Dómaramistök?

Í hlaupi dagsins voru mættir nokkrir af helztu hlaupurum Hlaupasamtakanna, alla vega þeir sem láta sig málefni samfélags og framfara nokkru varða. Þetta voru þeir Ó. Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Einar blómasali, Rene, Jörundur og Ólafur ritari. Skýringin var nærtæk, stutt var síðan öðlingur Samtakanna, V. Bjarnason, var í harðri keppni við Hvergerðinga og auk þess efni í skemmtiþætti byskupssonar á laugardagskveldinu. Um nóg var að tala í hlaupinu. Veður gott, hlýtt, stillt, allbjart.

Það var vaskur hópur hlaupara sem lagði upp frá Laug á hægu tölti. Jörundur var í miklum ham og taldi að dómari í spurningaþættinum Hrepparnir keppa hefði gert mistök þegar hann dæmdi svar Hvergerðinga við spurningu um fjölda sveitarfélaga á landinu rangt. Hafði hann um þetta nokkur vel valin orð og þóttu minna á fyrri fullyrðingar hans um þessa þætti. Hins vegar vorum við nokkrir sem rifjuðum upp skemmtiatriði Ara Eldjárns í Hugvekjuþætti byskupssonar á laugardagskveldi þar sem Ari lék V. Bjarnason leika flugvél, en þótti ekki sannfærandi, minnti ýmist á krossfestinguna eða snúrustaur. Okkur var ekki skemmt.

Við komum í Nauthólsvík og það reyndi á hvar Magnús myndi létta á sér. Hann fann einhverja skúrhlið til að skvetta á. Á meðan sagði Ó. Þorsteinsson okkur fallega sögu af nýjasta ástarsambandinu, sem hljómaði heldur ósennilegt, en var fallegt engu að síður. Áfram í Kirkjugarð, en þar sneri Rene við til þess að gæta bús og barna. En við áfram og héldum upp hjá Veðurstofu og hefðbundna leið tilbaka.

Mikið rætt um breiðband og framtíð sjónvarpsáhorfs hér á landi, þar sem ætlunin er að loka fyrir útsendingar nema fólk reiði fram stórar fúlgur fjár aukalega, fyrir utan nefskattinn. Mjög margir virðast vera uppteknir af því þessar vikurnar að að finna heppilegt svar við þessu útspili Símans. M.a. sást til Kára prílandi uppi á þaki að brasa við að koma upp loftneti. Alla vega eru þetta ekki þær fréttir sem fólk vill fá á tímum eins og þeim sem við lifum á nú.

Tíðindalítið á heimleið, farin Mýrargata og Ægisgata. Í potti voru auk okkar hlaupara Baldur Símonarson og þau hjón Helga og Stefán. Einkennilegur díalóg sem gengur í allar áttir og erfitt að fylgjast með.

Næsta hlaup á morgun, mánudag, kl. 17:30.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband