Nítjándualdarmenn

Sagt hefur verið um Ólaf Þorsteinsson, frænda minn og vin, að hann sé nítjándualdarmaður. Sannaðist það í hlaupi dagsins. Og kem ég að því síðar, eins og Jónas frá Hriflu sagði þegar hann hafði talað í þrjá klukkutíma á flokksfundi í Framsóknarflokknum og tveir menn þegar verið bornir út í yfirliði.

Við vorum sem sagt mættir þrír í sunnudagshlaup í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, Ólafur Þorsteinsson, Magnús Júlíus og skrifari. 11 stiga hiti, logn, uppstytta meðan á hlaupi stóð.

Haldið var upp á hundrað ára afmæli stærðfræðideildar Reykjavíkur Lærða Skóla í gær og þar var formaður vor mættur. Þegar menn vildu henda honum út vegna þess að hann væri máladeildarmaður benti hann á að Máladeild skólans hefði verið stofnuð í Skálholti árið 1056. Við það setti menn hljóða. 

Magnús sagði okkur fallega sögu. Honum var boðið á söngskemmtun í Salnum í Kópavogi á föstudagskvöldið sem haldin var til að heiðra íslenskar dægurlagasöngkonur. Þar komu fram og sungu Svanhildur Jakobsdóttir, Helena Eyjólfsdóttir og Mjöll Hólm. “Og Ellý Vilhjálms?” bætti Ólafur Þorsteinsson við. “Ólafur minn, Ellý Vilhjálms er fallin frá.” “Nú,er Ellý Vilhjálms fallin frá?”, sagði hann forviða. Það styttist í að þeir Magnús leiðist saman upp stíginn segjandi “Hvers son var hann aftur hann Vilhjálmur Bjarnason sem hljóp einu sinni með okkur?” 

Hlaupið var tíðindalítið og áreynslulítið, og fórum við 11,5 km án þess varla að taka eftir því. Í Potti minntumst við ágætrar konu og félaga sem fallin er frá, Dóru Guðjohnsen. Hún mætti gjarnan í Sunnudagspott og tók þátt í spjallinu og kom oft með skemmtilegar ábendingar. Við minnumst hennar með hlýju og þakklæti og góð orð í okkar garð, en hún sagðist alltaf hafa lært eitthvað nýtt í spjalli okkar og vera betri manneskja á eftir. 

Í Pott komu Guðni, Erla, Margrét, Jörundur og svo sat Sigurþór KR-ingur á spjalli við okkur. Rætt um Reynistaðabræður, litaval á fatnaði, skólamál, kvennaknattspyrnu og brottrekstur úr skólum.

Nú verður tekið á því í hlaupum vikunnar sem hafin er!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband