Föstudagur á Nesi, fyrsta sjóbað fyrir suma

Fámennt en góðmennt í hlaupi dagsins frá Vesturbæjarlaug: Jörundur, Helmut, dr. Jóhanna, Biggi, Frikki Meló, ritari, Ragnar og Denni skransali á Nesi. Hlaupið á Nes í bongóblíðu, logn, sól, hiti, sviti. Farið allhratt þrátt fyrir að ekki væri stefnt að neinu ákveðnu. Hlaupið niður í sandinn hjá Gróttu og út alla fjöruna til þess að æfa fyrir Laugavegssandinn. Strippað innanum fjölskyldufólk og skellt sér í sjóinn, yfirborð sjávar heitt af sól, en undir niðri var ögn svalara.

Þegar komið var upp úr var ljúft að halda áfram brautina á hægu tölti. Við slepptum golfvelli og ákváðum að hafa þetta rólega æfingu. Er snúið var tilbaka á stíg birtist lögreglubíll og virtist lögreglumaðurinn skima eftir afbrotamönnum. Í kjölfarið kom fjöldi bifreiða. Það hvarflaði að okkur að blygðunarkennd Nesverja hefði skaddast af athæfi okkar og e-r hefði hringt á lögreglu, auk þess hefði upplýsinganet þeirra Nesverja verið virkjað og almenn úthringing leitt til þess að hver sem vettlingi fékk valdið var ræstur út til að líta herlegheitin augum. Við ákváðum, að ef löggan böggaði okkar eitthvað, myndum við benda á Bigga, það myndi virðast trúlegast að hann væri sá sem þeir hefðu áhuga á, maður vanur slagsmálum við vafasamt fólk á Hlemmi.

Tíðindalaust tilbaka. Pottur. Svo var haldið á Pall hjá Denna og Hrönn á Nesi. Þar var boðið upp á veizlu með nasli og súpu. Mikið mannval og mikil gleði. Einar blómasali mættur með myndir af Unimoginum. Góður undirbúningur fyrir kvöldveizlu í Þórsmörk eftir Laugaveg þegar innilega verður hlegið að afstöðnu afrekshlaupi.

Boðið verður upp á 20 km hlaup í fyrramálið kl. 9:30. Ljúft!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

sumir létu sér nægja andlega fæðu í Hörpu.

jöri (IP-tala skráð) 9.7.2011 kl. 00:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband