Færsluflokkur: Bloggar

Erfiði óþekkt

Í tilefni af stórkostlegum hjólasigri Einars blómasala á meginlandi Evrópu í gær var blásið til hlaups hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins og voru allir helstu vinir hans í þeim hópi mættir stundvíslega 9:15 - Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur og Ólafur skrifari. 15 stiga hiti, logn, heiðskírt, er hægt að biðja um meira? Einar hafði lagt að baki 1200 km á 6 dögum og var það mikil þolraun þegar hiti fór suma daga í 40 gráður. En sem betur fer hafði hann nóg að bíta og brenna á leiðinni, sem er fyrir öllu, og léttist hann einungis um 1 kílógramm á þessari 1200 kílómetra löngu leið. 

Jæja, við vinirnir vorum sumsé mættir og stefndi í afbragðsgott hlaup, slíkt var kappið og metnaðurinn. Farið rólega út svo að við byrjuðum ekki á að sprengja okkur. Ég sá ástæðu til að leiðrétta þann misskilning frænda míns að á Restaurant IKEA væru serveraðar “Swedish meatballs” eins og hann hefur oft komið inn á í hlaupum. Þær eru ekki sænskar frekar en belja! Þær eru búnar til úr 100% íslensku kjötfarsi, ekki nautahakki eins og ekta sænskar kjötbollur eru gerðar úr. Færist það hér með til bókar.

Nú var það skrifari sem hélt ádíens langleiðina inn í Nauthólsvík, var m.a. sagt frá heldur snautlegu hlaupi í gær þegar taka átti 69 með stæl. Hlaup gekk að óskum framan af og samkvæmt áætlun inn að Víkingsheimili, en þá er sem allur vindur sé úr skrifara. Minnir hann meira á ítalska eða tékkneska bíldruslu en íslenskan hlaupagarp. Hjartsláttur mikill, svimi fyrir höfði og almennur slappleiki. Varð nú að fara fótgangandi langa speli, og raunar megnið af leiðinni til Laugar. Datt manni einna helst í hug að næringarleysi af einhverju tagi byggi að baki. Hlaup dagsins gekk hins vegar vandræðalaust og var sem nýr maður hlypi. 

Eitt og annað kom til umræðu, m.a. yfirtaka Víkings á Safamýrarsvæði Frams og kennslumál Reykjavíkur Lærða Skóla, húsnæðismál æskunnar og gistimöguleikar á Siglufirði. Enn fremur lagt á ráðin um hlaup í Hrútafirði í lok mánaðarins. Búið að laga tröppur Samtaka Vorra við Veðurstofuhálendi svo til fyrirmyndar er.

Pottur afar vel mannaður við komu til baka. Þar var landsliðsþjálfarinn og kona hans, Einar Dalakútur, Mímir, Dóra, Margrét, Jörundur auk hlaupara. Fyrrgreind umfjöllunarefni hlaups fóru í endurvinnslu, en þar kom að Formaður horfði á Guðna og spurði hvort þeir ættu ekki að fjölmenna á leik FH og Víkings á mánudag. Guðni horfði þá á eiginkonu sína og töldu sumir sig merkja ákveðna örvæntingu í svip hans og jafnvel beiðni um hjálp við að komast hjá þessari ferð á völlinn. Það gæti líka hafa verið misskilningur. Ekki var ljóst hver niðurstaðan var af þessari ráðagerð, en hitt vitum vér að í hlaupi dagsins var ekkert rætt um Vilhjálm Bjarnason.


"Er hann með Duran Duran?"

Ólafur Þorsteinsson er nítjándualdarmaður. Forn í hugsun og háttum. Meira um það seinna.

Tilefnið var hefðbundið hlaup félaga í Hlaupasamtökum Lýðveldisins á sunnudagsmorgni í löðrandi blíðu og hita. Mætt voru: Formaður til Lífstíðar, Þorvaldur Gunnlaugsson, Bjarni Benz, skrifari og Maggie. Slíkt mannval hefur ekki sést lengi í hefðbundnu hlaupi á vegum Samtaka Vorra. Formaður hafði ekki mætt þrjá sunnudaga í röð og bjó því margt í hug sem varð að koma til skila í haupi dagsins. Það varð tafsamt á köflum.

Menn eru léttir á sér þessi missirin og hlaup fór vel af stað. Eðlilega var kvennaknattspyrnan ofarlega á lista Formanns, en hann hefur lengi haft efasemdir um að konur og knattspyrna fari saman. Miðað við allt umstang RÚV kringum heimsmeistaramót kvenna í knattspyrnu taldi hann vonlítið að nokkur maður eyddi tíma framan við skjáina að horfa á. Gripið hefði verið til þess ráðs að minnka mörkin í kvennaboltanum til þess að draga úr þeirri ósvinnu að vera að skora mörk frá miðju.

Vísbendingarspurningu var varpað fram í upphafi hlaups. Vísbendingin var maður sem var í bekk með Þorvaldi í Reykjavíkur Lærða Skóla. Á daginn kom að vísbendingin var röng og kom engum á óvart. Umræddur maður var aldrei í bekk með Þorvaldi, hann var ekki einu sinni í sama árgangi og Þorvaldur. En slíkir smámunir hafa aldrei vafist fyrir Formanni. Spurningin var gild fyrir því.

Skrifari varpaði fram eigin vísbendingarspurningu og þurfti nánast að mata félagana á svarinu með teskeið, svo illa upplýstir eru þeir um helstu forstjóra borgarfyrirtækja. Maggie reiddi upp símann sinn og smellti af myndum af hópnum í gríð og erg. Við fórum fetið léttilega inn í Kirkjugarð. Menn höfðu áhyggjur af blómasala vorum sem senn fer að þreyta hjólatúrinn mikla frá Köben til Parísar og þarf að hjóla 200 km á degi hverjum í sex daga samfleytt. Hvernig mun það ganga?

Jæja, segir nú ekki af ferðum og sögum fyrr en kemur í miðbæinn. Þá upplýsir skrifari Formann um að Robert Plant sé kominn til landsins og hafi etið kvöldverð á Apótekinu á laugardagskvöldið. "Hver er það?" spyr Formaður. "Hann er aðeins einn þekktasti rokksöngvari sögunnar" upplýsir skrifari. "Var með Led Zeppelin." "Já," segir Formaður, "er hann með Duran Duran?" Hér var skrifara eiginlega öllum lokið og taldi fráleitt að eiga orðastað frekar til útskýringar á því hvaða sögulegi viðburður væri í uppsiglingu í höfuðstaðnum.

Að hlaupi loknu var hefðbundinn Pottur með Einari Gunnari, Jörundi og Guðna landsliðsþjálfara.  

Nú verður lokað í Vesturbæjarlaug til 5. júlí og þurfa menn að finna sér annan samastað á meðan. Einhver nefndi Nes. Enn fremur upplýst að stefnt er að Melahlaupi síðustu helgina í júlí.


Enginn afsláttur - engin miskunn

Í Hlaupasamtökum sem til hafa valist þróttmiklir hlauparar, þéttir í lund, uppfullir af æskufjöri eins og kálfar á vori, er ekki gefinn neinn afsláttur af hlaupum, sérílagi á dögum sem þessum þegar sólin skín og hægur andvari gælir við kinn. Við vorum mættir frændur, Ó. Þorsteinsson og skrifari, við Vesturbæjarlaug kl. 9:10 með ásetning um hlaup sem boðað var til á Kjaftaklöpp. Aðrir ekki mættir og kom það okkur spánskt fyrir sjónir. Fórum raunar einnig á Páskadag, þá var með okkur Ó. Gunnarsson. Farið hefðbundið báða dagana.

Þegar rætt var um utanvegahlaup prófessors Fróða spurði Ólafur:”Er hann farinn út um þúfur?” Það er þessi hægláta kímni sem engan meiðir sem einkennir gott hlaup. 

En í dag varð sumsé á vegi okkar frænda kona nokkur í Nauthólsvík sem búin var til hlaupa og beið eftir félögum sínum. Hún féllst á að taka mynd af okkur og var greinilega mjög impóneruð yfir myndefninu, svo meira sé ekki sagt. 

Við fórum hefðbundna porsjón á rólegum takti og áttum alveg eins von á að blómasali kæmi á fullri ferð á hjólfáki sínum, en ekki sást reykurinn af honum. Né heldur voru fastir sunnudags hlauparar mættir, þeir Þorvaldur og Bjarni. Nú er spurt hvort ekki sé tímabært að menn hristi af sér slyðruorðið, dusti rykið af hlaupaskónum og geri sig klára fyrir átök sumarsins með léttu skokki í kátra sveina- og (eventúellt) meyjaflokki. Margt er framundan, m.a. Two oceans hlaup í Suður-Afríku á næsta ári. Meira um það seinna.


Þriggjabrúa á laugardegi

 

Er ástæða til að hafa orð á því þótt skór séu reimaðir á fætur og einn hlaupari tölti sosum  eins og einn Þriggjabrúa um Boggabrekku og alles - ALEINN á laugardagsmorgni? Ég veit það ekki. Jæja, skrifari var alltént einn á ferð í austanbelgingi og ausandi rigningu  í morgun og tók hringinn með bravúr. Fór austur yfir brúna yfir Kringlumýrarbraut í fyrsta skipti í MJÖG langan tíma. Blómasali staddur í Barcelona og Bjarni trúlega sofandi á sitt græna eyra. Öðrum hlaupurum ekki til að dreifa, þótt sést hafi til Frikka og Súsanna dúkkað upp hlaupin sem nemur 22 km í Laug.

En erindið var nú eiginlega meira að segja frá Magnúsi, þeim grallaraspóa og galgenvogel, þar sem hann stendur í sturtunni í Útiklefa og skrifari fer að segja honum frá þeim fjölfróða mannvini, próf. dr. Winston O´Boogie, sem sett hefur fram þá byltingarkenndu tilgátu að geðveiki sé fyrsta merki um flösu. Magnús var fljótur að botna þá tilgátu með því að benda á að sá sem súturinn sækir heim ætti frekar að kaupa sér flösusjampó en panta tíma hjá geðlækni.

Jæja, það var nú það. Formaður til Lífstíðar hefur af mikilli visku sinni upplýst og kunngjört að hér eftir og fram að veturnóttum verði hlaupið frá Vesturbæjarlaug á sunnudagsmorgnum kl 9:10. Hafa skal það til athugunar og eftirbreytni.

Í gvuðs friði.


Fagur föstudagur

Jú jú, fólk hefur sosum verið að orða það hvort þessi samtök séu alveg dauð eða þeir sem enn þöktir öndin í séu komnir í hjólastól. Sannleikurinn er sá að tveir menn í Vesturbænum, skrifari og blómasali, halda uppi merkjum hlaupa, líkamsræktar og jákvæðra lífsviðhorfa. Og þeir voru enn mættir á föstudegi í hlaup. Hringt hafði verið í Bjarna Benz fyrr um daginn, en hann ekki svarað, væntanlega hefur hann ekki fengist til að slíta sig frá Útvarpi Sögu. 

Svo að það vorum við tveir sem skokkuðum léttfættir af stað, Einar að vísu með átta sneiðar af pitsu í belgnum síðan í hádeginu, en það virtist ekki há honum. Verra var með baunahakkréttinn sem skrifari hafði innbyrt um hádegisbil, svoleiðis glópska hefnir sín í svo krefjandi athöfnum sem hlaup alla jafna eru.

Nú, það var rætt um mál málanna, fall WOW Air og afleiðingar þess fyrir Ísland í stóru sem smáu til lengri og skemmri tíma. Virtist okkur Einari sem þetta myndi færa þægilegan svala yfir íslenskt efnahagslíf og loks yrði hægt að manna stöður í leik- og grunnskólum og á spítölum. Þá myndi trúlega fækka í hópi túrista á Laugavegi á háhlaupatíma svo að þar yrði fært fyrir hlaupara. Þannig afgreiddum við Einar aðsteðjandi vanda á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

Ég var enn bræðandi með mér umræður fyrri hlaupa um hlaupafatnað og merkjavöru. Lít sem snöggvast á Einar og spyr hvar hann hafi keypt sín hlaupaföt. “Sports Direct” svaraði hann kinnroðalaust. Þá sló það mig að það er hægt að hlaupa í fötum þó þau séu ekki merkjavara og kosti augun úr. Ákvað með það sama að láta slag standa, gera bragarbót á löngu úreltum og upplituðum, illa þefjandi garderób og kaupa allt nýtt.

Nú þar sem við erum að koma skokkandi yfir Klambratúnið verður á vegi okkar gamli barnakennarinn og vildi selja Einari hlaupaúrið sitt. En á Laugavegi urðu þeir atburðir sem ollu mönnum heilabrotum. Þar er kallað til Einars og hinum megin götu stendur karlmaður nokkur vel við vöxt og brosleitur. Einar bregst snöfurmannlega við, stekkur yfir götuna og faðmar téðan karlmann og kyssir. Þetta hefur skrifari ekki séð til Einars áður og var nýlunda. Einar kom hins vegar til baka eftir stutt spjall við manninn og kvað hann bera viðurnefnið “hinn nízki” enda þótt hann væri alls ekki nískur. Þvert á móti væri þetta einn allra örlátasti maður sem Einar þekkti og viðurnefnið þannig öfugmæli. 

Við héldum áfram niður Laugaveginn gegnum túristaþvöguna, gegnum Austurstrætið, yfir Austurvöll og skokkuðum loks upp Túngötuna eins og trippi á vori. Létt og gott föstudagshlaup í rjómablíðu, fimm stiga hita, sólskini og logni. Í potti sátu tveir menn auk fyrrnefnds barnakennara skömmustulegir þrátt fyrir að hafa arkað nokkur hundruð metra fyrr um daginn. 

Næst: hlaup á sunnudegi. Í gvuðs friði.


Hvalir eru spendýr

Mættir á sunnudagsmorgni í hefðbundið hlaup hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur Gunnlaugsson, Friðrik Kaupmaður og Ólafur skrifari. Þrátt fyrir afleita spá var ekkert að veðri og mátti vel hlaupa, en fara þurfti varlega í slabbi og hálku. Menn voru almennt sáttir við vel heppnað Þorrablót sl föstudag og bárust Formanni engar kvartanir vegna óspekta eða hávaða. Mun hafa verið sungið og spilað til miðnættis sem telst nokkuð gott í hópi þar sem meðalaldurinn er hátt í sjötíu ár. 

Nú, það var sosum rætt um ýmislegt á hlaupum, t.d. hvað grænmetisætur myndu leggja sér til munns af Þorraborði og nefndu menn rófustöppu, uppstú, harðfisk, annan fisk... “Hval...” sagði Þorvaldur. “Já en hvalur er spendýr, Þorvaldur.” Við svo augljósa ábendingu gerðist Þorvaldur fráhverfur hlaupi og sneri við. Vorum við þá staddir í Nauthólsvík. 

Eftir Kirkjugarð þar sem við gengum í mestu makindum kom maður hlaupandi fram úr okkur móður og másandi og fékk sig ekki stöðvað sökum skriðþunga. Var þar mættur Einar blómasali seinn að vanda en sýndi þó góða viðleitni með því að mæta yfirleitt. Hann lýsti þungum áhyggjum af prófessor Fróða sem hefur ekki hlaupið með okkur síðan í vor er leið. Var honum falið það rannsóknarverkefni að hafa uppi á prófessornum og athuga hvort hann væri ekki fáanlegur að hnýta á sig skúana. 

Tröppurnar eru hreinn skandall og þurfum við að eiga alvarlegt orð við hann Hjálmar okkar af þeim sökum. Steypa sprungin og handrið sett skakkt á. Svona vinna ekki fagmenn og fráleitt að við munum sætta okkur við svona fúsk. Færi erfitt eftir Stokk og mátti fara varlega. Gerð könnun á Laugavegi þar sem allar skárri verslanir virðast á förum, en í staðinn væntanlegar lundabúðir og túristasjoppur hvers kyns. 

Þetta var rólegur dagur í Lýðveldinu, það skal viðurkennast. Og það er bara allt í lagi. Auk hlaupara voru dr Einar Gunnar og Jörundur prentari í Potti, sá síðarnefndi hortugur að vanda. En Pottur var langur og góður og menn voru ekkert að flýta sér. Senn kemur vor með sól á vanga og þá gerast hlaup tíðari og harðari.


Á bleiku pilsi

Fyrirsögnin gefur ekki fyrirheit um frásögn af hlaupi í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, en þarna stendur hún nú samt. Og þannig var það. Tobba mætti til hlaups á sunnudagsmorgni í bleiku pilsi. Aðspurð hverju þetta sætti horfði hún stolt á pilsið og kvað ekki hafa verið völ á öðru betra. Aðrir mættir í öllu hefðbundnari garderób Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Bjarni Benz og Ólafur skrifari. Einar blómasali sendi af sér mynd í hjálmi á vélsleða austan úr sveitum - og kunni ekki að skammast sín.

Mikil dýrðardásemd er nú að skottast um grundir á sunnudagsmorgni í veðurblíðunni, hreina loftinu, í samfloti við góða félaga. Ekki þekkir skrifari betri leið til þess að njóta dagsins en í félagsskap öðlingsfólks sem ræðir af fullkomnu fordómaleysi um hvaðeina er horfir til framfara fyrir land og þjóð. Vitanlega slæðist með alls kyns misskilningur, svo sem um pálmarækt og yfirvaraskegg, en slíkt má alltaf leiðrétta með þolinmæði og umburðarlyndi. Oftar en ekki byggist slíkur missklningur á því að menn ramba inn á vitlausar útvarpsstöðvar þegar þeir eru að leita að gamla Gufuradíóinu.

Á sunnudagsmorgnum er um að gera að njóta hlaups, því að eins og menn vita lýkur því svo að segja um svipað leyti og það hefst. Áður en maður tekur eftir er komið inn í Nauthólsvík og þá er hlaup nánast hálfnað. Margt er rætt á ferðum okkar um grundir og um flest ríkir trúnaður svo að ekki verður frá því sagt á þessum blöðum. En hitt er sönnu nær að flokkur vor náði inn í téða Nauthólsvík svo að segja áfallalaust og var þar staldrað við samkvæmt hefð og stráin barin augum. Menn reyndu einnig að sjá fyrir sér pálmana sem eru væntanlegir, en einhvern veginn gekk það hálf erfiðlega, enda búið að afskrifa framkvæmdina af til þess bærum og fróðum aðiljum.

Í Kirkjugarði brá Tobba myndavél sinni á loft og smellti af hópnum í gríð og erg eins og menn hafa væntanlega séð á fésbók. Þaðan var hlaupið áfram sem leið lá að tröppunum margfrægu og aftur smellt af.

Okkur tókst að forðast að láta Bjarna draga okkur inn á myndlistarsýningu á Kjarvalsstöðum, en í Bankastræti var ekki undan því vikist að fara inn í Cintamani til þess að skoða hlaupajakka á Formanninn. Í ljós kom að það sem hann taldi vera hlaupajakka var útivistarjakki ætlaður fólki sem stendur utandyra í mikilli rigningu. Ég benti Formanni á að ekki væri von á svo mikilli rigningu á Íslandi og varð hann þegar afhuga jakkanum.

Bjarni fór í fússi um Sæbraut bölvandi þessu listfjandsamlega pakki sem hljóp með honum. En þegar hann kom kjagandi upp Ægisgötu var hann allur orðinn mildari og saman tókum við niður höfuðföt, lutum Kristi bróður fyrir durum Kristskirkju og signdum okkur. Féll þá allt í ljúfa löð með okkur og var hlaupið í bróðerni og kristilegum kærleiksanda til Laugar.

Fáir pottar opnir vegna skorts á heitu vatni í frosthörkunum og ekki Örlygshöfn, fátt í boði annað en kaldur pottur. Var því staldrað stutt við. Segir því ekki af samræðum á sunnudegi.


Hönd í hönd

Ekki var aumingjum út sigandi í veðurblíðunni í dag, 6 stiga frosti, sól, stillu. Enda mættu aðeins hörðustu hlauparar Samtaka Vorra: Rúna, skrifari, blómasalinn, Benzinn og Baldur Tumi. Helmut einn mættur af göngumönnum. Benzinn bara rólegur þegar mætt var í Útiklefa, en var fljótur að ná sér á strik þegar farið var að ræða um pálmatrén hans Hjálmars okkar. Ég spurði: hver man núna eftir að ræða um tölvupósta? 

Jæja, þegar Einar var mættur var lagt í hann. Baldur Tumi skildi okkur fljótlega eftir, og Einar og Rúna þurftu eitthvað að ræða mikið saman. Við Bjarni fórum á undan þeim. Hvern hittum við á skíðum í Skerjafirði nema Flosa bróður! Í hvað er þessi hlaupahópur að breytast? Menn eru ýmist gangandi eða á skíðum þegar hlaup í vaskra sveina og meyja hópi er í boði.

Já, eitthvað var farið að nefna pálmatré og eftir miklar bollaleggingar og útreikninga var niðurstaðan sú að innflutningur á pálmatrjám og uppsetning fyrir litlar 160 milljónir væri óframkvæmanlegt og af því yrði aldrei. Ég spurði aftur í illkvittni hvort einhver myndi að ræða tölvupósta.

Það var í raun ekki hægt annað en njóta hlaupsins og veðurblíðunnar. Bjarni minntist á hlaupara sem hljóp einu sinni með okkur og hét Ágúst Kvaðrat eftir því sem Bjarna minnti. Líklega væri hann dauður því til hans hefði ekki spurst lengi. Svo var náttúrlega minnst á þorrablótið sem framundan er. 

Við hlupum út að Kringlumýrarbraut enda enginn aumingjaskapur í gangi hér. Nú brá svo við að einingin og samræmingin náði slíkum hæðum í tignun þeirra á Guði sínum Mammoni að þeir Einar og Bjarni gengu langar leiðir upp Suðurhlíð hönd í hönd. Það var ógnvænleg sjón. 

Svo var bara að skella sér niður Stokkinn og klára hlaup á góðu róli. En mikið uppskárum við Einar af skömmum og svívirðingum hjá Bjarna þegar hann kom tilbaka að sækja okkur. Vorum kallaðir aumingjar og ellibelgir og ég veit ekki hvað. En það var góð tilfinning að koma tilbaka og við vorum ánægðir með okkur sjálfa. 


Riddarar götunnar

Hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins sem fara um götur og stíga eru upp til hópa hjálpsamir og velmeinandi, með fáeinum undantekningum. Meira um það seinna. 

Hlaup hafa verið þreytt sleitulaust og án uppihalds alla lögboðna hlaupadaga undanfarna viku. Færð hefur verið sæmileg og veðurskilyrði sömuleiðis þokkaleg svo halda mátti úti hlaupi. Nú er spurningin að halda sér á hreyfingu, þreyja þorrann og góuna og koma svo sæmilegur undan vetri og fara að taka á því á vormánuðum. 

Það eru þessir sömu einstaklingar sem eru að göslast þetta viku eftir viku: Einar blómasali, Bjarni Benz, Ólafur skrifari og Ólafur H. Gunnarsson. Ó. Þorsteinsson og Þ. Gunnlaugsson á sunnudögum. 

Jæja, það voru þessir fjóru hlauparar á föstudaginn eð var og mikil umræða spannst um Klausturmál. Bjarni, sem hefur alla sína visku úr Útvarpi Sögu, sagði alveg ljóst að einhver lesbískur feministi hefði bruggað Gunnari Braga ólyfjan svo á hann seig óminnishegri og fékk Frakka sínum rænt. Nú þyrfti Gunnar greyið að spandera stórum summum í sálfræðinga til að komast að því hver hefði öskrað á upptökunni. Við hinir sáum í hendi okkar að þetta væri allt eitt stórt samsæri gegn Simma, runnið undan rifjum forseta Alþingis. Á þessa lund voru nú umræðurnar í hlaupi föstudagsins þar sem við runnum hefðbundið skeið og Bjarni bara rólegur til þess að gera. Birtan heldur áfram innreið sinni.

Hefðbundið inn í Nauthólsvík og upp skógarstígana snæviþakta. Bjarni fremstur, léttur eins og messudrengur, við hinir þungir, hægir og þreyttir. En þegar komið var í Hlíðar birtist hið rétta innræti manna. Þar sat fólksbifreið föst í snjó og kona æddi fram og tilbaka eftir götunni í leit að hjálp. Bjarni alvitlaus, kominn á undan okkur, grenjandi hinum megin við Miklubraut: “Áfram, áfram!”, svo að konan varð mjög skelkuð. Við þrír buðum fram aðstoð okkar. “Eruð þér í vanda stödd, fröken? Megum við hjálpa yður?” spurðum við. Svo var tekið til við að ýta, en bíllinn sat sem fastastur og rúllaði bara fram og aftur. Það var ekki fyrr en gamli ketilsmiðurinn náði almennilegu taki undir bílnum að hann gat lyft bílnum upp og þá losnaði hann. Konan var full þakklætis og sá þarna að enn eru til heiðursmenn á Íslandi. Bjarni stóð hins vegar gapandi af hneykslan yfir svona vitleysisgangi í miðju hlaupi.

Við áfram Klambra og Rauðarárstíg þar sem Bjarni benti okkur á listaverk með beru kvenfólki sem stillt hafði verið út í glugga Gallerís Foldar til þess eins að ögra velsæmiskennd allra betri borgara. Nú var farið niður á Sæbraut og var það mikill léttir fyrir okkur af tveimur ástæðum: Bjarni mátti öskra eins og naut án þess það hreyfði við okkur og við losnuðum við að fara á svigi milli túrista. Fram hjá Hörpu og þá leið upp Ægisgötu og tilbaka með viðkomu og krossmarki hjá Jesú bróður. Nú vitum við fyrir víst að vorið er á næsta leiti.

Jæja, þarna voru sumsé Denni og Sæmi mættir eftir sukksama ferð um Miðbæinn. Þá barst í tal Þorrablót Samtaka Vorra og munu félagsmenn fljótlega fá tilkynningu um stað og stund. En næst verður hlaupið á morgun, sunnudag, kl 10:10, og trúum vér að þátttaka verði góð. 

 


Ótrúlegt hreint út sagt

Ja, það fer ekki milli mála að vorið er á næsta leiti. Birtan sem við finnum svo átakanlega fyrir nú um miðjan janúar og hitinn, maður minn! Hitinn! 6 stig um miðjan vetur. Ef þetta er ekki ákall um hlaup þá þekki ég ekki hugtakið. Enda voru valinkunnir heiðursmenn mættir til hlaupa hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins á föstudegi kl 16:30. Það voru Einar blómasali, Ólafur Gunn og Ólafur skrifari. Svo voru Jörundur, Helmut og Biggi mættir til göngu. Jörundur önugur og afundinn sem aldrei fyrr, enda erfitt að þurfa að hætta að hlaupa og fara að ganga eins og hvert annað gamalmenni. Þarna voru líka Denni og Sæmi, en þeir hafa óljósa agendu og hlaup þeirra fara með þá um aðrar slóðir en okkar hinna og enda oftast á einhverjum bar í Miðbænum.

Það var lagt upp í einmunablíðu. Skrifari þreyttur að lokinni erfiðri viku í Stjórnarráðinu, en lét á það reyna hvort hann gæti ekki klárað eitt aumingjalegt hlaup. Fór svo að lokum að það var hann sem dró þá hina áfram og hvatti til afreka. Við ræddum um vinnuskilyrði hjá hinu opinbera og þau örlög sem búin eru síðmiðaldra körlum sem rekast illa innan um venjulegt fólk. Lífeyrismál bar á góma og umræður karla á opinberum stöðum sem hljóðritaðar eru með ólöglegum hætti í annarlegum og ólögmætum tilgangi. Þegar komið var að Bragga í Nauthólsvík tókum við eftir myndaupptökuvél við skúrbygginguna sem hann Maggi notar gjarnan á sunnudagshlaupum til þess að létta á sér. Við sáum í hendi okkar að við yrðum að úða málningu fyrir linsuna á vélinni svo að Magnús okkar geti haldið venjum sínum. 

Það var slabb og hálka víða á stígum sem tafði fyrir, en er komið var að Öskjuhlíð var enn bjart og engin þörf á ennisljósi, sem var breyting frá síðasta föstudegi. Við fórum upp skógarstígana og upp glerhála brekkuna, þaðan hjá kirkjugarði, undir Bústaðaveg og svo upp Tröppurnar okkar. Veðurstofa, Saung- og Skák, Hlíðar, Klambrar, Laugavegur. Við ræddum nýlegar byggingar á Siglufirði og möguleika sem þeim tengjast til sameiginlegrar útiveru og dvalar á Norðurlandi á sumri komanda, með tilheyrandi gönguferðum og skemmtan. Komum kátir og sprækir tilbaka eftir hlaup og vorum bara ánægðir með okkur.

Aldeilis ótrúlegt mannval er komið var tilbaka. Sæmi og Denni sátu á snakki við Dani er komið var í pott og báru menn kennsl á gamla Hagaskóladönsku þar. Fljótlega kom Bjössi kokkur og loks Benzinn í pott og mátti hann þá kallast fullmannaður. Kannaðir möguleikar á Þorrablóti Samtaka Vorra. Næst hlaup á sunnudag.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband