Hitabylgja

Mönnum blöskraði þegar Bjarni heimtaði að fá að hlaupa ber að ofan vegna hitans. Ekki var minni efi í viðstöddum þegar Þorvaldur mætti í bleikum bol til hlaups. Þetta var ekki gæfulegt svona í upphafi hlaups þegar nokkrir vaskir karlar vildu hlaupa, þessir: Vilhjálmur, Þorvaldur, dr. Karl, Eiríkur, Ólafur ritari, Einar blómasali og Bjarni.

Rætt hafði verið um þétt hlaup með þéttingum á völdum stöðum. Hiti óbærilegur,  24 gráður og logn. Lagt í hann af skyldurækni einni saman og án þess að viðstaddir sættu aðkasti svo um munaði, þó urðu sviptingar í útiklefa milli manna sem hafa áhuga á efnahagsmálum.

Svo sem venja er var stefnan sett á Hefðbundið. Sumir voru framar en aðrir, Eiríkur fremstur á hröðu stími, Bjarni, blómasalinn og ritarinn þar á eftir, og aðrir þar á eftir. Þegar til átti að taka varð lítið úr þéttingum, ritari of þreyttur eftir tempóhlaup fimmtudagsins. Bjarni missti það út úr sér að Ó. Þorsteinsson væri með reisugilli í dag út af nýju háalofti. Menn urðu hálfhvumsa við og rak ekki minni til að hafa fengið boð um að mæta. Bjarni sagði að líklega hefði gengið illa að koma skilaboðum gegnum tölvurnar.

 

Sæbraut heillaði, en blómasalinn heimtaði Laugaveg þar sem hann taldi að þar yrði eftirspurn eftir myndarlegum hlaupurum. Laugavegurinn var hins vegar pakkaður og urðum við þrír að hlaupa á götunni megnið af leiðinnni. Ekki vildum við missa af reisugillinu, en vorum hissa á að vinur okkar og leiðtogi skyldi láta undir höfuð leggjast að bjóða okkur. Því voru gerð afbrigði. Farið um Austurvöll, þar sem fullt af fólki var að drekka áfengi í stað þess að hlaupa, Suðurgata, og staldrað við í kirkjugarðinum, þar fundum við vatnshana, skoluðum vel af okkur og drukkum. Áfram um Ljósvallagötu, Birkimel, Neshaga, Hjarðarhaga og á Kvisthaga. Þar var furðu hljótt og greinilegt að ef veizla var í gangi, voru veizlugestir afar hljóðlátir. Sannleikurinn var beizkur og rann upp fyrir okkur þegar Bjarni barði að dyrum og enginn svaraði. Ég var því feginn að Vilhjálmur var ekki með í för er hér var komið, hann hefði orðið æfur!

Fórum beygðir til Laugar yfir að hafa látið hafa okkur að fíflum, spurningin var bara: hver laug að hverjum. Var Bjarni að blekkja okkur eða lá eitthvað meira á bak við? Vilhjálmur var með hlutina á hreinu er komið var til Laugar: lýst hafði verið yfir reisugilli í Sunnudagshlaupi næstliðnu og því hafði Bjarni lög að mæla. Hér er skýringa þörf. 11,3 km. Takk fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband