Stjörnuhrap á vetrarhimni

Við vorum þrír mættir samkvæmt venju í sunnudagshlaup á vegum Hlaupasamtaka Lýðveldisins, Ó. Þorsteinsson formaður, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Frostlaust en samt napurt veður í norðanáttinni, heiðskírt. Þegar klukkan er gengin stundarfjórðung í tíu við slíkar aðstæður er austurhiminninn ægifagur, morgunskíman að brjótast í gegn og sól á næsta leiti. Þá er gott að vera ungur og frískur piltur að hlaupa Ægisíðuna, sköpunarverkið öðlast óskilgreinda dýpt og maður er hluti af því. Sem við hlaupum þarna og setjum stefnuna á Skerjafjörð sjáum við stjörnuhrap yfir morgunhimininn. Það fullkomnaði einhvern veginn augnablikið.

Mikið rætt um jólaboð Samtaka Vorra hjá Jörundi í gær. Menn söknuðu Kaupmannsins og Rúnu, Hjálmars og Óskar. Þorvaldur einnig forfallaður sem og Baldur, en sá síðastnefndi sendi góða kveðju sem var lesin upp eins og síður er fyrir jólin. Boðið var allt afar hófstillt og fór vel fram, matur góður og í nokkurn veginn réttu magni svo ekki gengi mikið af. Þarna gefst tækifæri til að endurnýja kynnin við gamla hlaupara sem ekki hafa sést á hlaupum lengi, enda aðallega hinir yngri menn sem hlaupa núorðið. Svo eru alltaf hafðar í frammi heitstrengingar, Ágúst að draga fram skóna á ný, fluttur í Boðaþing (NB ekki í íbúðir aldraðra) og hefur mikið rými til hreyfingar, og Gísli Ragnars ku vera alveg á leiðinni...

Jæja margt er framundan. Að morgni 19. des. er í boði morgunhlaup Morgunhana kl 6:00 eða jafnvel fyrr. Stoppað í morgunsúkkulaði á Laufásvegi og Fróni. Annan dag jóla er svo Kirkjuhlaup TKS og er ómissandi liður á hlaupadagskránni. Margt að hlakka til og þakka fyrir á jólum.

Í Guðs friði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband