3.7.2007 | 19:01
Keyptur Færeyingur
Einhverra hluta vegna varð mér hugsað til atriðis í myndinni "Gaukshreiðrið" þar sem Jack Nicholson býður vistmönnum geðsjúkrahússins í bátssiglingu og á veiðar á illa fengnum báti. Hvers vegna þessi hugrenningatengsl komu upp hjá mér get ég ekki útskýrt, svona koma nú upp undarlegar tengingar í kollinum á manni.
Hvað um það, ég sá fyrir mér myndarlega snekkju, altént hraðbát sem gæti tekið marga farþega, er glaðir munu sigla um sundin blá með vindinn þyrlandi upp hárinu. "Áttu bátinn einn?" spurði Magnús. "Nei, við eigum hann nokkrir saman," sagð blómasalinn. Þá fór glansinn ögn að fara af ævintýrinu. Og það var endanlega úti þegar hann bætti við: "Það er Færeyingur." Færeyingur er árabátur með færeysku lagi eftir því sem segir í orðabók Menningarsjóðs. Þá fer maður að skilja hvað vakir fyrir okkar manni: það á að virkja félaga Hlaupasamtakanna í að róa honum um sundin, þar sem hann situr í stafni og stjórnar og rennir fyrir ýsu á Faxaflóabugt. Nei, takk! Það skal aldrei verða!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2007 | 21:59
Sjór og sól á Nesi
Þrálátur orðrómur er uppi um að Magnús hafi í hyggju að planta lúpínufræjum í garð Jörundar. Jörundur er vakinn og sofinn yfir garði sínum og fær sér enga hvíld veitt af áhyggjum yfir þessum fyrirætlunum tannlæknisins. Hann er á vaktinni 24:7 - á útkíkkinu allan sólarhringinn, með kíkinn við augað. Magnús má sig hvergi hræra úr húsi - þá sprettur prentarinn hálfsjötugi úr fleti sínu og sperrir upp augu og eyru og fylgist með hverri hreyfingu tannlæknisins. Hvar endar þetta? Birgir er beðinn að fylgjast með framvindunni.
Í hlaupi dagsins bar það nýtt við að Einar blómasali var endurheimtur úr löngu fríi og var vel fagnað af félögum sínum sem höfðu saknað hans mikið undanfarnar vikur; sömuleiðis var gerður góður rómur að nærveru prof. dr. Gunnlaugs Péturs Nielsens úr Harvard í Boston, legendarískum hlaupara Hlaupasamtaka Lýðveldisins og einhvers fræknasta hlaupara sem samtökin geta státað af. Aðrir þessir: Kári, Haukur, Gísli, Ólafur ritari, Sigurður Júlíusson, dr. Jóhanna, Guðmundur sterki, Vilhjálmur Bjarnason. Ekki skulu taldir þeir sem voru fjarverandi - en fjarvera þeirra var sláandi og mikið rætt um ástæður þess að einstakir meðlimir voru ekki mættir til hlaupa. Ekki verður meira fjallað um þetta að sinni, en þess er vænst að téðír aðilar sjái sóma sinn í að mæta í næsta hlaup. Meira um það seinna.
Menn glaðir og keikir - enda einstök mæting afburðafólks og veðurblíða með eindæmum. Í brottfararsal er nú boðið upp á þjónustukönnun um Vesturbæjarlaug og tóku allir viðstaddir þátt í könnuninni - allt miðaldra, jákvætt, háskólafólk. Niðurstaðan verður trúlega góð fyrir laugina. Það var hnýtt í blómasalann fyrir að hafa misst sig í mat og drykk í útlandinu og ekki hlaupið. "Það var ekki hægt að hlaupa í þessum hita!" reyndi blómasalinn að verja sig, en menn tóku ekki mikið mark á þessu.
Við vorum nokkuð mörg í anddyrinu og dálítið hávaðasöm - því var brugðið á það ráð að fara út á stétt og undirbúa hlaup. Tvær mínútur voru í brottför og hlauparar ólmir að leggja í hann. Eins og ólmir fákar. Við vorum höfuðlaus her án foringja vors Ágústs stórhlaupara, sem mun hafa verið á ráðstefnu á Nesjavöllum að ræða um einn milljarðasta úr einum milljarðasta úr einni sekúndu - eitthvað sem vekur áhuga sérstakrar manntegundar. Loks tók Gísli af skarið og leiddi hópinn út á Hofsvallagötu - en um stund hafði maður áhyggjur af því hvernig þetta gæti byrjað. Sjúl spurði mig: hvað gerist næst? Hver á að vera í forystu? Formaðurinn....?
En allt tókst þetta mæta vel. Hlaup fór vel af stað. Nú voru engir yfirlýstir hraðafantar að eyðileggja hlaup þegar í upphafi, svo að þessir tóku að sér að vera í forystu: Sjúl, Ólafur ritari og Gulli Pétur. Á Suðurgötunni sagði sá síðastnefndi skilið við okkur hina og hvarf. Við héldum hratt tempó og týndum fljótlega þeim sem á eftir komu. Það er gagnlegt að hlaupa með lækni. Við höfðum t.d. þungar áhyggjur af honum Kára okkar sem virðist ekki njóta sama ávinnings af því að hlaupa og aðrir meðlimir Hlaupasamtakanna. Sjúl kom með mjög merkilega greiningu e-s staðar í Skerjafirði: maðurinn dregur í sig svo mikla andlega næringu á hlaupum að hann hleypur í andlegt spik í stað þess að léttast! Brilljant greining! Það eru ábyggilega til einhverjar többlur við þessu.
Það var skeiðað greitt á Ægisíðu, Neshópur kom seint og illa, maður kannaðist við fáa, Guðrúnu Geirs og minn gamla skólafélaga, Sæmund Þorsteins. Þegar komið var út að Hofsvallagötu ákváðum vð Sjúl að niðurlægja hina hlauparana með því að hlaupa til móts við þá. En þannig tryggðum við að með á Nes fylgdu Magnús, Gísli, dr. Jóhanna, og sjálfsagt einhverjir fleiri. Stefnt á sjóbað. Farið rólega. Sagðar sögur sem ekki þola birtingu á bloggi. Við Gísli, dr. Jóhanna og ritari héldum hópinn, fórum um Bakkatjörn, en Sjúl og Gulli Pétur fóru fyrir golfvöllinn. Við Gísli skelltum okkur í sjóinn í Nestjörn og svo út á Flóann - þá gerðust hlutirnir, brjáluð hákarlavaða réðst að okkur í mynni Hvalfjarðar, en ritari snerist til varnar og beit tilbaka. Er enn með óbragð í munni - en það rjátlar sjálfsagt af með tímanum.
Mikið hefði verið indælt að hafa almennilega vatnsfonta á leiðinni - maður var orðinn þyrstur af löngu hlaupi, sjósundi og heitu veðri. Þeir Gunnlaugur og Sjúl hittu okkur er við vorum komnir á Norðurströnd og svo var skeiðað af stað í mark. Gunnlaugur og Gísli gáfu í og skildu okkur Sjúl eftir - kraftur í þeim gamla. En við héldum nokkuð góðu tempói það sem eftir lifði hlaups og komum nokkuð jafnsnemma til Laugar. Teygt í skamma stund - samvera í potti, þar sem Helmut hélt ádíens.
Helzta niðurstaða hlaups var að það vantaði áætlun til uppbyggingar hlaupurum hinnar miklu Hlaupasveitar Kommúnistanna fyrir Reykjavíkurmaraþon í ágúst n.k. Þeir sem koma til greina þar eru: Ágúst, SIngv, Benedikt, Sjúl, Birgir, Gísli, Jörundur, dr. Jóhanna, Eiríkur, ritari, blómasali, Haukur, og ef fjarstöddum félögum þóknast að láta sjá sig: Guðjón E. Ólafsson. Þeir sem ég hljóp með töldu að nú þyrfti yfirþjálfari (prof. dr. Fróði) að koma með áætlun, því að fólk er að fara í frí og þarf að þjálfa sig fjarri stöðugri yfirsýn og yfirlegu þjálfarans.
Á miðvikudag heldur prógrammið áfram: Goldfinger, Árbæjarlaug (25 km) - nú er tækifærið til þess að hrista slenið af ónefndum blómasölum sem þurfa að losna við nokkra Smarties pakka framan af belgnum af sér.
Í gvuðs friði - ritari.
1.7.2007 | 20:24
Hefðbundinn sunnudagur
Í gær var hlaupið Bláskógahlaup. Þar voru mættir tveir fulltrúar Hlaupasamtaka Lýðveldisins, þeir Jörundur og Haukur. Eitthvað voru þeir ósamstíga um upphafstíma hlaups, og sagði Haukur við ritara að Jörundur hefði sagt sér ósatt um hvenær hlaup hæfist. Þetta sagði Jörundur að væri skrök, Haukur gæti sjálfum sér um kennt. Hvað sem þessu líður óku þeir báðir í loftköstunum á eftir rútunni sem flutti hlauparana frá Laugarvatni að Gjábakkaafleggjaranum. Aðeins annar þeirra hljóp, Jörundur sigraði í flokki hlaupara 60+. Hefði Haukur hlaupið hefði hann sigrað í hópi hlaupara 50+ - þar var enginn skráður. Þá hefðu Hlaupasamtökin átt tvo sigurvegara í Bláskógaskokki - en svona ganga hlutirnir stundum fyrir sig.
Það var hlaupið frá Vesturbæjarlaug í dag kl. 10:10 eins og alla sunnudaga, mættir til hlaups voru Vilhjálmur Bjarnason og Ólafur ritari Samtakanna. Fjarvera annarra hlaupara breytti því ekki að tveir hnarreistir hlauparar lögðu af stað í fögru veðri og hlupu hefðbundið, með öllum lögákveðnum stoppum, umræðum um rekstrarmál og persónufræði. Pétur Reimarsson hljóp fram úr okkur og spurði hvort þetta væri Gönguklúbbur Lýðveldisins. Sumir munu aldrei skilja inntak sunnudagshlaupa í Vesturbænum. Í pott mætti jafnframt téður Jörundur og dr. Baldur. Viðræður allar spaklegar, og þó stilltar.
Ekki lét ég staðar numið við hefðbundið sunnudagshlaup - veðrið var einhvern veginn allt of gott til að gera ekki eitthvað meira. Tók því fram fótknúinn fararskjóta minn og hjólaði eftir hádegið úr Vesturbænum sem leið liggur inn í Fossvog og svo áfram inn í Elliðaárdalinn og upp að Árbæjarlaug. Þar var gert stutt stopp, keyptur orkudrykkur, og haldið áfram. Farið áfram hefðbundna 69 um Laugardalinn - frábær tveggja tíma ferð í fögru veðri. Enn er sláandi hversu fáar drykkjarstöðvar eru á göngustígum - stígarnir eru tugir kílómetra, en stöðvarnar aðeins þrjár eða fjórar. Úr þessu þarf að bæta.
Mánudagshlaup á morgun 17:30.
27.6.2007 | 17:01
ÆÆÆÆÆÆ!!!!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.6.2007 | 21:46
Óheppileg tímasetning eða hvað?
![]() |
Formúluökumaður sýnir listir sínar við Smáralind |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.6.2007 | 21:32
Enn meiri spæling
Hlauparar eru útivistarfólk. Þeir hata loftlausa líkamsræktarsali. Yndi þeirra er að hlaupa úti í náttúrunni, í hreina loftinu, njóta útsýnis, frelsis, njóta fagurrar náttúru, finna fjörið færast í kroppinn, finna kraftinn aukast með hverri hreyfingu, svitann spretta út á skrokknum. Hlauparar elska að hreyfa sig. Til samanburðar má segja að aðrir hópar "íþróttamanna" leggi minni áherslu á sjálfa hreyfinguna. Golfarar, svo að dæmi sé tekið, vilja hreyfa sig, en nenna því ekki. Hestamenn nenna ekki að hreyfa sig , svo að þeir láta aðra um að flytja sig milli staða. Veiðimenn - þeir eru verstir - þeir skjóta allt sem hreyfir sig. Þetta var helsti vísdómur sem var að hafa í hlaupi dagsins. Þátt tóku: Haukur, Vilhjálmur, Ólafur, Flosi, Gísli, Ágúst, Sjúl, Benedikt, Birgir, Jörundur, dr. Jóhanna og Guðmundur. Það er erfitt að átta sig á því hvort stígandi sé í hópnum, hvort okkur fari fram eða aftur. Þeir einu sem virtust sæmilega sprækir í dag voru Benni og Sjúl - aðrir voru einfaldlega slappir, hvernig sem á það er litið. Nú er brýnt að fara að fá æfingaáætlun fyrir maraþonið svo að maður fari að sjá framför milli hlaupa og hafi að einhverju að stefna.
Í brottfararsal voru menn mættir snemma, en voru hljóðir framan af. Allt þar til Gísli mætti, þá byrjaði skvaldrið og færðist í aukana eftir því sem fleiri bættust í hópinn. Alla vega þrír hlauparar voru útrústaðir Garmin-tæki og hófu að stilla og ná tungli. Jörundur hélt áfram að nudda salti í sár ritara fyrir slakan árangur í Miðnæturhlaupi, maðurinn væri brottrækur fyrir aumingjaskap, fiskisúpa væri yfirvarp, enginn sómakær hlaupari vildi kannast við svona "hlaupara" og annað eftir því. Gísli reyndi að vera jákvæðari og sagði að það væri alltaf afrek að ljúka hlaupi sama dag og það hæfist og svo hefði verið í þetta skipti, og NB, skammt lifði dags er hlaup hófst. Svo var byrjað að hæla þeim stöllum af Nesi sem báðar luku hlaupi á innan við 50 mín. Þá var þessum hlaupara alveg lokið, stóð upp og sagði: Á bara að sitja hér og kjafta - erum við ekki hér til að hlaupa?
Enn gerðist það að Ágúst var seinn fyrir og var ekki búinn að ná tungli þegar hlauparar voru lagðir af stað. Við Jörundur stöldruðum aðeins við, en fórum svo af stað vitandi að hann myndi ná okkur og segja: Fögur er fjallasýn! Bjart og hlýtt í veðri, en einhver vindur norðanstæður. Farið hefðbundið frá laugu, Hofsvallagötu, Hagamel, Espimel, yfir Birkimel norðan við Þjóðarbókhlöðu út á Suðurgötu og út í Skerjafjörð, út að olíustöð og snúið við í vestur út á Ægisíðu. Í minni porsjón af hlaupurum kom upp eftirfarandi umræða: Við þurfum að verða svolítið sýnilegri, er það ekki, krakkar? Jú, þetta er alveg rétt! Við þurfum að ráða fram úr þessum formannsvandræðum sem eru einhvern veginn enn að hrjá okkur, þetta virðist ekki komið almennilega á hreint hvað gildir. Hér setti einhver fram bráðsnjalla lausn á vandanum, hafa formannsembætti af ólíkum gráðum. Það mætti hafa formann til lífstíðar, formann til sýnis, formann athafna, formann ritunar og sagnlistar, formann fjölmiðlasamskipta og upplýsingatækni, formann mataraðfanga, eldunar og drykkju, og loks, formann bakvið tjöldin. Já, sagði einhver, heldurðu að þetta mælist vel fyrir? Nei, það er önnur saga, sagði umræddur aðili, sem ekki verður nafngreindur vegna þess hversu sprengifimt málefnið er.
Þeir Sjúl og Benedikt voru löngu horfnir og koma ekkert meira við þessa sögu. Maður þarf eiginlega að fara að taka af þeim mynd svo maður muni hvernig þeir líta út, þeir hlaupa ekkert með okkur hinum lengur, missa af öllum gáfulegum samræðum, allri persónufræði og skemmtilegheitum. Til hvers er svona fólk að hlaupa, spyr maður sig? Til að reyna á sig? Maður bara skilur ekki svona... Það var góður, þéttur hópur sem skeiðaði vestur Ægisíðu, og mætti afar tvístruðum Neshópi á austurleið, það vantaði alveg fótgönguliðana sem fylgja hinum fremstu eftir - líklega komnir í sumarfrí. Þar fóru þó þær stöllur af Nesi, skælbrosandi svo manni varð ekki um sel.
Nú var stefnan sett á næsta sveitarfélag. Ágúst rakst á Ingólf Margeirsson í Skjólunum og varð að taka við hann tal þar - það tafði hann talsvert. Við hinir fengum þá eitthvert forskot sem Gústi varð að vinna upp. Við Birgir og Jörundur héldum hópinn ásamt dr. Jóhönnu - en hún lét nægja að fara að Bakkatjörn, við fórum fyrir golfvöllinn. Krían heillum horfin, maður hleypur í friði allan hringinn. Óttast bara að fá golfkúlu í hausinn. Jörundur var í essinu sínu, hér var ekki lúpínan. Hann taldi upp allar jurtir sem urðu á leið okkar, melgresi, njóli, fífill, baldursbrá, og sagði: þetta eru allt orginalar íslenzkar jurtir! Hér er gott að vera. Maður fékk svona GunnarsáHlíðarendafíling út úr þessu, beið bara eftir því að hann hrasaði og segði: ég fer hvörgi.
Er við komum framhjá Gróttu var ljóst að ekki yrði farið í sjóinn þar - það var útfiri og óttaleg fýla af hafi. Haldið áfram - kvartað yfir slæmum vatnsgæðum úr drykkjarfonti, lítil buna og vatnið volgt. Er hér var komið hafði Ágúst náð okkur og var brattur. Hann var ánægður með að þurfa ekki að fara í sjóinn og taldi að þar með væri málið afgreitt. Fylgdi okkur eitthvað áfram, en gaf svo í og skildi okkur eftir, þurfti að taka þétting. Þá gerðust hlutirnir. Einhvers staðar milli Seilugranda og Rekagranda varð okkur litið niður í fjöruna og sáum baðströnd: hvítan sand, svala öldu - hún kallaði okkur til sín (fólið kom upp í ritara). Við (Biggi og ritari) niðureftir, yfir urð og grjót, niður á sandinn, úr fötunum og hentum okkur í ölduna. Jörundur hélt áfram og vildi ekki meira af okkur vita. Það var unaðslegt að synda í úrsvölum sjónum og fljóta með öldunum eins og í útlöndum. Uppi á hlaupastígnum sáum við Neshlaupara á heimleið, þeir horfðu mjög til sjávar, á selina sem þar flutu.
Við vorum svoldið stirðir eftir sundið, klæddumst að nýju og hlupum rétta leið til laugar, út á Grandaveg, yfir á Víðimel og svo Hofsvallagötuna til baka. Í potti hafði greinilega spurst að við hefðum farið í sjóinn, því við fengum komment eins og: svakalega eruð þið brúnir, strákar! Voruð þið að baða ykkur í skólpinu af Nesinu? Annað álíka smekklegt. En það var einkar ánægjulegt að nudda Ágústi upp úr þessu sjóbaði og skylmast við hann um skráningar, hann þvertók fyrir að þetta gæti verið löglegt sjóbað, það þyrfti að búa til sértöflu fyrir það, tilkynna bað með minnst viku fyrirvara, hafa áreiðanlega tilsjónarmenn sem votta og annað eftir því. Rætt áfram um stigann hans Birgis, reipið hans Jörundar, fuglahússkaup Birgis, baráttuna við starann, deiluna um hvort starinn hefði trítlað niður stigann (Magnús) eða kötturinn klifrað upp stigann til þess að gera út af við starann (Birgir). Jörundur sagði að kötturinn hans Birgis væri sá allatasti köttur sem hann hefði vitað til að existéraði. Þá sagði Ágúst söguna af hundi móður sinnar sem var svo latur að ef hann klifraði upp á stól, varð að hjálpa honum ofan af stólnum aftur. Annað eftir þessu.
Nú gerast hlaup treg. Hlaupari fjarvistum. Öfundar sína bræður og systur af hlaupi og sjóbaði á miðvikudag. Í gvuðs friði.
24.6.2007 | 13:51
Engir hálfvitar á ferð
Veður var afar hagstætt til hlaupa á þessum morgni, fremur hlýtt, bjartviðri og nánast logn. Ægisíðan var auð af mannfólki, mættum aðeins örfáum hræðum (hvað ætli hræða merki í raun og veru? er það neikvætt að vera hræða? sbr. fuglahræða?) Í persónufræðikafla dagsins var rætt um rangfeðranir, tölfræðilega útbreiðslu, nefnd dæmi og getum leitt að félagslegum afleiðingum þessa sérkennis íslensks samfélags um aldir. Menn voru almennt inni á því að ættfræði væri einhver hagnýtasta fræðigrein sem unnt væri að stunda á Íslandi - með henni mætti útskýra miklu fleira heldur en önnur vísindi réðu við. Önnur fræði bliknuðu við hlið ættfræðinnar. Þegar menn stæðu á gati frammi fyrir erfiðum spurningum mætti oft finna svörin með því að rýna í persónu- og ættfræðina að baki spurningunni.
Í Nauthólsvík var varpað fram vísbendingaspurningu: spurt er um mann sem er framarlega í flokki iðnsveinahreyfingarinnar á Íslandi og með afar sérstætt millinafn. Vilhjálmur hugsaði sig um í fimm sekúndur og svaraði svo: Finnbjörn Aðalvíkingur Hermannsson. Hvílík snilld! Hvílík þekking á persónuflóru íslensks samfélags! Ég held það þurfi vart að endurtaka það sem áður hefur komið fram, að þeir sem hlaupa með Hlaupasamtökum Lýðveldisins hlaupa ekki með hálfvitum. Austur á Flönum varð ljóst að Jörundur hafði farið þar um, lúpínan lá á víð og dreif um hlaupastíginn. Vöngum var velt um ástæður þessa lúpínuhaturs Jörundar og komust menn að þeirri niðurstöðu að hann væri þjóðernissinni inn við beinið og vildi fá sitt gamla, gróðursnauða Ísland aftur, án þessa innflutta gróðurs sem ætti ekki heima hér.
Áfram um kirkjugarð, drykkjarstopp, ritari fann óvænt leiði löngu látins móðurbróður síns - undruðust menn það að hann skyldi ekki hafa vitað af því þarna. Skoðuð leiði þýskra hermanna sem féllu í Síðari heimsstyrjöldinni, og svo áfram. Veðurstofa, Hlíðar, Klambratún, á Rauðarárstíg var óvenju mikið af drykkjumönnum sem sátu á bekkjum, en voru spakir og fengum við engar glósur frá þeim um hlaupahraða eða atgervi. Hér dæsti Birgir og sagði eitthvað á þá leið að stundum væri gott að hlaupa án próf. Fróða - fara þetta bara í makindum. Farið út á Sæbraut og þá leið tilbaka.
Öl-hópurinn kominn úr 21 km hlaupi er við mættum á brottfararplan, Jörundur og Svanur. Jörundur spurði um gengi mitt í Miðnæturhlaupinu, já minnstu ekki á það ógrátandi sagði ég, sagði honum frá fiskisúpunni og því dæmi öllu. Og tímanum. Það var á honum að heyra að honum þætti þetta allt hið versta mál og mikil hneisa fyrir Hlaupasamtökin að hlaupari úr röðum þeirra næði ekki settu marki í hlaupi.
Í pott vantaði tilfinnanlega dr. Baldur til þess að lyfta umræðunni í menningarlegar hæðir. Sem fyrr rætt um sýslumannaævir og presta. Á morgun er nýr dagur, mánudagur. Þá er hlaupið á Nes. Spá góð. Gaman væri að fara fyrir golfvöllinn og staldra við norðurhornið hjá Gróttu, fara í sjóinn þar, synda, berjast við hákarla sem þar ku vera, jafnvel höfrunga, fótabað á eftir og svo ljúka hlaupi. Vel mætt!
24.6.2007 | 09:07
Miðnæturhlaup og Mývatn
Í Laugardalnum var skaplegra veður en fyrir norðan, smá andvari og 16 stiga hiti kl. 22. Töluverður hópur safnaðist saman fyrir framan Laugardalslaug til að hita upp - en þó heyrði ég menn segja að þátttaka hafi verið minni en undanfarin ár. Ástæðan er trúlega sú að fólk er farið að fara meira út úr bænum um helgar og auk þess var margt annað í boði þennan dag: kapphlaup á Esjuna, Jónsmessuferð á Esjuna um kvöldið, o.fl. o.fl. Ég fór rólega af stað í hlaupinu, enda ekki búinn að hita upp. Þar að auki hafði ég asnast til að fá mér fiskisúpu fyrr um kvöldið sem reyndist ekki vera fyllilega sammála mér um að 10 km hlaup væri góð hugmynd. Það gutlaði í mér fyrstu 6-7 km svo að ég komst aldrei á verulega hreyfingu. Auk þess var ég niðurdreginn yfir því að hitta ekki einn einasta úr hinum glæsilega hópi Hlaupasamtakanna - einsemdin enn á ný...
Þegar ég hleyp svona þenkjandi meðfram Suðurlandsbraut sprettur mannvera upp úr grasinu, mér datt fyrst í hug írskur skógarálfur, en sé svo að hún er í gulum hjólajakka og útrústuð sem slík. Er þar ekki kominn próf. dr. Ágúst og mundar myndavél svo hrópandi: Glææææsilegt hjá þér, smellir af áður en ég næ að draga inn bumbuna, sperra kassann og líta upp - ósköp hlýt ég að hafa verið eymdarlegur á myndinni. En ég braggaðist loks af að hitta félaga minn og herti upp hugann. Svona fylgdi hann mér eftir á öllu hlaupinu, spratt upp hér og hvar á leiðinni þegar minnst varði og smellti af, og hrópaði: Glææææsilegt! Mér fannst hlaupið í raun varla hafið þegar ég kom í mark, upplifði það meira sem létta upphitun - og tíminn er sosum ekki neitt til að skrifa heim um 57 mín. eitthvað! Svona á maður náttúrlega bara að skammast sín fyrir og láta engan mann heyra, ég sem stefndi að því að fara undir 50 mín. (sem ég hef aldrei náð að gera). En fiskisúpa er fiskisúpa - ég heyrði að aðrir sem fengu sér af sömu porsjón hefðu legið fárveikir á eftir - ég fór þó 10 km! Ágúst sagði mér að Rúnu og Brynju hefði gengið vel, jafnvel farið undir 50... Hann hughreysti mig með því að segja að ég hefði þó sloppið undan skátunum. Skátarnir eru fólk sem fylgir hlaupurum eftir og tínir þá upp sem guggna á hlaupi. Mun það hafa gerst einhvern tíma er Ágúst veiktist í hlaupi, fékk svima og varð allur skrítinn, hélt sér við staur, að skátar komu, hentu honum aftur í bíl og hlúðu að honum. Var hann hinn versti yfir að fá ekki að ljúka hlaupi. Hefur aldrei þolað skáta eftir það.
Geri ráð fyrir að Ágúst birti myndir úr hlaupinu innan tíðar.
Það er hefðbundinn sunnudagur í dag - mæting 10:10.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2007 | 14:26
Myndir frá Minningarhlaupi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2007 | 23:16
Austur á Flönum
Það var fjórði dagur í röð fyrir okkur Gísla að hlaupa svo ekki voru fyrirheit um löng hlaup. Fleiri voru sama sinnis, Benedikt á leið í Mývatnsmaraþon og því ekki stemmdur fyrir Goldfinger. Hlaupasamtökin eiga aðeins tvo hlaupara fyrir norðan um næstu helgi, hann og Guðjón Eirík. Þeim fylgja beztu kveðjur um gott gengi nyrðra. Aðrir mættir þessir: Gísli, ritari, Flosi, Kári, dr. Jóhanna, Þorvaldur, Magnús, Sjúl, Benedikt, Ágúst og Birgir. Við Gísli fórum dult með fyrirætlanir okkar um sjóbað og létum ekkert uppskátt um áform í þá veru. Töldum nær öruggt að prófessor Fróði myndi vilja fara langt og því sleppa sjóbaði - enda væri júníbað afstaðið. Það kom á daginn að prófessorinn var ekki æstur að fara í sjóinn, júníbaði væri lokið. "Já, já, Gústi minn, þið Benni hlaupið bara á undan og við komum í humáttina á eftir ykkur stórhlaupurunum" sagði Gísli og sendi mér leynilegt augntillit.
Þá að orðfræðinni. Lön merkir aflangt heysæti. Lanir í fleirtölu. Flön gæti því sem bezt merkt grösugur bali, eða þannig gekk umræðan í dag alla vega. Samstaða var um að kalla svæðið austur af Nauthólsvík Flanir, því að þar eru miklar breiður af lúpínu, helzta hatursefni Lúpínuhatarafélags Lýðveldisins. Ristru gæti verið eitthvað úr papísku, gelíska yfir eitthvert náttúrufyrirbæri sem stóð írsku múkunum nærri hjarta. En sem kunnugt er voru þeir upphafsmenn hlaupa á Íslandi og forverar Samtakanna allt þar til Ingólfur nam land. Hver getur gleymt hinum frábæru Papeyjarhlaupum sem írsku bækurnar segja frá?
Af einhverri undarlegri ástæðu var maður upplagðari fyrir hlaup í dag en í gær, léttari, kraftmeiri og fann sig vel í hlaupi. Fleiri af hlaupurum gærdagsins voru sama sinnis. Þeir doktorar og fræðimenn sem á eftir okkur hlupu voru dottnir ofan í einhverja undarlega umræðu um x-ása og y-ása sem ég skildi ekki - enda ekki stærðfræðideildarstúdent úr Reykjavíkur Lærða Skóla. Hér sagði Magnús söguna af því þegar hann var í gufubaðinu í Finnlandi og striplaðist með kollega sínum og vænti einskis óvænts. Ryðjast þá ekki inn finnskar valkyrjur og þeir berrassaðir! Okkar maður grípur um helgidóminn, en Finninn um andlitið. Þegar dömurnar voru farnar spyr sá finnski: af hverju greipstu um miðjuna á þér en ekki andlitið? Nú, svo að þær sæju ekki það allra heilagasta! Já, segir sá finnski. Hér í Finnlandi bera menn kennsl á fólk út frá andlitinu - ekki hreðjunum.
Þannig út í Nauthólsvík. Ágúst og Benedikt voru nokkuð á undan og stefndu upp á Flanir. Við hinir sveigðum niður að sjó - en viti menn! Kom ekki prófessorinn skeiðandi niðureftir sigri hrósandi: þetta vissi ég! Það átti að svíkja mann! Skipti nú engum togum að fimm menn sviptu sig klæðum á rampinum og lögðust til sunds í hlýjum sjónum, 11 gráður skv. mælingum Hafró í Reykjavíkurhöfn. Þessir voru Birgir, Gísli, Ágúst, Kári og ritari. Flosi gekk niður að sjávarborði og dýfði fremsta hluta skúa sinna í ölduna og lýsti yfir að hann myndi kannski baðast í ágúst. Það var notalegt að svala sér í sjónum, þótt hann væri fullheitur fyrir okkur, og líka óþarflega óhreinn. Þá er aldan hreinni á Nesi eins og við Birgir upplifðum s.l. mánudag. Fórum upp á flotbryggjuna (Ágúst, Kári, ritari) og hentum okkur ofan í grængolandi Atlanzhafið. Mikið var það yndislegt! Þegar hér var komið rifjaðist það upp fyrir Birgi að ástæðan fyrir því að hann var staddur fyrir utan Vesturbæjarlaug fyrir hálftíma síðan var sú að kona hans hafði sent hann í Melabúðina að kaupa í matinn. En það sló út í fyrir okkar manni þegar hann sá glaðbeitta gutta og gellur í Brottfararsal og slóst með í för. Er hér var komið var ekki undan því vikist að snúa við og ljúka erindi sínu í hverfisverzluninni. Með honum snöru við Flosi og Gísli. Sjúl og Benedikt höfðu farið á undan, og Magnús og Þorvaldur trúlega farið um Hlíðarfót ef maður þekkir þeirra venjur rétt.
Að baði loknu tók við ferð um hinar sælu veiðilendur Lúpínuhatara, Flanir, austur af Nauthóli. Hér gætu vinnufúsar hendur Lúpínuhatara áorkað miklu til þess að uppræta þennan fjanda umhverfisverndarfólks á Íslandi. Okkur var hins vegar umhugað um að ná þeim Sjúl og Benna, einkum virtist Ágúst telja einhverjar líkur að af því gæti orðið. Þrátt fyrir að maður hafi í upphafi ekki verið stemmdur fyrir langt hlaup - var líðanin slík að ástæðulaust var að stytta - stefnan tekin á 69, tæpa 18 km. Farið sem leið liggur niður í Fossvogsdalinn, framhjá Víkingsheimili, undir Breiðholtsbrúna, yfir Elliðaárnar, út á hólmann, og svo aftur yfir árnar og undir brautina hjá gamla Fáksheimilinu, út á Miklubraut. Er hér var komið vorum við dr. Jóhanna orðin ein, Ágúst lengdi upp að Árbæjarlaug, Kári var á eftir okkur og fór Stokkinn. Við lukum hins vegar fullri 69 með glans og fórum nokkuð hratt. Stoppuðum á Olís í Álfheimum og fengum vatn að drekka. Áfram um Laugardalinn sem var fullur af unglingum er taka munu þátt í Borgaleikunum næstu daga. Loks er farið að verða fært um Kalkofnsveg eftir miklar framkvæmdir undanfarna mánuði. Það var bara haldið áfram og ekkert slegið af - alla leið til laugar. Líðan góð á eftir, teygt.
Í potti biðu Gísli, Flosi og Kári - og þar hélt Sæmi rokk ádíens. Kári lýsti aðstæðum sínum þessa dagana, grasekkilsstandi sínu og matarsókn sonarins. Þar átti hann allan skilning og samúð ritara, sem upplifir það sama dag hvern. Synirnir eru sem hlekkjaðir við ísskápinn, og þarf helst að draga þá út úr honum hvenær sem heim er komið. "Hann er eins og Doberman-hundur sem þarf að draga út úr skápnum með valdi!" sagði einhver. Svo er alltaf viðkvæðið að ekkert sé til að borða: er ekki til skinka, ekki til ostur? Hvað eigum við að borða í kvöld? Það er hringt í mann í vinnunni: "Pabbi, ég er svangur. Hvað ætlarðu að gera í málinu?"
Ýmislegt er framundan, Mývatnsmaraþon, Miðnæturhlaup. Framundan er hvíld - en líklega munu einhverjir vilja spretta úr spori á föstudag. Hins vegar mælir ritari með mætingum í Miðnæturhlaup - það er engu líkt! Spáin er góð - það verður sólríkt kvöld og bjart. Vel mætt. Ritari.