Sprett úr spori - Gísli mætir á ný til hlaups

Hver var ekki mættur til hlaups á mánudegi nema sjálfur Gísli rektor! Maður varð nú að hrista skítspaðann á honum þar eð svo langt var um liðið síðan hann sýndi sig síðast í vaskra sveina og meyja hópi. Hann var alhress og lýsti yfir staðföstum ásetningi sínum að hefja af nýju æfingar af fullum krafti eftir nokkra lægð.

Aðrir mættir: dr. Friðrik, dr. Jóhanna, dr. Karl Gústaf, dr. dentis Magnus Julius, prof. dr. Augustus Kvaran, Gerður, Jóhanna, Magga, Þorbjörg M., Einar blómasali, Bjössi, Kári, Benzinn, Rakel, Flóki, Ósk, Frikki á Horninu og Ólafur ritari. Hvílíkur hópur!

Staldrað við á Plani í fögru haustveðri, heiðríkja, 14 stiga hiti, hægur andvari. Gerist ekki betra! Magga lagði línur: rólega út að Dælu og sprettir þaðan. Við af stað og fórum á 5 mín. tempói upp á Víðimel, út á Suðurgötu og suður í Fjörð. Stoppuðum við Dælu. Boðið upp á 1 km og 500 m spretti vestur úr. Aðrir héldu áfram og fóru ýmist Hlíðarfót eða eitthvað lengra.

Það var sprett úr spori og farið hratt yfir, hröðustu hlauparar fóru 1 km - en við Rakel fórum 500 m og eftir einn sprett sameinaðist Bjössi okkur. En okkur brá mjög er við vorum að ljúka við fyrsta sprett, sáum blómasalann og Gísla rektor koma á hægu dóli á móti okkur. Þeir snöru við og sameinuðust kílómetrahlaupurunum og við héldum að nú ætti að taka sprett líka. En við sáum þá ekki meira og þeir hafa því snúið við eftir heldur snautlegt hlaup.

við tókum eina sex svona spretti á meðan þau hin skeiðuðu á fullu fram og aftur stígana. Fórum svo á hægu tölti tilbaka. Það var farið að kólna. Fundum ýmsa hlaupara á Plani og í Móttökusal. Teygt og spjallað. Glatt var á hjalla í potti og setið lengi. Seinast skiluðu sér Frikki og Gústi og höfðu farið tæpa 18 km á undir 5 mín. tempói.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband