Í minningu hlaupara

Í kvöld var hlaupið í minningu Guðmundar Gíslasonar hlaupara, sem lést í vélhjólaslysi hinn 7. júní 2004. Félagar Gísla Ragnarssonar, föður Guðmundar, hittust við Hrafnhólaafleggjarann á Þingvallavegi kl. 17:30, og voru þar auk Gísla þessi: próf.dr. Ágúst Kvaran, próf.dr. Sigurður Ingvarsson og frú, Helmut og dr. Jóhanna, Ólafur ritari, Halldór "bro" Guðmundsson og frú, Gísli Ásgeirsson, og loks kom Guðjón nokkur Eiríkur Ólafsson, hrekkjusvínafræðingur. Þá slóst Sigurður Gunnsteinsson í hópinn við Skálafellsveg.

Opinber lýsing á hlaupaleið er þessi: "Fyrst er hlaupið að Skeggjastöðum, upp með Leirvogsá, framhjá Tröllafossi og yfir ána. Þá er farið sunnan Stardalshnúks, að Stardal, út á þjóðveg aftur og að gatnamótum Skálafellsvegar. Þar er stoppað um um stund og því næst hlaupinn þjóðvegurinn til baka." Þetta hljómar stutt og snaggaralegt, en leiðin er hreint ótrúleg. Ekki spillti fyrir að veður var eins og best var á kosið í dag, 15-16 stiga hiti, sólskin og hægur vindur. Fyrsta leiðin er á fótinn og ekki á óskalista sumra hlaupara að byrja hlaup þannig, en það hafðist. Leiðin upp með Leirvogsá var ævintýraleg, þarna er mikil náttúrufegurð sem er falin fyrir þeim sem fara um þjóðveginn. Einkum er hrikalegt að koma að Tröllafossi og þverhníptum hamrinum þar. Við stöldruðum við þar, fórum út á höfðann, en ég segi fyrir sjálfan mig að ég treysti ekki samferðafólki mínu nægilega vel til þess að fara mjög nálægt brúninni. Efra varð mönnum hugsað til Jörundar félaga okkar, þarna var alautt af lúpínu, og Lúpínuhatarafélag Íslands hefði farið erindisleysi inn á þetta svæði. Jörundur hefði þurft að vera nærstaddur til að upplifa óspillta íslenzka náttúru eins og hún gerist best.

Haldið áfram í átt að Stardalshnúk, Stardal, yfir Stardalsá, menn óðu hugsunarlaust yfir, dr. Jóhanna ætlaði að vera pen og reima af sér skóna, en skipti um skoðun þegar hún sá aðfarirnar og skellti sér út í. Þarna voru hestar í haga sem fylltust hlaupalöngun þegar þeir sáu til okkar, komu að girðingunni. Guðjón sagði söguna af Sigurbirni fræðslustjóra Vesturlands sem las yfir öxl konu sinnar í Morgunblaðinu að skólager væri til sölu. "Hvað er að gerast, skólager til sölu?" Konan sagði: "Sigurbjörn minn, ég held nú sé kominn tími fyrir þig til að hætta í skólamálunum!" Svo kom fjöldi bíla á móti okkur, voru greinilega á leið til hesta. Leið okkar lá upp á þjóðveg og var það erfiður kafli, mestmegnis upp í móti. Síðan var haldið áfram sem leið lá upp að Skálafellsafleggjara. Þar er minnisvarði um Guðmund, með húfu föðurins og viðurkenningarpeningi hans fyrir Reykjavíkurmaraþon 2004. Þar beið okkar kók og bananar, vel þegin næring eftir erfitt hlaup. Við svolgruðum í okkur kókið, en gáfum Gumma líka svoldið. Loks hringuðum við minnisvarðann og minntumst hlauparans Guðmundar Gíslasonar. Það var áhrifamikil stund og þó án allrar væmni.

Nú var eftir að koma sér niður að upphafsstað. Sú leið var aðeins styttri en leiðin uppeftir, en það var farið að blása á þjóðveginum, og við áttum brekku ettir eins og segir í kvæðinu. Bílar óku eftir veginum og sýndu flestir tillitssemi, en sumir slógu lítt af hraðanum og þá stóð manni ekki alveg á sama. Hér var af þessum hlaupara dregið enda þriðji dagur í röð sem er hlaupið. Þá kom í góðar þarfir að eiga gott mantra að kyrja, það var svona: Ristru Flanir, Ristru Flanir. Þetta hljómaði í kollinum á mér alla fimm kílómetrana tilbaka. En mikið déskoti var ég samt orðinn þreyttur á því undir lokin!

Þegar upp var staðið og mælar höfðu verið stoppaðir og vegalengdir teknar kom í ljós að við höfðum farið 14,3 km - aðeins meira en þessir "á að giska 13 km" sem tilkynnt var um í boðun hlaups. Dæmigerður Ágúst, að ljúga að grunlausu fólki að þetta yrði bara stutt, bæta svo við ágústínskum sveigjum og lengja í leiðinni um nokkra kílómetra. Hlaupurum var afhent í lokin ársskýrsla Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum 2006 í viðurkenningarskyni, fer hún hvað þennan hlaupara varðar beint á náttborðið við hlið doktorsritgerðar dr. Sigurðar Júlíussonar, Allergic Inflammation in the Nasal Mucosa, sem á sinn fasta sess í næturlesningu þegar andvaka sækir að.

Einstaklega vel heppnað og ánægjulegt hlaup sem ég hvet fleiri hlaupara til að taka þátt í, þótt ekki sé nema vegna náttúrufegurðarinnar efra. Á morgun er Goldfinger, 69, Stokkur með sjóbaði og hvaðeina sem fólk lystir til að gera - innan vissra marka, eins og ávallt.

Góðar stundir,
ritari 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband