Laugardalur

Föstudagur 8. júní 2007.
Blogg er nútíminn. Hlaupasamtök Lýðveldisins eru nútímaleg samtök. Þau hafa tekið tæknina í sína þjónustu. Ekki einasta hefur verið opnaður bloggvefur Samtakanna - félagsmenn eru farnir að lesa þann enn sama vefinn - svo sem mæting dagsins til hlaupa sannar. Ritari fór að ráðum vors bróður blómasalans og mælti með hlaupum frá Laugardalslaug, vegna þess að Vesturbæjarlaug hefur ekki enn opnað dyr sínar fyrir hlaupaþyrstu fólki. Um sama leyti var þess farið á leit við prof. dr. Ágústus að hann fyndi hlaupaleið út úr Laugardalnum er hæfði upplýstu, menningarþyrstu fólki. Þessi mættu: Einar, Ágúst, Kári, Birgir, Eiríkur, ritari, Þorvaldur, Denni, Rúna, dr. Jóhanna, Anna Birna og Haukur. Uppistand varð í unnskiptingaklefa þegar Einar opnaði íþróttatösku sína. Hann lyfti upp íþróttafatnaði, lyktaði af honum, um stund virtist sem hann væri að falla í dá eða meðvitundarleysi, skjálfti fór um þennan mikla skrokk - en svo bráði af honum og hann sagði: Þetta er gott! Þetta dugar. Aðrir hlaupafélagar fundu mikinn fnyk fara um salinn og freudískar kenndir fengu flug, menn rifjuðu upp merkilegan miðvikudag sem var undanfari mikillar ÓMÓ-hreinsunar í gervöllum herbúðum Samtakannna. En Einar er erfiður, það var ekki hægt að komast neitt í hreinlætisátt með hann.

Greinilegt var að það fór ekki vel með Ágúst að mæta á svo ókunnan stað til hlaupa. Hann snerist í hringi, fann ekkert lengi vel, vantaði Garmin-tækið, var óöruggur með hitann, "hvað er heitt úti?" - "hvernig á ég að klæðast?" - skildi ekki hvernig lykillinn að skápnum virkaði, snéri lyklinum, dró hann út og horfði dolfallinn á hann - "hvað geri ég svo?" - manni fannst þarna komið gamalmenni sem var illa komið í tilverunni. Við Einar gerðum okkar besta til að hjálpa Ágústi að laga sig að aðstæðum. Svo kom Eiríkur og þá var tekið til við að ræða fjármögnun, búninga, merki, slagorð. Eiríkur er maður hinna einföldu, upprunalegu, sönnu gilda og lagði til að Hlaupasamtökin veldu sér lit sem engum öðrum dytti í hug að hlaupa í: GRÆNT! BúnaðarbankaGRÆNT! Sumir lyftu brúnum, brúnir sigu á öðrum: er það skynsamlegt? spurði einhver. Hvað mun Formaður vor til Lífstíðar segja, Ó. Þorsteinsson, sem aldrei klæðist grænu, enda kominn af Reynistaðarbræðrum (sem urðu úti á Kili og eignuðust aldrei afkomendur eftir því sem best er vitað)? Slíkar vangaveltur voru þeim ofarlega í huga er hlupu frá Laugardalslaug í dag. Spennan var hins vegar að komast að því hvert yrði farið.

Leiðtogi vor, prófessor Fróði, sagði aðeins þetta: við förum sem leið liggur inn og upp úr Dalnum, öfuga 69, með öðrum orðum, 96, upp í Elliðaárdal, svo langt sem menn vilja fara, helst upp að Sundlaug, en að Stíbblu ef ekki vill betur, svo þegar við höfum náð 6 km snúum við við og höldum til baka.

Það var inn-diss-lekt að hlaupa um Dalinn, finna vaxtarmagn sumars gögnum trjágróðurinn, ilmurinn yfirþyrmandi, félagsskapurinn kæfandi af kæti og vizku, krafti og gleði, þvílíkur félagsauður! hugsaði sá er hér ritar. Sögurnar beinlínis fossuðu af vörum viðstaddra, hugmyndirnar flóðu og eini söknuðurinn var að hafa ekki fleiri af okkar góðu félögum með okkur. Það var farið inn Miklubraut, yfir á brúnni, inn í Elliðaárdalinn, yfir ána og á hólmann og þar inn í gróðurinn. Þá tóku fremstu menn við sér og snéru við, óttuðust að hinir öftustu myndu týnast. Við héldum hópinn býsna vel, nema hvað Kári, Denni og Anna Birna gerðust alternatív og hurfu inn í trjágróðurinn.

Við fylgdum Hólmanum upp að stíflu, fórum þá upp á túngarðinn sem liggur niður að Rafstöð, fylgdum honum niður að á, yfir Elliðaárnar, og tilbaka í Laugardalinn. Þar kom upp ágústínsk stytting gegnum frumskóg sem Ágústi fannst mjög sniðug - öðrum minna sniðug. Einar og Birgir styttu, trúir vana sínum.

Er kom að laugu að nýju uppgötvuðu menn að þetta föstudagshlaup hefði tekizt gizka vel og hlaup af þessu tagi mætti vel endurtaka. Ágúst var allur upprifinn og fullur af hugmyndum um nýjar leiðir og afbrigði. Hvílíkur auður að eiga mann eins og Ágúst sem er vakinn og sofinn að finna fjölbreytilegri kúrsa að taka, erfiðari leiðir og meiri áreynslu.

Farið í grjótpott. Rætt um stund. Svo var farið í sjópottinn - hann hreinsar vel. Almenn ánægja er með bloggsíðu, fólk var ánægt og stolt með framtak framkvæmdastjórnar, fullt bjartsýni og vonar um það sem í vændum er.

 

Framundan eru góðir tímar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband