Ástin á sannleikanum

Seint verður fullyrt um félaga Hlaupasamtakanna að þeir láti góða sögu líða fyrir sannleikann. Fjórir vaskir piltar mættir til Sunnudagshlaups: Ó. Þorsteinsson, Magnús tannlæknir, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Hríðarhraglandi utandyra og tveggja stiga frost, en ekki hvarflaði að mönnum að láta slíka smámuni koma í veg fyrir hlaup. Lagt upp á tilsettum tíma og Formaður vopnaður myndavél til að festa viðburðinn á filmu. Stígar óruddir með öllu og urðum við að ösla snjóinn upp að ökklum. 

Nú gekk á með fallegum sögum sem toppuðu hver aðra. Fyrstur reið skrifari á vaðið með sögnum af viðburðum gærdagsins. Þá var komið að tannlækninum og var frásaga hans þó margfalt hjartnæmari. Og þá var rifjuð upp sagan af því þegar hann Þorvaldur okkar datt. Hún var nokkurn veginn svona: Biggi Jógi leiddi hlaup í Öskjuhlíðinni þar sem keðja hafði verið strengd fyrir stíginn til lokunar. Hann kallar aftur fyrir sig:”Varið ykkur á keðjunni!” Hvað menn gera. Nema Þorvaldur. Hann hleypur beint á keðjuna og flýgur á hausinn, skurmslast við það á höfði og lagar blóðtaumur niður kinnar, framhjá ennisbandinu. Einhver segir: “Þú ert bara eins og Kristur krossfestur með þyrnikórónuna.” Annar segir: “Já, væri ekki þjóðráð að krossfesta hann?” Magnús sem allt vill laga og bæta skaut þá inn: “Já, en bræður, leyfið mér að sækja tannlæknaborinn minn fyrst svo að ég geti borað fyrir nöglunum.” Þorvaldi þótti gamanið grátt og muldraði: “Og þetta kallar maður vini sína.”

Í hlaupi dagsins kannaðist Magnús ekki við að hafa boðið fram borinn sinn þegar til stóð að krossfesta Þorvald. Alltént hljóti hann að hafa ætlað að deyfa aðeins fyrst. Á þessu gekk í hlaupi dagsins og var líf og fjör alla leið. Rætt um habíta sem þarf að skipta um sökum þess hvað vaxtarlag manna er að breytast með aukinni og reglulegri hreyfingu. Rifjaðir upp þeir tímar þegar ungir menn fóru í Faco og Karnabæ að kaupa sér hólkvíð jakkaföt sem gætu enst nokkur ár og litu út eins og menn hefðu notið framlaga Vetrarhjálparinnar.

Smelltum af myndum á völdum stöðum til þess að skjalfesta viðburðinn og settum á fésbók.

Í Pott mættu Mímir, Jörundur, Einar Gunnar og Biggi. Gylfi yfirgaf pott þegar við komum. Það eru þrjár bækur sem Jörundur ætlar að lána Einari blómasala. Einar spurði Jörund hvort hann gæti ekki keypt þá fjórðu, eftir Eyvind hinn norska sem Gylfi mælti með. Mímir sagði frá því að hann hefði hitt fyrrv. þingmann á tónleikum í gærkvöldi og spurt hann hvað hann væri að gera þarna. Vitanlega var rætt um tap Dana fyrir Íslendingum í handbolta í gær og virtust menn sáttir við þá niðurstöðu. 

Dagurinn og stundin ánægjuleg og eftirminnileg. Hvílíkur hópur!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband