Óviðjafnanlegur dagur

Heiðskírt, logn, þriggja stiga frost. Þrír heiðursmenn mættir í sunnudagshlaup hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins: Magnús tannlæknir, Einar blómasali og skrifari. Ó. Þorsteinsson staddur í Stokkhólmi í menningarreisu. Vart þarf að orðlengja hvílíkt lífsfjör og þakklæti bærðist með okkur vinunum yfir að fá að þreyta hlaup á slíkum degi. Allir sprækir og kátir og hlökkuðu til hlaups. 

Ekki er seinna vænna að huga að jólaboði Samtaka Vorra, sem halda mætti annað hvort 7. eða 14. desember nk. Verður rætt við Jörund um að hýsa viðburðinn með góðfúslegu leyfi frú Önnu Vigdísar. Skynsamlegt þykir að hafa húsmóðurina viðstadda ef vera kynni að hinum fjóru eitursnjöllu sósumökurum dytti í hug að endurtaka leikinn frá því um árið þegar þeir stóðu yfir pottunum smjattandi og kjamsandi á sósu sem var ekki nema í meðallagi lukkuð. Meira um það seinna.

Við þreyttum rólegt hlaup glaðir í bragði yfir að hafa drifið okkur út og hlökkuðum til hlaupsins, harla vel þó gerandi okkur grein fyrir að því lyki fyrr en seinna. Því var um að gera að njóta dagsins. Okkur varð hugsað til sumra félaga okkar sem við hefðum viljað hafa með okkur á slíku hlaupi og er því enn og aftur vakin athygli á því að hlaupið er alla sunnudaga kl. 9:15 frá Laug.

Áður en við áttuðum okkur á vorum við komnir inn í Nauthólsvík og þar var gengið venju samkvæmt. Í Kirkjugarði voru gerð afbrigði, farið um grafeit fallinna hermanna af erlendum uppruna og þeim vottuð virðing. Hefðbundið um Hlíðar og Klambra. Rætt um barnabörnin sem sum eru svo vel af Guði gerð að þau geta sagt línuívilnun í eignarfalli með greini áður en þau eru orðin tveggja ára, altént ef afinn er prófessor. Hér færðist tannlæknirinn allur í aukana og taldi sig sérfróðan um Línuívilnanir.

Farið hjá Hörpu og upp Ægisgötu í einum spreng. Við Kristskirkju taka hlauparar ofan og signa sig.

Pottur lokaður og fátt kunnuglegra andlita á sveimi. Því var gerður stuttur stanz og haldið til daglegra verka. Segir fátt af umræðum þann daginn, en Formaður bað fyrir kveðju Guðs og sína í Pott.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband