Í mér blundar fól

Fleyg ummæli voru ritara ofarlega í hug er hann sté af hafi líkt og gyðjan forðum, meira um það seinna. Þetta var dagur hinna óvæntu atburða, ekki færri en tveir klassískir hlauparar sem fyrir löngu eru umvafðir slæðu firrðar og þjóðsagna mættu til hlaups í dag: konrektor ungdómsakademíunnar við Hagatorg, nánar tiltekið Flosi, bróðir ritara, og Ólöf Þorsteinsdóttir, eitt sinn maraþonmeistari Íslands. Báðum var vel fagnað. Minni var fögnuðurinn sem mætti ágætum félaga vorum Þorvaldi er hann lagði bíl sínum, baðgestur nokkur gerði athugasemdir við hvernig hann lagði bílnum. Er Þorvaldur þverskallaðist við og neitaði að hrófla við bíl sínum hélt hinn áfram, elti hann inn í brottfararsal VBL með athugasemdum. Ekki linnti látum er komið var niður í klefa: hvenær tókst þú bílprófið? Lærðiru ekki að bakka? Hefðiru tekið prófið í dag hefðiru örugglega fallið! Og svona áfram og áfram. En félagi vor er rólyndismaður og tók þessar athugasemdir ekki nærri sér, íklæddist hlaupagalla sínum af æðruleysi og gekk upp þrepin til félaga sinna. Mætt til hlaupa voru áður nefnd Flosi, Ólöf, Þorvaldur, og Gísli, Magnús, Kári, Sjúl, ritari, Helmut, dr. Jóhanna, Ágúst, Benedikt og Birgir. Mikil glaðværð fylgdi nærveru okkar í brottfararsal og höfðu menn litlar áhyggjur af truflunum sem vera Hlaupasamtakanna gat valdið á þessum kyrrláta stað. Ég heyrði að Gísli ræddi við Sjúl um nýjasta réttinn, náði ekki alveg heitinu, heyrðist hann segja Ristru Flanir, ætli það sé ekki það sem Svíar kalla flarn. Varð honum mjög tíðrætt um þennan ofnbakaða rétt.

Hvílíkur dagur til hlaups! 14 stiga hiti utandyra og sólskin. Svo ólmir voru hlauparar að hefja hlaupið að Ágúst gleymdist, aðeins fáeinir sómakærir og tryggir félagar biðu eftir stórhlauparanum sem var ekki einu sinni kominn með tungl er hann kom út á stétt. Við lögðum í hann, en vorum alveg róleg. Mikill léttleiki var yfir hlaupurum í dag og varð einhverjum á orði eftir hlaup að það hefði verið hlegið alla leiðina. Sjúl nýkominn frá Amsterdam og sagði okkur fagrar sögur af heimsóknum á söfn og í kirkjur. Einhver hafði fréttir af fjarstöddum félögum, Vilhjálmi og Ó. Þorsteinssyni, brunahringingar gengu milli Garda-vatns og Króatíu, áhyggjur af því að verið væri að úthýsa Hlaupasamtökunum úr Vesturbæjarlaug. Samkvæmt síðustu fréttum tókst að lægja tilfinningaöldurnar sem gengu syðra.

Nýir hlauparar voru skynsamir og fóru rólega yfir og hægt. Fóru stutt. Aðrir voru hraðari og æstari. Á Ægisíðunni fór hópurinn að þéttast og ljóst hverjir færu á Nesið. Við mættum Neshópi sem er að skríða saman eftir nokkurra vikna Niederlag, þau mættu okkur af mikilli kurteisi og buðu góðan daginn. Við drógum inn bumburnar, sperrtum fram kassana og jukum hraðann. Nú var Ágúst kominn í takt við Benedikt og þéttingar tóku við. Þeir tveir félagarnir fóru fremstir og svo komu á eftir þeim dr. Jóhanna, Þorvaldur, Sjúl, ritari og Birgir.

Ágúst og Benedikt fóru fyrir golfvöllinn og nokkuð hratt, að eigin sögn. Næsti flokkur var fullur af úrtölufólki og reyndist auðvelt að fá hlaupara til að fara hjá Bakkatjörn og út að Gróttu. Heitt var í veðri er hér var komið, og voru hlauparar sveittir og heitir. Hér ráku hlauparar augun í baðströndina, svala ölduna, tveir hlauparar hikuðu, stöldruðu við, "eigum við?", "ættum við?" - Sjúl og dr. Jóhanna héldu áfram hlaupinu, en Birgir og ritari stóðust ekki freistinguna, skelltu sér niður á svartan fjörusandinn, tíndu af sér spjarirnar og hentu sér í svalan sæinn. Þar svömluðum við eins og selir og rákum upp frygðarstunur sem trúlega hafa heyrst um allt Nesið. Seinna fréttist að húsmæður hefðu opnað glugga sína og sperrt eyrun til þess að heyra hvaðan þessi hávaði kæmi. Skyndilega urðum við meðvitaðir um þetta syndsamlega athæfi, drifum okkur í land, beint í heitt fótabað sem er austan við harðfiskhjallinn og þerrðum okkur. Um það leyti bar þá Ágúst og Benedikt að. "Þú munt aldrei geta þér rétt til um hvað við vorum að gera!" sögðum við. Ágústi datt ekkert nema einhver dónaskapur í hug. Þegar við sögðum hið rétta hrópaði hann: "Fóruð þið í sjóinn!" Við fundum að við hefðum ekki getað gert honum meiri skráveifu. Birgir kvaðst hafa fundið að aðalhvatinn að baki ósk ritara um sjóbað hafi verið vonin um að geta spælt Ágúst. Það var á þessu augnabliki sem ritara var ljóst að í honum blundaði fól. Sú staðreynd var síðar staðfest í potti af Flosa, bróður ritara, er hann sagði: Þið eruð skepnur! Að hafa sjóbað af Ágústi er slæmt, en að segja að sjóbaðið hafi verið yndislegt er mannvonska.

Þessir fjórir héldu síðan hópinn tilbaka, en tempó um golfvöll hafði víst verið nokkuð hratt og var af þeim kumpánum dregið. Sjóbaðið hafði hins vegar hresst okkur Birgi og var ákveðið á staðnum að búa til nýja kategoríu sjóbaða: mánudagsböð á Nesi þegar veður leyfir. Farið var fram á skráningu þegar á þessum degi. Ágúst fór strax að setja fyrirvara og boða nýjar reglur sem myndu gera sjóbað dagsins ólöglegt. Honum var þá tjáð að fleiri gætu fært bókhald um sjóböð en hann.

Þetta var góður hlaupadagur. Frábært veður, frábær skilyrði og yndissslegt sjóbað!

Í gvuðs friði.
ritari


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband