Kúplingsfótur stirðnar og veldur deilum

Föstudagur rann upp bjartur og fagur með fögrum fyrirheitum. Flosi stóð úti á Stétt og horfði á sólaruppkomuna og munaði minnstu að hann brysti á með söng og færi með "Sjá roðann í austri" - en hann hafði taumhald á tilfinningum sínum og barg mannorði sínu. Það var rigning er menn mættu til Laugar síðdegis og búið að opna Útiklefa. Verið að gera klárt fyrir hana Lovísu sem ætlaði að skemmta með söngvi á Iceland Airwaves. Við þessir helztu drifum okkur í Útiklefa og klæddumst. Mættir: Formaður til Lífstíðar Ó. Þorsteinsson Víkingur, Gísli rektor Armulensis, Þorvaldur, Jörundur, Flosi, Kári, Benz,Guðrún B. Bjarnadóttir, Ólafur ritari, Einar blómasali - og fleiri vorum við að líkindum ekki.

Ljósmyndari frá Fréttablaðinu mætti í Brottfararsal og tilkynnti tilhögun ljósmyndunar í tilefni af 25 ára afmæli Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Bað hann menn um að raða sér upp í snyrtilega röð á Ægisíðu þannig að hann næði bæði hæðarmynd og breiðmynd. Ekki veit ég hvað hann átti við, hvort sérstakrar tækni væri þörf til þess að ná svo feitlögnum einstaklingum á mynd. Og hægja á sér, svo að hann næði örugglega óhreyfðri mynd. Ritari fullvissaði hann um að lítil hætta væri á að hann næði ekki hópnum nánast óhreyfðum, svo hægt væri farið yfir.

Jæja, það stendur eins og stafur á bók. Ljósmyndarinn bíður eftir okkur á tilsettum stað og smellir af, gefur svo þumalfingursmerki um að myndatakan hafi verið harla vel heppnuð. Við ánægðir og höldum áfram. Blómasalinn fer eitthvað að orða það hvort ekki megi snúa við úr því að myndatöku sé lokið, en ritari tekur slíkt ekki í mál. Menn eru pískaðir áfram. Frændi minn er upptekinn maður og gegnir veigamiklu hlutverki við að halda uppi viðunandi atvinnustigi í landinu og neyðist því til að fórna sér og hverfa frá hlaupi í Skerjafirði og er afsakaður.

Ritari fer með Gísla rektor og Jörundi, sem eru einhverjir ágætastir og uppbyggilegastir hlauparar sem hann þekkir. Góður félagsskapur það. Jörundur er að velta fyrir sér haustmaraþoni, ef veður verður skaplegt mun hann þreyta hlaup, en ef verður stormur á norðan eða suðaustanhvassviðri þá mun hann mæta á bíl og hvetja hlaupara. Gísli hins vegar hleypur langt á laugardagsmorgnum í vaskra sveina hópi og fer því rólega og bara stutt á föstudögum. Hann fór Hlíðarfót í dag og snöri til Laugar að því búnu.

Við Jörundur áfram upp Hi-Lux og löngu brekkuna, sáum hlaupara á undan okkur sem fóru hægt yfir. Náðum þeim í tröppunni hjá Veðurstofu og tókum fram úr þeim. Römbuðum þar á Benzinn og blómasalann, hvað var í gangi? Benzinn meiddur og blómasalinn bara latur, reyndi að vekja samúð viðstaddra með því að rifja upp löngu gleymd veikindi. Við Jörundur hlustuðum ekki á slíkt, rifum þá með okkur og héldum uppi tempói.

Hér fór hraði að aukast og má segja mér að farið hafi verið að nálgast 5 mín. tempóið á Klömbrum. Bjarni spurði Jörund hvað hægt væri að gera við meiðslum sem hæfust neðan við hné. "Hlaupa meira!" sagði Jörundur. Líkt og þegar maður kom hóstandi til Dags skálds segjandi "ég verð að hætta að reykja". "Vitleysa!" sagði skáldið. "Þú reykir ekki NÓGU mikið." Jörundur sagði honum að hætta þessu væli og herða hlaupið. Við áfram.

Á þessum kafla voru þau horfin okkur, Guðrún, Flosi og Þorvaldur, fóru á ægilegu tempói sem fæst ekki uppgefið enn á ritandi stundu. Að vísu var upplýst eftir hlaup að Þorvaldur hafði venju samkvæmt svindlað og stytt, farið Laugaveg með Guðrúnu, en Flosi farið Sæbraut. Við drengirnir fórum Sæbraut, og þarna fór blómasalinn að braggast. Margt skrafað og skeggrætt á þessum kafla sem ekki verður upplýst og aðeins vísað til þess trúnaðar sem ríkir með föstudagshlaupurum: við látum ekkert uppi, en ef fólk vill vita hvað sagt er getur það bara mætt í hlaup!

Farið um Hljómskálagarð tilbaka og voru menn bara sprækir. Teygt á Plani. Tónlist í Móttökusal, Lay Low að kveða að. Hlauparar fóru í Útiklefa. Pottur margvíslegur, fólk á fleygiferð milli potts og út í laug að hlusta á tónlistarkonuna, fóru sagnir af því að Björk væri í Laug og útlendingar hefðu misst sig fyrir því. Hér mættu Anna Birna, dr. Jóhanna og Biggi Jógi. Ekki fór svo að menn brystu út i söng þótt föstudagur væri, ritari reyndi að tóna fyrir Roðann í austri, en ekki var tekið undir þann tón. Bjarni mættur með bilaðan fót, fékk greiningu hjá dr. Karli, sprungnar æðar eða eitthvað í þá veru, má vera að þetta lagist á næstu 4-6 vikum. Gott að það var ekki nárinn. (Spurning hvort það megi vera með sjúkdómsgreiningar á bloggi? Er það ekki persónuverndarmálefni?)

Hlaup ku enn vera iðkuð frá Laug á laugardagsmorgnum kl. 9:30. Hvað veit ég?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband