Í minningu hlaupara

Í kvöld var hlaupið í minningu Guðmundar Gíslasonar hlaupara, sem lést í vélhjólaslysi hinn 7. júní 2004. Félagar Gísla Ragnarssonar, föður Guðmundar, hittust við Hrafnhólaafleggjarann á Þingvallavegi kl. 17:30, og voru þar auk Gísla þessi: próf.dr. Ágúst Kvaran, próf.dr. Sigurður Ingvarsson og frú, Helmut og dr. Jóhanna, Ólafur ritari, Halldór "bro" Guðmundsson og frú, Gísli Ásgeirsson, og loks kom Guðjón nokkur Eiríkur Ólafsson, hrekkjusvínafræðingur. Þá slóst Sigurður Gunnsteinsson í hópinn við Skálafellsveg.

Opinber lýsing á hlaupaleið er þessi: "Fyrst er hlaupið að Skeggjastöðum, upp með Leirvogsá, framhjá Tröllafossi og yfir ána. Þá er farið sunnan Stardalshnúks, að Stardal, út á þjóðveg aftur og að gatnamótum Skálafellsvegar. Þar er stoppað um um stund og því næst hlaupinn þjóðvegurinn til baka." Þetta hljómar stutt og snaggaralegt, en leiðin er hreint ótrúleg. Ekki spillti fyrir að veður var eins og best var á kosið í dag, 15-16 stiga hiti, sólskin og hægur vindur. Fyrsta leiðin er á fótinn og ekki á óskalista sumra hlaupara að byrja hlaup þannig, en það hafðist. Leiðin upp með Leirvogsá var ævintýraleg, þarna er mikil náttúrufegurð sem er falin fyrir þeim sem fara um þjóðveginn. Einkum er hrikalegt að koma að Tröllafossi og þverhníptum hamrinum þar. Við stöldruðum við þar, fórum út á höfðann, en ég segi fyrir sjálfan mig að ég treysti ekki samferðafólki mínu nægilega vel til þess að fara mjög nálægt brúninni. Efra varð mönnum hugsað til Jörundar félaga okkar, þarna var alautt af lúpínu, og Lúpínuhatarafélag Íslands hefði farið erindisleysi inn á þetta svæði. Jörundur hefði þurft að vera nærstaddur til að upplifa óspillta íslenzka náttúru eins og hún gerist best.

Haldið áfram í átt að Stardalshnúk, Stardal, yfir Stardalsá, menn óðu hugsunarlaust yfir, dr. Jóhanna ætlaði að vera pen og reima af sér skóna, en skipti um skoðun þegar hún sá aðfarirnar og skellti sér út í. Þarna voru hestar í haga sem fylltust hlaupalöngun þegar þeir sáu til okkar, komu að girðingunni. Guðjón sagði söguna af Sigurbirni fræðslustjóra Vesturlands sem las yfir öxl konu sinnar í Morgunblaðinu að skólager væri til sölu. "Hvað er að gerast, skólager til sölu?" Konan sagði: "Sigurbjörn minn, ég held nú sé kominn tími fyrir þig til að hætta í skólamálunum!" Svo kom fjöldi bíla á móti okkur, voru greinilega á leið til hesta. Leið okkar lá upp á þjóðveg og var það erfiður kafli, mestmegnis upp í móti. Síðan var haldið áfram sem leið lá upp að Skálafellsafleggjara. Þar er minnisvarði um Guðmund, með húfu föðurins og viðurkenningarpeningi hans fyrir Reykjavíkurmaraþon 2004. Þar beið okkar kók og bananar, vel þegin næring eftir erfitt hlaup. Við svolgruðum í okkur kókið, en gáfum Gumma líka svoldið. Loks hringuðum við minnisvarðann og minntumst hlauparans Guðmundar Gíslasonar. Það var áhrifamikil stund og þó án allrar væmni.

Nú var eftir að koma sér niður að upphafsstað. Sú leið var aðeins styttri en leiðin uppeftir, en það var farið að blása á þjóðveginum, og við áttum brekku ettir eins og segir í kvæðinu. Bílar óku eftir veginum og sýndu flestir tillitssemi, en sumir slógu lítt af hraðanum og þá stóð manni ekki alveg á sama. Hér var af þessum hlaupara dregið enda þriðji dagur í röð sem er hlaupið. Þá kom í góðar þarfir að eiga gott mantra að kyrja, það var svona: Ristru Flanir, Ristru Flanir. Þetta hljómaði í kollinum á mér alla fimm kílómetrana tilbaka. En mikið déskoti var ég samt orðinn þreyttur á því undir lokin!

Þegar upp var staðið og mælar höfðu verið stoppaðir og vegalengdir teknar kom í ljós að við höfðum farið 14,3 km - aðeins meira en þessir "á að giska 13 km" sem tilkynnt var um í boðun hlaups. Dæmigerður Ágúst, að ljúga að grunlausu fólki að þetta yrði bara stutt, bæta svo við ágústínskum sveigjum og lengja í leiðinni um nokkra kílómetra. Hlaupurum var afhent í lokin ársskýrsla Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum 2006 í viðurkenningarskyni, fer hún hvað þennan hlaupara varðar beint á náttborðið við hlið doktorsritgerðar dr. Sigurðar Júlíussonar, Allergic Inflammation in the Nasal Mucosa, sem á sinn fasta sess í næturlesningu þegar andvaka sækir að.

Einstaklega vel heppnað og ánægjulegt hlaup sem ég hvet fleiri hlaupara til að taka þátt í, þótt ekki sé nema vegna náttúrufegurðarinnar efra. Á morgun er Goldfinger, 69, Stokkur með sjóbaði og hvaðeina sem fólk lystir til að gera - innan vissra marka, eins og ávallt.

Góðar stundir,
ritari 

Í mér blundar fól

Fleyg ummæli voru ritara ofarlega í hug er hann sté af hafi líkt og gyðjan forðum, meira um það seinna. Þetta var dagur hinna óvæntu atburða, ekki færri en tveir klassískir hlauparar sem fyrir löngu eru umvafðir slæðu firrðar og þjóðsagna mættu til hlaups í dag: konrektor ungdómsakademíunnar við Hagatorg, nánar tiltekið Flosi, bróðir ritara, og Ólöf Þorsteinsdóttir, eitt sinn maraþonmeistari Íslands. Báðum var vel fagnað. Minni var fögnuðurinn sem mætti ágætum félaga vorum Þorvaldi er hann lagði bíl sínum, baðgestur nokkur gerði athugasemdir við hvernig hann lagði bílnum. Er Þorvaldur þverskallaðist við og neitaði að hrófla við bíl sínum hélt hinn áfram, elti hann inn í brottfararsal VBL með athugasemdum. Ekki linnti látum er komið var niður í klefa: hvenær tókst þú bílprófið? Lærðiru ekki að bakka? Hefðiru tekið prófið í dag hefðiru örugglega fallið! Og svona áfram og áfram. En félagi vor er rólyndismaður og tók þessar athugasemdir ekki nærri sér, íklæddist hlaupagalla sínum af æðruleysi og gekk upp þrepin til félaga sinna. Mætt til hlaupa voru áður nefnd Flosi, Ólöf, Þorvaldur, og Gísli, Magnús, Kári, Sjúl, ritari, Helmut, dr. Jóhanna, Ágúst, Benedikt og Birgir. Mikil glaðværð fylgdi nærveru okkar í brottfararsal og höfðu menn litlar áhyggjur af truflunum sem vera Hlaupasamtakanna gat valdið á þessum kyrrláta stað. Ég heyrði að Gísli ræddi við Sjúl um nýjasta réttinn, náði ekki alveg heitinu, heyrðist hann segja Ristru Flanir, ætli það sé ekki það sem Svíar kalla flarn. Varð honum mjög tíðrætt um þennan ofnbakaða rétt.

Hvílíkur dagur til hlaups! 14 stiga hiti utandyra og sólskin. Svo ólmir voru hlauparar að hefja hlaupið að Ágúst gleymdist, aðeins fáeinir sómakærir og tryggir félagar biðu eftir stórhlauparanum sem var ekki einu sinni kominn með tungl er hann kom út á stétt. Við lögðum í hann, en vorum alveg róleg. Mikill léttleiki var yfir hlaupurum í dag og varð einhverjum á orði eftir hlaup að það hefði verið hlegið alla leiðina. Sjúl nýkominn frá Amsterdam og sagði okkur fagrar sögur af heimsóknum á söfn og í kirkjur. Einhver hafði fréttir af fjarstöddum félögum, Vilhjálmi og Ó. Þorsteinssyni, brunahringingar gengu milli Garda-vatns og Króatíu, áhyggjur af því að verið væri að úthýsa Hlaupasamtökunum úr Vesturbæjarlaug. Samkvæmt síðustu fréttum tókst að lægja tilfinningaöldurnar sem gengu syðra.

Nýir hlauparar voru skynsamir og fóru rólega yfir og hægt. Fóru stutt. Aðrir voru hraðari og æstari. Á Ægisíðunni fór hópurinn að þéttast og ljóst hverjir færu á Nesið. Við mættum Neshópi sem er að skríða saman eftir nokkurra vikna Niederlag, þau mættu okkur af mikilli kurteisi og buðu góðan daginn. Við drógum inn bumburnar, sperrtum fram kassana og jukum hraðann. Nú var Ágúst kominn í takt við Benedikt og þéttingar tóku við. Þeir tveir félagarnir fóru fremstir og svo komu á eftir þeim dr. Jóhanna, Þorvaldur, Sjúl, ritari og Birgir.

Ágúst og Benedikt fóru fyrir golfvöllinn og nokkuð hratt, að eigin sögn. Næsti flokkur var fullur af úrtölufólki og reyndist auðvelt að fá hlaupara til að fara hjá Bakkatjörn og út að Gróttu. Heitt var í veðri er hér var komið, og voru hlauparar sveittir og heitir. Hér ráku hlauparar augun í baðströndina, svala ölduna, tveir hlauparar hikuðu, stöldruðu við, "eigum við?", "ættum við?" - Sjúl og dr. Jóhanna héldu áfram hlaupinu, en Birgir og ritari stóðust ekki freistinguna, skelltu sér niður á svartan fjörusandinn, tíndu af sér spjarirnar og hentu sér í svalan sæinn. Þar svömluðum við eins og selir og rákum upp frygðarstunur sem trúlega hafa heyrst um allt Nesið. Seinna fréttist að húsmæður hefðu opnað glugga sína og sperrt eyrun til þess að heyra hvaðan þessi hávaði kæmi. Skyndilega urðum við meðvitaðir um þetta syndsamlega athæfi, drifum okkur í land, beint í heitt fótabað sem er austan við harðfiskhjallinn og þerrðum okkur. Um það leyti bar þá Ágúst og Benedikt að. "Þú munt aldrei geta þér rétt til um hvað við vorum að gera!" sögðum við. Ágústi datt ekkert nema einhver dónaskapur í hug. Þegar við sögðum hið rétta hrópaði hann: "Fóruð þið í sjóinn!" Við fundum að við hefðum ekki getað gert honum meiri skráveifu. Birgir kvaðst hafa fundið að aðalhvatinn að baki ósk ritara um sjóbað hafi verið vonin um að geta spælt Ágúst. Það var á þessu augnabliki sem ritara var ljóst að í honum blundaði fól. Sú staðreynd var síðar staðfest í potti af Flosa, bróður ritara, er hann sagði: Þið eruð skepnur! Að hafa sjóbað af Ágústi er slæmt, en að segja að sjóbaðið hafi verið yndislegt er mannvonska.

Þessir fjórir héldu síðan hópinn tilbaka, en tempó um golfvöll hafði víst verið nokkuð hratt og var af þeim kumpánum dregið. Sjóbaðið hafði hins vegar hresst okkur Birgi og var ákveðið á staðnum að búa til nýja kategoríu sjóbaða: mánudagsböð á Nesi þegar veður leyfir. Farið var fram á skráningu þegar á þessum degi. Ágúst fór strax að setja fyrirvara og boða nýjar reglur sem myndu gera sjóbað dagsins ólöglegt. Honum var þá tjáð að fleiri gætu fært bókhald um sjóböð en hann.

Þetta var góður hlaupadagur. Frábært veður, frábær skilyrði og yndissslegt sjóbað!

Í gvuðs friði.
ritari


Einmana og vinalaus aumingi

Einsemdin er fylgikona langhlauparans. Þetta eru alkunn vísindi í hópi vorum. Sjaldan er maður jafneinmana og þegar maður hleypur í fimmtán manna, blaðskellandi flokki eftir Ægisíðunni. En í dag, á þjóðhátíðardegi Íslendinga, birtist einsemdin með enn grafískara hætti en fyrr: einn hlaupari mætti til boðaðs hlaups að morgni 17. júní, það var ritari Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Tómlegt var í brottfararsal - engin læti eða hávaði þar, enda flykktust baðgestir til laugar. Þeim mun einfaldara reyndist að velja hlaupaleið - til þess að gera einsemdina ekki enn dramatískari var ákveðið að hlaupa á Nes, og litið svo til að þetta nágrannasveitarfélag yrði að mestu í svefni og ekki margir til þess að veita athygli einsömlum hlaupara sem þar skeiðaði. Sú ákvörðun reyndist rétt, því að fáar sálir voru á ferli, ein hlaupakona á grænum hlírabol sem heilsaði glaðlega, nokkrir golfarar á vellinum, foreldrar með börn í kerru eða hunda í bandi - mikið meira var það ekki. En hvílík blíða! Það bærðist vart hár á höfði í 16 stiga hita og er ekki oft sem þannig viðrar á Nesi. Lítið um kríu svo að maður gat hlaupið óáreittur um stígana.

Á Seltjarnarnesi hagar þannig til að komið hefur verið fyrir drykkjarfontum hér og þar, samtals þremur. Úr þeim streymir vatn svo að þorstlátir geta svalað þorsta sínum. Í Reykjavík eru slíkir fontar einnig þekktir, þeir eru hlutfallslega mun færri sé miðað við lengd göngustíga, og það sem verra er: það er skrúfað fyrir þá megnið af árinu þannig að þeir koma engum að gagni. Mikið væri óskandi að einhver glöggur borgarstarfsmaður fyndi upp á því að skrúfa frá vatninu svo að þeir gætu gegnt hlutverki sínu. Það mætti líka hafa bununa svolítið myndarlega þannig að maður næði einhverju magni af vatni upp í sig, en ekki bara lofti. Einhverjir hafa líka vakið athygli á því að það vanti almenningssalerni meðfram göngustígum borgarlandsins - þetta kann að vera rétt, og yrðu bílar borgarbúa þá e.t.v. eilítið þrifalegri ef bætt yrði úr þessu.

Mér varð hugsað til föstudagshlaups sem próf. Ágúst hefur lýst á mynd er birst hefur hér á blogginu. Þá voru mun fleiri mættir en í dag, Ágúst, Magnús, Kári, ritari, Gísli, Benedikt og þær stöllur úr Neshópi, Rúna og Brynja. Svona meðalmæting miðað við bestu daga. Föstudagsleiðin liggur um Ægisíðu, Skerjafjörð, flugvöll, Nauthólsvík, upp Hi-Lux-brekkuna í Öskjuhlíð, yfir Veðurstofuhálendið og í Hlíðar, yfir Klambratún, Hlemm, yfir á Sæbraut og svo tilbaka gegnum Miðbæinn og upp Ægisgötu, niður Hofsvallagötu og til laugar, samtals 11,3 km. Þessi leið var farin á hröðu tempói sem Benedikt ákvað. Ágúst var eitthvað slappur, og taldi sjálfur það sennilega eftir sjóbaðið sem Friðrik læknir hvatti hann til að taka á miðvikudaginn var. Benedikt átti gullkorn dagsins þegar Kári kvartaði yfir að ekkert gengi að grennast: Kári minn, mér sýnist þú hafa lagt eilítið af! Eftir hlaupið var svo Fyrsti Föstudagur - en aðeins tveir af helstu drengjunum mættu á Mimmann, títtnefndur Ágúst og ritari með eiginkonu.

En aftur að Neshlaupi dagsins. Á sunnudögum tíðkast að stanza hér og hvar, segja sögur af einkennilegu fólki (aldrei nafnlausar sögur!), varpa fram vísbendingaspurningum eða skoða leiði í kirkjugarðinum og ræða ættir þeirra sem þar liggja. Ekkert slíkt reyndist gerlegt í dag, og raunar alger óþarfi. Hlaupið var því óslitið og samfellt, aðeins stoppað til að súpa á vatni. Sama vinaleysið hrjáði í potti þegar komið var tilbaka, utan hvað dr. Baldur hafði þá sómataug í sér að mæta og eiga spjall við ritara. Ekki var lakari félagsskapurinn í knattspyrnuhetjunni Dóru Stefánsdóttur, sem slakaði á í potti með foreldrum sínum, eftir frækilega framgöngu í landsleiknum gegn Frökkum í gær.

Já, ég geri orð frænda míns og vinar, Ó. Þorsteinssonar Víkings, að mínum: ég er einmana og vinalaus aumingi! En eins og Einar blómasali segir gjarnan vongóður og fullur af góðum ásetningi: á morgun er nýr dagur og þá verður hlaupið. Vel mætt!
Ritari


Hlaupaleið föstudags 15. júní

Hér má sjá slóðina eftir Dr. Ágúst Kvaran sem hljóp með GPS tæki á úlnlið.  Er ekki tæknin undursamleg?

 fostudagshlaup16juni2007

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ath:  Smellið þrisvar á myndina - hún birtist í fullri stærð að lokum.

Kveðja, Kári 


Vesturbæjarlaug.

Vesturbæjarlaug er upphaf og endir alls. Þar hefjast hlaupin - og þar lýkur þeim. Þar er brottfararsalur og þar er líka heimahöfn. Vatn er undirstaða lífs á jörðinni, líka í Vesturbænum. Hlauparar eru elskir að vatni. Félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins þrífast best í vatni og á vatni. Þeir elska sturturnar sínar, vatnsmiklar og kraftmiklar. Nú er komin ný sturta í útiklefa og sápa að auki - þetta elskum vér. Hafi þeir þökk fyrir er sýna slíkt framtak!

En það er ekki tekið út með sældinni að vera hlaupari! Þegar einn verkur hverfur, birtist annar. Nú hefur frétzt að vera Hlaupasamtakanna í anddyri Vesturbæjarlaugar fyrir hlaup veki svo sterkar tilfinningar hjá aðvífandi og væntanlegum baðgestum að þeir hverfi frá og felli niður ásetning um bað. Þetta hryggir oss ef rétt er - og við erum hnuggin og slegin. Hvernig getur það verið að öðrum finnist við ekki vera bæði fyndin og gáfuð þegar okkur finnst það sjálfum? Það hefur verið orðað við okkur að við "færum" okkur - ekki veit ég sosum hvert við ættum að færa okkur. (Nú munaði minnstu að ég segði: einhvers staðar verða vondir að vera, en sem betur fer hætti ég við það á síðustu stundu.) Við munum ekki hafa neina sektarkennd yfir því að hittast nokkrum sinnum í viku að laugu og sýna af okkur kæti og glatt viðmót.

En að því sem máli skiptir: hlaupi. Það var hlaupið í gær, miðvikudag. Miðvikudagar eru dagar hinna löngu hlaupa. Þá er einnig farið í sjóinn í Nauthólsvíkinni. Í gær mættu einir fjórtán hlauparar til hlaups frá Vesturbæjarlaug. Þeirra á meðal voru Friðrik læknir og próf. Fróði. Prófessorinn byrjaði á því að láta alla vita að hann væri sárlasinn, væri með kverkaskít og hefði hóstað allan daginn. Svo hóstaði hann grunnum hósta til að leggja áherslu á orð sín. Friðrik, spurði hann: er nokkuð skynsamlegt fyrir svona veikan mann eins og mig að fara í sjóinn í dag? Fæ ég ekki bara lungnabólgu? Friðrik svaraði honum því til að það gerði mönnum bara gott að fara í sjóinn. Svarið olli prófessornum vonbrigðum, en hann var ekki af baki dottinn. Upphóf mikinn úrtölubarlóm um hvað það væri óskynsamlegt að fara í sjóinn í dag, það væri nóg af baðdögum eftir í mánuðinum. Dr. Jóhanna sagði fyrir hlaup: að maður skuli vera að standa í þessu, helst vildi ég fara heim núna og fá mér að borða. En um leið og fólk er komið af stað hættir svona neikvæðni og lífið fer að brosa við hlaupurum.

Það var hlýtt í veðri í gær og yndislegt að hlaupa. Komið við í Nauthólsvík og einir fimm fóru í sjóinn: Friðrik, Ágúst, Ólafur ritari, Kári og Gísli. Aðrir hlauparar stóðu á rampinum og horfðu aðdáunaraugum á sjósundsmenn. Svo hlýtt var í sjónum að við Ágúst heimtuðum vatnskælingu - sem Haukur brá skjótt við og veitti okkur fúslega. Rætt um að koma upp ísmolabaði eins og ku vera að finna á Skaganum. Áfram var hlaupið um Lúpínuvelli og inn í Fossvog. Þrír fóru Goldfinger og upp að Árbæjarlaug (25 km), sex fóru 69 (tæpir 18 km). Endað í barnapotti Vesturbæjarlaugar og skrafað þar um stund.


Minningarhlaup Guðmundar Gíslasonar.

Þriðjudaginn 19. júní fer fram minningarhlaup Guðmundar Gíslasonar.

Mæting/upphaf hlaups er við Hrafnhóla-gatnamótin kl. 17:30.

Bílum má leggja rétt ofan við Gljúfrastein, á Þingvallavegi (nr. 36) við gatnamótin inn að Hrafnhólum og Skeggjastöðum. Fyrst verður hlaupið að Skeggjastöðum, upp með Leirvogsá, framhjá Tröllafossi og yfir ána. Þá verður farið sunnan Stardalshnúks, að Stardal, út á þjóðveg aftur og að gatnamótum Skálafellsvegar. Þar verður stoppað um stund og því næst hlaupinn þjóðvegurinn til baka.

Heildarvegalengdin er á að giska 13 km: 8 km uppeftir og 5 km niðureftir.

Kveðja,

Ágúst Kvaran og Sigurður Ingvarsson

Sjá: http://www.hi.is/~agust/ymisl/myndir/gkg7904/gkg7904.htm


Laugardalur

Föstudagur 8. júní 2007.
Blogg er nútíminn. Hlaupasamtök Lýðveldisins eru nútímaleg samtök. Þau hafa tekið tæknina í sína þjónustu. Ekki einasta hefur verið opnaður bloggvefur Samtakanna - félagsmenn eru farnir að lesa þann enn sama vefinn - svo sem mæting dagsins til hlaupa sannar. Ritari fór að ráðum vors bróður blómasalans og mælti með hlaupum frá Laugardalslaug, vegna þess að Vesturbæjarlaug hefur ekki enn opnað dyr sínar fyrir hlaupaþyrstu fólki. Um sama leyti var þess farið á leit við prof. dr. Ágústus að hann fyndi hlaupaleið út úr Laugardalnum er hæfði upplýstu, menningarþyrstu fólki. Þessi mættu: Einar, Ágúst, Kári, Birgir, Eiríkur, ritari, Þorvaldur, Denni, Rúna, dr. Jóhanna, Anna Birna og Haukur. Uppistand varð í unnskiptingaklefa þegar Einar opnaði íþróttatösku sína. Hann lyfti upp íþróttafatnaði, lyktaði af honum, um stund virtist sem hann væri að falla í dá eða meðvitundarleysi, skjálfti fór um þennan mikla skrokk - en svo bráði af honum og hann sagði: Þetta er gott! Þetta dugar. Aðrir hlaupafélagar fundu mikinn fnyk fara um salinn og freudískar kenndir fengu flug, menn rifjuðu upp merkilegan miðvikudag sem var undanfari mikillar ÓMÓ-hreinsunar í gervöllum herbúðum Samtakannna. En Einar er erfiður, það var ekki hægt að komast neitt í hreinlætisátt með hann.

Greinilegt var að það fór ekki vel með Ágúst að mæta á svo ókunnan stað til hlaupa. Hann snerist í hringi, fann ekkert lengi vel, vantaði Garmin-tækið, var óöruggur með hitann, "hvað er heitt úti?" - "hvernig á ég að klæðast?" - skildi ekki hvernig lykillinn að skápnum virkaði, snéri lyklinum, dró hann út og horfði dolfallinn á hann - "hvað geri ég svo?" - manni fannst þarna komið gamalmenni sem var illa komið í tilverunni. Við Einar gerðum okkar besta til að hjálpa Ágústi að laga sig að aðstæðum. Svo kom Eiríkur og þá var tekið til við að ræða fjármögnun, búninga, merki, slagorð. Eiríkur er maður hinna einföldu, upprunalegu, sönnu gilda og lagði til að Hlaupasamtökin veldu sér lit sem engum öðrum dytti í hug að hlaupa í: GRÆNT! BúnaðarbankaGRÆNT! Sumir lyftu brúnum, brúnir sigu á öðrum: er það skynsamlegt? spurði einhver. Hvað mun Formaður vor til Lífstíðar segja, Ó. Þorsteinsson, sem aldrei klæðist grænu, enda kominn af Reynistaðarbræðrum (sem urðu úti á Kili og eignuðust aldrei afkomendur eftir því sem best er vitað)? Slíkar vangaveltur voru þeim ofarlega í huga er hlupu frá Laugardalslaug í dag. Spennan var hins vegar að komast að því hvert yrði farið.

Leiðtogi vor, prófessor Fróði, sagði aðeins þetta: við förum sem leið liggur inn og upp úr Dalnum, öfuga 69, með öðrum orðum, 96, upp í Elliðaárdal, svo langt sem menn vilja fara, helst upp að Sundlaug, en að Stíbblu ef ekki vill betur, svo þegar við höfum náð 6 km snúum við við og höldum til baka.

Það var inn-diss-lekt að hlaupa um Dalinn, finna vaxtarmagn sumars gögnum trjágróðurinn, ilmurinn yfirþyrmandi, félagsskapurinn kæfandi af kæti og vizku, krafti og gleði, þvílíkur félagsauður! hugsaði sá er hér ritar. Sögurnar beinlínis fossuðu af vörum viðstaddra, hugmyndirnar flóðu og eini söknuðurinn var að hafa ekki fleiri af okkar góðu félögum með okkur. Það var farið inn Miklubraut, yfir á brúnni, inn í Elliðaárdalinn, yfir ána og á hólmann og þar inn í gróðurinn. Þá tóku fremstu menn við sér og snéru við, óttuðust að hinir öftustu myndu týnast. Við héldum hópinn býsna vel, nema hvað Kári, Denni og Anna Birna gerðust alternatív og hurfu inn í trjágróðurinn.

Við fylgdum Hólmanum upp að stíflu, fórum þá upp á túngarðinn sem liggur niður að Rafstöð, fylgdum honum niður að á, yfir Elliðaárnar, og tilbaka í Laugardalinn. Þar kom upp ágústínsk stytting gegnum frumskóg sem Ágústi fannst mjög sniðug - öðrum minna sniðug. Einar og Birgir styttu, trúir vana sínum.

Er kom að laugu að nýju uppgötvuðu menn að þetta föstudagshlaup hefði tekizt gizka vel og hlaup af þessu tagi mætti vel endurtaka. Ágúst var allur upprifinn og fullur af hugmyndum um nýjar leiðir og afbrigði. Hvílíkur auður að eiga mann eins og Ágúst sem er vakinn og sofinn að finna fjölbreytilegri kúrsa að taka, erfiðari leiðir og meiri áreynslu.

Farið í grjótpott. Rætt um stund. Svo var farið í sjópottinn - hann hreinsar vel. Almenn ánægja er með bloggsíðu, fólk var ánægt og stolt með framtak framkvæmdastjórnar, fullt bjartsýni og vonar um það sem í vændum er.

 

Framundan eru góðir tímar.


Gullkorn 2.

Hugleiðsla fyrir skokkara
 Ímyndaðu þér að þú sért vindurinn.
Vindurinn fær orku sína frá sólinni.
Og ögrunina frá jörðinni.
Finndu mýktina og styrkinn sem er  í vindinum.
Mundu að vindurinn fer alltaf rólega af stað og hægir rólega á sér.
Vindurinn leikur mjúklega við hvert einasta sem á vegi hans verður,
leikur við vatnið í pollunum, strýkur fuglunum,
feykir til regndropunum, ýfir upp sjóinn
og sverfur niður fjöllin.
Ímyndaðu þér að þú sért vindurinn
þegar þú líður um.

Gullkorn 1.

Hlauparinn er alltaf einn. Hann á enga vini. Hann fer ekki í fýlu. Það er hlutskipti sannra langhlaupara að þjást, þ.m.t. af einmanaleika. Þetta bara er svona! (Höf. Flosi Kristjánsson)


Enn er lokað í Vesturbæjarlaug - hlaupið í Laugardalnum.

Föstudagar eru dagar útivistar, hlaupa og menningar. Vesturbæjarlaug er enn lokuð vegna viðhalds og munu því Hlaupasamtök Lýðveldisins leggja í hann frá Laugardalslaug kl. 16:30 í dag. Spennandi og "Fróðlegt" verður að sjá hvaða leið prófessorinn fer með okkur, en við erum jú með boðsbréf frá Terpentínu um listviðburð, svo að leiðir vorar hljóta að liggja þar um hlaðið. Svo er Fyrsti Föstudagur, sem gerir hlaup dagsins enn hátíðlegra. Vel mætt! (ritari).

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband