Búksorgir og barlómur

Við héldum að það hefði verið samþykkt að hafa skrúfað fyrir Útvarp Sögu á hlaupadögum. Lokað frá hádegi, ha, Bjarni? Nei nei, nú var það Einar blómasali sem hafði þennan umdeilda fréttamiðil opinn og lét afrakstur hlustunar dynja á hlaupurum í hlaupi dagsins. Mættir: Flosi, Bjarni, Benzlingur, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Einar Dalakútur mættur í Brottfararsal. Veður ekki alslæmt, en ekki beinlínis stuttbuxnaveður, og því voru þeir á stuttbuxum, Einar og Bjarni. Blés á austan, svalt en þurrt. 

Það var þrædd leiðin um garðana í 107, Kvisthagi, Tómasarhagi og Lynghagi og svo út á Suðurgötu. Flosi fór sér hægt í endurkomu og týndist fljótlega, en þeir hinir voru að ræða málin: fall fyrirtækja, hópuppsagnir, Gamma, lífeyrissjóði, fjárfesta, prósentur. Skrifara var ekki skemmt en lét sig hafa það. En þegar var komið að Skítastöð og það átti að fara að tala um Braggann í Nauthólsvík og afflytja hann Hjálmar okkar þá var mér nóg boðið. Ég gaf í og skildi þá eftir í reykjarmekki og sá þá ekki meir fyrr en að hlaupi loknu. Farinn Hlíðarfótur í einum samfelldum þéttingi og ekki linnt fyrr en við Vesturbæjarlaug. 

Ég hugsaði þeim þegjandi þörfina. Ef menn ætluðu að tala endalaust um fjárhagsmálefni og fábjánaskap eins og að setja peninga í spekúlasjónir Gamma þá geta menn hlaupið með einhverjum öðrum en mér. Ég hleyp til þess að létta af mér áreiti og streitu hversdagsins og til þess að gera mér létt í skapi. En í staðinn var ég sjóðandi illur er komið var tilbaka. Og það þrátt fyrir að taka hratt hlaup og losa mig við þessa kóna. 

Á heimleið hugsaði ég með nostalgíu til hinna gömlu góðu hlaupara sem eitt sinn þreyttu skeiðið með okkur: Ágúst Kvaran, Gísli Ragnars, S. Ingvarsson, Maggi tannlæknir, Kalli Kristins, Frikki Meló, Biggi, Hjálmar, Ósk, Rúna, Helmut, Jóhanna... Það voru alvöru hlauparar. Þeim var gefin hin andlega spektin og ekki rædd vitleysan á hlaupum.

Nei, menn þurfa að skerpa sig ef ekki á illa að fara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband