Fagur mánudagur

Einhverjir baðgestir í Útiklefa voru svo ósvífnir að blokkera snaga sem Þorvaldur Gunnlaugsson þurfti að nota. Það eyðilagði ekki áform hans um að nýta snaga Útiklefa. Hann flutti einfaldlega föt ókunnugra saman og losaði þannig um 4-5 samliggjandi snaga sem hann gat nýtt sér að vild. Á þetta horfðum við Magnús tannlæknir furðu lostnir. Einhverjir hefðu kannski sagt að þetta væri dæmigert fyrir frumkvöðla- og útrásaranda íslenzkra víkinga og "you ain´t seen nothing yet" - en við Magnús erum bara einfaldar sálir sem velja sér afskekkta snaga þar sem við erum ekki fyrir neinum.

Auk þeirra sem fyrr eru nefndir og komu við sögu hlaups á þessum mánudegi mættu eftirtaldir: dr. Friðrik Guðbrandsson, próf. dr. Karl Gústaf Kristinsson, próf. dr. Ágúst Kvaran, Bjarni Benz, Flosi, Pétur, Ragnar, Magga, Jóhanna Ólafs, Haraldur, Guðrún, Frikki Meló og ritari. Einstök veðurblíða, sól, einhver vindur og hiti um 18 stig. Nú þurfa menn að fara að ákveða hvað þeir ætla að gera í Reykjavík, sumir ætla heilt, aðrir hálft og enn aðrir 10. Ágúst gat upplýst að hann hefði hlaupið 72 km í sveitinni um helgina og hefði lært að meta kalt kók eftir það.

Lagt upp á brjáluðu tempói, undir 5. Hlaupið þannig út í Nauthólsvík og náði ritari að hanga í fremstu hlaupurum alla þá leið. Tilgangurinn með þessu brjálæði var ritara ekki ljós, en hann sló af hraðanum og skellti sér í sjóinn til að kælast. Indælt! Hélt svo áfram út að Kringlumýrarbraut og upp Suðurhlíð. Var í góðum gír alla leið upp að Perlu og áfram niður Stokk. Fór á góðu tempói um Hringbraut og yfir brýrnar til að lengja. Við Hótel Sögu sá ég þrjá eldri karlmenn GANGANDI án sjáanlegrar ástæðu. Þetta voru Maggi, dr. Friðrik og Benzinn.

Í Potti var margt skrafað og skeggrætt. M.a. vildi prófessor Fróði endurvekja hinar frægu árshátíðir Hlaupasamtakanna, halda þær sameiginlega með TKS í golfskála Ness þar sem Fyrsti Föstudagur ágústmánaðar var haldinn. Þegar hann var beðinn um að útskýra þessa hugmynd vafðist honum tunga um höfuð. Hann var minntur á hina ódauðlegu afmælishátíð Samtaka Vorra 12. nóvember sl. í Safnaðarheimili Neskirkju þar sem Björn kokkur bauð upp á humarveizlu. Prófessorinn brást fálega við enda átti hann ekki heimangengt þann daginn.

Einnig veltu menn fyrir sér hvort Ó. Þorsteinsson hefði verið á KR-vellinum þegar Vesturbæjarstórveldið lagði ónefnt knattspyrnulið úr Austurbænum að velli með marki á 93. mínútu þar sem hendur a.m.k. tveggja leikmanna KR komu með afdrifaríkum hætti að málum. Af því tilefni var rifjað upp þegar þeir félagar Magnús tannlæknir og Ólafur horfðu á leik sömu liða í Víkinni fyrir fáeinum árum og Víkingar lágu í samfelldri sókn allan leikinn, en KR-ingar komust í eina sókn, skoruðu og unnu leikinn 1-0. Á leið út af vellinum vildi Magnús hughreysta vin sinn og sagði vingjarnlega: "En, Óli minn, ertu samt ekki feginn yfir því að KR skyldi ekki vinna með meiri mun?"

Lagt á ráðin um löng hlaup um skógarstíga í nágrenni höfuðborgarinnar, en það verður að bíða þar til eftir Reykjavíkurmaraþon.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband