Laugavegurinn lagður að velli með stæl

Níu hlauparar frá Hlaupasamtökum Lýðveldisins tóku þátt í Laugavegshlaupi frá Landmannalaugum inn í Þórsmörk laugardaginn 16. júlí 2011 til heiðurs Jörundi Guðmundssyni prentara og langhlaupara per excellence sjötugum. Þetta voru auk Jörundar sjálfs: Flosi, Helmut, Frikki Meló, Einar blómasali, Ólafur ritari, Ósk, Biggi og Ragnar. Rútan tekin frá Skautahöllinni í Laugardal kl. 4:30 að morgni og var spennan áþreifanleg í hópnum og líklega ekki mikið um svefn um nóttina. Ekið sem leið lá inn í Hrauneyjar og gerður 25 mín. stanz þar, fóru flestir inn í morgunmat.

Þá var haldið áfram og ekið inn í Landmannalaugar. Þar var svalt í veðri og fremur dimmt yfir. Ákváðu flestir að vera á síðbuxum og í jakka yfir hlaupatreyju. Menn höfðu góðan tíma til að liðka sig upp fyrir hlaup og skoða sig um eða fara á náðhús. Þrír hópar voru ræstir með fimm mínútna millibili. Í þeim fyrsta voru Ósk, Frikki og Biggi, Ragnar var í hópi nr. 2, og við hinir lakari hlauparar í hópi númer þrjú. Hóparnir fóru af stað án mikillar dramatíkur og hófst fjallgangan upp í Hrafntinnusker. Það fór fljótlega að hlýna, en samt kulaði öðru hverju svo að líklega var klæðaburðurinn við hæfi.

Við Jörundur héldum hópinn, enda hafði ritari ákveðið að halda sig við þann gamla og gera allt eins og hann, þá hlyti maður að skila sér í Emstrubotna, sem var eiginlega aðalmarkmið dagsins, ná Botnum á innan við 6 klst. Ekki amalegt að hafa félagsskap af Jörundi sem þekkir hvert kennileiti á fjöllum, hann benti á fjallstinda, gil og heitar laugar hvarvetna og vissi nöfnin á öllum hlutum. Ekki fór maður það hratt yfir að hætta væri á að fegurð náttúrunnar færi fram hjá manni. Við höfðum raðað okkur það aftarlega í þriðja hóp að við vorum eiginlega alltaf aftastir, sem skipti okkur engu máli. Flosi og Helmut voru á dóli fyrir framan okkur og við hittumst við drykkjastöðvar, fyrst í Hrafntinnuskeri.

Hér kom glögglega í ljós munurinn á Laugaveginum og venjulegum götuhlaupum: maður byrjar á eins og hálfs tíma fjallgöngu - og bætir svo við einu maraþoni um fjöll og firnindi! Ritara leið bara vel í Hrafntinnuskeri, drakk vel, skellti í sig geli og salttöflum og hélt svo áfram. Er komið var niður Jökultungur á leið til Álftavatns dró frá sólu og það hitnaði verulega í veðri. Hér fór útgufun að gera rækilega vart við sig og varð þessi hlaupari að fara úr jakka, buxur farnar að vera til trafala. Þá var bara að þrauka þar til kæmi að Bláfjallakvísl, þar sem gæfist tækifæri til að skipta um.

Er komið var í Álftavatn var ég orðinn verulega þrekaður, en fékk mér vel að drekka og bætti við geli og salti. En það vildi ekki betur til en svo er ég hélt upp frá áningarstaðnum að ég fékk heiftarlegan krampa í læri innanvert vinstra megin og varð að leggjast niður meðan hann gengi yfir. Tók það nokkrar mínútur og óttaðist ég um tíma að það kæmu skátar upp frá húsinu að sækja mig eins og þeir gerðu við Gústa hér um árið. En það reddaðist og ég staulaðist á fætur og hélt áfram.

Það tók á andlega styrkinn að berjast áfram upp í Hvanngil og þaðan út í Bláfjallakvísl, en hafðist. Ég hafði einsett mér fyrir hlaup að ná ekki eingöngu á innan við 6 tímum í Emstrur, heldur fara það hlaupandi og losna við að ganga. Enn var ég hlaupandi er kom að Bláfjallakvísl og var það léttir. Þar voru fyrir Flosi og Jörundur að endurnýja sig. Ég fór úr skóm og sokkum og fór í hreina, þurra sokka og nýja skó, stuttar hlaupabuxur og stuttermatreyju, setti upp KR derhúfuna. Góð tilfinning og maður endurnýjaði kraftinn. Haldið áfram að Emstrum.

Ég hafði heyrt mann lýsa hörmungum sínum af Laugaveginum og "þessum söndum, þessum endalausum söndum, sem aldrei ætla enda að taka!" - og afskrifað sem kveifarhátt. Ég skildi hvað maðurinn átti við þegar ég lenti á þessum sömu söndum. Spurði á drykkjarstöðvum hversu langt væri í Emstrubotna og var tjáð "6 km" og að ég hefði eina klukkustund til að ná því. Lítið mál. Málið var þó aðeins meira en ég ætlaði, því að það var sama hvað maður kepptist við, alltaf komu nýir tindar og nýir sandar og maður hélt að eftir næstu öxl yrði hlaupið niður að Emstruskálanum, en aldeilis ekki! Það voru áfram sandar og aftur sandar, nýjar fjallsaxlir og meiri sandur. Hér varð mér á að segja eins og Melabúðar-kaupmaður: "Ertu ekki að djóka í mér?"

Mér fannst vera svo áliðið tímans að ég hlyti að vera að missa af tækifærinu og þegar bættist við enn einn sandurinn og ný fjallsöxl í fjarska var ég farinn að halda að ég hefði misst af 6 tímunum, eiginlega búinn að afskrifa þetta og farinn að hugsa um rútusætið á Hvolsvöll og alla niðurlæginguna! Ég ákvað þó að koma með reisn í mark og tók góðan sprett niður brekkuna niður að skálanum. Þar var mér hins vegar tekið með fagnaðarópum og óskað til hamingju með að há inn á tíma. Þvílík hamingja! Þar var Flosi fyrir og dreif í mig salt og orku í formi daðla og sperðla af erlendum toga. Nú var markmiðinu náð og einungis eftir að ljúka hlaupinu í Þórsmörk.

Jörundur náði inn síðastur hlaupara fyrir útilokun og skakkaði aðeins hálfri mínútu að hann dytti út. Við héldum síðan áfram og byrjuðum gangandi. Vegalengdin frá Emstrum í Þórsmörk er sögð 15-16 km og þrátt fyrir að maður væri ánægður með að hafa náð því sem að var stefnt þá var engin skemmtiganga framundan. Mikill hluti leiðarinnar er ýmist á fótinn eða erfiður yfirferðar svo að hlaup voru ekki í boði, maður gekk þetta eða klöngraðist. En við reyndum líka að hlaupa þegar færi gafst. Einhvers staðar við Fauskatorfur neituðu hins vegar fæturnir að taka þátt í frekari afrekum hjá þessum hlaupara og var ekki um annað að ræða en ganga eftir það. Líklega hef ég gengið síðustu 8 km hlaups, og aðeins örsjaldan að ég gat hlaupið, en þá kom alltaf krampi í lærin.

Lokakaflinn um Kápu og birkiskóginn niður í Húsadal var erfiður og maður tönnlaðist endalaust á þessum orðum: "Fer þessu nú ekki að verða lokið?" Mætti upprifnum ferðalöngum á leiðinni gegnum skóginn sem hvöttu mig og sögðu: "Þetta er alveg að verða búið, bara kílómetri eftir!" Ég vona að ég hafi ekki sýnt þeim mikið vanþakklæti fyrir þessar gagnlegu upplýsingar! Loks var komið niður á flöt og ég hljóp í markið. Þar biðu mín félagar mínir og fögnuðu mér eins og sigurvegara, þótt ég væri á rúmum 9 klst. Þarna var líka Magga þjálfari á vegum aðstandenda hlaups.

Vert er að nefna að Ósk okkar varð önnur kvenna í hlaupinu og A-sveit Samtaka Vorra með þau Ósk, Frikka og Ragnar innanborðs náði 9. sætinu í sveitakeppninni, sem er allgóður árangur.

Umgjörð hlaups og aðstaða öll var til stakrar fyrirmyndar í Laugavegshlaupi og verður þeim sem að skipulagningu og undirbúningi komu ekki nógsamlega þakkað fyrir fagmannleg vinnubrögð í alla staði. Björgunarsveit þeirra Árnesinga sem sá um drykkjarstöðvar stóð sig með mikilli prýði og var gott að koma í áningarstaði og finna fyrir umhyggju og stuðningi þessa góða fólks! Það er svakalega góð tilfinning að ljúka Laugavegi og finna að þrátt fyrir að maður væri í tæpara lagi með undirbúning þá hafðist þetta.

Að hlaupi loknu héldu Hlaupasamtökin gleðskap í húsi í Húsadal sem Frikki hafði reddað handa okkur, þar mættu dr. Jóhanna, Unnur, Ragna og Hjálmar með börn og barnabörn og skemmtu menn sér lengi fram eftir við ýmislegar veitingar, sögur og spjall. Frábær dagur að kvöldi kominn og nú er bara að ákveða næstu áskoranir.

Daginn eftir héldu þau Jóhanna og Helmut gangandi tilbaka leiðina til Landmannalauga, ásamt Teiti og bróðurdóttur Helmuts. En við Jörundur, Einar, Ragnar, Frikki létum nægja að rölta yfir í Langadal með þeim Bigga og Unni, Sólborgu og Bjargeyju, en þau voru með bílinn þeim megin og þurftu bara far yfir Krossá. Svo tók við bið eftir áætlunarbílnum í bæinn og við stauluðumst um eins og spýtukarlar fram eftir degi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

Frábær árangur hjá þér ólafur og co.! Takk fyrir frásögnina sem var lesin upphátt hér í vancouver. kveðja kári og anna birna

Kári Harðarson, 18.7.2011 kl. 15:06

2 identicon

Til hamingju með Laugaveginn ritari og til hamingju Hlaupasamtök Lýðveldisins fyrir fráræran árangur.

Kalli (IP-tala skráð) 18.7.2011 kl. 22:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband