Síðasta upphitun, spennan eykst

Nokkrir valinkunnir naglar mættir til upphitunaræfingar frá Laug á miðvikudegi fyrir Laugavegshlaup: Jörundur, Ósk, Flosi, Hjálmar, Þorvaldur, ritari, Frikki, Ragnar, dr. Jóhanna og líklega ekki margir í viðbót. Helmut veikur heima og blómasalinn fjarverandi. Ekki vitað um Bigga. Þetta var rólegheitadól upp á Víðimel, gamalkunna og -reynda leið, út á Suðurgötu, Skerjafjörð og að Skítastöð, dokað við þar og málin rædd. "Málin" eru vitanlega Laugavegsmálin, alltumlykjandi og alls staðar nærverandi þessa dagana, undirbúningur, hvað á að hafa með sér í Bláfjallakvísl, hvað í Þórsmörk, hverju á að klæðast, ekki gleyma vaselíni, íbúfeni, sólarvörn og þannig langt fram eftir fjárgötunum.

Sama dól tilbaka, utan hvað Hjálmar og Þorvaldur voru eitthvað að derra sig og héldu áfram í Skjólin, meðan aðrir fóru til Laugar, hafandi farið tæpa 6 km sem var mátulegt. Í Potti sagði Flosi ferðasögu af Snjáfjallaströnd, þaðan sem hann var nýkominn. Kvaðst hafa komið að Stað í Grunnavík, "... þar sem séra Snorri var EKKI prestur!" gall í Jörundi, sem virðist það mikið kappsmál að halda þessari sögulegu staðreynd til haga, einhverra hluta vegna.

Jæja, þarna höfðum við setið góða stund þegar blómasalinn dúkkaði upp og gerði sér upp helti, en á vitlausum fæti, hann var haltur á hinum fætinum deginum áður. Hann bauð upp á tízkusýningu eftir Pott í Móttökusal Laugar, þar sem hann sýndi nýjustu línuna í hlaupafatnaði á gjafverði miðað við aðrar verzlanir í bænum. Menn pöntuðu sér hægri vinstri. Nú er blómasalinn hinn nýi Daníel.

Átök framundan. Gangi oss öllum allt í haginn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband