Tempó á fimmtudegi

Boðið er upp á hlaup á fimmtudögum á vegum Hlaupasamtaka Lýðveldisins, þótt alla jafna verði fáir til þess að þekkjast það boð, þrátt fyrir að tveir þjálfarar bjóði fram þjónustu sína í hlaupi. Svo var og í dag, mætt: Rúnar, Margrét, Björn kokkur og sjósundskappi, Ólafur ritari og Jóhanna (NB - ekki dr.). Algjört ráðleysi á Brottfararplani, engar hugmyndir eða áætlanir, annað en að fara stutt og fara rólega, enda munu einhverjir hafa farið langt í gær, Björn fór 24 km ef mig misminnir ekki. Sögur af hetjulegri framgöngu stórhlaupara í miðvikudagshlaupi, menn voru dregnir um Kársnes og Lækjarhjalla og þannig áfram. Hvað um það, við lögðum í hann og verður að segja að við höfum einfaldlega vonað það besta, þetta færi alla vega einhvern veginn.

Á tímum ráðleysis reynist ritari skárri en enginn - hann kom með tillögu um Föstudag. Þjálfarar hafa aldrei hlaupið Föstudag og því lenti forystukeflið í höndum ritara, hann varð að leiða hópinn áfram og fórst það vel úr... fæti? Án þess að fyrir lægju áætlanir þar um var tekið upp tempóhlaup þegar á Ægisíðu og tempói haldið allt til loka, enda frábærir hlauparar á ferð. Ritari uppgötvaði við flugvöll að hann var í hlutverki Benedikts, hins hljóðláta og einmana hlaupara sem leiddi hópinn og sagði ekki orð. Að baki honum gekk dælan, málæði nokkuð samfellt, en lítið sagt af viti sem ástæða er að halda til haga. Spurt var hvar ætti að fara um Öskjuhlíð. Um Hi-Lux, sagði ritari. Þau voru eitt spurningamerki. Þetta var því lærdómsríkt hlaup fyrir Þjálfara, beygt upp Hi-Lux og ekki slegið af upp brekkuna. Áfram um Kirkjugarð og Veðurstofuhálendi.

Hópurinn fór um Hlíðar og Klambratún og þaðan út á Sæbraut, Björn tók að sér Óðagotsdeildina, æddi yfir umferðarþungar götur og rétt slapp við að vera keyrður niður. Menn sáu að hann myndi spara gistingu í Berlín, honum dygði sjúkrabíll, ef ekki þaðan af verra. Hlaupi lokið á þéttu tempói. Lengd hlaups 11,3 km.

Á morgun er í boði hefðbundinn Föstudagur með þéttingum á fjórum stöðum.  Á laugardag er langt og rólegt. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband