Lífstíðar og þeytti flautuna okkur til hvatningar og uppörvunar. Við fögnuðum foringja vorum og stöðvaði hann bifreið sína til þess að hleypa okkur yfir götuna, þótt hann væri á grænu og við á rauðu. Svona gera bara höfðingjar með auktorítet!

Farið á góðu tempói tilbaka og hér sagði Karl okkur söguna af brunninum og verðinum. Svo var mál með vexti að ákveðið var að setja upp brunn í Tjörninni syðri hér á árum áður (sem Þorgeir Þorgeirson rithöfundur kallaði brunnmig). Brunninum var fjarstýrt. Of langt var fyrir fjarstýringuna að fara alla leið úr miðbænum, svo að frændi Kalla sem bjó við Bjarkarstíg tók að sér að annast stýringu á brunninum, sem var m.a. nauðsynlegt vegna þess að það gat þurft að slökkva á honum í óheppilegri vindátt. Jæja, nú kemur ljósmyndari sem hyggst taka mynd af gosbrunninum og stillir upp tækjum sínum á tjarnarbakkanum. Frændinn ákveður að sprella með ljósmyndarann. Þegar ljósmyndarinn er búinn að stilla upp þrífæti og öllum græjum, slekkur frændinn á gosbrunninum. Ljósmyndarinn er grallaralaus. Rífur hár sitt. Frændinn fer út úr húsi og niður á tjarnarbakka, stendur þar og mænir á gosbrunninn, fer svo að hoppa á bakkanum, og viti menn! Brunnurinn tekur til við að sprauta vatni á ný! Frændinn hverfur síðan á ný til híbýla sinna, en fylgist með ljósmyndaranum. Brunnurinn var hættur að blása vatni. Ljósmyndarinn var við það að örvinglast, en dettur þá í hug það snjallræði að hoppa á tjarnarbakkanum. Og viti menn....!

Hlaupi lokið á þéttu tempói. Mættum rektornum í Móttökusal og hafði lokið hlaupi. Hann ætlar að mæta í hlaup sunnudagsins, sem er 10.10.10.10.10.10, þ.e. 10. október 2010, kl. 10.10:10, tíu mínútur og tíu sekúndur yfir tíu. Verður ekki magnaðra. Sátum í potti og við bættust Anna Birna og dr. Jóhanna. Á föstudögum er að skapast sú hefð að menn syngja ættjarðarsöngva. Í þetta skiptið var sungið ljóðið "Hver á sér fegra föðurland?"  - og vakti almenna hrifningu og vatn rann milli skinns og veggjar.

Næstu hlaup: hið árlega hlaup til minningar um John Lennon í fyrramálið kl. 9:30.  Og sunnudagurinn, sbr. það sem segir um það hlaup hér að framan.


Titill þessarar frásagnar var ritskoðaður í miðju hlaupi

Við erum misjafnlega viðkvæm fyrir því sem fer í blogg Samtaka Vorra. Ritari er ekki viðkvæmur fyrir því að láta sem mest flakka. Hins vegar hafa menn bannað mér að setja sumt í pistla. Jafnvel hringt í mig og beðið mig um að þurrka út úr frásögnum atriði sem þeim hafa þótt meiðandi. Hef ég orðið við því undanbragðalaust í öllum tilvikum.

Slíkur fjöldi mættur til hlaups að fljótlegra er að telja upp þá sem voru fjarverandi: Jörundur, Benedikt, Eiríkur, Dagný, Þorbjörg M., dr. Jóhanna - nei, heyrðu þetta getur haldið áfram í það endalausa. En mæting dagsins (22 hlaupandi, einn á hjóli) sýndi fram á að hér fer öflugur hlaupahópur og góður félagsskapur. Veður var líka með slíkum eindæmum að það hefði verið syndsamlegt að sleppa hlaupi: 8 stiga hiti, logn, haustblíða. Magga vildi breyta til. Kvíða- og angistarstunur liðu yfir Plan. Þegar til átti að taka var þetta sosum engin nýjung, dól út að skítastöð, og þéttingur út að Suðurhlíð, upp hjá Perlu, niður stokk, Flugvallarveg tilbaka í Nauthólsvík og svo tilbaka.

Við Ágúst horfðum hvor á annan og púkar hoppuðu á öxlunum á okkur og öskruðu: strákar! ekki gera eins og Magga segir ykkur! Ekki þurfti að endurtaka þetta oft, við ákváðum að á slíkum degi væri óhjákvæmilegt að lengja. Ég vildi draga blómasalann með mér, hann eygir enn von um haustmaraþon. Svo lagði ég að Magga að renna skeiðið inn að Elliðaám. Hann var fullur efasemda, en ætlaði að sjá til.

Gríðarleg stemmning á Ægisíðu, mikill hugur í fólki, mikið grín, mikið gaman. Ég bauðst til þess að rifja upp gamla brandara, en það var afþakkað. Ágúst upplýsti að hann ætlaði í Sveifluhálshlaup á laugardag, en það mun vera um 42 km. Ekki hafði hann orð á að öðrum væri boðið, en þó er ekki ósennilegt að fólk geti komið inn í hlaupið á völdum stöðum. Þarna munu einnig hlaupa Melkorka með maka í undirbúningi fyrir New York maraþon.

Bjarni varð óður þegar hjólreiðamaður kom á hlaupastígnum í Skerjafirði, við óttuðumst að hann myndi ráðast að manninum og reyndum að róa hann. Í Nauthólsvík var fjöldi fólks á baðströndinni og í sjónum, enda hásjávað. Áfram á Flanir og hér vorum við Maggi orðnir einir, en Einar kom í humáttina á eftir okkur. Við yfir brú og áfram í Fossvoginn, prófessorinn á undan okkur. Hann tók Kópavogslykkju og náði okkur, við fylgdumst að um sinn og mættum fjölda glæsilegra kvenna sem heilsuðu okkur.

Ágúst fór upp í Kópavoginn, en við fórum hjá Víkingsvelli og út í hólma í Elliðaám. Aftur undir Breiðholtsbrú og settum stefnuna á Stokk. Hér ákváðum við að hægja ferðina og ganga upp Stokk. Það var allt í lagi, við sögðum hvor öðrum ævisögur okkar, einkum þá hluta er við vorum Íslendingar í útlöndum að störfum á ólíkum vettvangi. Mikill fróðleikur, mikill lærdómur. Er komið var að Réttarholtsskóla dúkkaði blómasalinn upp að baki okkur og hafði tekið sprett. Eftir þetta héldum við hópinn og ræddum málin í þaula. Á einhverjum tímapunkti datt heiti pistils niður í kollinn á ritara, en hann var óðara stoppaður með titilinn þar sem hann þætti of djarfur.

Ósköp fannst manni þetta létt og löðurmannlegt verk, farið rólega yfir og reynt að njóta hlaupsins til hins ítrasta. Áður en maður vissi af var þessu lokið. Við Hagatorg ákvað Maggi að fara inn á Hótel Sögu og sækja einhvern til þess að vekja athygli á járni sem stendur upp úr jörðinni fyrir utan hótel og vegfarendum stafar hætta af. Við Einar áfram til Laugar og teygðum vel á Plani. Þar spannst umræða um breiðband og hvernig væri rétt að snúa sér í þeim málum og koma með krók á móti þessu skítabragði Símans. Allmargir farnir er komið var í pott, þó voru þar Flosi, Bjössi, Bjarni og Guðrún dóttir hans.  Síðastur til Laugar kom Ágúst og hafði farið 24,5 km.

Næst hlaupið föstudag, 16:30.


Sprett úr spori - Gísli mætir á ný til hlaups

Hver var ekki mættur til hlaups á mánudegi nema sjálfur Gísli rektor! Maður varð nú að hrista skítspaðann á honum þar eð svo langt var um liðið síðan hann sýndi sig síðast í vaskra sveina og meyja hópi. Hann var alhress og lýsti yfir staðföstum ásetningi sínum að hefja af nýju æfingar af fullum krafti eftir nokkra lægð.

Aðrir mættir: dr. Friðrik, dr. Jóhanna, dr. Karl Gústaf, dr. dentis Magnus Julius, prof. dr. Augustus Kvaran, Gerður, Jóhanna, Magga, Þorbjörg M., Einar blómasali, Bjössi, Kári, Benzinn, Rakel, Flóki, Ósk, Frikki á Horninu og Ólafur ritari. Hvílíkur hópur!

Staldrað við á Plani í fögru haustveðri, heiðríkja, 14 stiga hiti, hægur andvari. Gerist ekki betra! Magga lagði línur: rólega út að Dælu og sprettir þaðan. Við af stað og fórum á 5 mín. tempói upp á Víðimel, út á Suðurgötu og suður í Fjörð. Stoppuðum við Dælu. Boðið upp á 1 km og 500 m spretti vestur úr. Aðrir héldu áfram og fóru ýmist Hlíðarfót eða eitthvað lengra.

Það var sprett úr spori og farið hratt yfir, hröðustu hlauparar fóru 1 km - en við Rakel fórum 500 m og eftir einn sprett sameinaðist Bjössi okkur. En okkur brá mjög er við vorum að ljúka við fyrsta sprett, sáum blómasalann og Gísla rektor koma á hægu dóli á móti okkur. Þeir snöru við og sameinuðust kílómetrahlaupurunum og við héldum að nú ætti að taka sprett líka. En við sáum þá ekki meira og þeir hafa því snúið við eftir heldur snautlegt hlaup.

við tókum eina sex svona spretti á meðan þau hin skeiðuðu á fullu fram og aftur stígana. Fórum svo á hægu tölti tilbaka. Það var farið að kólna. Fundum ýmsa hlaupara á Plani og í Móttökusal. Teygt og spjallað. Glatt var á hjalla í potti og setið lengi. Seinast skiluðu sér Frikki og Gústi og höfðu farið tæpa 18 km á undir 5 mín. tempói.


Dómaramistök?

Í hlaupi dagsins voru mættir nokkrir af helztu hlaupurum Hlaupasamtakanna, alla vega þeir sem láta sig málefni samfélags og framfara nokkru varða. Þetta voru þeir Ó. Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Einar blómasali, Rene, Jörundur og Ólafur ritari. Skýringin var nærtæk, stutt var síðan öðlingur Samtakanna, V. Bjarnason, var í harðri keppni við Hvergerðinga og auk þess efni í skemmtiþætti byskupssonar á laugardagskveldinu. Um nóg var að tala í hlaupinu. Veður gott, hlýtt, stillt, allbjart.

Það var vaskur hópur hlaupara sem lagði upp frá Laug á hægu tölti. Jörundur var í miklum ham og taldi að dómari í spurningaþættinum Hrepparnir keppa hefði gert mistök þegar hann dæmdi svar Hvergerðinga við spurningu um fjölda sveitarfélaga á landinu rangt. Hafði hann um þetta nokkur vel valin orð og þóttu minna á fyrri fullyrðingar hans um þessa þætti. Hins vegar vorum við nokkrir sem rifjuðum upp skemmtiatriði Ara Eldjárns í Hugvekjuþætti byskupssonar á laugardagskveldi þar sem Ari lék V. Bjarnason leika flugvél, en þótti ekki sannfærandi, minnti ýmist á krossfestinguna eða snúrustaur. Okkur var ekki skemmt.

Við komum í Nauthólsvík og það reyndi á hvar Magnús myndi létta á sér. Hann fann einhverja skúrhlið til að skvetta á. Á meðan sagði Ó. Þorsteinsson okkur fallega sögu af nýjasta ástarsambandinu, sem hljómaði heldur ósennilegt, en var fallegt engu að síður. Áfram í Kirkjugarð, en þar sneri Rene við til þess að gæta bús og barna. En við áfram og héldum upp hjá Veðurstofu og hefðbundna leið tilbaka.

Mikið rætt um breiðband og framtíð sjónvarpsáhorfs hér á landi, þar sem ætlunin er að loka fyrir útsendingar nema fólk reiði fram stórar fúlgur fjár aukalega, fyrir utan nefskattinn. Mjög margir virðast vera uppteknir af því þessar vikurnar að að finna heppilegt svar við þessu útspili Símans. M.a. sást til Kára prílandi uppi á þaki að brasa við að koma upp loftneti. Alla vega eru þetta ekki þær fréttir sem fólk vill fá á tímum eins og þeim sem við lifum á nú.

Tíðindalítið á heimleið, farin Mýrargata og Ægisgata. Í potti voru auk okkar hlaupara Baldur Símonarson og þau hjón Helga og Stefán. Einkennilegur díalóg sem gengur í allar áttir og erfitt að fylgjast með.

Næsta hlaup á morgun, mánudag, kl. 17:30.


"Nei, takk!"

Stundum hefur ritara orðið á að segja "hvílíkur hópur!" - enn var ástæða til þess að viðhafa slík ummæli er horft var yfir hóp dagsins í fyrsta hlaupi Hlaupasamtakanna í októbermánuði. Hvílíkt mannval! Próf. Fróði, Flosi, Jörundur, dr. Jóhanna, Einar blómasali, Biggi, Bjössi, Bjarni, Guðrún Bjarnadóttir,Brynja af Nesi, Rúna af Nesi, Kári, Helmut og ritari. Enginn verulegur dónaskapur hafður í frammi á Plani og því lagt í hann. Stefnan sett á Nes.

Fljótlega upphófst tal um sjóbað og því lögð áherzla á að vinna upp góðan svita. Við vorum þarna í fylkingarbrjósti helztu drengirnir, ég og prófessorinn. Svo fóru menn eitthvað að derra sig, Bjössi, Helmut, Flosi og Bjarni. Aðrir langt að baki. Við fórum þetta á fimm mínútna tempói og ekkert slegið af, þrátt fyrir að það væri föstudagur.

Komið á baðstað og við skelltum okkur í svala ölduna, Fróði, Flosi, Helmut og ritari. Þótti okkur verða dráttur á að aðrir blönduðu sér í baðið. Sjórinn farinn að kólna eilítið og við vorum ekki lengi oní. Farnir að tínast upp úr þegar þau hin komu. Við biðum spenntir eftir stelpunum, en þær létu ekki sjá sig. Loks heyrðum við Jörund segja: "Já, en stelpur, viljið þið ekki koma og horfa á þá?" Ekki varð töf á svari. "Nei, takk!"

Við hysjuðum upp um okkur heldur skömmustulegir og héldum för áfram. Fórum um golfvöll til þess að lengja eilítið, en fórum þó tiltöluega rólega, Veður var fagurt, stillt, bjart og hiti nálægt 12 gráðum. Það er yndislegt að hlaupa á Nesi á svona dögum, þegar vindur blæs ekki, hvað þá úr öllum áttum eins og stundum gerist.

Ég fór lokaspölinn með Helmut og við vorum bara rólegir. Fórum hefðbundna föstudagsleið um Lambastaðahverfið og þá leið tilbaka. Komið á Plan og þar fór fram jógaæfing með Bigga. Einar blómasali stóð og hélt sér við staur og barmaði sér mikið, kvaðst vera lasinn. Farið í pott. Pottur þéttur, röðin óslitin allan hringinn. Enn varð manni hugsað: hvílíkur hópur! Menn yljuðu sér við tilhugsunina um það að okkar maður mundi keppa í hreppskeppninni í kvöld og að líkindum standa sig vel.

Fyrsti föstudagur haldinn með hefðbundnu sniði á Rauða Ljóninu. Þangað mætti fjöldi hlaupara og ýmis neyzluvara pöntuð.Að líkindum verður hlaup á morgun kl. 9:30.


Menn hlaupa annars staðar - eða hlaupa alls ekki

Er von menn spyrji: hvar var fólkið? Ekki nema handfylli hlaupara mætt í Brottfararsal og mátti þar bera kennsl á prófessor Fróða, Flosa, Magnús Júlíus, Þorvald, Möggu, Bjössa, Benzinn, Guðrúnu dóttur hans, Ólaf ritara, Þorbjörgu K., Frikka kaupmann, dr. Jóhönnu og Jóhönnu hlaupara. Það fréttist af Jörundi hlaupandi í hádeginu (prívathlaup). Þar fyrir utan hefur frétzt af Helmut og Eiríki hlaupandi kl. fimm á morgnana í Laugardalnum. Þetta þarf að rannsaka.

Prófessorinn hefur lýst áhuga á að þreyta ofurhlaup í Atacama-eyðimörkinni í Chile í marz á næsta ári. Undirbúningur er hafinn. Hann fer aðeins löng hlaup þessi missirin. Í dag var það 28 km. Ekki voru fleiri með löng hlaup á prjónunum, ætluðu Þriggjabrúa. Um þetta fór þjálfari nokkrum orðum. Þorvaldur hafði á orði að orðum væri ekki einu sinni eytt að fyrirætlunum aumingja sem ætluðu styttra en Þriggjabrúa. Hér er vissulega brotalöm í starfsemi Samtakanna sem þarf að taka á. Það að fara stutt, segjum 8 km, er betra en fara ekki neitt eins og dæmi eru um á þessum degi, meira um það seinna.

Varla þarf að fara mörgum orðum um upphaf hlaups, það var í hefðbundnum stíl, sama fólk og venjulega sem æddi áfram á undan öðrum. Einhver vindur á suðaustan, rigndi öðru hverju, 14 stiga hiti. Ritari eitthvað þungur á sér og þreyttur, en ákvað engu að síður að fara Þriggjabrúa með þeim hinum. Það fór þó svo að ég lenti í slagtogi við Benzinn og dóttur hans sem var að fara sitt fyrsta Þriggjabrúa og stóð sig með miklum sóma.

Það sást á eftir prófessornum í Fossvoginn og Federico fór með honum, enda á leiðinni í maraþon á Ítalíu í nóvember, þarf að fara að lengja. Við hins vegar upp Boggabrekkuna erfiðu. Áfram eftir Bústaðavegi og yfir hjá RÚV - Fram og þannig áfram. Þegar við snerum niður Kringlumýrarbraut gerðust hlutirnir, blá jeppabifreið stanzaði hinum megin við götuna, ökumaðurinn skrúfaði niður bílrúðuna og hóf að þenja bílflautuna og veifa ákaft.Var þar mættur blómasalinn, sem kaus að sinna störfum sínum frekar en mæta til hlaups eins og félagar hans búast við af honum. Var haft á orði hvað bílflautan í bílnum hans væri orðin hommaleg.

Við áfram niður eftir og þau feðgin yfirleitt á undan mér, sýndu mér þá aumingjagæzku öðru hverju að staldra við og bíða eftir mér. Stoppað við brunninn á Sæbraut og drukkið vatn. Ákveðið að fara á gamlar slóðir, Mýrargötu, Ægisgötu. Stoppað við Kristskirkju hvar við Benzinn signdum okkur. Og hlaupi lokið. Teygt í Sal með Bjössa og Jóhönnu. Þar var einnig Biggi, en ekki vissu menn til þess að hann hefði hlaupið. Fellur hann þar með í katagoríu þeirra sem þarf að hefja rannsókn á og ákveða aðgerðir gegn.

Í potti sátu dr. Jóhanna, Flosi og ritari. Svo kom Bjössi. Þá komu sundkrakkar úr KR. Við reyndum að hræða þau með Bjössa, og hann yggldi sig. En þau hlógu bara og sögðu: vertu nú alminlegur við okkur. Þá kom Bjarni, þá héldum við að mætti hræða þau duglega: þið viljið ekki reyta þennan mann til reiði! Þá upphófu þau mikla lofrullu um Geir Haarde og sögðu að Benzinn hlyti að vera mikill snillingur. Benzinum þótti gott lofið og mýktist allur við. Börn eru útsmogin nú til dags!

Á föstudag er Fyrsti Föstudagur og auk þess fyrsti október 2010. Hefð er um það að hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins geri sér glaðan dag á þeim degi. Er þess vænst að menn geri skyldu sína í þeim efnum og er jafnframt kallað eftir liðsstyrk af Nesi svo að vel megi vera. Í gvuðs friði, ritari.


Bjarni snýr tilbaka til hlaupa

Leti er helzti óvinur hlauparans. Í dag var meira að segja Magga löt, sagðist ekki nenna neinu. Samt tókst okkur að drösla henni með okkur inn að rótum Öskjuhlíðar. Þar fékkst hún til þess að taka nokkra spretti um brekkurnar með þeim hinum. Ágúst og Flosi fóru áfram í Fossvoginn og enduðu með Stokki. Við Maggi fórum Hlíðarfót og römbuðum á Rakel á leiðinni. Báðir þungir, þreyttir og slappir. Engu að síður náðum við góðum spretti við endann á flugbraut.

Það bar til tíðinda í hlaupi dagsins að Bjarni mætti eftir nokkra fjarveru. Kvaðst hafa verið að gera við bíl. Aðspurður hvernig bílaviðgerðir gátu staðið í vegi fyrir hlaupum svaraði hann því til að það hefði þurft að nota bílinn við atvinnurekstur. Mættum Kára og Önnu Birnu á tröppum Laugar, þarna hafði letin víst komið við sögu líka. Helmut mættur til að hlaupa, fór hring á Nesi einsamall. Í potti var rætt um fyrirbærið Bigga. Já, Biggi, sagði Kári og dæsti. Að biðja Bigga að vera normal er eins og að biðja íslenzkan hund um að gelta ekki.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband