Austur á Flönum

Það var fjórði dagur í röð fyrir okkur Gísla að hlaupa svo ekki voru fyrirheit um löng hlaup. Fleiri voru sama sinnis, Benedikt á leið í Mývatnsmaraþon og því ekki stemmdur fyrir Goldfinger. Hlaupasamtökin eiga aðeins tvo hlaupara fyrir norðan um næstu helgi, hann og Guðjón Eirík. Þeim fylgja beztu kveðjur um gott gengi nyrðra. Aðrir mættir þessir: Gísli, ritari, Flosi, Kári, dr. Jóhanna, Þorvaldur, Magnús, Sjúl, Benedikt, Ágúst og Birgir. Við Gísli fórum dult með fyrirætlanir okkar um sjóbað og létum ekkert uppskátt um áform í þá veru. Töldum nær öruggt að prófessor Fróði myndi vilja fara langt og því sleppa sjóbaði - enda væri júníbað afstaðið. Það kom á daginn að prófessorinn var ekki æstur að fara í sjóinn, júníbaði væri lokið. "Já, já, Gústi minn, þið Benni hlaupið bara á undan og við komum í humáttina á eftir ykkur stórhlaupurunum" sagði Gísli og sendi mér leynilegt augntillit.

Þá að orðfræðinni. Lön merkir aflangt heysæti. Lanir í fleirtölu. Flön gæti því sem bezt merkt grösugur bali, eða þannig gekk umræðan í dag alla vega. Samstaða var um að kalla svæðið austur af Nauthólsvík Flanir, því að þar eru miklar breiður af lúpínu, helzta hatursefni Lúpínuhatarafélags Lýðveldisins.  Ristru gæti verið eitthvað úr papísku, gelíska yfir eitthvert náttúrufyrirbæri sem stóð írsku múkunum nærri hjarta. En sem kunnugt er voru þeir upphafsmenn hlaupa á Íslandi og forverar Samtakanna allt þar til Ingólfur nam land. Hver getur gleymt hinum frábæru Papeyjarhlaupum sem írsku bækurnar segja frá?

Af einhverri undarlegri ástæðu var maður upplagðari fyrir hlaup í dag en í gær, léttari, kraftmeiri og fann sig vel í hlaupi. Fleiri af hlaupurum gærdagsins voru sama sinnis. Þeir doktorar og fræðimenn sem á eftir okkur hlupu voru dottnir ofan í einhverja undarlega umræðu um x-ása og y-ása sem ég skildi ekki - enda ekki stærðfræðideildarstúdent úr Reykjavíkur Lærða Skóla. Hér sagði Magnús söguna af því þegar hann var í gufubaðinu í Finnlandi og striplaðist með kollega sínum og vænti einskis óvænts. Ryðjast þá ekki inn finnskar valkyrjur og þeir berrassaðir! Okkar maður grípur um helgidóminn, en Finninn um andlitið. Þegar dömurnar voru farnar spyr sá finnski: af hverju greipstu um miðjuna á þér en ekki andlitið? Nú, svo að þær sæju ekki það allra heilagasta! Já, segir sá finnski. Hér í Finnlandi bera menn kennsl á fólk út frá andlitinu - ekki hreðjunum.

Þannig út í Nauthólsvík. Ágúst og Benedikt voru nokkuð á undan og stefndu upp á Flanir. Við hinir sveigðum niður að sjó - en viti menn! Kom ekki prófessorinn skeiðandi niðureftir sigri hrósandi: þetta vissi ég! Það átti að svíkja mann! Skipti nú engum togum að fimm menn sviptu sig klæðum á rampinum og lögðust til sunds í hlýjum sjónum, 11 gráður skv. mælingum Hafró í Reykjavíkurhöfn. Þessir voru Birgir, Gísli, Ágúst, Kári og ritari. Flosi gekk niður að sjávarborði og dýfði fremsta hluta skúa sinna í ölduna og lýsti yfir að hann myndi kannski baðast í ágúst. Það var notalegt að svala sér í sjónum, þótt hann væri fullheitur fyrir okkur, og líka óþarflega óhreinn. Þá er aldan hreinni á Nesi eins og við Birgir upplifðum s.l. mánudag. Fórum upp á flotbryggjuna (Ágúst, Kári, ritari) og hentum okkur ofan í grængolandi Atlanzhafið. Mikið var það yndislegt! Þegar hér var komið rifjaðist það upp fyrir Birgi að ástæðan fyrir því að hann var staddur fyrir utan Vesturbæjarlaug fyrir hálftíma síðan var sú að kona hans hafði sent hann í Melabúðina að kaupa í matinn. En það sló út í fyrir okkar manni þegar hann sá glaðbeitta gutta og gellur í Brottfararsal og slóst með í för. Er hér var komið var ekki undan því vikist að snúa við og ljúka erindi sínu í hverfisverzluninni. Með honum snöru við Flosi og Gísli. Sjúl og Benedikt höfðu farið á undan, og Magnús og Þorvaldur trúlega farið um Hlíðarfót ef maður þekkir þeirra venjur rétt.

Að baði loknu tók við ferð um hinar sælu veiðilendur Lúpínuhatara, Flanir, austur af Nauthóli. Hér gætu vinnufúsar hendur Lúpínuhatara áorkað miklu til þess að uppræta þennan fjanda umhverfisverndarfólks á Íslandi. Okkur var hins vegar umhugað um að ná þeim Sjúl og Benna, einkum virtist Ágúst telja einhverjar líkur að af því gæti orðið. Þrátt fyrir að maður hafi í upphafi ekki verið stemmdur fyrir langt hlaup - var líðanin slík að ástæðulaust var að stytta - stefnan tekin á 69, tæpa 18 km. Farið sem leið liggur niður í Fossvogsdalinn, framhjá Víkingsheimili, undir Breiðholtsbrúna, yfir Elliðaárnar, út á hólmann, og svo aftur yfir árnar og undir brautina hjá gamla Fáksheimilinu, út á Miklubraut. Er hér var komið vorum við dr. Jóhanna orðin ein, Ágúst lengdi upp að Árbæjarlaug, Kári var á eftir okkur og fór Stokkinn. Við lukum hins vegar fullri 69 með glans og fórum nokkuð hratt. Stoppuðum á Olís í Álfheimum og fengum vatn að drekka. Áfram um Laugardalinn sem var fullur af unglingum er taka munu þátt í Borgaleikunum næstu daga. Loks er farið að verða fært um Kalkofnsveg eftir miklar framkvæmdir undanfarna mánuði. Það var bara haldið áfram og ekkert slegið af - alla leið til laugar. Líðan góð á eftir, teygt.

Í potti biðu Gísli, Flosi og Kári - og þar hélt Sæmi rokk ádíens. Kári lýsti aðstæðum sínum þessa dagana, grasekkilsstandi sínu og matarsókn sonarins. Þar átti hann allan skilning og samúð ritara, sem upplifir það sama dag hvern. Synirnir eru sem hlekkjaðir við ísskápinn, og þarf helst að draga þá út úr honum hvenær sem heim er komið. "Hann er eins og Doberman-hundur sem þarf að draga út úr skápnum með valdi!" sagði einhver. Svo er alltaf viðkvæðið að ekkert sé til að borða: er ekki til skinka, ekki til ostur? Hvað eigum við að borða í kvöld? Það er hringt í mann í vinnunni: "Pabbi, ég er svangur. Hvað ætlarðu að gera í málinu?"

Ýmislegt er framundan, Mývatnsmaraþon, Miðnæturhlaup. Framundan er hvíld - en líklega munu einhverjir vilja spretta úr spori á föstudag. Hins vegar mælir ritari með mætingum í Miðnæturhlaup - það er engu líkt! Spáin er góð - það verður sólríkt kvöld og bjart. Vel mætt. Ritari. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband