Síðasta langa hlaup fyrir Laugaveg

Mætt: Helmut, dr. Jóhanna, Biggi, ritari, Ragnar, Frikki, Flóki, en sést hafði til Dagnýjar fyrr um daginn. Veður frábært, glampandi sólskin, hiti 14 stig og hægur andvari þegar bezt lét. En meiningin var að fara bara rólega 20 upp að Stíbblu. Erfitt reyndist að halda aftur af fólki, við vorum iðulega komin í 5:20-5:30, en ætluðum að vera á 6 mín. tempói. Svitinn byrjaði strax að fossa í hitanum og gott að vera með nóg að drekka á brúsum. Prófuðum auk þess gelið hans Gumma Löve sem var dúndurgott og er ég ekki frá því að mér hafi ekki orðið verra af því.

Nú er búið að bæta í bununa á vatnsfontinum í Nauthólsvík og raunverulega hægt að drekka úr honum. Haldið áfram í Fossvoginn og niður að ánum. Farið út í Hólmann og óðum við Biggi árnar til þess að undirbúa okkur fyrir vosbúð efra. Helmut og Jóhanna fóru á brú. Þræddir skógarstígar í það endalausa, komumst loks út á malbikaða stíginn aftur og fórum upp að Stíbblu, hittum þar fyrir Frikka og Ragnar. Bætt á sig geli og drukkið. Skellt sér niður úr.

Í Nauthólsvíkinni var óhjákvæmilegt að skella sér í sjó og var aldan yndisleg! Maður var hálfstirður á eftir og tók tíma að liðka sig upp, en maður var orðinn góður eftir ca. kílómetra. Kláruðum flott hlaup á rólegu nótunum, 21,1 km á 2:06, sem gerir í reynd um 6 mín. tempó. Það komu einhver stopp inn í þetta.

Í potti var deilt um það hvort mynd í Mogga af Jörundi hlaupara sýndi hann í þéttu þykkni af lúpínu eða njóla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband