Færsluflokkur: Pistill Ritara
18.9.2011 | 14:18
Fyrsta haustlægðin
Mæting eins og venjulega kl. 10:10 á sunnudagsmorgni við Vesturbæjarlaug, sem enn er lokuð til kl. 11. Fyrsta haustlægðin með hvassri suðaustanátt og regndropum, ekki beinlínis óskaveðrið til hlaupa og eingöngu einbeittustu hlauparar á ferð: Þorvaldur, Einar blómasali, Ólafur skrifari og Guðmundur. Eru þeir því réttnefndir karlmenni Samtakanna. Það var talsverður barningur alla leið inn Ægisíðuna og maður þurfti að hlaupa nánast láréttur til að komast áfram. Fáir á ferð. Vísbendingarspurning: hvaða kappleikur fór fram á þessum degi á Laugardalsvelli fyrir 43 árum? Sett var vallarmet í aðsókn sem enn stendur. Lið frá Portúgal lék þann dag á vellinum. Meðal stjarna í liðinu var einstaklingur að nafni Eusobio, auknefndur Ausubjúga að sið íslenzkrar aulafyndni. Þrátt fyrir allar þessar vísbendingar höfðu félagar mínir ekki svarið og kom á óvart. Þetta hefði Ó. Þorsteinsson vitað. Þarna léku Valur og Benfica og skildu jöfn.
Rifjaður upp seinasti sunnudagur, þar sem hlauparar rákust á V. Bjarnason ekki einu sinni, heldur tvisvar. Niðurstaðan úr þeim samtölum var sú að félagi vor væri að linast í hörðustu afstöðu sinni til Samtaka Vorra og að hann gæti jafnvel fallist á að meðlimirnir væru hinir mætustu. Ennfremur var sagt frá Reykjavellshlaupi er fram fór með miklum ágætum sl. föstudag og góðri þátttöku. Þar hlupu Flosi, Jörundur, Þorbjörg, Jóhanna, Bernard, Friedrich Kaufmann, Benedikt, Ágúst, Haraldur, skrifari, Magga og Þorvaldur. Helmut og Denni á hjólum og Kalli kom inn í hlaup á miðri leið. Hlaup tókst harla vel, utan hvað Helmut og Denni misstu hjólin undir lok hlaups og urðu að hlaupa síðasta spölinn. Farið í pott í Varmárlaug, kalt bað innifalið og svo stefnt að Reykjafelli. Þar var slegið upp mikilli veizlu með úrvals pastaréttum, brauði og salati. Bjarni Benz bauð upp á Cadbury´s súkkulaði sem blómasalinn hafði skenkt honum.
En aftur að hlaupi dagsins. Við náðum Nauthólsvík með harmkvælum og dokuðum við þar í skjóli af húsum. Héldum svo áfram í Kirkjugarðinn þar sem tekin var hefðbundin sunnudagsganga framhjá leiðum. Velt upp möguleikanum á þátttöku í haustmaraþoni. Upp hjá Veðurstofu, Hlíðar, Klambra, Hlemm og við Sjóklæðagerðina var veitt athygli framkvæmdum í nýju kínversku sendiráði. Verður það viðfangsefni næstu sunnudagshlaupa að fylgjast með framvindu framkvæmda.
Lensinn á Sæbrautinni, en strengur við Hörpu. Hlaupið alla leið tilbaka, en dokað við á Landakotshæð. Góð tilfinning að koma tilbaka í veðri sem fælir marga hlaupara frá hlaupi. Slíkir eru kallaðir "sólskinshlauparar". Í Pott mætti Ó. Þorsteinsson hafandi misst af hlaupi dagsins, svo kom dr. Baldur og loks Stefán verkfræðingur. Rætt um menningarviðburði og bókaútgáfu haustsins. Ennfremur gengi knattspyrnuliða í Austurbænum.
Hvað er framundan?
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.9.2011 | 18:51
Skóviðgerðir milli jökla - Fimmvörðuhálsganga 2011
Árleg ferð Hlaupasamtaka Lýðveldisins á Fimmvörðuháls laugardaginn 3. september 2011. Mæting stundvíslega kl. 7:00 við Vesturbæjarlaug. Ekið sem leið lá austur að Skógum á lítilli, 30 manna háfjallarútu. 15 þátttakendur: Flosi og Ragna, Helmut og Jóhanna, Kalli og Guðrún, Jörundur og Anna Vigdís, Kári, Biggi og Unnur, Einar blómasali, Ólafur skrifari, pólska mærin Anya og Þorbjörg. Tíðindalítið austur. Veður gott, logn, þurrt og 12 stiga hiti. Lagt í hann upp þrepin mörgu upp á fjallið. Biggi berháttaði sig við hvern foss og Jörundur tók myndir af honum framan við hvern og einn þeirra.
Það fór að rigna, en þó ekki mikið, þetta er það sem Svíar kalla duggregn. Gangan gekk áfallalaust fyrir sig framan af. Farið yfir brú á Skógá. Þar var búið að koma niður nýjum stikum sem voru nær ánni en veginum og lengdi gönguna nokkuð. Við ákváðum að fylgja stikunum, þótt það væri breyting frá fyrri hefð. Blómasalinn kominn með hælsæri, enda á eldgömlum gönguskóm sem standast ekki kröfur nútímans. Kári klastraði á hann gelplástri. Svo var haldið áfram.
Ekki höfðum við farið langt þegar aftur þurfti að búa um hælsærið, en í þetta skiptið tók Anna Vigdís til sinna ráða, batt um af fagmennsku og eftir það var hællinn ekki til vandræða. Við reyndum að halda hópinn eftir fremsta megni, en auðvitað dró í sundur með fólki eins og verða vill. Við Flosi komum fyrstir að skála Útivistar á Fimmvörðuhálsi (hvar svo sem sá góði staður er!) og var brekkan upp að skála frekar erfið eftir langa göngu. Sáum jeppa fastan í ís og drullu neðan við skála. Töldum víst að þarna hefði einhver unglingur af mölinni farið of gáleysislega í jeppaleik. Á daginn kom að það var skálavörðurinn sem átti jeppann og hafði sprungið á honum.
Gott að koma í hús og ylja sér, fá heitt vatn í bolla og setja súkkulaðiduft út í. Þarna hvíldum við í góðan hálftíma. Er blómasalinn kom í hlað höfðu skósólar skúa hans losnað. Hann brást við með því að negla annan sólann fastan, en límdi hinn með límbandi. Það var mikið hlegið að honum á þessum útbúnaði.
Hér vorum við stödd á hæsta punkti og því var lægra hitastig hér en við upphaf göngu og fannst það. Það tók nokkurn tíma að fá í sig hita á ný, en við ákváðum að fara inn á gömlu leiðina. Ekki höfðum við lengi farið þegar við komum inn á eldstöðvasvæði Eyjafjallajökuls, sáum eins árs gamalt hraun sem enn rauk úr og þá Móða og Magna, gígana sem spúðu hrauni og gjalli, fórum upp á nýtt fjall sem enn var snarpheitt. Var þetta sannarlega hápunktur ferðarinnar.
Nú fór að styttast í annan endann á ferðinni og enn voru skór blómasalans til vandræða. Það var gripið til þess ráðs að binda sóla upp með reimum sem Biggi hafði með sér. Það var farið um kunnuglegar slóðir, staldrað við á Heljarkambi og rifjað upp slys á Hvítasunnu 1970 þegar þrjú ungmenni urðu úti í aftakaveðri. Svo var Morinsheiðin og Kattarhryggir. Er niður var komið var upplýst að blómasalinn hafði bundið upp skó sína með húfu Bigga. Þannig lauk hann hlaupi og var mikið hlegið að honum við komu í Bása.
Ferðin gekk vel að öðru leyti og tók 10 tíma. Um kvöldið var svo slegið upp veizlu, grillað, etið, drukkið, sungið og í lokin var kveikt í gönguskóm Einars niðri á eyrum neðan við Skagfjörðsskála. Kári svaf vel í öndunartæki sem tengt var við rafgeymi.
31.8.2011 | 20:25
"Hverju reiddist Villi?"
Hefðbundinn miðvikudagur í Lýðveldinu. Mættir til hlaups í Brottfararsal: Gísli Ragnarsson, Maggi, Helmut, dr. Jóhanna, Tobba (Þorbjörg), Flosi, Magga, dr. Friðrik, Ragnar, Gummi, Frikki Meló og sjálfsagt einhverjir fleiri sem ég gleymi. Þetta er annað samfellda hlaupið hans Gísla með hópnum í nokkur ár og boðar gott. Hann var eðlilega forvitinn um það sem á daga okkar hefur drifið síðan síðast. Meðal þess sem vakti mesta furðu hans var brotthvarf hans Vilhjálms okkar Bjarnasonar úr hópnum og urðum við að uppfæra hann í smáatriðum um þá miklu dramatík. "Hverju reiddist Villi?" spurði Gísli, "þetta ljúfmenni." Svo var það útlistað með nákvæmri sagnfræði og sannleiksást, nafngreindum persónum og staðsetningum í tíma og rúmi. Hann dró mjög í efa söguskýringar viðstaddra og taldi víst að allt væri það fyrirsláttur. Við vorum eðlilega slegin yfir þessum byltingarkenndu hugmyndum, en urðum að játa að hugsanlega hefði hann eitthvað til síns máls.
Þegar þvagan var komin á hreyfingu fann skrifari eins og grjóthnullunga veltast um í belgnum á sér. Mundi hann þá eftir því að hafa borðað kjötsúpu í hádeginu og fengið sér tvisvar á diskinn. Þetta var greinilega ekki heppilegur undirbúningur fyrir hlaup því að þyngslin voru agaleg og maður mjakaðist varla úr stað. Hér var einbeittur hlaupari fallinn í Blómasalasyndrómið, að kunna sér ekki hóf, þekkja ekki mál síns maga o.s.frv. Þannig að þetta varð heldur styttra hlaup en fyrirséð var, hafði hugsað mér að fara Þriggjabrúa, en endaði með því að fara Hlíðarfót með Gísla.
Það var allt í lagi, við Gísli höfðum margt að ræða og tókum m.a.s. nokkur stopp til þess að lengja hlaupatímann. Ekki verður látið uppi hvað okkur fór á milli, enda tveggja manna trúnaðarhjal. Skal hér sannað að fólki er óhætt að treysta skrifara fyrir hugrenningum sínum og vangaveltum um annað fólk.
Pottur þéttur, góður og vel mannaður. Minnt á Fyrsta Föstudag hvers mánaðar næsta föstudag (og prófessor Fróði fjarri góðu gamni!), Fimmvörðuháls á laugardag. Reykjafellshlaup 16. september.
29.8.2011 | 22:31
Guðmundarbikarinn afhentur
Fjölmenni samankomið í Hátíðarsal Vesturbæjarlaugar stundvíslega kl. 17:15 í dag til þess að heiðra minningu Guðmundar Karls Gíslasonar og afhenda bikar kenndan við hann þeim unglingi á þrítugsaldri sem kom í mark á beztum tíma í Reykjavíkurmaraþoni. Að þessu sinni vildi svo skemmtilega til að ekki einasta kom Arnar Pétursson á beztum tíma, 2:44:18, heldur sigraði hann í hlaupinu og er því réttnefndur Íslandsmeistari í maraþoni 2011. Arnar var mættur ásamt fyrrverandi handhöfum bikarsins, foreldrum Guðmundar og félögum í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Flosi hélt inngangstölu um Samtökin, svo kom S. Ingvarsson og sagði fáein orð um Guðmund og afrek hans á hlaupabrautinni. Loks afhenti Gísli Ragnarsson, faðir Guðmundar heitins, bikarinn Arnari Péturssyni, miklu hlaupaefni og afreksmanni sem á framtíðina fyrir sér ef hann leggur hlaupin fyrir sig. Jörundur var allt í öllu í athöfninni og skaut inn nauðsynlegum upplýsingum og afhenti viðurkenningar fyrri ára.
Myndataka fór fram á grasflöt og verður mynd og pistill sendur í Vesturbæjarblað auk þess sem Marathon.is hefur áhuga á að gera Guðmundarbikarnum hærra undir höfði en hingað til. Vonandi koma myndir fljótlega inn á blogg. Ekki var til setunnar boðið. Lagt af stað í hlaup. Skrifari var þeirrar meiningar að Magga hefði merkt út hlaup fyrir hópinn, en svo reyndist ekki vera. Menn æddu af stað í einhverjum stjórnlausum tryllingi og ekki varð við neitt ráðið.
Já, ég gleymdi að nefna hverjir voru mættir. Það voru auk áðurnefndra Þorvaldur, Benzinn, Helmut, dr. Jóhanna, Rakel, Dagný, Frikki, Ragnar, Einar blómasali, Magga, Haraldur, skrifari, Kári, Magnús og Kalli.
Algjör óvissa um plan dagsins. Maður fór á eftir þeim hinum á þokkalegu tempói. Fremst fóru þekktir aðilar, Magga, Siggi, Flosi, Frikki o.fl. - en á eftir kom skrifari og aðrir þar fyrir aftan. Athygli vakti að blómasali hljóp með meint fótbrot eða "hálffótbrotinn" eins og einhver sagði. Tempói haldið út í Nauthólsvík, en þar voru fremstu menn horfnir, Ragnar og Helmut voru í reiðileysi er okkur Dagnýju bar að og saman fórum við Suðurhlíð.
Helmut sprækur í brekkunni og skildi okkur hin eftir, en róaðist við Perlu. Þar tók Ragnar við og lék sama leikinn og Helmut og sást ekki eftir það. Niður Stokk og bjóst ég við að farið yrði hjá Gvuðsmönnum og vestur úr. En við Flugvallarveg kom óvænt flétta, snúið til vinstri og farið aftur út í Nauthólsvík. Þetta var sjokk fyrir líkamann, en þessi karl sætti sig við áskorunina og elti hina.
Drukkið í Nauthólsvík og haldið svo áfram á góðum hraða. Komið tilbaka og teygt á Plani. Í Potti var mannval, og sætti þar mestu að Bjössi kokkur og Ósk komu nær dauða en lífi af kulda og höfðu verið í sjónum. Rifjuð upp innsetning á Reykjavíkurhöfn þar sem einhver var blóðgaður og svo synt yfir að Hörpu, eitthvað virðist hnísan hins vegar hafa verið utan við sig, því að enginn var etinn.
Góður hlaupadagur að baki og framundan margar góðar stundir á stígunum.
28.8.2011 | 17:31
Sunnudagshlaup - pissað við vitlaust tré
Mæting kl. 10:10 á sunnudagsmorgni í Hlaupasamtökum Lýðveldisins og enn er Laug lokuð. Mættir: Ólafur Þorsteinsson, Jörundur, Flosi, Þorvaldur, Magnús og skrifari. Upplýst um nýjustu símhringingar, úr garði Móniku í Merkigili að þessu sinni þar sem virtur félagi okkar naut gestrisni nafngreindra aðila og fylgdi fullur matseðill með ásamt vínseðli. Við bentum Ó. Þorsteinssyni á að líklega væri Mónika sjálf látin í a.m.k. 30 ár. "Ja, það er ekki svo nákvæmt með það" svaraði hann að bragði.
Sunnudagshlaup eru rólegheitadól, mikið spjallað saman um málefni samtímans, fólk og viðburði. Að þessu sinni var rætt um afhendingu Guðmundarbikars n.k. mánudag kl. 17:15. Jörundur hefur lagt mikla vinnu í að hafa samband við aðskiljanlega aðila sem tengjast málinu og gæti þetta orðið merkilegur viðburður. Hvatt er til þess að fólk mæti af þeirri ástæðu tímanlega til hlaups. Magga ætlar svo að finna góða 10 km leið fyrir okkur að hlaupa um Vesturbæinn.
Við mættum einmitt téðri Möggu í Skerjafirðinum þar sem hún kom á fullu stími á móti okkur. Stoppað stutt og þau Jörundur krunkuðu sig eitthvað saman, svo haldið áfram. Skrifari eitthvað þungur á sér og ekki líkt því eins sprækur og sl. föstudag þegar hann sprengdi prófessorinn. Nú rétt gat hann haldið í við afgamla karlhlunka. Já, dagsformið, það lætur ekki að sér hæða.
Gengið í Nauthólsvík eins og hefðin býður. Að því loknu voru Flanir lagðar að velli, Kirkjugarður, Veðurstofa, Hlíðar og Klambrar. Þar varð sá atburður að ónefndur tannlæknir ákvað að létta á sér áður en komið var að þeim gróðri sem hann hefur haldið trúnað við um langt árabil. Olli það almennri hneykslan og uppnámi í hópnum, en tannsi hafði engar skýringar á reiðum höndum um þetta afbrigði.
Eftir þetta drógust Formaður og skrifari aftur úr hópnum og dóluðu tilbaka með stoppum á réttum stöðum. Meðal þess sem bar á góma var sá atburður er Geir Ólafs tók að sér að flytja Hamraborgina óumbeðið í Hörpu í gærkvöldi. Fólk hafði setið grallaralaust heima hjá sér og svo birtist þessi Frank Sinatra gaulari á sjónvarpsrúðunni og byrjar að misþyrma einhverju karlmannlegasta saunglagi sem til er í gervöllum, íslenzkum tónbókmenntum! Hvílík hörmung! Var þetta á allra vörum þennan morgun.
Hlaupið hjá Hörpu og um hið skemmtilega hafnarhverfi sem er að spretta fram við Ægisgarð. Rólega til Laugar. Í Pott vantaði nokkra af helztu spekingum Samtakanna, bæði dr. Einar Gunnar og dr. Baldur, og var hann af þeirri ástæðu með daufara yfirbragði. Þar birtist hins vegar Einar blómasali og kvaðst hafa þá afsökun fyrir því að mæta ekki í hlaup að hann hefði nærri fótbrotnað við störf í sumarbústaðnum í gær. "Nærri? Hvað áttu við með "nærri"?", spurði Formaður. "Annað hvort fótbrotna menn eða þeir fótbrotna ekki. Og ef þeir eru ekki fótbrotnir, þá hlaupa þeir!" Á þessum nótum mættum við þessum lata félaga okkar, sem tekur lystisemdir lífsins fram yfir útiveru og íþróttaiðkun.
En sumsé: mánudagur 29. ágúst kl. 17:15. Brottfararsalur. Guðmundarbikar. Vel mætt!
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2011 | 21:30
"Hvar er þessi helvítis kór...?"
Brunahringing á laugardagseftirmiðdegi að afloknu hálfu maraþoni þegar skrifari stendur í stórræðum við að undirbúa hið vinsæla, árlega chili con carne. Hinum megin á línunni er mikilsmetinn Álitsgjafi Lýðveldisins og vindur sér umyrðalaust í fyrirspurn dagsins: "Hvar er þessi helvítis kór hans Bjarna?" "Kór?" segir skrifari forviða. "Er hann ekki í e-m kór í Mosfellssveit?" "Hættu þessum hortugheitum og aulafyndni, ég er að spyrja um götu, ekki kór!" æpir Álitsgjafinn á móti. "Kór er gata í Kópavogi." Hér fór að renna upp ljós fyrir skrifara og hann minntist þess að hafa hlaupið um efri byggðir Kópavogs þar sem eru kórar. "Heitir það ekki Tröllakór?" skýtur hann á, úr því það er Benzinn, þetta hálftröll af ætt Hrafnistumanna. "Jú, örugglega" segir viðmælandinn og leggur á.
Tilefnið var sextugsafmæli téðs Benz, sem hann bauð einungis VB til, en engum af vinum sínum í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Ekki það valdi varanlegum eða djúpum sárum, sjálfsagt hafa bara mætt elliær gamalmenni og gamlar frænkur í þetta kaffiboð.
Hvað um það, Hlaupasamtök Lýðveldisins halda úti hlaupum frá Laug hvern föstudag kl. 16:30. Að þessu sinni var mættur fámennur en harðskeyttur hópur. Þar mátti sjá Benzinn, Þorvald, Ágúst, skrifara, Denna skransala, René og Guðrúnu Harðardóttur. Ekki var beðið eftir eftirlegukindum, en haldið af stað stundvíslega kl. 16:30 eins og ævinlega er gert.
Skrifari fór fyrir hópnum og ákvað að setja upp hratt tempó. Ekki var liðið langt á hlaup þegar prófessorinn fór að kvarta yfir tempóinu, hann hefði ætlað að hlaupa rólegt félagshlaup og ætti erfitt með þetta tempó svona meiddur í fótnum. Skrifari bauð upp á að hægja ferðina ef fram á það yrði farið. Þá mælti prófessorinn og vorum við komin út að Skítastöð: "Eigum við ekki að lækka í honum rostunginn?" Mælir svo klassísk ummæli er lúta að fagurri fjallasýn, en féll að því búnu aftur í lið með þeim er á eftir fóru, skrifari hélt forystu sinni með reistan makka.
Það var góð tilfinning að þenja sig á kaflanum út í Nauthólsvík, og heyra prófessorinn kvarta yfir tempóinu og að það hefði áhrif á meiðsli í fótnum. Hann var orðinn þreyttur er hér var komið og ákvað því að lengja til þess að hvíla sig. Við hin, Þorvaldur, skrifari og Guðrún, ákváðum að fara hefðbundið um Hi-Lux og upp brekku. Er hér var komið skipti ekki máli að vera að spenna sig því að aðrir hlauparar voru langt að baki og maður í góðum félagsskap. Áfram um Veðurstofu, Saung- og skák og Klambratún.
Það var farið um Hlemm, Þorvaldur kaus Laugaveginn, en við Guðrún spreyttum okkur á Sæbraut, Hörpu, Höfn og Ægisgötu. Lukum hlaupi með glans. Tókum eftir kampavínslitri jeppabifreið við Melabúð með plötunni R-158, lagt þannig að ekki fór á milli mála að hér fór Vesturbæjaraðall. Fremur kalt til þess að teygja á Plani við Laug, svo við fórum inn og teygðum. Frábært, hratt hlaup.
Pottur sögulegur. Þangað mætti fjöldi óhlaupinna hlaupara og var hver öðrum uppkjöftugri og uppástöndugsamari. Mátti þar bera kennzl á Flosa, Bjössa kokk, Jörund og Bigga. Töluðu þeir einna mest af viðstöddum, höfðu skoðun á öllum hlutum, frá ríkisstjórn til Vesturbæjarstórveldisins í knattspyrnu. Það var spunninn mikill vefur um innsetningu sem fyrirhuguð er í Reykjavíkurhöfn á sunnudagsmorgun, þar sem Ósk og Hjálmar munu njóta fulltingis Bigga og Bjössa við sjóbað og einhver verður blóðgaður og í framhaldinu munu menn synda yfir að Hörpu þar sem hnísa étur annan hvorn þeirra fóstbræðra, og hinn syndir upp fossinn við Hörpu og hrópar: "Rafael!" Á meðan kúra verkamenn í glerhólfum Hörpu og horfa vonleysislega út um marglitt glerið. Þetta er listræn uppákoma sem enginn má missa af.
Einnig rætt um afhendingu pókals á mánudaginn er kemur. Mikilvægt að menn fjölmenni kl. 17:15, þá munu allir nema einn fyrrverandi og núverandi handhafar Guðmundarbikars mæta til hátíðarathafnar og myndatöku. Vel mætt!
24.8.2011 | 21:06
Rólegt afslöppunarhlaup eftir RM
Nýtt embættisheiti varð til laugardaginn 20. ágúst sl. þegar embætti (aðal)ritara Hlaupasamtakanna var lagt niður í veizlu sama aðila, en upp var reist embætti skrifara í anda sjálfstæðishetjanna frá nítjándu öld. Verður héðan í frá vísað til skrifara Hlaupasamtaka Lýðveldisins.
Yfirleitt er rólegt að afloknu Reykjavíkurmaraþoni og hlauparar taka sér góðan tíma til þess að slaka á, hvílast og jafna sig eftir afrek helgarinnar. Engu að síður voru nokkrir afrekshlauparar mættir til hlaups hjá Hlaupasamtökunum í dag og skal fyrstan telja Jörund Guðmundsson, Íslandsmeistara í maraþonhlaupi öldunga 70 ára og eldri 2011, Ágúst Kvaran, Benzinn kominn á sjötugsaldurinn, dr. Jóhanna, Helmut, Flosi, Þorvaldur, Ólafur skrifari, Ragnar, Rakel, Einar blómasali seinn að vanda, Þorbjörg og Dagný. Gummi Löve mætti okkur er Hofsvallagötu.
Lagt upp á rólegu nótunum í veðurblíðu síðsumars, en áður en varði var búið að setja upp tempóið. Þar sem engir eru þjálfararnir þurfa hlauparar sjálfir að ákveða vegalengdir og voru ýmist nefndir 8, 10 eða 14 km. Hlíðarfótur, Suðurhlíð eða Þriggjabrúa. Við þessir skynsömu vorum á því að fara milliveginn, 10 km. Maður er stirður og þungur eftir keppnishlaup og það tekur tíma að hita sig upp. Það var ekki fyrr en komið var í Nauthólsvík að þessi hlaupari var orðinn sæmilega heitur og góður.
Er hér var komið hlupum við saman Jörundur, Ragnar, skrifari, Dagný og blómasalinn. En þegar við komum að Kringlumýrarbraut héldu þau Dagný og blómasali yfir brú, en við hinir settum stefnuna á brekkuna upp Suðurhlíð. Við öskruðum á blómasalann og sögðum honum að stefna ekki út í einhverja vitleysu, en hann hafði ráð okkar að engu. Kom það honum í koll síðar með eftirminnilegum hætti. Meira um það seinna.
Sem fyrr segir vorum við orðnir vel heitir er hér var komið og við linntum í engu látum í brekkunni upp að Perlu og voru vitni að því Benzinn, Þorvaldur og Rakel sem komu í kjölfar okkar. Við félagarnir héldum áfram að bæta í og vorum á góðu, hröðu tempói niður hjá Gvuðsmönnum, hjá flugvelli og alla leið tilbaka til Laugar. Meðaltempó um 5:30.
Eftir tíðindalítinn Pott fór skrifari í Útiklefa á leið upp úr. Þar mætti hann blómasala sem bar sig illa. Dró upp skálm á hlaupabuxum og afhjúpaði blóðugt hné. Hafði hann ofgert sér í löngu, hröðu hlaupi og hratað í götuna fyrir framan Alþingishúsið. Hér leið skrifara vel að geta sagt: "I told you so!"
Félagsmáladagskrá Hlaupasamtakanna er fullbókuð. Framundan er Fimmvörðuháls 3. september og tveimur vikum síðar er hið árlega Reykjafellshlaup.
22.8.2011 | 17:29
Tímar í Reykjavíkurmaraþoni 20. ágúst 2011
15.8.2011 | 20:48
Játning
Nokkur fjöldi hlaupara mættur á mánudegi í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar. Þar mátti þekkja dr. Friðrik, Magga, Flosa, Benzinn, Kára, Helmut, prófessor Fróða, dr. Jóhönnu, Einar blómasala, Ólaf ritara og svo bættust Ragnar, Þorbjörg og Frikki Meló í hópinn á leiðinni og mig minnir að Pétur baðvörður hafi verið með í för líka. Síðasta æfingavika fyrir RM og voru hlauparar því rólegir. Farnir 10-12 km á hægu tempói.
Þekkt andlit sem fóru fyrir hópnum, en ritari var skynsamur og ekkert að derra sig. Fór enda svo að hann tíndi blómasalann upp af leið sinni og fór með hann Suðurhlíð, en blómasalinn hafði ætlað að stytta um Hlíðarfót, kvaðst vera kvefaður! Raunar fór svo að við urðum á ganga á þessu stutta hlaupi vegna veikinda blómasalans, eða meintra veikinda ætti ég heldur að segja.
Hlaupasamtökin fylltu barnapottinn og var glatt á hjalla. Þar var einnig mætt Sif Jónsdóttir langhlaupari og var mikið rætt um meiðsli og veikindi ýmiss konar. Rætt um hlaup, göngur, hjólreiðar o.fl. Prófessor, sem ekki verður nafngreindur hér af tillitssemi við fjölskyldu hans og vini, játaði að hjólreiðar væru skemmtilegri en hlaup. Kom það mörgum viðstöddum í opna skjöldu, enda töldu þeir að mörg löng hlaup téðs aðila yrðu ekki skýrð öðruvísi en að hann hefði gaman af að hlaupa. Margir viðburðir framundan, ganga á Fimmvörðuháls í beinu framhaldi af RM.
10.8.2011 | 21:35
Frá Laug til Laugar
Tíðindalítið í aðdraganda hlaups með Hlaupasamtökum Lýðveldisins á miðvikudegi. Mættir: dr. Friðrik, Magnús, Helmut og Jóhanna, Ragnar, Guðmundur, Ólafur ritari, Einar blómasali, Kári og René. Frikki bættist í hópinn á leiðinni eins og menn bjuggust við. Furðu vakti að tveir menn sem lýst höfðu yfir ásetningi um langt hlaup lýstu með fjarveru sinni: Flosi og prófessor Fróði.
Almennt voru hlauparar inni á að fara Þriggjabrúa, en ritari og Frikki voru ákveðnir í að fara upp að Árbæjarlaug. "Af hverju?" var spurt. "Af því það er gaman." Ekkert flóknara. Lagt upp á rólegu nótunum í gassandi sumarhita, fyrst voru Jóhanna og René, svo Guðmundur, Ragnar og ritari - og aðrir á eftir. Rætt um vegalengdir í Reykjavík og myndun sveita.
Það leit út fyrir að það gæti orðið ansi heitt og því eðlilegt að hvarflaði að ritara að endurskoða vegalengd dagsins, en það var nægur tími til þess. Farið á góðu tempói inn í Nauthólsvík og áfram hjá Kirkjugarði út að Kringlumýrarbraut. Eftir brúna skildu leiðir með okkur Helmut, hann fór upp brekku, en ég hélt áfram í Fossvoginn og sá Frikka framundan. Eftir það sá ég enga vinveitta hlaupara. Einsemdin var algjör.
Þetta stefndi í að geta orðið gott hlaup, góður hraði og ritari í fínu formi. Fór inn að Víkingsheimili á 40 mín. Við Stíbblu tók ég gelið mitt (hafði skellt einu bréfi í mig fyrir hlaup), hélt svo áfram upp að Árbæjarlaug. Þar bætti ég vatni á brúsa, en tafði ekki lengi, hélt áfram niður dalinn. Enn var tempó fínt og var kominn að Breiðholtsbraut 18:56. Stefndi að því að vera kominn til Laugar ekki síðar en 20:00 til þess að geta eldað kvöldmatinn fyrir frúna.
Það sem eftir lifði hlaups var tekið með trompi, engin stopp nema til að drekka, ekkert gengið. Fór allar brekkur skokkandi og bætti aðeins vatni á mig í Nauthólsvík, en sleppti sjóbaði. Svo voru það bara kílómetrarnir fjórir eftir það og þeir steinlágu! Mætti Möggu og Jóhönnu Ólafs á Ægisíðunni, þá voru þær greyin að leggja í hann. Hitti svo Sif Jónsdóttur langhlaupara við Laug. Aðrir voru farnir úr Laug, svo ekki hefur mikill metnaður verið lagður í afrek dagsins.
Niðurstaðan eftir hlaup dagsins: maðurinn er bara að komast í fantaform og mun taka á því í Reykjavíkurhálfmaraþoni.