Þetta var erfitt!

Miðvikudagur: langt. Engir þjálfarar, algert frelsi. Við eins og kálfar á vori, mæting sæmileg, þó vantaði ofurhlaupara eins og Benna og Björn, en mættir þessir:  Ágúst, Þorvaldur, dr. Friðrik, dr. Sjúl, dr. Jóhanna, dr. Flúss, Kári, Una, Helmut, og loks Ólafur annálaritari. Spurt út í Fyrsta Föstudag - "verður bjór og pizza - með maka?" "Nei, með pepperoni." Planið var að fara langt, jafnvel lengja upp að Árbæjarlaug, 24 km.

Þetta leit vel út í byrjun, farið mjög rólega af stað, menn í góðum gír, flestir skynsamir í hádegismat, nema Sjúl sem lenti í kínverskum réttum, og svo kollegi hans dr. Guðbrandsson sem missti sig í kökum og tertum um fjögurleytið. Tíðindalítið inn í Nauthólsvík, þar fór hópurinn að tvístrast, einhverjir styttu, en við Sjúl, Ágúst, Jóhanna og Helmut héldum áfram, og Una spottakorn. Helmut fór 69 - við hin upp brekkuna yndislegu inn í Kópavog og hjá Goldfinger. Þetta var eilítið erfitt og ég fór að finna að æfingin á mánudag sat enn í mér. Strákurinn á Hjólinu (Magic) fylgdi okkur eftir og var bara duglegur.

Garmintæki eru merkileg fyrir þær sakir að hvert tæki um sig sýnir sjálfstæða mælingu. Í hlaupinu í kvöld voru Jóhanna, Ágúst og Sjúl með hvert sitt tækið, og ekkert þeirra sýndi sömu mælingu. Tæki Ágústs tók upp á því að hætta að mæla í miðju hlaupi, svo að hann varð að ræsa það á ný, og mæling kvöldsins með öllu ómarktæk.

Við áfram undir Breiðholtsbraut og upp í hverfið, inn í Elliðaárdal og upp að Stíbblu. Þar yfirgaf Jóhanna okkur, Ágúst og Sjúl héldu áfram. Ég gerði mig líklegan til þess að fylgja Jóhönnu, en mætti hrópum og köllum félaga minna, sem kölluðu mig aumingja og lyddu ef ég ætlaði að stytta. Þrátt fyrir mikla þreytu í fótum, og litla kallinn í höfðinu sem var á fullu að öskra: "Hvíldu þig! Hvíld er góð!" - yfirvann ég mótstöðuna með ofurmannlegu, andlegu átaki, og hélt í humátt á eftir þeim félögum. Hugsaði með mér: er þetta skynsamlegt?

Þetta er í sjálfu sér ekki mikil lenging og við fórum létt með þetta. Stöldruðum við í Lauginni, bættum á vatnsforðann, og Ágúst létti á sér. Við vorum ánægðir með það. Áfram niðurúr, vorum í góðum gír. Niðri á Miklubraut fór þreytan að segja til sín og ég fann fyrir þörf til þess að ganga smáspeli, fyrst við brú á Miklubraut, þar næst í Laugardalnum og svo í Borgartúni. En hér kom í ljós hve hinn andlegi styrkur er mikilvægur, því að þótt mér virtist ég vera að ganga fram af sjálfum mér líkamlega, neitaði andinn að gefast upp og við héldum áfram um Skúlagötu, Mýrargötu, upp Ægisgötu og svo á hægu tölti niður Hofsvallagötu og vorum nokkuð ánægðir að ljúka hlaupi um áttaleytið.

Sonur minn, sundkappinn, útskýrði fyrir mér eftir hlaup að sá vandi sem ég hefði upplifað í hlaupinu væri klassískur vandi afreksmanna í íþróttum, að kveða niður litla, neikvæða kallinn sem ávallt hljómaði í eyranum. Gegn þessu væru til margar, þekktar aðferðir og munum vér á næstu vikum kynna hlaupurum í Hlaupasamtökum Lýðveldisins aðferðir til þess að kveða kallinn í kútinn.

Það var tómlegt í Móttökusal, við Sjúl einir að teygja. Dr. Flúss að fara og próf. Fróði einn í potti. En framundan eru bjartir tímar: Fyrsti Föstudagur að Kaplaskjólsvegi 31 með tilheyrandi flatbökuáti og bjórdrykkju.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Rétt að Aðalritara sé kunnugt um, vegna upptalningu á hlaupurum kvöldsins, að sumir hlupu seinna en aðrir.  Útsýnið fallegt þegar komið er svo gott sem upp á Vatnsendahálendi. Ég skal einhvern tímann fara með ykkur þangað uppeftir. All in good time!  28.23 km. og enginn til að trufla taktinn.

Benedikt Sigurðsson (IP-tala skráð) 1.5.2008 kl. 00:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband