Hárgreiðslustaði hér má kalla...

Fyrirsögnin er úr kvæði eftir Eggert Ólafsson og felur í sér fordæmingu á því athæfi vinnumanna að standa og greiða hár sitt þegar þeir áttu að vera að vinna. Fordæming á hégómlegu framferði. Nú er öldin önnur og heil stétt manna sem hefur framfæri sitt af því að greiða og klippa hár manna, meira um það seinna.

Mönnum varð á orði að það væri einkennilega samsettur hópur hlaupara í dag. Það voru Birgir, Eiríkur, ritari, Þorvaldur, Denni, Rúna, Anna Birna og Elín Soffía skorarformaður - þrír lyfjafræðingar. Vindur blés á vestan, en veður annars gott. Fréttir bárust af því að ónefndir blómasalar hefðu undirbúið brottför úr Borginni upp úr miðjum degi og tekið stefnuna á túndruna þar sem spáð er snjókomu og frosti - en allar spár mæla með því að fólk haldi sig við höfuðborgarsvæðið. Svona skilur maður ekki.

Við vorum þung á okkur eftir langt miðvikudagshlaup, maður hlunkaðist áfram og var ekki viss um að 10 km væru góð hugmynd. En ekki kom til greina að hætta við, það var bara að halda áfram. Eiríkur sprækur og fór á undan okkur. Heitt í veðri og sjóbað æskilegt. Birgir í óþveginni skyrtu svo að menn höfðu tvöfalda ástæðu til að reyna að hlaupa frá honum. Aðrir spakir, en þungir á sér.

Farið hefðbundið um Nauthólsvík og Flanir, lúpínan í blóma, upp Hi-Lux, en engir þéttingar í brekkunni. Farið á rólegum dampi um kirkjugarð, Veðurstofuhálendi og Hlíðar. Rætt um störf unglinga í ýmsum þjónustustofnunum þar sem þeir þurfa að sæta afar dónalegri framkomu eldri borgara.

Ákveðið að fara Laugaveg til þess að gefa vegfarendum kost á að að njóta fagurra fótleggja og íturvaxinna hlaupara. Sprett niður verzlunargötuna á útopnuðu og farið um Austurvöll þar sem var mannmergð að njóta veitinga og hlusta á tónlist. Upp Túngötu - hún var erfið.

Í potti hélt Birgir mikla reiðitölu um hárgreiðslufólk, um hárskurð, hárgreiðslu, hárþvottaefni og hármykingarefni. Sá enga ástæðu fyrir þessu, hefði kliptt hár sitt frá tvítugsaldri og það bara gengið vel.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband