Er rafskutla næsti valkostur?

Mættir voru til Sunnudagshlaups Ó. Þorsteinsson, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Veður váleg, rok og rigning, slabb og hálka á stígum. Það er óþekkt sjónarmið að veður hamli hlaupum í elsta og virðulegasta hlaupahópi landsins og sannaðist það sem oftar á þessum morgni. Við óðum svelginn við Vesturbæjarlaug og komumst um síðir á gangstétt við Hofsvallagötu, blautir og hraktir. Tafsamt var fyrir Formann til Lífstíðar að komast úr sporunum og þurftum við Einar að doka við eftir honum. Svo var skellt á skeið og stefnan sett á Nauthólsvík eins og jafnan er gert á sunnudagsmorgnum. Brá nú svo við að Formaður dróst fljótlega aftur úr og mátti sjá ennisljós hans flökta í morgunskímunni.

Hlauparar voru búnir eða byrjaðir að lesa Arnald og spannst umræða um málfar á bókum, en þó einkum prófarkalestur jólabóka og hvaða heimildir prófarkalesarar hafa til þess að betrumbæta texta sem líður fyrir augljósa fljótfærni í samningu. Ekki náðist niðurstaða í það mál í ljósi þess að helsti heimildamaður Samtakanna í prófarkalestri jólabóka var víðs fjarri og sýndi engin merki þess að ætla að ná okkur Einari. Skal þó tekið fram að ekki verður með neinum hætti hægt að fullyrða að hratt hafi verið farið. Á hinn bóginn mætti velta fyrir sér hversu hægt megi hlaupa til þess að athöfnin skilgreinist engu að síður sem hlaup.

Lái oss því hver sem vill þótt umræðan hafi beinst að því hvers konar hjálpartæki kæmi að notum í hlaupum Samtaka Vorra næstu misserin og var nefnd rafskutla, en einnig göngugrind.

Einar upplýsti um brunahringingu sunnan frá Kanaríeyjum á laugardagskvöldið. Þar hringdi Bjarni Benz og kvartaði yfir hita. Hlakkaði mikið til þess að komast í betra veður og fara að reima á sig skúana fyrir hlaup.

Þrátt fyrir að veðurútlit hafi verið hið versta í upphafi hlaups verður ekki sagt að það hafi valdið okkur vandkvæðum. Rjómablíða var brostin á eftir Nauthólsvík og eftir það var þetta líkast þokkalegasta vordegi. Afbrigði voru gerð á Klambratúni, hlaupið þvert yfir mitt tún í norður og farin gata sem heitir Reykjahlíð, Háteigsvegur, Stórholt, Skipholt og Hlemmur. Eftir það normalt hlaup niður Laugaveg.

Þau stórtíðindi gerðust við komu til baka að Einar blómasali bauð upp á kaffi. Keypti og greiddi sjálfur með beinhörðum peningum fyrir tvo kaffibolla (að vísu á verði eins eftir mikið þjark við afgreiðslumanninn). En kaffi engu að síður og verður slíkur rausnarskapur lengi í minnum hafður.

Ekki fórum við félagarnir í Pott og erum því ekki til frásagnar um viðveru né umræðuefni. En um það er við yfirgáfum Laug var Ó. Þorsteinsson að koma úr hlaupi sínu.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband