Færsluflokkur: Pistill Ritara
21.11.2010 | 17:06
Sunnudagar eru einstakir
Þekktir hlauparar söfnuðust saman við Vesturbæjarlaug í dag til þess að þreyta hlaup: Ólafur Þorsteinsson, Jörundur, Þorvaldur, Magnús, Einar blómasali, Ólafur ritari og René. Veður var afar fallegt, sól, logn, þriggja stiga hiti. Einstakur dagur til hlaupa. Lagt upp rólega enda sumir búnir að vera frá hlaupum um nokkurt skeið. Rætt um úrslit leikja í enska boltanum og um óhagstæða niðurstöðu í leik ónefnds kappliðs í Austurbænum gegn gvuðsmönnum úr Hafnarfirði. Þann leik vissi Formaður um enda hljóp hann alla leið austur að Víkingsheimili í gærmorgun og tilbaka aftur, 16 km, takk fyrir!
Aðventan er á næsta leiti og því orðið tímabært að huga að hefðbundnu jólahlaðborði Samtakanna. Sú hugmynd hefur komið upp að halda boðið í heimahúsi og annað hvort draga sjálf saman aðföngin eða kaupa hlaðborð hjá fagmanni. Blómasalinn bauð fram hús Jörundar til þessara nota og var vel tekið í það boð. Ritari gerði tillögu um 4. eða 11. desember sem mögulega hátíðardaga og er það með hliðsjón af utanlandsferðum hans. Jörundur blés á þessa tillögu og sagði að það yrði ekkert tillit tekið til þess hvort ritari er á landinu eða ekki. Þetta sárnaði ritara.
Rætt um jólabækurnar og um framboð til Stjórnlagaþings. René er einn frambjóðenda og kvaðst vera á leið upp í Útvarp í viðtal sem verður útvarpað. René hljóp í stuttbuxum í dag og hlýtur að hafa verið kalt. Menn lögðu fram óskalista um það sem ritari ætti að taka með heim úr næstu utanlandsferð: Cadbury´s súkkulaði, 400 g, reyktan ál, paté, leverpastej, belgískt súkkulaði og ég veit ekki hvað.
Komið í Nauthólsvík og gerður fyrsti stanz dagsins. Gengið um stund, en enginn tæmdi skinnsokkinn þarna. Haldið áfram í kirkjugarð þar sem Jörundur og blómasalinn tóku á sig sérstakan krók til þess að leita að vökumanni garðsins, sem ku hafa verið grafinn þarna 1932. Svo var haldið áfram sem leið lá um Veðurstofuhálendið og þann pakka allan.
Það var stoppað á réttum stöðum og staða mála tekin. Meðal annars var spurt: hvar er Villi? Hvað skyldi hann vera að gera í dag? Nú hefur fækkað neyðarhringingum á sunnudagsmorgnum og því harla fátt að rapportéra, annað en að hann ku hafa verið í Írlandi að flytja út ráð - og varla hafði hann sleppt orðinu hjá frændum okkar þegar Cameron reif upp veskið og bauðst til þess að beila út írsku bankana. Svo máttug eru orð Villa á Eyjunni grænu.
Jæja, það var farið um Rauðarárstig og niður á Sæbraut. Við urðum að vísu viðskila við Ó. Þorsteinsson, það fór eins og stundum gerist að hann þurfti að taka mann tali og þá varð bara að sætta sig við það. Það var múgur og margmenni á Sæbraut, aðallega túristar frá hinum Norðurlöndunum. Gegnum miðbæ, Grófina og út á Ægisgötu. Þetta var fínn túr hjá okkur og gott að hreyfa sig örlítið á milli flugferða.
Baldur Símonarson mættur í pott og var settur í bílnúmerapróf sem hann flaskaði illilega á. Hann veit ekki mikið um bílnúmer. Þarna voru líka frú Helga Zoega Gröndal Flygenring og Stefán maður hennar. Það var rætt um mat og aftur bar reyktan ál á góma sem og annað góðgæti.
Nú verður enn hlé á að ritari hlaupi, en ég bið fólk að velta fyrir sér dagsetningum fyrir jólahlaðborð.
15.11.2010 | 22:10
Að lokinni Afmælishátíð - lífið heldur áfram
Föstudaginn 12. nóvember héldu Hlaupasamtök Lýðveldisins upp á 25 ára afmæli Samtakanna í Safnaðarheimili Neskirkju. Um 50 prúðbúnir gestir mættu til gleðinnar og voru eftirvæntingin uppmáluð er komið var á staðinn. Þar stóðu þeir Björn kokkur og Rúnar þjálfari á haus og höfðu dúkað borð og gert klárt fyrir kvöldið. Þeir tveir sáu um matreiðslu og framreiðslu og uppvask allt og eiga heiður skilinn fyrir góða frammistöðu.
Ólafur Þorsteinsson, Formaður til Lífstíðar, setti hátíðina með hugðnæmri ræðu þar sem rifjuð voru upp grunngildi Samtakanna, fornir sigrar og nýir auk þess sem minning frumherjanna var heiðruð. Nú var borin fram hátiðarmáltíð kokksins, humarveizla með aðskiljarnlegum salötum og öðru meðlæti. Var borið mikið lof á kokkamennskuna. Síðan var hátíðarávarp: Flosi Kristjánsson barnaskólakennari heiðraði hlaupara fyrri tíðar og sagði frá aðdragandanum að stofnun Samtaka Vorra.
Nokkrir félagar, með eða án hlaupaskyldu, ávörpuðu samkomuna og var gerður góður rómur að málflutningi ræðumanna. Stefnt er að því að birta ávörp hér á bloggi Samtakanna svo að fjarstaddir fái notið þess að heyra það sem um var rætt. Almennt má segja að hátíðin hafi tekizt í alla staði hið bezta, og samkvæmt viðteknum vísum urðu engir verulegir skandalar.
Jæja, að hlaupi dagsins. Mættur allnokkur hópur afbragðshlaupara í leiðindaveðri, hiti við frostmark, vindur á norðan, en þó bjart. Blómasalinn mætti nýklipptur á slaginu hálfsex þegar hersingin er vön að liðast af stað. Við Bjarni ákváðum að bíða eftir kallinum, enda á hann ekki marga vini eftir hér í Vesturbænum. Saman þræluðumst við þetta upp á Víðimel, út á Suðurgötu og þaðan út í Skerjafjörð. Þar gerði blómasalinn sig líklegan til þess að taka spretti með fremstu hlaupurum og hvarf eitthvað út í myrkrið. Við Benzinn gerðum okkur ekki miklar grillur út af þessu, vissum sem var að við myndum tína hann upp á leið okkar er drægi nær Hofsvallagötu.
Forspá okkar sannaðist, hann náði ekki einu sinni Hofsvallagötu, við drógum hann uppi í myrkrinu á Ægisíðu og teymdum hann með okkur á Nes. Honum hafði daprast flugið og var afar spakur er hér var komið, þurftum við jafnvel að bíða eftir honum og hann bað okkur aftur og aftur um að bíða eftir sér. Fórum út að leikskólanum Mánabakka á Nesi, þaðan út að Haðkaupum og svo bakgarða tilbaka til Laugar. Öskruðum á Bigga er við hlupum framhjá húsi hans, en hann svaraði ekki. Tókum 9,3 km á 55 mín. - sem er með því rólegra. Sannaðist hér að við Benzinn erum góðmenni og sannir vinir, að halda blómasalanum við efnið og tryggja að hann færi þokkalega vegalengd í dag, en hann var greinilega á þeim buxunum að gefast upp og fara bara aumingja.
Matreiðsla til umfjöllunar í potti, ýmsar áhugaverðar uppskriftir ræddar. Hér voru upplýstar utanlandsferðir viðstaddra, blómasalinn pantaði strax nokkur kíló af Cadbury´s enda síðustu forvörð að gæða sér á slíkum lúxus áður en hækkanir á súkkulaði herja á. Í gvuðs friði. Ritari.
10.11.2010 | 20:21
Fámennt á miðvikudegi
Aðeins helztu naglarnir voru mættir í hlaupi dagsins: Benzinn, blómasalinn, Kári, Bjössi, Þorvaldur, Maggi, Helmut - og svo sást Jóhanna í mýflugumynd. Magga mætti í Brottfararsal með dóttur sína, lítið skinn sem faldi sig bakvið mömmu sína þegar hún sá Bjössa og Kára sem vildu vingast, hún hefur trúlega haldið að þeir væru tröllkarlar. Einhver hafði á orði að á morgun yrði Powerade-hlaup og því mætti fara stutt í dag. "Já," sagði Helmut, "eigum við ekki að fara Hlíðarfót rólega?" Ritari samsinnti þessu og ekki þurfti að snúa upp á handlegginn á Magga til þess að fá hann til að fallast á stutt.
Veður var fallegt, hiti við frostmark, heiðskírt en farið að dimma og logn. Stefnan sett á Ægisíðu og hraðinn settur upp, farið á ca. 5 mín. tempói inn í Nauthólsvík með Bjössa, Jóhönnu og Helmut. Þar ákváðum við að bíða eftir hægari hlaupurum, Magga, Bjarna og blómasalanum. Er hér var komið vildi blómasalinn halda áfram og fara Þriggjabrúa, við þvældum honum Hlíðarfótinn með fyrirfram sviknu loforði um að hlaupa Powerade með honum á morgun. Hér gáfu þeir Benzinn í. Hægðu þó á sér á plani hjá Gvuðsmönnum. Þar náði ég þeim, laumaðist upp að hægra eyranu á blómasalanum og öskraði eitthvað um að drulla sér áfram, fitubollan þín! Hann tók kipp og skaust áfram og stakk okkur af, hefur líklega aldrei hlaupið jafnhratt á ævinni, enda sýndi klukkan hans 4 mín. tempó hraðast í dag.
Á Hringbrautinni fórum við Þrjár brýr til að lengja og enduðum í 8,4 km á meðaltempói 5:25. Teygðum á Plani, enda veður enn með miklum ágætum. Þar tóku menn að munnhöggvast, m.a. um jólin. Blómasalinn sagði að ef maður tæki matinn, drykkinn og gjafirnar út úr jólajöfnunni mætti alveg eins fella þau niður. Talið barst að Jóni Gnarr og Orkuveitunni, sem Benzinn vildi meina að hefði farið á hausinn við að kaupa einhverja sveitahitaveitu af Borgfirðingum, sem aðrir töldu að hlyti að vera misskilningur.
Pottur stuttur og snarpur. Rætt um transfitusýrur og beztu poppunaraðferðina. Bjössi gaf út lýsingu, nota grænmetisolíu, Isio-4 eða Canola, láta fljóta yfir baunirnar og hitann í botn. Þegar lokið færi að lyftast er hitinn tekinn af, pottur af hellu og lok tekið af til þess að tryggja ferskleika. Biggi var mættur í pott er hér var komið og gaf út eigin lýsingu, sem hann át að mestu leyti upp eftir Bjössa. Blómasalinn á leið í Kópavoginn að borða saltkjöt og baunir. Hann var minntur á vogun í fyrramálið - það runnu á hann tvær grímur og hann vissi ekki hvernig hann gæti leyst þetta dilemma.
Föstudagur og afmælishátiíð Hlaupasamtakanna á næsta leiti - sjáumst hress og kát!
8.11.2010 | 21:25
Rólegur mánudagur að loknu Samskokki
Mikil ánægja var með Samskokk í boði Hlaupasamtaka Lýðveldisins laugardaginn 6 nóvember. Veður mun hafa verið einstakt. Ó. Þorsteinsson Formaður var viðstaddur og þótti tilkomumikil sýn að sjá á annað hundrað hlaupara skeiða af stað eftir hlaupastíg á Ægisíðu og sást vart annað en hlauparar svo langt sem augað eygði. Hér fylltist formaðurinn stolti. Að hlaupi loknu dúkkaði blómasalinn upp og hafði tekið að sér flutning aðfanga fremur en að hlaupa. Ýmsar skýringar hafa verið settar fram á þessu háttalagi blómasalans og verður ekkert fullyrt hér. Veitingar miklar og rausnarlegar í boði Melabúðar eftir hlaup. Viðstaddir voru ánægðir með fiskikar fullt af köldu vatni, en menn lýstu jafnframt vonbrigðum yfir því að fá ekki að berja augum þær þjóðsagnakenndu sögupersónur blómasalann og ritarann - og einstaka átti sér þá ósk heitasta að fá að sjá Benzinn. ´Nú, nú, það verður ekki á allt kosið.
Margir afbragðshlauparar mættir í hlaupi dagsins. Síðustu drög að afmælishátíð lögð og verður dagskrá fljótlega send þeim sem staðfest hafa þátttöku. Fremur kalsalegt var í veðri, vindur og lágt hitastig. Þrjár vegalengdir í boði: Hlíðarfótur, sprettir á Nesi og Stokkur. Ég ákvað að slást í för með Magga, Benzinum, dr. Jóhönnu og Georgi - en öll fórum við stytztu leið, sem í hlaupinu hlaut nafnið "Hlífðarfótur" vegna þess að aðeins lökustu hlauparar láta það fréttast að þeir hlaupi þessa skammarlegu vegalengd. En við vorum alveg róleg og bara ánægð með okkur. Við Benzinn sýndum Magnúsi mikla gæzku, biðum eftir honum og hvöttum hann áfram. En þegar komið var í Hlíðina fórum við að herða á kappanum, öskruðum á hann að drullast úr sporunum og halda uppi einhverju tempói. Maggi kvartaði sáran undan hraðanum og hörkunni sem við sýndum honum, en það var engin miskunn hjá... Benzinum.
Dr. Jóhanna nokkuð á undan okkur ásamt Georgi, en Rúnar hjólandi á hælunum á okkur. Við ákváðum að taka þrjár brýr á Hringbrautinni, enn og aftur var það Benzinn sem stjórnaði för og keyrði okkur áfram. En þetta var rólegt, stoppuðum iðulega og tókum spjall saman. Kláruðum þetta svo með góðum spretti. Teygt í Móttökusal og fljótlega komu þau hin sem tóku spretti á Nesið í skítakulda og létu illa yfir hlutskipti sínu: Flóki, Magga, Siggi Ingvars og Frikki Meló.
Í potti spunnust umræður um hvað þeir Flosi og Fróði hefðu tekið sér fyrir ... fætur. Var rifjaður upp sá vani prófessorsins að teyma menn með sér, helzt út fyrir bæjarmörkin, skilja þá eftir þar og taka sprettinn heim. Í pott kom Flosi og kvað þá Fróða hafa hlaupið austur að Elliðaám. Þar reyndi prófessorinn að skilja Flosa eftir, en tókst ekki, enda átti hann í erfiðleikum með Stokkinn fyrsta spölinn. Það var ekki fyrr en við Umferðamiðstöð að prófessorinn náði að hrista barnaskólakennarann af sér og skilja hann eftir, sem getur varla talizt mikið afrek er þar var komið.
Blómsalinn lýsti með fjarveru sinni í dag, enda fluttur með rekstur sinn í Hafnarfjörð og þyrfti helzt að taka bátinn frá Álverinu í bæinn til að ná hlaupi.
27.10.2010 | 20:33
Sólskinshlaupari sýnir yfirbót
Jörundur hefur opinberlega játað að vera sólskinshlaupari. Hann er stoltur af því. Hann kveðst ekki hlaupa með harðlífissvip. En þessi sólskinshlaupari mætti þó til hlaups á miðvikudegi þótt ekki væri veður skemmtilegt. Það var ekkert leiðinlegt, bara ekki skemmtilegt. Nokkur fjöldi mættur, þó var um það rætt að próf. Fróði hefur ekki sést að hlaupi lengi. Um þetta var rætt í Brottfararsal þar sem rektor Gísli og ritari sátu lengi vel og ræddu menn og málefni. M.a. var rætt um ágætan árangur hlaupara vorra í haustmaraþoni.
Magga þjálfari vildi sjá Þriggjabrúa með stígandi. Það voru nokkrir bjartir sem tóku forystuna þegar í upphafi. Athygli vakti hve blómasalinn virtist brattur framan af. Ritari hugsaði með sér að þetta gæti varla enst. Dólaði einn sér og fór sér hægt, alltof mikið klæddur. Á endanum drógum við þá Kára og Gísla uppi, sem höfðu lagt af stað á undan okkur. Hver er þá ekki lentur með þessum hægu félögum? Blómasalinn sprunginn og kominn í hæga gírinn. Þetta vissi maður!
Eftir þetta var grúpperingin þessi: Gísli, Jörundur, blómasalinn, ritari og svo Benzinn sem náði okkur við Kringlumýrarbraut. Einhvers staðar var Þorvaldur að snövla í kringum okkur og vorum við rétt búnir að missa hann í kirkjugarðinn, þar sem ungar konur hlupu, en við forðuðum því og drógum hann með okkur fyrir neðan garðinn. Hann var ekki alls kostar sáttur við þá tilhögun.
Farin Suðurhlíð, en menn tóku því afar rólega, gengu jafnvel á köflum. Við Benzinn pískuðum menn áfram, en nenntum svo ekki að bíða og skildum þá hina eftir. Farið upp hjá Perlu og niður Stokkinn og hjá Gvuðsmönnum. Tókum brýrnar á Hringbraut og lengdum. Stóðst á endum að þeir hinir náðu okkur er við komum aftur suður yfir Hringbrautina. Dólað til Laugar. Þannig voru farnir einhverjir 10-11 km á rólegu nótunum. Hinir munu hafa tekið Þriggjabrúa á útopnuðu og komu tilbaka með blóðbragð í munni. Hefðbundið afslappelsi í potti á eftir.
Nú hverfa blómasali og ritari af landi brott og hlaupa næst í næstu viku. Í gvuðs friði.
25.10.2010 | 21:22
Nú vitum við hverjir eru Naglar
Ritari sendi út misvísandi tilkynningu á póstlista Samtakanna fyrr um daginn, gefandi í skyn að vegna Kvennafrís myndu tilteknir hlauparar hugsanlega vera of uppteknir af eldamennsku og ómegð til þess að geta mætt í hlaup. Skilaboðin voru auðvitað send út til að prófa karaktér ákveðinna einstaklinga. Blómasalinn féll á prófinu. Hann nýtti sér skilaboðin til þess að skrópa í hlaupi dagsins og taldi sig hafa gilda afsökun. En afsakanir eru engar til og engar teknar gildar á dögum sem þessum: menn sem ekki mæta til hlaups vegna veðurs eru kallaðir einu nafni: SÓLSKINSHLAUPARAR!!! Þannig er það og þannig mun það vera. Veður var sumsé ekki það hagstæðasta til hlaupa, austanalvitlaust með rigningu.
Af þessari ástæðu verða þeir nefndir sem mættu í hlaup dagsins og eru því réttnefndir NAGLAR: Magga, Rúnar (ja, á hjóli..?, OK nagli),Flosi, Karl, Magnús tannlæknir, Bjössi (nema hvað?), Helmut, Georg, Jóhanna, Birgir hlaupari, Rannveig Oddsdóttir, dr. Jóhanna, Frikki Meló. Ekki man ég eftir að hafa séð prófessor Fróða og er hann þó upphafsmaður sólskinshlauparanafnbótarinnar. Ekki var Benzinn eða Kári, einhverjir mestir harðdálkar sem hlaupa með Hlaupasamtökunum.
Ekki að þetta hafi verið merkilegt hlaup. Það var dólað sér út að Dælu gegnum bakgarða í 107 og um Skerjafjörðinn. Þaðan var farið á spretti tilbaka og mátti skilja fyrirmæli þjálfara sem svo að menn mættu hætta við Hofsvallagötu. Fáir létu sér nægja svo stutt hlaup, enda er það í vorum hópi kallað Aumingi. Ég tölti með Helmut vestur að Hagkaupum og svo fórum við um bakgötur tilbaka austur úr til Laugar í nokkrum mótvindi. Einhverjir þraukuðu lengur og fóru alla leið vestur á Lindarbraut, en þaðan um götur milli húsa á Nesi.
Blómasalinn mætti í pott og hafði engar afsakanir fram að færa fyrir fjarvist sinni. Er nú að sjá hvort hann bætir ráð sitt n.k. miðvikudag.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 22:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.10.2010 | 14:29
Frá mörgu að segja
Eftir hefðbundið föstudagshlaup sem var heldur fámennt, ritari, Bjössi, Ragnar, Karl G. og Kári, bauð blómasalinn heim til sín í tilefni af því að frú Vilborg hélt til New York. Þar bauð hann upp á flatböku og bjór og var það mál manna að hvort tveggja hefði smakkast með afbrigðum vel.
Á laugardag þreyttu fjöldi félaga okkar haustmaraþon, fimm í heilu og þó nokkrir í hálfu, í afbragðsveðri. Vorum við Biggi mættir á Ægisíðu að hvetja fólk áfram. Til tíðinda heyrir að Magga vann sinn flokk í hálfu, Jóhanna Skúladóttir í öðru sæti í sínum flokki, dr. Jóhanna vann sinn flokk í heilu, S. Ingvarsson vann sinn flokk og Jörundur var í öðru sæti í sínum flokki, gaf eftir fyrsta sætið til Svans. Til hamingju hlauparar, með góðan árangur!
Í dag var svo hlaupinn hefðbundinn sunnudagshringur og voru þessir mættir: Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Þorvaldur, Magnús, ritari, Ingi - og René náði okkur í Nauthólsvíkinni. Vitanlega bar fræga mynd enn hæst í umræðuefnum dagsins, en fjölmargir hafa leitað til okkar nafna og frænda í tilefni myndatökunnar, óskað eftir að fá að kynnast okkur og tjá okkur virðingu sína og aðdáun. Fyrir þessu höfum við báðir fundið og virðist enginn endir ætla að verða á þessu fári. Jörundur hafði einhverjar efasemdir um málið, en hann hafði fallið í skuggann af okkur hávaxnari mönnum þennan dag og sjást aðeins fæturnir á myndinni. Það er alltaf við því að búast að öfund spretti upp þegar einhverjir í hópnum geta baðað sig í frægðarljóma og njóta aðdáunar og virðingar hvarvetna. Ekki höfum við heldur farið varhluta af óánægju úr þeim áttum þar sem gjallarhornssýki er viðvarandi vandamál.
Hiti um frostmark en logn og heiðskírt. Fallegt veður til að hlaupa. Farið rólega því að Jörundur hljóp heilt maraþon í gær. Haldið áfram að skipuleggja afmælishátíð Hlaupasamtakanna, en vel gengur að hafa upp á gömlum hlaupurum og trekkja þá til þátttöku. Fljótlega munum við senda út dagskrá og veita lokafrest til skráningar.
Hringurinn sem var farinn var í alla staði hefðbundinn og er varla hægt að segja að nokkuð óvænt hafi komið upp á. Á tröppu Laugar beið okkar enn meiri aðdáun lesenda dagblaða og kæmi ekki á óvart þótt við fyndum fljótlega fyrir fjölgun í hlaupahópnum af þessari ástæðu. Setið í potti í klukkutíma og þar bættust Biggi og Unnur í hópinn, nýbúin að hlaupa eigin hring á sunnudagsmorgni.
20.10.2010 | 21:39
Heimsfrægir menn hlaupa um Fossvoginn
Það er napurt þessa dagana. En það hindrar ekki hlaupara í Hlaupasamtökum Lýðveldisins að koma saman og leggja á ráðin um hlaup. Þannig var það í dag og söfnuðust eftirtaldir í Brottfararsal: Gísli rektor, próf. Fróði, Flosi, Bjarni Benz, Bjössi, Jörundur, Ólafur ritari, Einar blómasali, Magga þjálfari, Albert, Þorbjörg K., Guðrún Bjarnadóttir og Guðmundur bróðir hennar ásamt hundinum Bangsa sem ku vera nefndur í höfuðið á kokkinum, Kári, Birgir hlaupari, Melabúðar-Frikki, Dagný og René. Það voru örugglega einhverjir fleiri sem ég gleymi eða veit ekki nöfnin á. Ef menn verða varir við að ég gleymi einhverjum mega þeir varpa af sér allri feimni og láta ritara vita, það er sjálfsagt mál að bæta nöfnum við. Feimnina geta menn losnað við með sama hætti og Biggi Jógi, hann tók lyf, ég man ekki lengur nafnið á því, en það virkaði. (Það var að vísu placebo, en það virkaði engu að síður.)
Þjálfarinn er með ýmisleg plön og tekur tillit til mismunandi fyrirætlana fólks. Sumir ætla að fara í maraþonhlaup á laugardag, aðrir hálfmaraþon, en svo eru það menn eins og ritari sem stefnir ekki á neitt og vill bara hlaupa til þess að gleyma. Ég vélaði blómasalann með mér í Stokk, veit jafnframt að prófessorinn ætlaði 30 km - aðrir stilltu hlaupagleðinni í hóf, nefndar Suðurhlíðar með trukki. Frikki sagði okkur eftir á að það hefði verið tekið tempó frá Drulludælu út að Kringlumýrarbraut, upp Suðurhlíð hjá Perlu, niður Stokkinn, Flugvallarveg tilbaka út í Nauthólsvík og þaðan á tempói út að Dælu, 7 km, góðan daginn! Við Einar vorum skynsamari. Fórum í Fossvoginn. Satt bezt að segja gerðum við okkur vonir um að einhver húsmóðirin væri að steikja buff tartar, hakkabuff með lauk, sósu, rauðbeðum, eggjarauðu - og að við myndum finna ilminn.
Mættum mýgrút af hlaupurum, sem horfðu forvitnum augum á okkur, því óneitanlega vorum við eilítið þekktari heldur en síðast, hafandi prýtt síður heimsblaðsins alkunna, og heilsuðu okkur margir og vildu greinilega ná að kynnast okkur. Gekk þetta svo langt að er komið var austarlega í Fossvoginn slógust hlauparar í för með okkur, eða við með þeim, og við trekktir upp í sprett, 4:10 í ca. 500 m, en þeir ætluðu lengra. Þetta voru tvær konur og þær tóku vara við því að við værum með derring í hópnum, nýir mennirnir. "Eruð þið KRingar? Eruð þið kannski úr Vesturbænum?" Okkur þóttu spurningarnar lýsa furðulegri vanþekkingu á þessum geðþekku hlaupurum, þessum þekktu andlitum úr Vesturbænum. Um þetta leyti ættu allir hlauparar á Íslandi að þekkja okkur. En við tókum sprettinn með þeim af hjartans lítillæti, slógum af inn við Elliðaár og fórum út í hólmann. Er hér var komið áttuðum við okkur á því að kokkamennska lá niðri í Fossvogi.
Aftur undir Brautina og upp Stokk. Hérna leyfðum við okkur að ganga, enda höfðum við um margt að ræða og gátum ekki haft hlaup of stutt, það varð að fara djúpt í málefnin. Það var farið hjá Réttarholtsskóla og greindir karaktérar í Hlaupasamtökunum. Líðan góð, farið að kólna, en þó vorum við sammála um að hlaupurum er nauðsynlegt að fara á dolluna fyrir hlaup og tæma sig. Einhver ólga gerði vart við sig og hamlaði árangursríku hlaupi. En þetta var allt í lagi, heilt yfir.
Komið tilbaka, engir á Plani, engir í Komusal. Við teygðum lítið en drifum okkur í pott. Þar lágu rektorinn, barnaskólakennarinn, kokkurinn, Benzinn, Jörundur og Friðrik kaupmaður. Þýzkir ferðamenn flæmdir úr potti með klúrheitum og vafasamri hegðun, samanburði á fótum og rasskinnum. Rætt um hlaup helgarinnar sem framundan er. Benzinn á leið til Írlands í óljósum erindgjörðum. Þarna lá maður í heitum pottinum og hugsaði sem svo að hér væri lokið enn einu árangursríku hlaupinu sem myndi lifa með manni um ókomna tíð.
Hvatt er til hlaups n.k. föstudag, kemur Skransalinn?
18.10.2010 | 21:35
Kaaaaaaaalt!
Vel mætt í fyrsta kalda hlaup haustsins, hiti fallinn í 5 gráður og farið að blása af norðri. Mættir Ágúst, Gísli, Flosi, dr. Friðrik, dr. Jóhanna, Helmut, Melabúðar-Frikki, Jóhanna, Rakel, Bjössi, Benzinn, ritari, Eiríkur, Hannes, Magga og Rúnar, enn á reiðhjólinu. Það var líf og fjör í Útiklefa eins og venjulega, rætt við dr. Svan um ýmsar venjur Hlaupasamtakanna. Afhentur listi yfir boðsgesti frá Formanni. Einar blómasali mætti, en hugði ekki á hlaup, gerði peningamerki með fingrunum til þess að réttlæta fjarveru.
Á Plani voru lagðar línur um hraðaleik, en fyrst rólega út að Dælu. Farið á 5 mín. tempói þangað. Sumir héldu áfram austur úr, einhverjir fóru Hlíðarfót, Ágúst fór tæpa 20 km. Við hin tókum spretti vestur á Nes, mislanga, en fjári góða, frá 500 upp í 1000 metra, með stuttum hvíldum á milli. Ég hékk í þeim fyrstu tvo sprettina, en dróst svo aftur úr. Haldið á Nes um Skjólin, og ég orðinn einn þar til Rúnar dúkkaði upp á hjólinu og fylgdi mér svo eftir alla leið tilbaka um Lindarbraut og Norðurströnd. Farið á hröðu tempói síðasta spölinn, kringum 5 mín. eða þar um bil.
Teygt lengi í Móttökusal, áform um Mývatnsmaraþon rædd, þurfum að fara að taka ákvörðun og hefja skipulagningu. Áhugi á að leigja rútu og fara með allan hópinn norður. Pottur vel heitur og setið lengi, eða allt þar til Ágúst kom úr sínu langa hlaupi. Nú fer að verða kalt að fara upp úr eftir hlaup og maður dregur það við sig í lengstu lög.
17.10.2010 | 14:29
Fæddur með múrskeið í munni...
Er komið var í Útiklefa dró ritari upp pakka með fjórum kókosbollum og tvær dósir af appelsínulímonaði og stillti þessum varningi upp. Mættir: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Einar blómasali, Ingi og Jörundur. Einar varð glaður við er hann sá uppstillinguna og spurði hvort ekki væri hægt að fara stutt í dag. Rætt um sumarhöllina sem er í smíðum í Grímsnesi og ýmislega verkþætti þar, m.a. pípulagnir og múrverk. Menn spurðu hver ynni verkin. "Það geri ég" sagði blómasalinn. "Ertu með réttindi?" var þá spurt. "Ég er fæddur með múrskeið í munni..." sagði þá blómasalinn og vísaði til uppruna síns, Murmejster Breiðdal. Þetta var gott og bar enginn brigður á að Einar væri fullfær um að inna af hendi vel unnið verk.
Hefðbundið hlaup á sunnudagsmorgni í ágætu veðri. Rætt um dagskrá hátíðarafmælis og gestalista. Einhverjir höfðu farið út að hlaupa í gær, meðal þeirra var Ólafur Þorsteinsson. Lýsti hann því hvernig hann hefði fyrir slysni lent með fólki eins og Möggu og Jóhönnu og þær bókstaflega skilið hann eftir í reykmekki. Svo hefði Melabúðar-Frikki mætt á svæðið og hefði sú saga farið á sömu lund, og frændi hlaupið einn eftir það. Rætt um veikindi í hópnum og mikilvægi þess að halda áfram að hlaupa til að halda heilsunni.
Stanzað í Nauthólsvík. Þar er búið að skrúfa fyrir vatnið, eins og raunar er búið að gera á Sæbraut. Þessu þarf að mótmæla, þetta er eini lúxusinn sem við höfum, ókeypis vatn á tveimur stöðum á hlaupaleiðinni og búið að skrúfa fyrir á báðum stöðum. Hringjum í hlutaðeigandi aðila hjá Reykjavíkurborg og látum opna fyrir vatnið á ný! Enn rennur þó vatn í Kirkjugarði og var það drukkið ótæpilega meðan sagðar voru sögur af greftrunum, duftkerjum og væntingum manna um hinztu vist.
Haldið áfram upp úr garði og farið hjá Veðurstofu. Að þessu sinni var tekinn Laugavegur og engin goðgá að því, vegna þess að langt er síðan auð verzlunarrými hafa verið talin. Nú kom í ljós að þeim hefur fjölgað á ný, voru 10 í seinustu talningu, eru orðin 16. Einhver slatti af útlendingum hingað komnum til þess að hlýða á tónlist sem mikið er af. Ekki talin ástæða til þess að fara hjá Kaffi París eða um Austurvöll, við erum vinalausir aumingjar sem enginn vill hylla. Áfram til Laugar.
Blómasalinn var ekki búinn að gleyma því hvers vegna hann mætti í hlaup dagsins: kókosbollur og appelsínulímonaði. Stoppað stutt við á Plani og farið til Útiklefa. Þar var þessum gæðum úthlutað og við sátum sælir og glaðir, hvor með tvær bollur og dós af appelsíni. Það kemur sérstakur svipur á Einar þegar hann er gladdur með góðgæti, það er svipur algleymisalsælu og ekkert truflar einbeitingu hans á meðan.
Sama agaleysið og venjulega í potti, menn tala þvers og kruss og engin leið að fylgjast með vitrænum umræðum. Blómasalinn og verkfræðingurinn tala saman þvert yfir pottinn um breiðband, ljósleiðara, Símann, Vodafone, tengingar, loftnet. Ég er löngu búinn að segja Einari að fá sér Vodafone Gull og ekki ræða málið meira. Nei, nei, hann þarf að pæla meira í hlutunum, velta þeim fyrir sér fram og tilbaka, láta svína á sér, eins og Símiinn gerir, klippir í breiðbandið án þess að bjóða nokkuð í staðinn og hefur engan fyrirvara á breytingunni. Svona fyrirtæki eiga menn ekki að skipta við.
Fyrirætlanir margvíslegar eftir hlaup. M.a. upplýsti Ólafur frændi minn að hann ætlaði á eina veitingahúsið í Garðabæ. "Veitingahús í Garðabæ, hvað er það?", spurðu menn. Jú, IKEA með sínar sænsku kjötbollur, full porsjón 15 stykki. Takk fyrir!