Sprettir á mánudegi

Útiklefi lokaður þegar komið var til Laugar. Maður er ekki vanur því að þurfa að klæða sig í innan um illa þefjandi hlaupara, en varð að taka því. Sveifluhálsfarinn heimtur úr helju og lét vel af hlaupi, sagði að það hefði verið "yndislegt", enginn barlómur, ekkert fjas um kreppu og hrun, bara náttúra, útivera og hlaup. Fór hann 43 km á laugardaginn og leið bara vel á eftir, hvað annað? Aðrir mættir: Kári, Maggi, Rúnar, Friðrik í Melabúð, dr. Friðrik, Björn, Rakel, Benzinn, Flosi, Ósk, dr. Jóhanna, Ólafur ritari, Jóhanna, Georg og Helmut.

Lagt upp með rólegt út að Dælu. Þar máttu þeir sem vildu taka 1 km sprett austur úr. Flosi dokaði ekki við, heldur hélt áfram. Við hin tókum sprettinn. Hvílt á eftir, og svo annar sprettur inn að HR. Þar fórum við nokkrir í brekkuna, meðan þau duglegustu luku við kílómetrann. Þrír hringir í Öskjuhlíðinni og svo annar kílómetrasprettur tilbaka út í Nauthólsvík, endað við "rafmagnsskápinn". Margir áttu erfitt með að skilja hvað þjálfarinn var að meina, könnuðust ekki við neinn rafmagnsskáp, ég er næstum viss um að þetta hafi ekki verið rafmagnsskápur heldur símaskápur. Eftir þetta rólegt fyrir flugvöll, en svo mátti taka einn lokasprett út að Dælu. Svo dólað rólega tilbaka, en tempóið náttúrlega keyrt upp á Ægisíðu.

Teygt bæði utandyra og innan við komu tilbaka. Dr. Jóhanna hafði sig mjög í frammi á stétt og veittist að fólki sem kom út. M.a. var þar heimilisfaðir sem var svo séður að vera búinn að klæða dætur sínar í náttfötin eftir laugarferð. Það var hrópað: "Heyrðu manni, ertu nokkuð að gleyma konunni þinn? Það kemur kona á náttslopp hlaupandi...!" Og annað eftir því. Þetta þótti okkur hinum dólgsleg framkoma.

Þegar komið var niður mætti ég Kára. Við urðum mjög hissa, könnuðumst ekki hvor við annan í þessu samhengi. Horfðum skilningsvana hvor á annan: "Þú hér?" Þetta var skrýtin tilfinning. Í potti voru lögð drög að afmælishátíð Hlaupasamtakanna og verður upplýst meira um hana fljótlega. Sumum lá á að komast heim að horfa á U21 leikinn við Skota.

Jörundur búinn að hlaupa 30 km - ja, hérna, er maðurinn brjálaður?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband