Einmana og vinalaus aumingi

Einsemdin er fylgikona langhlauparans. Þetta eru alkunn vísindi í hópi vorum. Sjaldan er maður jafneinmana og þegar maður hleypur í fimmtán manna, blaðskellandi flokki eftir Ægisíðunni. En í dag, á þjóðhátíðardegi Íslendinga, birtist einsemdin með enn grafískara hætti en fyrr: einn hlaupari mætti til boðaðs hlaups að morgni 17. júní, það var ritari Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Tómlegt var í brottfararsal - engin læti eða hávaði þar, enda flykktust baðgestir til laugar. Þeim mun einfaldara reyndist að velja hlaupaleið - til þess að gera einsemdina ekki enn dramatískari var ákveðið að hlaupa á Nes, og litið svo til að þetta nágrannasveitarfélag yrði að mestu í svefni og ekki margir til þess að veita athygli einsömlum hlaupara sem þar skeiðaði. Sú ákvörðun reyndist rétt, því að fáar sálir voru á ferli, ein hlaupakona á grænum hlírabol sem heilsaði glaðlega, nokkrir golfarar á vellinum, foreldrar með börn í kerru eða hunda í bandi - mikið meira var það ekki. En hvílík blíða! Það bærðist vart hár á höfði í 16 stiga hita og er ekki oft sem þannig viðrar á Nesi. Lítið um kríu svo að maður gat hlaupið óáreittur um stígana.

Á Seltjarnarnesi hagar þannig til að komið hefur verið fyrir drykkjarfontum hér og þar, samtals þremur. Úr þeim streymir vatn svo að þorstlátir geta svalað þorsta sínum. Í Reykjavík eru slíkir fontar einnig þekktir, þeir eru hlutfallslega mun færri sé miðað við lengd göngustíga, og það sem verra er: það er skrúfað fyrir þá megnið af árinu þannig að þeir koma engum að gagni. Mikið væri óskandi að einhver glöggur borgarstarfsmaður fyndi upp á því að skrúfa frá vatninu svo að þeir gætu gegnt hlutverki sínu. Það mætti líka hafa bununa svolítið myndarlega þannig að maður næði einhverju magni af vatni upp í sig, en ekki bara lofti. Einhverjir hafa líka vakið athygli á því að það vanti almenningssalerni meðfram göngustígum borgarlandsins - þetta kann að vera rétt, og yrðu bílar borgarbúa þá e.t.v. eilítið þrifalegri ef bætt yrði úr þessu.

Mér varð hugsað til föstudagshlaups sem próf. Ágúst hefur lýst á mynd er birst hefur hér á blogginu. Þá voru mun fleiri mættir en í dag, Ágúst, Magnús, Kári, ritari, Gísli, Benedikt og þær stöllur úr Neshópi, Rúna og Brynja. Svona meðalmæting miðað við bestu daga. Föstudagsleiðin liggur um Ægisíðu, Skerjafjörð, flugvöll, Nauthólsvík, upp Hi-Lux-brekkuna í Öskjuhlíð, yfir Veðurstofuhálendið og í Hlíðar, yfir Klambratún, Hlemm, yfir á Sæbraut og svo tilbaka gegnum Miðbæinn og upp Ægisgötu, niður Hofsvallagötu og til laugar, samtals 11,3 km. Þessi leið var farin á hröðu tempói sem Benedikt ákvað. Ágúst var eitthvað slappur, og taldi sjálfur það sennilega eftir sjóbaðið sem Friðrik læknir hvatti hann til að taka á miðvikudaginn var. Benedikt átti gullkorn dagsins þegar Kári kvartaði yfir að ekkert gengi að grennast: Kári minn, mér sýnist þú hafa lagt eilítið af! Eftir hlaupið var svo Fyrsti Föstudagur - en aðeins tveir af helstu drengjunum mættu á Mimmann, títtnefndur Ágúst og ritari með eiginkonu.

En aftur að Neshlaupi dagsins. Á sunnudögum tíðkast að stanza hér og hvar, segja sögur af einkennilegu fólki (aldrei nafnlausar sögur!), varpa fram vísbendingaspurningum eða skoða leiði í kirkjugarðinum og ræða ættir þeirra sem þar liggja. Ekkert slíkt reyndist gerlegt í dag, og raunar alger óþarfi. Hlaupið var því óslitið og samfellt, aðeins stoppað til að súpa á vatni. Sama vinaleysið hrjáði í potti þegar komið var tilbaka, utan hvað dr. Baldur hafði þá sómataug í sér að mæta og eiga spjall við ritara. Ekki var lakari félagsskapurinn í knattspyrnuhetjunni Dóru Stefánsdóttur, sem slakaði á í potti með foreldrum sínum, eftir frækilega framgöngu í landsleiknum gegn Frökkum í gær.

Já, ég geri orð frænda míns og vinar, Ó. Þorsteinssonar Víkings, að mínum: ég er einmana og vinalaus aumingi! En eins og Einar blómasali segir gjarnan vongóður og fullur af góðum ásetningi: á morgun er nýr dagur og þá verður hlaupið. Vel mætt!
Ritari


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband