"Nei, takk!"

Stundum hefur ritara orðið á að segja "hvílíkur hópur!" - enn var ástæða til þess að viðhafa slík ummæli er horft var yfir hóp dagsins í fyrsta hlaupi Hlaupasamtakanna í októbermánuði. Hvílíkt mannval! Próf. Fróði, Flosi, Jörundur, dr. Jóhanna, Einar blómasali, Biggi, Bjössi, Bjarni, Guðrún Bjarnadóttir,Brynja af Nesi, Rúna af Nesi, Kári, Helmut og ritari. Enginn verulegur dónaskapur hafður í frammi á Plani og því lagt í hann. Stefnan sett á Nes.

Fljótlega upphófst tal um sjóbað og því lögð áherzla á að vinna upp góðan svita. Við vorum þarna í fylkingarbrjósti helztu drengirnir, ég og prófessorinn. Svo fóru menn eitthvað að derra sig, Bjössi, Helmut, Flosi og Bjarni. Aðrir langt að baki. Við fórum þetta á fimm mínútna tempói og ekkert slegið af, þrátt fyrir að það væri föstudagur.

Komið á baðstað og við skelltum okkur í svala ölduna, Fróði, Flosi, Helmut og ritari. Þótti okkur verða dráttur á að aðrir blönduðu sér í baðið. Sjórinn farinn að kólna eilítið og við vorum ekki lengi oní. Farnir að tínast upp úr þegar þau hin komu. Við biðum spenntir eftir stelpunum, en þær létu ekki sjá sig. Loks heyrðum við Jörund segja: "Já, en stelpur, viljið þið ekki koma og horfa á þá?" Ekki varð töf á svari. "Nei, takk!"

Við hysjuðum upp um okkur heldur skömmustulegir og héldum för áfram. Fórum um golfvöll til þess að lengja eilítið, en fórum þó tiltöluega rólega, Veður var fagurt, stillt, bjart og hiti nálægt 12 gráðum. Það er yndislegt að hlaupa á Nesi á svona dögum, þegar vindur blæs ekki, hvað þá úr öllum áttum eins og stundum gerist.

Ég fór lokaspölinn með Helmut og við vorum bara rólegir. Fórum hefðbundna föstudagsleið um Lambastaðahverfið og þá leið tilbaka. Komið á Plan og þar fór fram jógaæfing með Bigga. Einar blómasali stóð og hélt sér við staur og barmaði sér mikið, kvaðst vera lasinn. Farið í pott. Pottur þéttur, röðin óslitin allan hringinn. Enn varð manni hugsað: hvílíkur hópur! Menn yljuðu sér við tilhugsunina um það að okkar maður mundi keppa í hreppskeppninni í kvöld og að líkindum standa sig vel.

Fyrsti föstudagur haldinn með hefðbundnu sniði á Rauða Ljóninu. Þangað mætti fjöldi hlaupara og ýmis neyzluvara pöntuð.Að líkindum verður hlaup á morgun kl. 9:30.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband