Færsluflokkur: Pistill Ritara
22.9.2010 | 22:09
Snautlegt!
Veður fagurt. Yfirlýsingar á Plani um langt. Hinir lakari ætluðu "bara" Þriggjabrúa. Við Ágúst ætluðum langt. Einar slakur, ósofinn, latur, aumur. Aðrir sæmilegir. En stundum fara hlutirnir öðruvísi en ætlunin er. Hægur út, datt aftur úr hinum sem fóru á brjáluðu tempói og einfaldlega hurfu. Fann að ég var ekki eins upplagður að hlaupa og ég hélt í upphafi, lét þó slag standa og skellti mér í Fossvoginn. Átti alveg eins von á að það gæti kólnað verulega er á liði hlaup.
Var orðinn einn, raunar orðinn einn í Nauthólsvík. Sá á eftir prófessornum. Hann slakaði ekki á. Er komið var að Víkingsvelli fann ég að ég væri of stirður og þreyttur til þess að geta farið það sem planið var, eða 24 km. Lét mér nægja að fara það sem þeir kalla Viktor, yfir Breiðholtsbraut á brú, ofan í Ellliðaárdalinn og aftur tilbaka undir brautina og í Fossvoginn, þá leið tilbaka, líklega 18 km. Stundum er dagsformið bara ekki hliðhollt hlaupum.
Hitti Flosa, Frikka, Bjössa og Þorbjörgu K. í potti. Sagðar sögur. Þau fóru Þriggjabrúa á tryllingslegum hraða. Nú verður hvílt.
20.9.2010 | 20:47
Ágúst flugmaður
Það sást til Jörundar á Ægisíðu um fimmleytið. Hann var hlaupandi og setti stefnuna á Sólrúnarbraut. Ritari mættur snemma til hlaups og sá hlaupara tínast einn af öðrum til Laugar. Á endanum var þetta um 20 manna hópur og mátti þekkja dr. Friðrik, dr. Karl, dr. Jóhönnu, prófessor Fróða og fleiri ágæta hlaupara. Þjálfarar voru báðir mættir og lögðu upp með hlaup út að Dælu og spretti þaðan út á Nes.
Lögðum rólega af stað upp á Víðimel, menn voru léttir á sér og þetta leit vel út. En framan við kínverska sendiráðið upphófst dramatík, það heyrðist í bílflautu og svo sást Ágúst taka flugið og skella á gangstéttinni. Einhverjir töldu sig sjá Friðrik kaupmann bak við stýrið á bílnum sem flautaði, en það fékkst ekki staðfest. Heldur þótti það ólíklegt þegar kaupmaðurinn birtist stuttu síðar hlaupandi og dró okkur uppi. En prófessorinn var allur lemstraður og blóðugur, jafnvel talinn fótbrotinn. En hann stóð upp, harkaði af sér, beit á jaxlinn og hélt áfram. Hugsaði með sér að nú væri e.t.v. rétti tíminn til þess að hringja í Össur.
Við áfram út á Suðurgötu og settum upp taktinn, farið á hröðu tempói út í Skerjafjörð. Dokað þar við en haldið svo áfram vestur úr. Á þessum kafla áttu þau hin að taka spretti, en við Ágúst urðum lítið varir við spretthlaupara. Það var ekki fyrr en við fórum að nálgast Hofsvallagötu að við sáum Gerði og Flosa fara fram úr okkur, en ekki vitum við hvað aðrir voru að gera. Mættum Neshópi á Ægisíðu.
Áfram á Nes og sprettir héldu áfram, þau tóku þéttingana með jöfnu millibili, en ég skokkaði á eftir og prófessorinn tók stefnuna á golfvöll. Farið út að Lindarbraut og þá leið tilbaka. Það var farið að rigna, en að öðru leyti var kjörveður, 10 stiga hiti og logn. Gott tempó á bakaleiðinni. Teygt við laug.
Það kom í ljós að blómasalinn hafði mætt seint í hlaup og hlaupið Eymingja. Hann kvaðst hafa gleymt að borða í dag og var við það að falla í ómegin! Loks var haldið til potts og sagðar sögur. Ágúst mætti allur fleiðraður og blæddi enn úr sárum. Næst er hlaupið á miðvikudag, langt.
17.9.2010 | 20:28
Piskan som kittlar, kittlar inte heller.... deras feeeeta nackar!
Það kann að koma einhvejrum á óvart, en í hlaupi dagsins vorum við aðeins mættir, helztu drengirnir. Það voru Þorvaldur, Ágúst, Flosi, dr. Karl Gústaf, Kári, blómasalinn, ritari, Bjössi, Biggi, Ragnar, Frikki, Jörundur, Siggi Ingvars - og svo kom óvæntur gestur inn í hópinn á leiðinni. Í upphafi var prófessorinn inntur eftir hlaupi frá Gljúfrasteini. Það kom á hann og hann var greinilega óundirbúinn fyrirspurninni. Kom í ljós að hann hafði undirbúið prívat fjölskylduhlaup en gerði síður ráð fyrir að fleiri bættust í hópinn. Menn "mættu" sosum koma ef þeir vildu. Yrði í því tilviki mæting við Vesturbæjarlaug kl. 9:00 í fyrramálið, 18. september, ekið sem leið liggur upp að Gljúfrasteini, og hlaupið þaðan 9:30. Ekki voru frekari ráðstafanir og þegar spurt var hvort fleiri bílar yrðu en hans eigin prívata rennireið, þá glúpnaði hann bara og yppti öxlum. Þrátt fyrir óvissuna gáfu menn hlaupið ekki alfarið upp á bátinn, sbr. niðurlag frásagnar þessarar.
Þar sem það voru bara við helztu drengirnir sem mættu var enginn sem leiddi hugann að sjóbaði og var því stefnan sett beint á hefðbundið, Ægisíðu og innúr. Fagurt veður, sól, stillt, hiti um 8 gráður, gott veður til hlaupa. Fórum rólega af stað. Ég fylgdi prófessornum eftir og reyndi að fá einhverja glóru í hlaup morgundagsins, en gekk illa. Leyfði honum að róa sinn sjó, en tók upp spjall við Jörund, sem er einhver mestur og ágætastur hlaupari okkar. Hann kvaðst vera á leið í smalamennsku í Borgarfirði þar sem honum yrði umbunað með reyktum sauð.
Enn og aftur lenti maður milli hópa, þeir sem fóru í metnaðarleysi Þriggjabrúa sl. miðvikudag settu upp hraðann nú og fóru á 5 mín. tempói, og prófessorinn með þeim. Við hinir sem fórum 22 km vorum rólegri og vildum fara á tempói þar sem okkur liði vel. Er komið var að flugvelli sáum við að þeir sem fremstir fóru höfðu tínt upp kvenmann af vegi sínum. Þrátt fyrir að ritari sé bæði ómannglöggur og illa sjáandi virtist honum sem þetta gæti verið dr. Jóhanna, dæmandi af hæð og hlaupastíl. Kom á daginn í lok hlaups að hann hafði á réttu að standa. En hvað hún var að gera á þessum slóðum, og ekki á Nesi, veit enginn.
Ég sýndi af mér þá vináttu og gæzku að doka við eftir þeim blómasalanum, Bjössa og Bigga í Öskjuhlíð. Heyrði ég ekki betur en blómasalinn kallaði: "Bíddu, bíddu! Ekki fara svona hratt!" Þetta var skynsamleg ákvörðun, þeir voru á svipuðu róli og ég, ýmist meiddir, þreyttir eða hvort tveggja. Á þessum kafla sagði Bjössi okkur söguna af því þegar hann fór í bíó með tveimur mestu karlrembum landsins og þeir horfðu á Nick Nolte fella tár í faðmi konu yfir lífi sínu. Þeir gengu út af myndinni.
Á Klömbrum var rifjuð upp sagan af því þegar Björn átti erindi við Bigga, flutti samfellda ádrepu um Framsóknarflokkinn frá Vesturbæjarlaug að trénu hans Magga á Klömbrum, og Biggi hafði jánkað öllu sem kokkurinn sagði á leiðinni, og Biggi botnaði díalóginn með því að ljúka lofsorði á Framsóknarflokkinn, þetta væri hin ágætasta stofnun þrátt fyrir allt. Rætt um Finn Ingólfsson og þess háttar kóna.
Hlemmur og Sæbraut. Á þessum kafla var maður búinn að sýna blómasalanum þvílíka aumingjagæzku að manni lá við uppsölum yfir eigin ágæti. Haldið áfram vesturúr og ákveðið að hætta að hunza Villa en fara um miðbæ. Á Austurvelli var margt valmenna og voru þeir spurðir um starfsheiti. "Róni" sögðu sumir. Við áfram upp Túngötu. Hér tekur blómasalinn allt í einu við sér eftir að hafa verið algjör eftirbátur annarra allt hlaupið. Tekur fram úr okkur og skilur okkur eftir. Þetta hefur maður upp úr góðmennskunni!
Þarna vorum við helztu strákarnir á Plani og dr. Jóhanna og teygðum í djöfulmóð á Plani, þegar Sif Jónsdóttir langhlaupari kemur, kvalin og lasin, búin að fara 4 km og ætlar langt á morgun. Ég sagði Kára og blómasalanum frá kókosbollunum og appelsíninu sem ég hafði innhöndlað í tilefni dagsins. Þeir slitu þegar öll áform um teygjur og æddu með mér í Útiklefa. Þar sátum við og kjömsuðum á bollum, og möluðum eins og kettir, enginn þó eins og blómasalinn, sem leit út eins og hann hefði himin höndum tekið.
Pottur þéttur. Hlaupasamtökin röðuðu sér hringinn. Við hlýddum á fagran söng úr nuddpotti, sungin íslenzk þjóðlög. Við svöruðum með því að syngja Kára afmælissönginn raddað. Uppskárum lófaklapp. Nú var fært í tal hlaup morgundagsins. Þeir sem ætla að hlaupa frá Gljúfrasteini eru hvattir til að mæta til Vesturbæjarlaugar kl. 9:00 í fyrramálið, 18. sept. Athugað verður þá með sameiginlegan akstur upp að húsi skáldsins og verður hlaupið þaðan í bæinn. Þeir sem vilja geta fengið far niður að Varmárlaug og hlaupið þaðan. Ágúst býðst síðan til að aka þeim sem eiga bíl/bíla við Gljúfrastein til þess að keyra þá upp eftir aftur til að ná í ökutækin eftir hlaup.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 20:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2010 | 22:07
Goldfinger-Stíbbla, þekktar stærðir
Þegar norðanvindur geisar og nístandi kuldinn smýgur í merg og bein - þá mæta aðeins hörðustu naglarnir til hlaupa hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Ekki þurfti því að koma á óvart er komið var í Útiklefa að þar voru á fleti fyrir Björn Nagli og Flosi Nagli - ég svipti henginu frá með látum og þeir hrukku í kút. Fljótlega bættist Kári Nagli í hópinn og svo var haldið til Brottfararsalar. Þar mátti sjá S. Ingvarsson, dr. Jóhönnu, Möggu, Rúnar, Jörund, Dagnýju, Frikka, prófessor Fróða, Magga, Albert, Guðmund sterka og Þorvald. Mér létti því ég hafði lofað blómasalanum að kaupa handa honum appelsín og kókosbollu. En hver kemur ekki þegar klukkuna vantar tvær mínútur í hálfsex - nema blómasalinn?
Það er eitthvert metnaðarleysi í gangi hjá fólki þessa dagana. Menn virtust ætla að láta sér nægja Þriggjabrúa enn einn ganginn, Magga horfði á okkur Gústa og sagði: "Þið ætlið líklega eitthvað lengra?" Við urðum leyndardómsfullir í framan og létum lítið uppi. Síðan upphófst mikið pískur okkar í millum og niðurstaðan varð sú að stefna alla vega í Fossvogsdalinn og sjá svo til. Prófessorinn taldi óhjákvæmilegt að fara ekki styttra en 24 km. Það var kalt í veðri, norðangjóla og stefndi í að það gæti jafnvel kólnað með kvöldinu á löngu hlaupi. Meira um það síðar.
Við Ágúst fremstir þegar í upphafi þrátt fyrir að við ætluðum lengra en aðrir. Guðmundur með okkur. Blómasalinn var ekki kominn út þegar hópurinn fór af stað og var þar með mikilvæg markering gerð: menn kunni á klukku og virði brottfarartíma! Ef þeir geta ekki haldið sig við fyrirframákveðnar tímasetningar mega þeir taka afleiðingunum. Það er ekki beðið eftir fólki sem virðir ekki tíma annarra. Við lögðum bara af stað og mátti hann haska sér.
Það blés á Ægisíðunni en aðallega var það hliðarvindur og olli ekki teljandi ónæði. Prófessorinn upplýsti um nýtt hlaup. Í boði er að hlaupa frá Gljúfrasteini nk. laugardag og til Laugar, 28 km. Upphafskona hlaupsins er Melkorka Fróðadóttir og þarf hún fylgisveina til þess að halda uppi skemmtan og fróðleik á leiðinni. Hér með er þessum hlaupamöguleika komið á framfæri og áhugasamir beðnir að setja sig í samband við gamla manninn. Hlaupaleiðin er í raun öfug við það sem farið var á laugardaginn. Góð æfing fyrir þá sem stefna á Haustmaraþon, sem ku vera dr. Jóhanna og blómasalinn, gott ef ekki prófessor Keldensis. Ég hef tekið að mér að þjálfa og byggja blómasalann andlega upp fyrir þetta hlaup - og má segja að hlaup kvöldsins hafi verið liður í þeirri viðleitni. Tilfinningalegt svelti er hluti af þjálfunarprógramminu.
Þetta var létt, við vorum léttir á okkur. Samt liðu einhverjir fram úr okkur, eða mér alla vega, Frikki, Flosi, Siggi Ingvars og Bjössi. Magga spurði hvort ég stefndi á maraþon, ég sagðist vera að æfa blómasalann. Hlaup dagsins væri hluti af prógramminu. Nú er kominn sá tími á haustinu að fólk þarf að fara að klæða sig betur, fara í síðbuxur, síðerma treyjur, handska - og hver veit nema fljótlega dúkki upp bedúínakonan sem Benni tók tvisvar fram úr í fyrra?
Skyndilega var eins og maður væri staddur í Fellini-mynd: okkur mætti ger af konum sem voru áþekkar í útliti og vöktu aðdáun og virðingu viðstaddra: þær voru einbeittar og flottar! Hér var átak á ferðinni.
Það er allt í lagi fyrir fólk sem ekki hefur metnað fyrir meira en Þriggjabrúa að taka góða rispu og fara á fimm mínútna tempói, en ég ætlaði ekki að klikka á svona grundvallaratriðum. Bara að fara rólega á mínu tempói enda var drjúg vegalengd framundan og ætlunin var að fara hana alla hlaupandi. Upp Flanir og framhjá vinnuvélum sem þar eru enn að leggja stíga. Niður hjá kirkjugarði og yfir brú. Hér fórum við að mæta Laugaskokki, m.a. Þorvaldi bróður okkar Flosa. Við Ágúst skelltum okkur niður í dalinn, hann tók Kópavogslykkju, og ég var eiginlega að hugsa um að reyna að láta hann hrista mig af sér og svindla, fara stutt. En þá gerist undrið. Kunnugleg fígúra skeiðar fram úr mér og tekur svig á stígnum fyrir framan mig. Blómasalinn mættur, búinn að spretta úr spori til þess að ná mér. Þarna sannaðist að prógrammið mitt er gulls ígildi! Tilhugsunin um það að ég væri þarna langt á undan var honum óbærileg og hann lagði allt í sölurnar til þess að ná mér.
Við áfram og Ágúst birtist úr Kópavoginum. Við hófum að öskra á hann en hann heyrði ekki neitt. Við öskruðum: "Ágúst! Ágúst! Bíddu eftir okkur!" En hann hélt bara áfram. Við vorum komnir langleiðina að Víkingsvelli þegar hann loksins sá okkur og sneri við til að verða okkur samferða. Það urðu fagnaðarfundir. Saman héldum við upp brekkuna í Kópavoginn og inn í Smiðjuhverfið, Goldfinger, undir Breiðholtsbraut og áfram upp í Breiðholtið. Hér héldum við Ágúst hópinn, en blómasalinn var farinn að dragast aftur úr. Kvaðst hann ekki hafa etið um daginn. Við sögðum að það væri ekki fræðilega mögulegt, hvorki að hann hefði gleymt að borða né verið lystarlaus.
Við skeiðuðum þetta áfram upp að Stíbblu, hér skildi leiðir, Ágúst hélt áfram upp að Árbæjarlaug en ég fór yfir á Stíbblu og hélt tilbaka niður úr. Ákvað að fara frekar Fossvoginn en Laugardal og Sæbraut vegna norðanáttarinnar, hún hefði eyðilagt hárgreiðsluna mína. Leið vel alla leið, nóg að drekka og fann alltaf vatn til að bæta á mig. En á þessari leið fór að kólna og ekki bætti úr skák að þessi hlaupari er vanur að svitna svolítið á hlaupum, og svitinn kólnar í veðri eins og var í kvöld.
Ekki gerðist tíðinda á leiðinni tilbaka og ekki varð ég var við félaga mína. Bjóst alltaf við að blómasalinn kæmi siglandi fram úr mér, hann er vanur að vera orðinn heitur eftir 15 km og sigla fram úr manni, en ekki í þetta skiptið. Ég var einn alla leið, en tók góðan þétting í Fossvogsdalnum og fór hratt yfir. Ekki sló ég af er komið var í Nauthólsvík og þá leið tilbaka. Ég skildi ekki hvað var að gerast. "Hvað er að gerast?" hugsaði ég, "af hverju get ég ekki haldið aftur af mér?" Ekki veit ég skýringuna, en það var engin leið að ráða við þessa hlaupagleði, það var ekki um annað að ræða en láta gamminn geisa.
Assi var orðið kalt við flugvöll og á Ægisíðu! En ekki var slegið af, hlaup klárað með bravúr. Stuttu eftir að ég kom til Laugar kom Ágúst hlaupandi og hafði farið sömu leið tilbaka og ég. Nokkru síðar kom svo blómasalinn og hafði farið um Laugardal og Borgartún og þótt kalt! Menn voru að tínast úr Laugu þegar við komum, en við teygðum um stund og fórum svo í pott og ræddum um næstu hlaup. Leyfi ég mér að árétta tillögu prófessorsins um hlaup laugardagsins, en ég veit ekki um nánari tímasetningu. Eitt af þessum ánægjulegu hlaupum sem enda betur en ætla mátti upphafi (ég var varla að nenna þessu, satt bezt að segja!). 22 km lágu.
Pistill Ritara | Breytt 16.9.2010 kl. 06:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2010 | 20:56
Öskjuhlíðarsprettir í haustblíðunni
Kunnuglegur rúntur í blíðskaparveðri, þó eitthvað farið að kólna. Ágætisról á okkur þótt stirðleika gætti eftir langt hlaup laugardagsins, fínt að liðka sig upp á þennan hátt. Tíðindalaust inn í Nauthólsvík, svo var farið hjá HR og lagt í brekkurnar. Ég tók eina fjóra spretti og lét þar við sitja, þau hin fóru eitthvað fleiri. Fór gegnum skóginn og hjá Gvuðsmönnum. Náði Kára við Háskólann. Þetta var fínt hlaup og líðan góð.
Hittum Einar blómasala á Plani. Hann kvaðst langa í ískalt appelsín og kókosbollu. Kári kvaðst hafa aðrar langanir sem eru ekki hafandi eftir. Löng seta í potti með Skerjafjarðarskáldinu sem fór á kostum með frásögum og vísnaflutningi.
12.9.2010 | 14:53
Reykjafellshlaup 2010
Upphafið lofaði góðu, menn virtust vel á sig komnir og tilbúnir í langt. Á leiðinni birtust þeir Bjarni og Bjössi á reiðhjólum, hvatt var til þess að hópurinn gerði stanz við Víkingsvöll og tímajafnaði. Hér munu Þorbjörg K. og Þorbjörg M. hafa bætzt í hópinn, svo og Dagný, en þær voru farnar á undan. Bjössi kom inn í hópinn hér. Staldrað við í 8 mín. og svo haldið áfram í Elliðaárdalinn, yfir árnar á brú og inn Sævarhöfðann. Undir Gullinbrú og upp brekkuna löngu og erfiðu upp í Grafarvoginn. Aftur dokað við hjá myndastyttunum.
Haldið áfram og tempóið keyrt upp. Farið meðfram ströndinni og golfvellinum, endalausir stígar. Maður var orðinn heldur þreyttur í lokin, en þó var hlaupi lokið með sóma. Komið í Varmárlaug um fimmleytið. Þar réðust menn á bjórkassa blómasalans, opnuðu og rifu til sín bjórana. Teygt fyrir utan laug og spjallað saman. Svo gekk hópurinn til baða og laugar, m.a. farið í pott með köldu vatni.
Eftir þetta var haldið í sveitina hjá Helmut og Jóhönnu, etið, drukkið og skemmt sér. Þar sem við Flosi þurftum að fara í afmæli mágkonu okkar stöldruðum við stutt við, en af frásögnum manna má merkja að kvöldið hefur verið viðburðaríkt. M.a. mun jóginn hafa mundað gítarinn og spilað flamenco, en prófessorinn hóf upp raust sína og söng um tilurð alheimsins.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.9.2010 | 21:18
Goldfinger á miðvikudegi
Enn kastaðist í kekki með þeim Bjössa og blómasalanum í Útiklefa; Bjössi nýkominn af myndinni Ghost Writer og blómasalinn sveik samkomulag um að mæta. Þeir fóru tveir, Bjössi og Biggi. Í hléi uppgötvaði Biggi að hann hafði týnt bíllyklunum. Sneri við hálfum bíósalnum í leit að lyklunum. "Þú ert ljóti dj... hálfvitinn!" sagði Bjössi. "Já, það má fara panta fyrir mig herbergi á stofnun", sagði Biggi. Þeir röltu gneypir áleiðis að umræddu farartæki, hvað þeir ætluðu að gripa til bragðs veit enginn, en frekar en gera ekki neitt reynir Biggi við hurðina. Viti menn! hún opnast. Hann þreifar um svissinn - þar fann hann lykilinn. Hann varð himinlifandi, en jafnhissa á því að þeir hefðu setið í gegnum heila kvikmynd og engum dottið í hug að stela bílnum. Bjössi var hins vegar ekki eins hissa.
Fjöldi hlaupara mættur í Brottfararsal. Fyrstir mættir Þorvaldur og prófessor Fróði, þeir biðu í Salnum, spenntir eins og litlir messudrengir, eftir að hlaup hæfist. Svo tíndust þeir hver af öðrum auk áðurnefndra, Flosi, dr. Karl, Dagný, dr. Jóhanna, Flóki, Magga þjálfari nýkomin frá Köben, Albert og svo kollegi sem þeir sögðu að væri frá Ástralíu, en mig grunar að sé þýzkur.
Menn eru afskaplega fastir í Þriggjabrúa - og Magga lagði það til. Það hnussaði í okkur Ágústi yfir þessu metnaðarleysi - kváðumst stefna á Goldfingar. Ég lagði hart að blómasalanum að koma með okkur. Nei, hann kvaðst þurfa að laga mat í kvöld. En Flosi féllst á að koma með okkur. Aðrir settu markið lægra. Hersing af stað og fljótlega vorum við Ágúst fremstir í flokki og sáum varla til hinna það sem eftir lifði hlaups, nema Flóki náði eitthvað að fylgja okkur eftir.
Einhver mótvindur á leiðinni, en í Nauthólsvík var dýfingakeppni af klettinum. Á Flönum var manni farið að líða bærilega - en enn þarf að brjóta sér leið niður hjá kirkjugarði, þar eru einhverjir verktakar að slugsa við skógarstíg og búnir að vera að þessu í allt sumar að því er virðist. Þar má fara varlega vegna vinnuvéla sem eru að moka. Áfram yfir brú, við förum að mæta hlaupurum í Laugaskokki, Gústi þekkir annan hvern þeirra.
Þegar komið er í Fossvoginn verða á vegi okkar fjölmennir hópar íturvaxinna kvenna sem skeiða fram og aftur um dalinn, og eru greinilega samantekin ráð að fara út að hlaupa og bæta líðan sína og heilsu. Ágúst tekur Kópavogslykkju, en ég held áfram. Doka við þegar komið er að Víkingsvelli og leyfi Gústa að ná mér. Við tökum þríhyrning þarna rétt hjá til þess að leyfa Flosa að ná okkur. En hann svíkur, hann setur stefnuna á 69. Við áfram og upp brekkuna góðu inn í Smiðjuhverfið.
Nú er hún Snorrabúð stekkur og Goldfinger búinn að vera. Þangað er ekkert lengur að sækja svo að við höldum áfram og undir brú á Breiðholtsbraut. Ágúst fer að segja mér sögu, sem myndi líklega flokkast með dónamannasögum í bókmenntafræðinni. En þetta er löng saga, svo löng að hann nær ekki að ljúka henni áður en leiðir skilja og hann setur stefnuna upp í Breiðholtið og upp að Stíbblu, en ég áfram niður Dalinn. Þetta verður framhaldssaga.
Nú fer maður að finna fyrir þreytu og þá er bara að drífa sig tilbaka. Það er erfitt og einmanalegt, en ég stytti mér stundir með ipodinum, hlusta á hvern snillinginn á eftir öðrum. Enn var pottur er komið var tilbaka, en maður gat aðeins staldrað stutt.
Næst er hvíld hjá þessum hlaupara og svo - Reykjafellshlaup. Vel mætt!
6.9.2010 | 20:49
Úrhelli á mánudegi
Tekinn Einhyrningur við Skítastöð og kúrsinn settur á Nes. René stytti sér leið og tók forystuna, á eftir komu Jóhanna og Ragnar, svo við Gústi. Tempóið hélt áfram á Ægisíðu og það fór að rigna fyrir alvöru. Af því að Ágúst var meiddur fór hann bara rólega og tók fram úr þeim Ragnari og Jóhönnu á leiðinni á Ægisíðu, svo kom ég á eftir og tætti fram úr þeim, þau eru orðin voða róleg þessa dagana. En Flóki fyrir sitt leyti niðurlægði prófessorinn við Steinavör og þeyttist fram úr honum þar.
Bakkavör beið okkar, en einhverra hluta vegna kusu flestir að stíma framhjá, nema hvað við Jóhanna og Ragnar tókum nokkra þéttinga upp brekkuna, ég fjóra, þau átta. Ég fór svo Lindarbrautina yfir á Norðurströnd og lauk hlaupi holdvotur og á blautum og þungum skóm sem íþyngdu mér. Það voru lúpulegir menn sem biðu mín í Móttökusal og höfðu farið stutt og hægt. Einkennilegt hvað menn svíkjast um þegar þjálfararnir eru ekki með til að halda uppi aga.
Gríðarlega þéttur pottur, við lögðum hann undir okkur allan hringinn. Biggi mætti og kvaðst vera farinn að hlaupa með Árbæjarskokki. Sagðar margar góðar sögur og höfð í frammi hvers kyns kerskni. Menn hlakka til bedúínatímans hjá blómasalanum, þegar fer að kólna í veðri og norðanvindur næðir um hold og bein. Venju samkvæmt á mánudögum mikið rætt um áfengi, m.a. hvernig mætti eima rauðspritt til drykkju. Var þá fullyrt að rauðspritt væri alls endis meinlaust til drykkju, það "tæki bara svolítið í augun"! Stundum finnst manni þetta vera drykkjusamkunda en ekki hlaupaklúbbur.
5.9.2010 | 15:05
Við stóðum okkur vel
Af nægu söguefni var að taka, enda Vilhjálmur bæði í sjónvarpi og Séð og heyrt. Ó. Þorsteinsson í hefðbundinni Víkingstreyju í tilefni af góðu gengi félagsliðs hans í boltanum og til að storka Möllerum og Schrömurum Vesturbæjarins. Þessi fámenni hópur afbragðshlaupara lagði rólega af stað í ágætu veðri, 15 stigum, þurru veðri og hægu. Það fengust fréttir af Fyrsta Föstudegi á Ljóninu þar sem nokkrir félagar lentu í slagtogi við hjúkrunarfræðinema sem gerðu sér glaðan dag. Voru nefndir til sögu blómasali, próf. Fróði, Jörundur og Biggi.
Fátt tíðinda gerðist framan af, en er komið var í Nauthólsvík tókum við eftir að búið er að helluleggja skotið hjá Brokey sem hann Magnús hefur merkt sér. Getgátur voru ennfremur uppi um að menn frá Rafmagnsveitum ríkisins hefðu lagt þar í rafmagnsþil í þeirri von að stuðla að auknu hreinlæti og bættri umgengni, en veggir þarna eru sumir mosavaxnir.
Það var þetta hefðbundna, Kirkjugarður, Veðurstofa, Hlíðar og Klambrar. Benzinn var með hávaða alla leiðina, meira hvað sá maður getur bæði hlaupið og blaðrað. Við héldum nokkurn veginn hópinn og stönzuðum til þess að tímajafna og drekka vatn. En það var haldið vel áfram, farið um Austurvöll og upp Túngötu, framhjá Kristskirkju, þar sem var stoppað og menn signdu sig.
Í potti voru þeir spekingar Mímir, Baldur og Einar Gunnar. Setið góða stund og tekin góð rispa á helztu málefnum.
4.9.2010 | 14:16
Magnús er maður, hann er ljón
Laugardagur kl. 9:30. Hlauparar safnast saman í Brottfararsal. Þar mátti þekkja Einar blómasala, Bjössa, Eirík, Magnús, Þorbjörgu K., Gerði, Flóka, Ragnar, ritara og Rúnar á reiðhjóli. Nýr maður, Örn, sem hljóp í Berlín í fyrra með Bjössa og Bigga. Blómasalinn búinn að fara 10 - ætlaði 30. Menn voru í misjafnlega góðu ástandi eftir skemmtanir gærdagsins, en það skyldi látið reyna á ásigkomulagið.
Magnús var í vafa með sjálfan sig, en langaði til þess að gera eitthvað meira en þennan hefðbundna Hlíðarfót. Stemmning fyrir Stokki. Það var leiðindastrekkingur á Ægisíðu, mótvindur. Farið hægt til að byrja með. En er fram í sótti var hraðinn aukinn og var orðinn þokkalegur í Fossvogi. Margir úti að hlaupa á þessum tíma, fjölmargar konur í litlum hópum. Farið framhjá Víkingsheimili og niður að Elliðaám og yfir.
Í stað þess að fara upp Stokkinn héldum við áfram inni Laugardal, á þessum kafla vorum við fjórir saman, ritari, Maggi, Bjössi og Örn, og héldum góðu tempói, mikil brennsla og mikill sviti. Drukkið vatn á Sæbraut og svo haldið áfram. Við Maggi fórum um miðbæ og Hljómskálagarð. Enduðum á einum 18 km - vel af sér vikið svo löngu hlaupi án mikils fyrirvara.
Í potti var rifjað upp að einhverjir ætluðu í Brúarhlaup, dr. Jóhanna, Frikki og e.t.v. Flosi. Einar kom í pott og hafði farið 23 km. Næstu helgi verður svo Reykjafellshlaup, safnast saman við Vesturbæjarlaug kl. 14:30.