Færsluflokkur: Bloggar

Ástin á sannleikanum

Seint verður fullyrt um félaga Hlaupasamtakanna að þeir láti góða sögu líða fyrir sannleikann. Fjórir vaskir piltar mættir til Sunnudagshlaups: Ó. Þorsteinsson, Magnús tannlæknir, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Hríðarhraglandi utandyra og tveggja stiga frost, en ekki hvarflaði að mönnum að láta slíka smámuni koma í veg fyrir hlaup. Lagt upp á tilsettum tíma og Formaður vopnaður myndavél til að festa viðburðinn á filmu. Stígar óruddir með öllu og urðum við að ösla snjóinn upp að ökklum. 

Nú gekk á með fallegum sögum sem toppuðu hver aðra. Fyrstur reið skrifari á vaðið með sögnum af viðburðum gærdagsins. Þá var komið að tannlækninum og var frásaga hans þó margfalt hjartnæmari. Og þá var rifjuð upp sagan af því þegar hann Þorvaldur okkar datt. Hún var nokkurn veginn svona: Biggi Jógi leiddi hlaup í Öskjuhlíðinni þar sem keðja hafði verið strengd fyrir stíginn til lokunar. Hann kallar aftur fyrir sig:”Varið ykkur á keðjunni!” Hvað menn gera. Nema Þorvaldur. Hann hleypur beint á keðjuna og flýgur á hausinn, skurmslast við það á höfði og lagar blóðtaumur niður kinnar, framhjá ennisbandinu. Einhver segir: “Þú ert bara eins og Kristur krossfestur með þyrnikórónuna.” Annar segir: “Já, væri ekki þjóðráð að krossfesta hann?” Magnús sem allt vill laga og bæta skaut þá inn: “Já, en bræður, leyfið mér að sækja tannlæknaborinn minn fyrst svo að ég geti borað fyrir nöglunum.” Þorvaldi þótti gamanið grátt og muldraði: “Og þetta kallar maður vini sína.”

Í hlaupi dagsins kannaðist Magnús ekki við að hafa boðið fram borinn sinn þegar til stóð að krossfesta Þorvald. Alltént hljóti hann að hafa ætlað að deyfa aðeins fyrst. Á þessu gekk í hlaupi dagsins og var líf og fjör alla leið. Rætt um habíta sem þarf að skipta um sökum þess hvað vaxtarlag manna er að breytast með aukinni og reglulegri hreyfingu. Rifjaðir upp þeir tímar þegar ungir menn fóru í Faco og Karnabæ að kaupa sér hólkvíð jakkaföt sem gætu enst nokkur ár og litu út eins og menn hefðu notið framlaga Vetrarhjálparinnar.

Smelltum af myndum á völdum stöðum til þess að skjalfesta viðburðinn og settum á fésbók.

Í Pott mættu Mímir, Jörundur, Einar Gunnar og Biggi. Gylfi yfirgaf pott þegar við komum. Það eru þrjár bækur sem Jörundur ætlar að lána Einari blómasala. Einar spurði Jörund hvort hann gæti ekki keypt þá fjórðu, eftir Eyvind hinn norska sem Gylfi mælti með. Mímir sagði frá því að hann hefði hitt fyrrv. þingmann á tónleikum í gærkvöldi og spurt hann hvað hann væri að gera þarna. Vitanlega var rætt um tap Dana fyrir Íslendingum í handbolta í gær og virtust menn sáttir við þá niðurstöðu. 

Dagurinn og stundin ánægjuleg og eftirminnileg. Hvílíkur hópur!


Er rafskutla næsti valkostur?

Mættir voru til Sunnudagshlaups Ó. Þorsteinsson, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Veður váleg, rok og rigning, slabb og hálka á stígum. Það er óþekkt sjónarmið að veður hamli hlaupum í elsta og virðulegasta hlaupahópi landsins og sannaðist það sem oftar á þessum morgni. Við óðum svelginn við Vesturbæjarlaug og komumst um síðir á gangstétt við Hofsvallagötu, blautir og hraktir. Tafsamt var fyrir Formann til Lífstíðar að komast úr sporunum og þurftum við Einar að doka við eftir honum. Svo var skellt á skeið og stefnan sett á Nauthólsvík eins og jafnan er gert á sunnudagsmorgnum. Brá nú svo við að Formaður dróst fljótlega aftur úr og mátti sjá ennisljós hans flökta í morgunskímunni.

Hlauparar voru búnir eða byrjaðir að lesa Arnald og spannst umræða um málfar á bókum, en þó einkum prófarkalestur jólabóka og hvaða heimildir prófarkalesarar hafa til þess að betrumbæta texta sem líður fyrir augljósa fljótfærni í samningu. Ekki náðist niðurstaða í það mál í ljósi þess að helsti heimildamaður Samtakanna í prófarkalestri jólabóka var víðs fjarri og sýndi engin merki þess að ætla að ná okkur Einari. Skal þó tekið fram að ekki verður með neinum hætti hægt að fullyrða að hratt hafi verið farið. Á hinn bóginn mætti velta fyrir sér hversu hægt megi hlaupa til þess að athöfnin skilgreinist engu að síður sem hlaup.

Lái oss því hver sem vill þótt umræðan hafi beinst að því hvers konar hjálpartæki kæmi að notum í hlaupum Samtaka Vorra næstu misserin og var nefnd rafskutla, en einnig göngugrind.

Einar upplýsti um brunahringingu sunnan frá Kanaríeyjum á laugardagskvöldið. Þar hringdi Bjarni Benz og kvartaði yfir hita. Hlakkaði mikið til þess að komast í betra veður og fara að reima á sig skúana fyrir hlaup.

Þrátt fyrir að veðurútlit hafi verið hið versta í upphafi hlaups verður ekki sagt að það hafi valdið okkur vandkvæðum. Rjómablíða var brostin á eftir Nauthólsvík og eftir það var þetta líkast þokkalegasta vordegi. Afbrigði voru gerð á Klambratúni, hlaupið þvert yfir mitt tún í norður og farin gata sem heitir Reykjahlíð, Háteigsvegur, Stórholt, Skipholt og Hlemmur. Eftir það normalt hlaup niður Laugaveg.

Þau stórtíðindi gerðust við komu til baka að Einar blómasali bauð upp á kaffi. Keypti og greiddi sjálfur með beinhörðum peningum fyrir tvo kaffibolla (að vísu á verði eins eftir mikið þjark við afgreiðslumanninn). En kaffi engu að síður og verður slíkur rausnarskapur lengi í minnum hafður.

Ekki fórum við félagarnir í Pott og erum því ekki til frásagnar um viðveru né umræðuefni. En um það er við yfirgáfum Laug var Ó. Þorsteinsson að koma úr hlaupi sínu.  


Stjörnuhrap á vetrarhimni

Við vorum þrír mættir samkvæmt venju í sunnudagshlaup á vegum Hlaupasamtaka Lýðveldisins, Ó. Þorsteinsson formaður, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Frostlaust en samt napurt veður í norðanáttinni, heiðskírt. Þegar klukkan er gengin stundarfjórðung í tíu við slíkar aðstæður er austurhiminninn ægifagur, morgunskíman að brjótast í gegn og sól á næsta leiti. Þá er gott að vera ungur og frískur piltur að hlaupa Ægisíðuna, sköpunarverkið öðlast óskilgreinda dýpt og maður er hluti af því. Sem við hlaupum þarna og setjum stefnuna á Skerjafjörð sjáum við stjörnuhrap yfir morgunhimininn. Það fullkomnaði einhvern veginn augnablikið.

Mikið rætt um jólaboð Samtaka Vorra hjá Jörundi í gær. Menn söknuðu Kaupmannsins og Rúnu, Hjálmars og Óskar. Þorvaldur einnig forfallaður sem og Baldur, en sá síðastnefndi sendi góða kveðju sem var lesin upp eins og síður er fyrir jólin. Boðið var allt afar hófstillt og fór vel fram, matur góður og í nokkurn veginn réttu magni svo ekki gengi mikið af. Þarna gefst tækifæri til að endurnýja kynnin við gamla hlaupara sem ekki hafa sést á hlaupum lengi, enda aðallega hinir yngri menn sem hlaupa núorðið. Svo eru alltaf hafðar í frammi heitstrengingar, Ágúst að draga fram skóna á ný, fluttur í Boðaþing (NB ekki í íbúðir aldraðra) og hefur mikið rými til hreyfingar, og Gísli Ragnars ku vera alveg á leiðinni...

Jæja margt er framundan. Að morgni 19. des. er í boði morgunhlaup Morgunhana kl 6:00 eða jafnvel fyrr. Stoppað í morgunsúkkulaði á Laufásvegi og Fróni. Annan dag jóla er svo Kirkjuhlaup TKS og er ómissandi liður á hlaupadagskránni. Margt að hlakka til og þakka fyrir á jólum.

Í Guðs friði.


5 kíló

Jú, við vorum helstu drengirnir mættir til hefðbundins sunnudagshlaups, Ó. Þorsteinsson, Magnús tannlæknir og Ólafur skrifari. Stundvíslega kl 9:10 og gildir sá brottfarartími enn um sinn á sunnudögum, enda er engum vorkunn að vakna á dögum sem þessum þegar sólin skín og veðrið gælir við árvökula hlaupara. 

Upplýst var um ferðir blómasala í Kóngsins Kaupinhafn þar sem hann röltir milli Lagkagehuset og Jensen´s Bøfhus og graðkar í sig það sem þar er á boðstólum. Það verður laglegt ástandið á honum þegar heim er komið.

Rætt var um mannahald hjá hinu opinbera og rekstur menntastofnana, starfsaldur, Borgarlínu, Victorialine og annað það er til framfara horfir. 

Hundahald kom við sögu og hundur Skafta mágs Ólafs sem að sögn bætir við sig 5 kílóum á viku. Hér spurði Magnús: “Nú? Hundurinn eða Skafti?” Svona erum við nú gamansamir félagarnir á sunnudagshlaupunum og njótum veðurblíðu, náttúrufegurðar og útivistar um leið. Rædd nýleg greinaskrif í Dødens avis, óskiljanleg með öllu sem endranær, og er því eðlilegt að spurt sé hvort sumum væri ekki hollara að halda sig við hlaupin sem seinka allanum og fresta innlögn.

Hlaup gekk svo áreynslulaust fyrir sig að því var lokið áður en maður áttaði sig á því. Í Pott mættu auk hlaupara Mímir, Einar Gunnar og Jörundur. Rætt um Atómstöðina, kynjahalla og Samherja. 


Óviðjafnanlegur dagur

Heiðskírt, logn, þriggja stiga frost. Þrír heiðursmenn mættir í sunnudagshlaup hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins: Magnús tannlæknir, Einar blómasali og skrifari. Ó. Þorsteinsson staddur í Stokkhólmi í menningarreisu. Vart þarf að orðlengja hvílíkt lífsfjör og þakklæti bærðist með okkur vinunum yfir að fá að þreyta hlaup á slíkum degi. Allir sprækir og kátir og hlökkuðu til hlaups. 

Ekki er seinna vænna að huga að jólaboði Samtaka Vorra, sem halda mætti annað hvort 7. eða 14. desember nk. Verður rætt við Jörund um að hýsa viðburðinn með góðfúslegu leyfi frú Önnu Vigdísar. Skynsamlegt þykir að hafa húsmóðurina viðstadda ef vera kynni að hinum fjóru eitursnjöllu sósumökurum dytti í hug að endurtaka leikinn frá því um árið þegar þeir stóðu yfir pottunum smjattandi og kjamsandi á sósu sem var ekki nema í meðallagi lukkuð. Meira um það seinna.

Við þreyttum rólegt hlaup glaðir í bragði yfir að hafa drifið okkur út og hlökkuðum til hlaupsins, harla vel þó gerandi okkur grein fyrir að því lyki fyrr en seinna. Því var um að gera að njóta dagsins. Okkur varð hugsað til sumra félaga okkar sem við hefðum viljað hafa með okkur á slíku hlaupi og er því enn og aftur vakin athygli á því að hlaupið er alla sunnudaga kl. 9:15 frá Laug.

Áður en við áttuðum okkur á vorum við komnir inn í Nauthólsvík og þar var gengið venju samkvæmt. Í Kirkjugarði voru gerð afbrigði, farið um grafeit fallinna hermanna af erlendum uppruna og þeim vottuð virðing. Hefðbundið um Hlíðar og Klambra. Rætt um barnabörnin sem sum eru svo vel af Guði gerð að þau geta sagt línuívilnun í eignarfalli með greini áður en þau eru orðin tveggja ára, altént ef afinn er prófessor. Hér færðist tannlæknirinn allur í aukana og taldi sig sérfróðan um Línuívilnanir.

Farið hjá Hörpu og upp Ægisgötu í einum spreng. Við Kristskirkju taka hlauparar ofan og signa sig.

Pottur lokaður og fátt kunnuglegra andlita á sveimi. Því var gerður stuttur stanz og haldið til daglegra verka. Segir fátt af umræðum þann daginn, en Formaður bað fyrir kveðju Guðs og sína í Pott.

 

 


Nítjándualdarmenn

Sagt hefur verið um Ólaf Þorsteinsson, frænda minn og vin, að hann sé nítjándualdarmaður. Sannaðist það í hlaupi dagsins. Og kem ég að því síðar, eins og Jónas frá Hriflu sagði þegar hann hafði talað í þrjá klukkutíma á flokksfundi í Framsóknarflokknum og tveir menn þegar verið bornir út í yfirliði.

Við vorum sem sagt mættir þrír í sunnudagshlaup í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, Ólafur Þorsteinsson, Magnús Júlíus og skrifari. 11 stiga hiti, logn, uppstytta meðan á hlaupi stóð.

Haldið var upp á hundrað ára afmæli stærðfræðideildar Reykjavíkur Lærða Skóla í gær og þar var formaður vor mættur. Þegar menn vildu henda honum út vegna þess að hann væri máladeildarmaður benti hann á að Máladeild skólans hefði verið stofnuð í Skálholti árið 1056. Við það setti menn hljóða. 

Magnús sagði okkur fallega sögu. Honum var boðið á söngskemmtun í Salnum í Kópavogi á föstudagskvöldið sem haldin var til að heiðra íslenskar dægurlagasöngkonur. Þar komu fram og sungu Svanhildur Jakobsdóttir, Helena Eyjólfsdóttir og Mjöll Hólm. “Og Ellý Vilhjálms?” bætti Ólafur Þorsteinsson við. “Ólafur minn, Ellý Vilhjálms er fallin frá.” “Nú,er Ellý Vilhjálms fallin frá?”, sagði hann forviða. Það styttist í að þeir Magnús leiðist saman upp stíginn segjandi “Hvers son var hann aftur hann Vilhjálmur Bjarnason sem hljóp einu sinni með okkur?” 

Hlaupið var tíðindalítið og áreynslulítið, og fórum við 11,5 km án þess varla að taka eftir því. Í Potti minntumst við ágætrar konu og félaga sem fallin er frá, Dóru Guðjohnsen. Hún mætti gjarnan í Sunnudagspott og tók þátt í spjallinu og kom oft með skemmtilegar ábendingar. Við minnumst hennar með hlýju og þakklæti og góð orð í okkar garð, en hún sagðist alltaf hafa lært eitthvað nýtt í spjalli okkar og vera betri manneskja á eftir. 

Í Pott komu Guðni, Erla, Margrét, Jörundur og svo sat Sigurþór KR-ingur á spjalli við okkur. Rætt um Reynistaðabræður, litaval á fatnaði, skólamál, kvennaknattspyrnu og brottrekstur úr skólum.

Nú verður tekið á því í hlaupum vikunnar sem hafin er!


Búksorgir og barlómur

Við héldum að það hefði verið samþykkt að hafa skrúfað fyrir Útvarp Sögu á hlaupadögum. Lokað frá hádegi, ha, Bjarni? Nei nei, nú var það Einar blómasali sem hafði þennan umdeilda fréttamiðil opinn og lét afrakstur hlustunar dynja á hlaupurum í hlaupi dagsins. Mættir: Flosi, Bjarni, Benzlingur, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Einar Dalakútur mættur í Brottfararsal. Veður ekki alslæmt, en ekki beinlínis stuttbuxnaveður, og því voru þeir á stuttbuxum, Einar og Bjarni. Blés á austan, svalt en þurrt. 

Það var þrædd leiðin um garðana í 107, Kvisthagi, Tómasarhagi og Lynghagi og svo út á Suðurgötu. Flosi fór sér hægt í endurkomu og týndist fljótlega, en þeir hinir voru að ræða málin: fall fyrirtækja, hópuppsagnir, Gamma, lífeyrissjóði, fjárfesta, prósentur. Skrifara var ekki skemmt en lét sig hafa það. En þegar var komið að Skítastöð og það átti að fara að tala um Braggann í Nauthólsvík og afflytja hann Hjálmar okkar þá var mér nóg boðið. Ég gaf í og skildi þá eftir í reykjarmekki og sá þá ekki meir fyrr en að hlaupi loknu. Farinn Hlíðarfótur í einum samfelldum þéttingi og ekki linnt fyrr en við Vesturbæjarlaug. 

Ég hugsaði þeim þegjandi þörfina. Ef menn ætluðu að tala endalaust um fjárhagsmálefni og fábjánaskap eins og að setja peninga í spekúlasjónir Gamma þá geta menn hlaupið með einhverjum öðrum en mér. Ég hleyp til þess að létta af mér áreiti og streitu hversdagsins og til þess að gera mér létt í skapi. En í staðinn var ég sjóðandi illur er komið var tilbaka. Og það þrátt fyrir að taka hratt hlaup og losa mig við þessa kóna. 

Á heimleið hugsaði ég með nostalgíu til hinna gömlu góðu hlaupara sem eitt sinn þreyttu skeiðið með okkur: Ágúst Kvaran, Gísli Ragnars, S. Ingvarsson, Maggi tannlæknir, Kalli Kristins, Frikki Meló, Biggi, Hjálmar, Ósk, Rúna, Helmut, Jóhanna... Það voru alvöru hlauparar. Þeim var gefin hin andlega spektin og ekki rædd vitleysan á hlaupum.

Nei, menn þurfa að skerpa sig ef ekki á illa að fara.


Sirkustjöldin falla

Á fallegum sunnudagsmorgni voru þessir mættir í hefðbundið hlaup hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins: Ó. Þorsteinsson, Formaður til Lífstíðar, Magnús tannlæknir, Einar Þór og Ólafur skrifari. Veður var fallegt eins og þau gerast best á haustmorgnum í Lýðveldinu, bjart, stillt og jafnvel sólarglæta á stundum.

Það voru kátir sveinar sem lögðu upp í rólegt hlaup og höfðu margt að ræða sín á milli. Meðal þess sem bar á góma var 30 ára brúðkaupsafmæli skrifara og spúsu hans, nýtt afabarn í sama ranni og svo stórafmæli í fjölskyldu vinar okkar, V. Bjarnasonar. Af því tilefni töluðum við fallega um þingmanninn fyrrverandi og var jafnvel flutt ósk um að hann mætti af nýju til hlaupa með okkur, honum yrði tekið fagnandi. Einnig var nefnt að Þorvaldur mætti fara að láta sjá sig að hlaupum, en hann hefur verið fjarverandi undanfarið.

Magnús sagði okkur fallega sögu. Það voru drengirnir sem voru að metast um hver ætti stærstu mömmuna. Sá vann sem sagði frá því þegar móðir hans fór með nærbuxurnar sínar í þvottahús og afgreiðslumaðurinn sagði: "Því miður frú, við tökum ekki við sirkustjöldum."

Hvað er betra ungum drengjum en að þreyta létt hlaup á sunnudagsmorgni í löðrandi blíðu? Það lyftir andanum og fyllir sálina andakt yfir fegurð sköpunarinnar og hjartað þakklæti fyrir að fá að njóta þeirra gjafa sem okkur eru gefnar.

Við Magnús fórum fyrir hópnum, léttir á fæti sem trippi á vori, en þeir hinir á eftir og mátti heyra óminn af samræðum þeirra. Í Nauthólsvík voru menn í óða önn að blása upp mikinn belg sem átti að mynda hliðið að hlaupi í þágu baráttunnar gegn krabbameini síðar um morguninn.

Enn sáum við ástæðu til að fagna því að eiga svo ágætan fulltrúa í Borgarstjórn sem hann Hjálmar okkar þegar við komum að tröppunum við Bústaðaveg. Þar var búið að ganga frá öllu svo að til fyrirmyndar er, búið að hlaða steinvegg upp með stígnum og gróðursetja fallegan gróður sem farinn var að taka á sig haustlitina. Nú söknuðum við þess að hafa ekki með okkur myndavél til þess að festa allan umbúnað á filmu, með sjálfa okkur vitanlega í forgrunni. En það verður bara næst.

Á slíkum dögum tekur maður varla eftir því að verið sé að fara 11 km leið á sunnudagsmorgni, áður en maður veit af eru komnir Klambrar og svo Sæbraut. Þar um slóðir var allt krökkt af erlendum ferðamönnum svo erfiðleikum var háð að komast áfram. En það hafðist á endanum og farið um Miðbæ, þar sem húfuklæddir menn sátu við hornborðið á Café París þar sem áður sátu öldungar og skeggræddu málin af mikilli lífsvisku.

Túngatan er jafnan hlaupin upp að kirkju og þar signa menn sig. Hossvallagatan tekin á endaspretti og loks Pottur. Mættir voru Guðni landsliðsþjálfari, kona hans, og Jörundur. Rætt var um knattspyrnu og landið Moldóvu, sem ku vera við hliðina á Rúmeníu. Ekki hefur frekar verið rætt um hlaup að Melum í Hrútafirði þetta árið og er ósennilegt að af því verði úr því sem komið er.

Allir heilir og góðir og horfir vel með hlaup i Samtökum Vorum í vetur.


Mögnuð endurkoma tannlæknis

Menn muna eftir því þegar við Magnús fórum út að hlaupa á seinasta ári, lentum í snjóstormi og urðum að snúa til baka og hætta hlaupi. Um þetta var saminn og fluttur leikþáttur af nokkrum góðum félögum sem höfðu gaman af. En nú voru þessir sömu spéfuglar fjarri góðu gamni, því að Magnús mætti af nýju í hlaup á sunnudagsmorgni eftir að hafa haldið sér til hlés í rúmt ár. Við frændur og vinir, Ólafur Þorsteinsson og Ólafur Grétar, fögnuðum Magnúsi vitanlega og upplifðum stundina sem sögulega. Það var góð tilfinning að leggja upp í hlaup í sumarblíðu á fögrum degi.

Við töltum af stað á rólegu nótunum og var ekki að sjá að Magnús væri óhlaupinn sem næmi einu ári. Rifjaður upp árekstur frá síðustu viku þar sem bakkað var á bifreið Formanns. Upplýst að öll tilskilin leyfi voru til staðar. Framundan er gönguferð Formanns og fjölskyldu í Reykjarfjörð á Ströndum. Magnús upplýsti að hann hefði verið á þeim slóðum í fyrradag, en snúið við þegar vegurinn endaði skyndilega. 

Magnús sýndi karakter þegar hann hljóp bæði fram hjá Skítastöð og Skerjafirði án þess að tilkynna að hann þyrfti að hætta hlaupi vegna mikilvægs fundar í Kirkjuráði. Sömuleiðis sýndi hann sjálfsaga þegar hann fór gegnum Nauthólsvík án þess að fara í skotið sitt og létta á sér. Þar er nú búið að að setja upp myndatökuvél svo að allt umdeilanlegt athæfi myndi enda á samfélagsmiðlum. 

Við sýndum Magnúsi helstu breytingar sem orðið hafa á hefðbundinni sunnudagsleið okkar, m.a. Tröppur við Veðurstofu, vinnu við Stokk, nýjan vatnspóst á Klambratúni o. fl. Líklega var það hér sem við fórum að vorkenna Prófessor Fróða að fara á mis við samvistir við okkur, félaga sína, og það góða starf sem iðkað er innan vébanda Samtaka Vorra. Skynsamlegast væri fyrir hann að fara úr utanvegagírnum yfir í vitleysisgírinn aftur og taka létt skeið í kátra sveina- og meyjaflokki. 

Farið niður á Sæbraut og engan bilbug var að finna á tannlækninum, það var haldið áfram án barlóms eða umkvartana. Hlaupi lauk á hefðbundnum stað, Plani við Vesturbæjarlaug, þar sem við hittum Jörund prentara önugan sem aldregi fyrr. Í Pott mættu auk framangreindra Einar Fellsstrendingur, Guðni og frú, Bjarni Fel., Margrét barnakennari o.fl. Rætt um knattspyrnu, íbúðakaup, bílakaup og tilheyrandi montnúmer. Á það var bent að ættlausir menn gætu ekki gert tilkall til montnúmera.

Nú er bara spurningin: verður framhald á hlaupum Magnúsar? Munu Kári, Gísli og Fróði snúa til baka?


Hlaup á Bastilludegi

Það var þjóðhátíðardagur Frakka og af virðingu við eina helstu menningarþjóð Evrópu var blásið til hlaups frá Vesturbæjarlaug kl 9:10 eins og hefðin býður á sunnudögum. Mættir voru Ó. Þorsteinsson, formaður vor og forn knattspyrnugoðsögn, Þorvaldur Gunnlaugsson, orðvar og orðlagður vísindamaður - og svo sá er þetta ritar, skrifari Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Veður eins og best verður á kosið á sunnudegi, milt, stillt og hlýtt. 

Tvennt frásagnarvert þegar í upphafi. Annars vegar að ekið var á bíl Formanns sl miðvikudag. Árekstrinum olli maður er ók leigubíl og álasi hver sem vill Formanni fyrir að hafa velt því fyrir sér hvort eðlilegt gæti talist að erlendur maður sem hvorki talar íslensku né getur gert sig skiljanlegan á ensku keyri leigubíl undir eðlilegum og löglegum formerkjum hér á landi. Skammt frá óhappsstað birtist flótlega eftir óhappið annar bíll sem staldraði við og fylgdist ökumaður hans með framvindu mála og því sem verða vildi. Kringum þessa frásögn Formanns spannst mikil umræða um ökuleyfi, leigubílaleyfi, atvinnuleyfi og mansal. 

Hitt sem þótti vert frásagnar var óvæntur vinningur í lottói. Það eru peningar líka. 

Um það var rætt að í gær lauk Súsanna Laugavegshlaupi með miklum bravúr, ein Lýðveldishlaupara að þessu sinni. Fylltust menn stolti við svo góð tíðindi. Í sama hlaupi var bróðir skrifara og þeirra Flosa, Þorvaldur, fremstur meðal jafningja í sínum aldursflokki, þeirra sem skriðnir eru á áttræðisaldurinn. 

Þá er vert að nefna það að á föstudag hringdi Bjarni Benz í skrifara og tilkynnti náðarsamlegast að hans hátign þóknaðist að hlaupa á föstudegi. Hann væri með öðrum orðum væntanlegur til hlaups á tilsettum tíma. Nú skrifari gerir sig kláran og er mættur í Brottfararsal stundvíslega kl 16:20 og fer að bíða eftir Bjarna. Líður og bíður og ekkert bólar á karli. Kl 16:28 þótti skrifara einsýnt að hann hefði verið hafður að háði og spotti og fór einsamall í hlaup á föstudegi, fór Hlíðarfót, skrefstuttur, andstuttur og geðvondur. Að hlaupi loknu dúkkaði Bjarni fyrstur manna upp í Potti, kvaðst vera hlaupinn og mjög hissa. Honum var bent á að hlaup væri stundvíslega kl 16:30 á föstudögum. “En ég var mættur kl 16:29, ég á atómúr!” 

Jæja, um þetta allt var rætt í hlaupi dagsins. Horfur á að Holtavörðuheiðarhlaup frestist um eina viku vegna fjarveru Formanns á fjöllum vestur. Hlaupið hefðbundið um Kirkjugarð, Veðurstofu, Hlíðar, Klambra og Sæbraut. Heilsað sem fyrr á báða bóga á íslensku og ensku. 

Mættir í Pott á sunnudegi Guðni landsliðsþjálfari og kona hans, Einar Gunnar, Jörundur prentari, Sverrir símamaður, auk hlaupara. Rætt um nýlega kappleiki, m.a. milli KR og norsks liðs, leikur sem við viljum gleyma fljótlega. Á það var bent að nú hefðu menn þreytt hlaup tvo sunnudaga í röð án þess að nefna V. Bjarnason á nafn. Þótti það merkilegt og dæmi um að flestir gætu fallið í gleymskunnar dá.

Von er á blómasala frá París fljótlega og þá verður farið að taka á því á hlaupum. Í Gvuðs friði. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband